31.05.1960
Efri deild: 88. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2956 í B-deild Alþingistíðinda. (1128)

162. mál, verðlagsmál

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Mér finnst, að það megi ekki láta þetta mál fara svo frá þessari umræðu að drepa ekki á það nokkrum orðum, því að þetta er að mínum dómi langskemmtilegasta frv., sem hefur komið frá ríkisstj. nú í vetur.

Það eru sjálfsagt eitthvað skiptar skoðanir um það, hvort gagn sé að verðlagseftirliti eða ekki. Sjálfstæðismenn vilja ekkert verðlagseftirlit, telja það þýðingarlaust og gagnslaust og jafnvel skaðlegt. Þó sagði hv. 6. þm. Norðurl. e. (MJ) hér áðan, að það væri þó því aðeins gagnslaust, að skilyrði væru til frjálsrar verðmyndunar, þá þurfi ekki verðlagseftirlit, þegar þessi skilyrði til frjálsrar verðmyndunar eru fyrir hendi. Hvað er þá um frelsisfrv. stjórnarinnar? Eru ekki komin skilyrði til frjálsrar verðmyndunar í landinu eftir allt frelsishjalið hjá ríkisstj.? Kannske þetta sé ekkert frelsi, sem stjórnin er að flytja? Hv. þm. nefndi meira að segja vöruskort. Vöruskortur er t.d. því til hindrunar, að frjáls verðmyndun geti átt sér stað. Er hv. þm. kannske að gefa í skyn, að nú geti orðið vöruskortur eftir allt frelsið?

Ég er þeirrar skoðunar, að verðlagseftirlit geti orðið að gagni. Ef þeir menn, sem framkvæma eftirlitið, vilja vera til gagns, getur það sannarlega orðið til gagns. Eins og frv. var úr garði gert upphaflega, átti þetta að vera fimm manna nefnd, þingkjörin nefnd, sem átti að hafa verðlagseftírlitið með höndum. Út af fyrir sig var ekkert óeðlilegt við það. Það var líka öruggt, að stjórnarliðið gat haft meiri hluta í þeirri nefnd, og er heldur ekkert sérstakt við það að athuga. En svo kemur skrýtlan sjálf í dagsljósið, þegar meiri hl. n. flytur þá brtt., að nefndin skuli ekki skipuð fimm mönnum, heldur sex, og sjötti maðurinn á að vera ráðuneytisstjórinn í viðskmrn., sá maðurinn í stjórnarráðinu, sem mest mun hafa á sig lagt utan ráðherra að koma fram þeim efnahagsráðstöfunum, sem ríkisstj. er nú að framkvæma, — maðurinn, sem mun vera í einu og öllu sammála ríkisstj. og jafnvel höfundur að mörgu því, sem lögfest hefur verið í vetur í efnahagsmálum, — maðurinn, sem trúir á frjálsa verzlun og telur enga þörf á verðlagseftirliti, m.ö.o. er í aðalatriðum nokkurn veginn á sömu línu og Sjálfstfl. Þetta á að verða sjötti maðurinn í nefndinni og sá, sem hefur tvö atkvæði, ef jöfn eru annars atkvæði. Þá er nú sæmilega séð fyrir viðhorfum Sjálfstfl. á þessari skrifstofu. Þá eru atkvæðin orðin sjö hjá sex mönnum. Ef þrír eru sammála, geta komið fjögur atkvæði á móti, og þau fjögur eru öll í anda Sjálfstfl. Þetta kalla ég vel að verið. En það skemmtilegasta af öllu er, að Alþfl. skuli sætta sig við þetta. Ég hélt fyrst, þegar ég sá nál. með brtt. á þskj. 552, að þarna hefði orðið ljóta skyssan á í prentsmiðjunni, þar sem stóð Jón Þorsteinsson. Ég hélt, að þetta hefði átt að vera Jón Árnason og það hefði verið farið Jóna-villt, því að það er hér um bil ómögulegt að koma því inn í höfuðið, að Alþýðuflokksmaður gerist ekki aðeins flm. að tillögunni, heldur frsm. Og hver er þá tilgangurinn með sjálfri till.? Hann er einfaldlega sá, að sjálfstæðismenn þurfi aldrei að treysta Alþýðuflokksatkvæði þarna í verðlagsnefndinni, það er ekkert annað.

Nú held ég, að þetta séu algerlega rangar getsakir, sem felast í till. af hálfu sjálfstæðismanna til Alþfl. Ég hef enga ástæðu til að halda, að Alþýðuflokksmaðurinn kynni að bregðast sjálfstæðismönnum þarna, — enga, — og þeir hafa sannarlega ekki unnið til þess nú á undanförnum missirum að verða fyrir slíkum aðdróttunum, þó að svona óbeinar séu í tillöguformi. En samt þykir sjálfstæðismönnum vissara að hafa vaðið fyrir neðan sig, og til þess að tryggja það enn þá betur, að Alþfl. sé ekki að abbast upp á þessa brtt., er Alþfl.-maður hafður fyrir framsögumann. — Þetta nálgast kvikmynd, þetta nálgast það mest, að maður horfi á kvikmynd hér á Alþingi og hana ekki óskemmtilega.

Það er því sýnilegt á þessari brtt., að verðlagseftirlitið verður lítils virði, — hefði kannske orðið það hvort sem var, en verður sannarlega lítils virði á eftir, þegar einn flokkur eða jafngildi hans ræður öllu, ef um ágreining kynni þarna að vera að ræða. En að Alþfl. skuli geta beygt sig svona lágt, það er merkilegt — og þó ekki merkilegt, eftir að einn af forustumönnum Sjálfstfl. á Alþingi er búinn að lýsa því yfir, að það sé betra fyrir Sjálfstfl. að hafa Alþfl. með sér í ríkisstj. og á Alþingi og mynda þannig meiri hluta en að Sjálfstfl. einn hefði þennan meiri hluta. Og þá fer maður að skilja það, að Alþfl. finnist sjálfum, að hann sé svo sem ekkert að beygja sig í þessu máli.