31.05.1960
Efri deild: 89. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2984 í B-deild Alþingistíðinda. (1162)

175. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér var því miður ekki kunnugt um það, að fundur mundi verða settur hér í hv. d. öðru sinni í dag. Ef ég hefði vitað það, hefði ég að sjálfsögðu verið viðstaddur til þess að fylgja þessu frv. úr hlaði með fáeinum orðum. En ég skal í stað þess nú, þó að þegar hafi verið flutt ræða um málið, fara um það fáeinum orðum og svo bæta við það örfáum atriðum í tilefni af ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v.

Í þessu frv. er lagt til, að stofnuð verði þrjú embætti prófessora við háskólann. Í raun og veru er hér þó ekki í neinu þessara þriggja tilfella um stofnun nýrra embætta að ræða, heldur um skipulagsbreytingu.

Hið fyrsta og elzta málið lýtur að stofnun prófessorsembættis í geðveikrafræðum, og skal prófessorinn einnig vera yfirlæknir við ríkisspítalann á Kleppi. Við spítalann á Kleppi starfar að sjálfsögðu yfirlæknir, og hann er jafnframt kennari í geðveikifræðum við háskólann. Hann hefur meira að segja nýlega verið skipaður dósent í þeim fræðum samkv. breyt., sem nýlega hefur verið gerð á reglugerð um háskólann, um læknadeildina, og hv. síðasta ræðumanni hefur e.t.v. ekki verið kunnugt um. En þetta starf er svo mikilvægt, að allir sérfróðir menn, sem um það hafa fjallað, hafa verið á einu máli, að eðlilegt væri að gera þetta starf hliðstætt prófessorsembættum og yfirlæknisstörfum við landsspítalann, þar sem einmitt svo háttar, að saman fara kennslustörf og yfirlæknisstörf á sjúkradeildum.

Þetta mál er þegar orðið allgamalt. Þegar embætti dr. Helga Tómassonar losnaði við fráfall hans í ágúst 1958, var það að sjálfsögðu auglýst. En skömmu síðar kom þáv. landlæknir fram með þá hugmynd að breyta starfinu í prófessorsembætti. Með því móti taldi hann miklu líklegra, að hæfir umsækjendur til þessa mikilvæga starfs fengjust. Það mál var lengi á döfinni og var rætt ýtarlega í læknadeild og háskólaráði, og báðir þessir aðilar urðu sammála um að leggja til við menntmrn., að frv. um það efni yrði flutt á þinginu 1958–59. Læknafélag Reykjavíkur fjallaði einnig um það, þannig að segja mætti, að allir aðilar, sem eðlilegt væri að um málið fjölluðu, væru sammála um að óska eftir því, að háskólalögunum yrði breytt á þann veg, að yfirlæknisembætti á Kleppi yrði gert að prófessorsembætti. Um þetta voru sammála háskólaráð, læknadeild, landlæknir og bæði heilbrmrn. og menntmrn. Þess vegna var það frv. flutt. En samt sem áður kom upp um málið nokkur ágreiningur einmitt í þessari hv. d., þar sem í ljós kom, að geðveikralæknar reyndust ekki sammála læknadeildinni og yfirmönnum heilbrigðismálanna um, að þetta væri hin æskilegasta skipan málsins. Þeir óskuðu eftir annarri skipan, sem sagt þeirri, að dósentsembættið yrði haft við landsspítalann, en ekki við Klepp. Átti þetta nokkurn þátt í því, að meðferð málsins tafðist einmitt hér í hv. d. Nokkru síðar gerðust þeir atburðir, að þáv. stj. sagði af sér, ný stjórn var mynduð, minnihlutastjórn Emils Jónssonar, sem taldi ekki rétt að leiða þetta mál til lykta, eins og sakir stóðu. Tvennar kosningar fóru síðan í hönd á því sumri, og þegar ný stjórn síðan var mynduð í nóvembermánuði, óskaði núv. heilbrmrh. eftir því, að sá landlæknir, sem vitað var að mundi taka við embætti um s.l. áramót, fengi málið til meðferðar, og var því málið látið bíða embættistöku hans. Nokkru eftir að sá landlæknir tók við störfum, fór heilbrmrh., eins og allir vita, úr landi og var burtu í 2 mánuði, og þess vegna fékk málið ekki endanlega afgreiðslu í núv. ríkisstj., fyrr en eftir að hann kom heim frá dvöl sinni í Genf. Það er ástæðan til þess, að þetta frv., sem að stofni til er frv., sem flutt var á þingi 1958–59, hefur ekki verið borið fram fyrr en nú fyrir skömmu, að það var lagt fyrir hv. Nd.

Ég tel, að þær tafir, sem orðið hafa á meðferð málsins, sumpart hér í þinginu og sumpart hjá stjórnarvöldum, eigi sér allar eðlilegar skýringar. En þetta eru ástæður þess, að málið kom ekki fyrir þetta þing fyrr en raun ber vitni. Það er því misskilningur hjá hv. síðasta ræðumanni, að þetta frv. sé fyrsta frv., sem fram er borið til breyt. á háskólal. frá 1957. Fyrsta frv. var frv., sem lagt var fyrir þingið 1958–59, um stofnun prófessorsembættis og yfirlæknisembættis við Kleppsspítalann, og það frv. var flutt beinlínis að ósk háskólaráðs og læknadeildar, beinlínis að ósk þessara aðila og raunar fleiri, og þetta frv. er að stofni til það frv., eins og greinilega kemur fram í grg.

Frá háskólanum hafði menntmrn. einnig borizt ósk um stofnun annars prófessorsembættís, þess sem fjallað er um í frv., þ.e. embættis í efnafræði við læknadeildina. Það á sér þá skýringu, að Trausti Ólafsson prófessor, sem kennt hefur við læknadeildina í 28 ár, lét af störfum í fyrra vegna heilsubrests og aukakennari var ráðinn til þess að gegna störfum hans. Nú hefur prófessor Trausti sagt af sér embætti, og þarf því að ráða mann til frambúðar í hans stað. En þá kemur í ljós, að staða prófessors Trausta er ekki kennarastaða lögum samkvæmt, heldur hefur hann kennt sem aukakennari, en með prófessorsnafnbót og prófessorslaunum. Til þess því að hægt sé að ráða fullgildan prófessor í hans stað, þarf að breyta háskólalögunum, en sú breyt. er formsatriði eitt og hefur að sjálfsögðu engan kostnaðarauka í för með sér. Um þetta barst menntmrn. ósk fyrir um það bil 2–3 vikum frá rektor háskólans.

Hugmyndin að þriðja embættinu er ekki upprunnin í háskólanum, heldur í menntmrn. eða atvmrn., þeim hluta þess, sem ég fer með og fjallar um rannsóknamál. Um alllangt skeið hefur verið starfandi svonefnd kjarnfræðinefnd, sem hefur verið ríkisstj. til ráðuneytis í kjarnfræðamálum. Hún hefur haft á sínum vegum framkvæmdastjóra, sem hefur unnið mjög mikilvægt starf fyrir ríkisstj. og þjóðina sem ráðunautur í þeim málum, sem lúta að kjarnorku, þungavatnsvinnslu og fleiri slíkum efnum. Þessi stofnun, kjarnfræðinefndin, hefur undanfarin ár haft 100 þús. kr. fjárveitingu á fjárlögum. Nú hefur mér fundizt við það að fara með þessi mál undanfarin ár, að æskilegt væri að koma fastari skipan á ráðuneytisstörf ríkisstj. til handa í þessum efnum, það mundi vera heppilegra að treysta sess þess manns, sem jafnmikilvægum ráðuneytisstörfum gegndi. Þess vegna leitaði ég álits formanns kjarnfræðinefndarinnar, prófessors Þorbjörns Sigurgeirssonar, sem jafnframt er núverandi forseti verkfræðideildarinnar, á því, hvort ekki mundi vera heppilegt, að verkfræðideildin tæki að sér þessi ráðunautarstörf og framkvæmdastjóri hennar yrði prófessor við verkfræðideildina, að sjálfsögðu með öllum venjulegum skyldum og réttindum prófessora, þ.e. kennsluskyldu. Hann tók þessari hugmynd mjög vel og eftir að hafa rætt hana bæði í kjarnfræðinefnd og verkfræðideild háskólans, tjáði hann mér, að þessir aðilar væru á einu máli um, að þessi skipan mundi vera til mjög mikilla bóta.

Þegar þess vegna þetta frv., sem að tvennu leyti var flutt að ósk háskólans, að því er snerti tvö prófessorsembætti í læknadeild, þurfti að leggjast með miklum hraða fyrir þingið vegna þess, hve langt var liðið á störf þess, og ég hafði fengið upplýsingar um, að verkfræðideild háskólans og kjarnfræðinefndin væru á einu máli um, að æskilegt væri að koma á fót fjórða prófessorsembættinu við verkfræðideildina, bætti ég ákvæði um þetta inn í frv. og lagði það þannig fyrir hv. Nd.

Þannig er saga frv. og aðdragandi tillagnanna um stofnun þeirra þriggja embætta, sem það fjallar um.

Mér fannst mega skilja ummæli hv. 3. þm. Norðurl. v. þannig, að með því að bera þetta frv. fram, án þess að menntmrn. sendi það áður háskólaráði, hefði verið gengið á rétt háskólans og lagaákvæði um háskólann jafnvel sniðgengið. Þetta er byggt á misskilningi. Þess er fyrst að geta, að frv. er að 2/3 hlutum beinlínis flutt samkvæmt ósk háskólans og að síðasta þriðja hlutanum í fullu samráði við þá deild, sem það mál snerti fyrst og fremst. Auk þess tel ég það ekki vera rétta túlkun á því ákvæði háskólalaganna, sem hann vitnaði til og er um, að skylt sé að leita álits háskólans, áður en lögum um hann sé breytt. Ég tel það vera ranga túlkun að skýra það þannig, að ríkisstj. sé skylt að bera frv., sem hún þyrfti að flytja, undir háskólann, áður en hún flytur þau, heldur hitt, að Alþingi eigi að leita álits háskólaráðs um frv., áður en það afgreiðir breyt. á háskólalögum endanlega. Eðlilegasta túlkunin er sú, enda í samræmi við starfsvenjur þingsins, að önnur hvor þn., sem um mál fjallar, sendi það til þeirrar stofnunar, sem það snertir, og fái álit hennar á því. Það tel ég sjálfsagt og mundi raunar telja sjálfsagt, þó að engin ákvæði væru um þetta í sjálfum háskólalögunum. Alþingi á ekki að breyta lögum, sem snerta stofnun, án þess að leita álits hennar áður. Mér hefur að sjálfsögðu aldrei komið til hugar annað en að álits háskólaráðs yrði leitað, áður en Alþ. afgreiddi þetta frv., enda hefur það verið sent háskólaráði til meðferðar. Eins og hv. fyrri ræðumaður tók fram, mun háskólaráð fjalla um það í dag, og ég tel vera eðlilegt og sjálfsagt, að hv. menntmn. þessarar d. fjalli ekki um frv., fyrr en borizt hefur álit háskólaráðs, sem ég fastlega vona að verði jákvætt.

Þá sagði hv. þm., að hann efaðist nokkuð um, að það væri rétt stefna, sem kæmi fram í þessu frv., að sameina prófessorsembætti og yfirlæknisstörf við spítala, og að það væri rétt stefna, sem í því kemur fram að stofna prófessorsembætti í eðlisfræði við verkfræðideildina og ætla þeim prófessor fyrst og fremst að vera rannsóknaprófessor. Ég vil nota tækifærið til þess að taka það fram, að í þessu efni er ég á öðru máli. Ég tel þetta þvert á móti vera stórkostlegt framfaraspor og stórkostlegt hagsmunamál fyrir háskólann, að við hann séu stofnuð embætti, sem eru ekki eingöngu og jafnvel ekki fyrst og fremst kennsluembætti. Í gildandi lögum um háskólann var einmitt með vilja tekið fram í 1. gr., að háskólinn sé vísindaleg rannsóknarstofnun og kennslustofnun. Með vilja var lögð á það áherzla, að háskólinn væri jafnvel fyrst og fremst vísindaleg rannsóknarstofnun. Og það, sem hér er að gerast — ég vildi segja alveg sérstaklega í sambandi við stofnun prófessorsembættisins í eðlisfræði og einnig að því er snertir prófessorsembættið í geðveikilækningum, er það, að verið er að stuðla að því, að háskólinn geti gegnt því verkefni að vera rannsóknarstofnun. Mér er því í raun og veru alveg sérstök ánægja að því að geta stuðlað að því, að nú verði stofnuð tvö embætti, sem eru ekki fyrst og fremst kennaraembætti, heldur fyrst og fremst rannsóknarembætti, þó að báðir prófessorarnir muni að sjálfsögðu hafa kennsluskyldu og báðir muni kenna.

Þótt það sé alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að það vantar nokkur embætti við háskólann, sem fyrst og fremst þarf vegna þeirrar kennslu, sem honum er skylt að inna af hendi, þá tel ég samt sem áður vera til mikilla bóta, ef hægt væri á næstunni að stofna ekki eitt, ekki tvö, heldur mörg embætti, þar sem prófessorarnir hefðu ekki fyrst og fremst kennsluskyldu, heldur væru aðallega rannsóknarmenn. Það, sem einkum og alveg sérstaklega hefur háð háskólanum hér, er það, að hann hefur í of ríkum mæli verið hrein kennslustofnun, í miklu, miklu ríkari mæli en nokkur annar háskóli, sem ég þekki til í nálægu landi. Það er þetta fyrst og fremst, sem þarf að breytast, og ég tel það beinlínis vera stærsta hagsmunamál háskólans í dag, að þetta breytist og að honum komi menn, sem líta á sig og hafa hæfileika til að vera fyrst og fremst rannsóknarmenn. Þess vegna tel ég einkum og sér í lagi hið nýja prófessorsembætti í eðlisfræði vera mikið framfaraspor fyrir háskólann, mikið hagsmunamál fyrir hann, af því að það er eitt af mörgum sporum, sem stíga þarf til þess að efla hag hans og gera honum kleifara en ella að gegna því mikilvæga hlutverki, sem hann á að gegna í þjóðfélaginu.

Það var rétt, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði, að það kennsluprófessorsembætti, sem nú er áreiðanlega mest þörf á, er þriðja embættið í viðskiptafræðum. Mér þykir vænt um að fá þetta tækifæri til þess að taka fram eða láta koma fram, að það er þegar í undirbúningi, að slíkt embætti verði stofnað, og vona ég, að ekki líði langur tími, þangað til frv. um það verður lagt fyrir Alþ., þó að það muni ekki verða á þessu þingi. Þó skal ég ekki segja, hvaða áhrif það hefur, þegar álit háskólaráðs berst hv. menntmn. þessarar deildar. Það mun að sjálfsögðu verða athugað, þegar það liggur fyrir.

Að svo mæltu vil ég svo leyfa mér að óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn., en jafnframt beina því til n., að hún afgreiði málið ekki frá sér, fyrr en álit háskólaráðs hefur borizt henni, enda vona ég, að það verði annaðhvort í kvöld eða í fyrramálið.