31.05.1960
Efri deild: 88. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2959 í B-deild Alþingistíðinda. (1130)

162. mál, verðlagsmál

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. gat nú ekki setið lengur, sem ekki var von, þegar honum var sýnt fram á frv., kvikmyndina, sem verið er að sýna í hv. Ed., — kvikmyndina af því, hvernig Alþfl. er látinn beygja sig í þessu máli, beygja sig þannig, að ef svo kynni að fara, að einhvern tíma yrðu 3 menn í verðlagsn. á sama máli gegn sjálfstæðismönnum, þá var 6. maðurinn auk tveggja sjálfstæðismanna til með tvöfalt atkv. til þess að kúska Alþfl.-fulltrúann, ef hann yrði ekki með á annað borð eða færi að vilja þeirra. Þeir flytja þetta sjálfir Alþfl.-mennirnir og hafa Alþfl.-mann fyrir framsögumann að þessari brtt., að gera sjálfan sig dauðan og óvirkan í þessari n. Nú var ég ekkert að finna að þessu að því leyti, að það væri ástæða til þess að halda, að Alþfl.-fulltrúinn yrði nokkuð skeleggari en sumir sjálfstæðismenn í verðlagseftirlitinu. En ég benti hæstv. ráðh. á álitíð, sem samstarfsflokkur hans hefur á Alþfl., að þeir vilja ekki einu sinni treysta honum þarna og hafa vaðið fyrir neðan sig að grípa til annarra, ef með þyrfti. Út af þessu var það, sem hæstv. ráðh. kom upp í stólinn. En lítið stoðar að fara að vitna í atkvgr. í innflutningsskrifstofunni. Fyrst og fremst hygg ég, að hæstv. ráðh. hafi haft einhverjum öðrum hnöppum að hneppa en vera þar alltaf við atkvgr., enda sagðist hann ekki hafa handbæra skýrslu yfir þær. Það er víst ekki von. Ég get vel skilið, að honum sárnar, hvernig þessi brtt. stjórnarinnar verkar á almenning, og þess vegna þurfi hann að koma upp, en allt tal hans um, að framsóknarmenn hafi viljað fá hækkanir á álagningu, koma út af fyrir sig ekkert við skipun nefndarinnar.