02.06.1960
Neðri deild: 93. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2964 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

162. mál, verðlagsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. Ed. hefur samþ. tvær breyt. á þessu frv, eins og þessi d. afgreiddi það.

Hin fyrri er á 1. gr. Hv. Ed. samþ., að verðlagsnefndin skyldi skipuð sex mönnum, fimm mönnum kjörnum af Alþingi og ráðuneytisstjóranum í viðskmrn., og skyldi hann fara með úrslitaatkvæði, ef atkv. yrðu jöfn.

Ríkisstj. vill mæla með því við þessa hv. d., að greinin verði samþ. eins og hv. Ed. gekk frá henni. Það má til sanns vegar færa, að sannari mynd af þingviljanum komi fram í fimm manna n. en fjögurra manna n., enda eru langflestar n., sem Alþingi kýs til þess að fara með tiltekin verkefni, elnmitt fimm manna nefndir, og má því segja, að margt mæli með því, að það eigi einnig við hér. Hins vegar er nauðsynlegt, að í n. sé einnig sá embættismaður, sem mest fjallar um verðlagsmál í ráðuneytunum, þ.e. ráðuneytisstjórinn í viðskmrn., og vegna þess að með honum verða sex menn í n., þarf einhver einn að fara með úrslitaatkvæði, og er þá eðlilegt, að það sé í höndum hins hlutlausa embættismanns. Ríkisstj. vill þess vegna mæla með því við hv. d., að gr. verði samþ. óbreytt eins og hv. Ed. gekk frá henni.

Þá samþ. hv. Ed. einnig aðra breyt. á frv., sem kemur fram í 12. og 16. gr., en þar samþ. Ed. að fjölga dómendum í verðlagsdómi úr tveimur í þrjá og að kveða svo á, að meðdómendur í verðlagsdómi skuli skipaðir af dómsmrh. eftir till. tilgreindra aðila, þ.e. beinlínis í samræmi við það, sem þeir leggja til, en það jafngildir að sjálfsögðu því að færa dómsvaldið raunverulega til þeirra aðila, sem eiga að ráða skipun meðdómendanna.

Ríkisstj. sér ekki ástæðu til þess að fjölga í verðlagsdómi frá því, sem verið hefur, frá því að verðlagsdómi fyrst var komið á laggirnar. Það má mjög um það deila, hvort sú skipun hafi verið eðlileg og hvort reynslan af starfsemi verðlagsdóms sé þess eðlis, að ástæða sé til þess að halda þeirri skipun yfirleitt. Þó varð það niðurstaðan við undirbúning þessa frv. að raska þessum ákvæðum ekki, heldur láta þau haldast óbreytt eins og þau hafa verið undanfarin ár, þannig að meðferð verðlagsmála verði hin sama og hún hefur verið undanfarið. Hins vegar sér ríkisstj. ekki ástæðu til þess að fjölga dómendum í verðlagsdómi, eins og hv. Ed. samþykkti, og enn síður ástæðu til þess að binda hendur dómsmrh. um tilnefningu dómaranna.

Ég vildi því leyfa mér, herra forseti, að leggja fram brtt. við 12. og 16. gr., skriflega, svo hljóðandi:

„12. gr. orðist svo:

Í verðlagsdómi eiga sæti tveir menn: Hlutaðeigandi héraðsdómari, sem er formaður dómsins, og einn meðdómandi skipaður af dómsmrh. að fengnum till. þriggja manna, tilnefndra af stjórnum Alþýðusambands Íslands, Stéttarsambands bænda og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Í Reykjavík er sakadómari formaður verðlagsdómsins. Meðdómendur skulu skipaðir til þriggja ára. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt og aðalmenn.

16. gr. orðist svo:

Ef ágreiningur verður á milli dómara, sker atkvæði formanns úr. Formaður gefur út dómsgerðir verðlagsdóms í nafni dómsins og með innsigli hans undir, og skulu dómarnir birtir“.

Orðalag brtt, er nákvæmlega sama og ákvæði gildandi laga um þetta efni.

Ég vil leyfa mér að óska þess, að hæstv. forseti æski afbrigða fyrir þessari till., áður en umr. málsins lýkur.