31.05.1960
Efri deild: 88. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2959 í B-deild Alþingistíðinda. (1131)

162. mál, verðlagsmál

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég mun aldrei hafa verið talinn í hópi velunnara verðlagseftirlits, svo að þess vegna finnst mér ástæða til þess, m.a. í tilefni af ýmsum þeim ræðum, sem hér hafa verið haldnar af hálfu hv. stjórnarandstæðinga, að gera með örfáum orðum grein fyrir því, hvers vegna ég er stuðningsmaður þessa frv.

Það er alveg rétt, og í því efni tek ég ekkert aftur, sem ég áður hef sagt um þessi mál, að á verðlagseftirlitinu eru margir og stórir ágallar. Og víst er um það, að verðlagseftirlit út af fyrir sig getur ekki verið nein einhlít ráðstöfun til þess að halda verðbólgu í skefjum. Sönnun þess er það, að þó að hér á Íslandi hafi sennilega verið strangara verðlagseftirlit og víðtækara frá styrjaldarlokum en í flestum Evrópulöndum, hefur verðbólga hvergi verið jafnör og hér. En þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir það, að verðlagseftirlit er tvímælalaust haftaráðstöfun og að því leyti í skyldleika við t.d. innflutningshöftin, þá er það svo með þessar haftaráðstafanir, að þó að æskilegt sé, að þær verði afnumdar sem fyrst, þá verður til þess að velja þann rétta tíma, en á undanförnum árum hafa mörg mistök orðið í því efni, að reynt hefur verið að afnema haftaráðstafanir, án þess að slíkt væri tímabært.

Það er nú yfirleitt þannig, að afnám hafta út af fyrir sig er vinsælt hjá öllum almenningi. Hins vegar eru þær ráðstafanir, sem oftast nær eru skilyrði fyrir því, að hægt sé að afnema höftin, miður vinsælar. Þess vegna hefur það oft viljað brenna við, af því að það er nú þannig með okkur þm., að við viljum gjarnan gera þá hluti, sem eru vinsælir, en forðast í lengstu lög það, sem er miður vinsælt, að ýmiss konar höft hafa verið afnumin, án þess að gerðar hafi verið þær ráðstafanir, sem oft eru miður vinsælar og skapa mundu eðlilegan grundvöll að slíku. Það má t.d. nefna sem dæmi um þetta, að í lok heimsstyrjaldarinnar síðari og fyrstu missirin eftir styrjöldina var leitazt við að gera innflutninginn að verulegu leyti frjálsan, og í fljótu bragði virtist það ekki óeðlileg ráðstöfun með tilliti til þeirra miklu gjaldeyrisinnstæðna, sem við áttum þá. En það, sem gerði það að verkum, að ég tel, að slík ráðstöfun hafi þá verið mistök, var það, að gengi íslenzku krónunnar var þá rangskráð. Það voru þá ekki stjórnmálalegir möguleikar fyrir hendi til þess að framkvæma þá leiðréttingu á gengisskráningunni, að grundvöllur væri fyrir því að afnema innflutningshöftin. Afleiðingin varð sú, að gjaldeyrisinnstæður okkar gengu til þurrðar á miklu skemmri tíma en annars hefði orðið og við vorum brátt sokknir aftur í haftafen, sem jafnvel var verra en nokkurn tíma áður hafði þekkzt. Ég dreg enga dul á það heldur, að það er persónuleg skoðun mín, að það hafi verið mistök á sínum tíma, árið 1951, að verðlagseftirlitið var afnumið of fljótt. Það er enginn vafi á því, að ýmsir einstaklingar, þó að það eigi engan veginn við um samtök verzlunarmanna eða verzlunarstéttina í heild, misnotuðu það álagningarfrelsi, sem þá var gefið, sem olli því, að verðhækkanir af völdum þeirra ráðstafana urðu meiri en ella hefði þurft að vera.

Ég er því þeirrar skoðunar, að þrátt fyrir það, að ég telji, að komist það jafnvægi á í efnahagsmálum, sem að er stefnt með till. og þeirri löggjöf, sem hæstv. núverandi ríkisstj. hefur beitt sér fyrir, þá ætti verðlagseftirlitið að verða óþarft, tel ég ekki tímabært að afnema það nú.

Það hefur verið réttilega á það bent af ýmsum þeim ræðumönnum, sem hér hafa talað úr hópi stjórnarsinna, að auðvitað er það algerlega úr lausu lofti gripið, að að því sé stefnt, þó að brtt. sú, sem meiri hl. fjhn. flytur og ég stend að um fjölgun manna, verði samþ., að þetta þýði það, að Sjálfstfl. fái meiri hl. í verðlagsnefnd. Jónas Haralz ráðuneytisstjóri hefur aldrei verið sjálfstæðismaður og er það ekki, og jafnvel þó að svo væri, efast enginn um það, sem hann þekkir, að í því trúnaðarstarfi, sem hér er um að ræða, mundi hann aðeins taka málefnalega afstöðu, óháð flokkshagsmunum. Í öðru lagi má á það benda, að mér finnst það nokkuð langt gengið í miður vönduðum málflutningi, ef því væri haldið fram, að hæstv. ríkisstj. og þeir flokkar, sem hana styddu, hefðu áhuga á því, að verðhækkanir af völdum hækkaðrar álagningar og með öðrum ráðstöfunum yrðu sem allra mestar. Hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar gera sér auðvitað fyllilega ljóst, að það er beinlínis skilyrði fyrir því, að efnahagsmálaráðstafanir geti náð tilgangi sínum, að verðhækkanirnar umfram það, sem beinlínis hlýtur að leiða af þeim, verði svo litlar sem mögulegt er. Af þeim ástæðum tel ég, að enda þótt ég geri mér fyllilega ljóst, að verðlagseftirlit nægir ekki, þegar til lengdar lætur, til þess að halda verðlagi í skefjum, getur það þó um skemmri tíma gert gagn, og ég tel, að miðað við núverandi aðstæður sé sjálfsagt að beita öllum þeim tækjum, sem fyrir hendi eru, til þess að ná slíkum árangri. Það má líka benda á þá að mínu áliti mikilvægu yfirlýsingu hæstv. ríkisstj., að ef til kauphækkana komi á næstunni, muni nú verða tekin upp ný afstaða í þeim málum, nefnilega sú, að atvinnurekendur verði að greiða þær kauphækkanir, sem þeir kunna að semja um, úr eigin vasa af ágóða sínum, en ekki verði, eins og alltaf hefur verið áður, leyft að demba þessum verðhækkunum viðstöðulaust yfir á almenning. Ég tel, að ef verðlagseftirlitið væri afnumið nú, yrðu það ábyggilega fáir, bæði í verkalýðsstétt eða meðal atvinnurekenda, sem mundu taka slíka yfirlýsingu alvarlega, og það eitt út af fyrir sig tel ég ærna ástæðu fyrir því, að það skref verði ekki tekið að svo stöddu að afnema verðlagseftirlitið.