30.05.1960
Neðri deild: 95. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2978 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

175. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Það má vissulega segja, að þetta frv. sé seint fram komið. En ein höfuðástæðan fyrir því, að það kom ekki allmiklu fyrr, var sú, að það, sem e.t.v. er mikilvægast af þessum þrem embættum, sem frv. fjallar um, embættið við læknadeildina, var umdeilt mál áður, og þótti sjálfsagt að bíða eftir umsögn hins nýja landlæknis um það, en hann tók ekki við embætti sínu fyrr en um eða upp úr áramótum. Hann gat ekki skilað þessu áliti þá þegar í stað, svo að þar er að finna eina höfuðástæðuna fyrir því, að málið kom ekki fram þegar í byrjun þings.

En um þau tvö embætti, sem hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ) gerði sérstaklega að umtalsefni, vil ég benda á, að málið er hvorugt að koma hér fyrir í fyrsta skipti. Alþ. er áður búið að fjalla allýtarlega um skipan yfirlæknisembættis á Kleppi og prófessorsembættis í geðheilsumálum. Það eru búnar að koma fram mismunandi skoðanir, það er búið að leita álits frá forustumönnum læknadeildar háskólans, frá tveimur landlæknum og frá að ég hygg ýmsum fleiri aðilum, þannig að þar er um að ræða langan aðdraganda með ýtarlegri umhugsun og athugun margra aðila um, hvernig koma megi fyrir þessu máli. Það breytir því, sem hér er að gerast, í engu, þó að á það sé bent, að það hljóti að koma að því, að yfirlæknar á geðveikraspítölum verði fleiri. Þjóðinni fjölgar, og enginn maður hefur mótmælt því, að við þyrftum á að halda betri sjúkrahúsakosti en við höfum haft. Það er ósköp litíð gagn í því að hafa myndarleg sjúkrahús, ef ekki eru á þeim læknar. Þar að auki er þróunin á þessu sviði í þá átt, að geðveikrasjúkdómum er veitt meiri athygli en áður og gert meira til þess að hjálpa þeim sjúklingum, þannig að engan þarf að undra, þó að einhver fjölgun yrði þar. En sú fjölgun er ekki í þessu frv. Þetta frv. gerir ekkert annað en að lögfesta þá skipun, sem verið hefur um langt árabil, að yfirlæknir á Kleppsspítalanum kenni jafnframt við háskólann.

Að vissu leyti má segja sömu sögu um kjarnorkumálin. Ég hefði satt að segja vænzt þess, að stjórnarandstaðan stæði hér upp og gagnrýndi ríkisstj. — og það mætti þá kannske gagnrýna aðrar fyrri ríkisstj. — fyrir að veita ekki kjarnorkumálunum miklu meiri athygli en hér hefur verið gert. Ég verð að segja, að mér finnst það vera algert lágmark til öryggis í þessum málum, sem eru þannig, að ein smásprengja gæti bundið endi á allt líf hér og annars staðar, að sett var upp þessi kjarnfræðanefnd eða hvað hún hét, tínt saman til hennar örlítið fé, 5000 kr. frá þessum, 5000 kr. frá hinum og svo einn 100 þús. kr. styrkur, og fenginn ungur maður til að starfa þar. Ef það dytti kjarnorkusprengja einhvers staðar nálægt okkur, ef það kæmi geislavirkt ryk hér inn yfir úr einhverjum áttum, ef það gerðist eitthvað á sviði kjarnorkunnar, sem gæti snert okkur annaðhvort til góðs eða ills, þá hygg ég, að menn mundu allt í einu vakna og segja: Hvernig stendur á því, að íslenzka ríkið hefur ekki fylgzt með þessu? Hvernig stendur á því, að þetta, sem er að gerbreyta lífi eða eyða lífi þjóðanna annars staðar í veröldinni, hefur farið fram hjá okkur? En hér er farið eins hóflega og rólega í sakirnar og verjandi er með því að byrja á því að setja upp þessa kjarnorkumálanefnd. Þar með var ríkið eða aðrir aðilar ekki bundnir til framtíðar. Af störfum og mönnum þar hefur fengizt nokkurra ára reynsla, og á þeirri reynslu er það byggt að festa þetta skipulag með því að færa það inn í háskólann, en hér er ekki um að ræða neina aukningu.

Það byggist því ekki á raunveruleikanum, þegar hv. þm. er að tala um, að höfuðatriði þessa frv. byggist á athugunarleysi eða gáleysi eða einhverju slíku. Hér er um að ræða mál, sem hafa haft töluverðan aðdraganda, og formbreytingar, sem hafa ekki nein veruleg útgjöld í för með sér. Er því engin ástæða til, að hv. þm. geti ekki á viku til 10 dögum áttað sig á þessu máli nógu vel til þess að greiða atkvæði með því eða á móti. Ef mönnum finnst tíminn ekki nægilegur, er þó alltaf sú nauðvörn þm. eftir að greiða atkv. á móti, ef hann getur ekki áttað sig á því, um hvað málið snýst.