31.05.1960
Efri deild: 89. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2991 í B-deild Alþingistíðinda. (1164)

175. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er fyrst og fremst eitt atriði, sem mér láðist að taka fram í ræðu minni áðan og gaf tilefni til þess, að hjá hv. þm. gætti aftur í seinni ræðu hans nokkurs misskilnings um eitt, að vísu ekki stórt atriði. Ég vil þó leiðrétta það. Hann sagði í báðum sínum ræðum, að læknadeild hefði ekki fjallað um prófessorsembættið í geðsjúkdómum síðan 1958. En þetta frv. er flutt í samráði við forseta læknadeildarinnar. Mér er ekki kunnugt um, hvort hann hefur haldið formlegan fund um málið í læknadeildinni, en svo miklar viðræður mun hann hafa átt við starfsbræður sína um það, að hann fullyrti við mig, að afstaða læknadeildarinnar frá 1958 til málsins væri alveg óbreytt, en þá mælti deildin með því, að frv. væri flutt elns og það var flutt og eins og það efnislega séð er núna, þannig að læknadeildin hefur einnig sagt álit sitt um málið og er málinu samþykk.

En fyrst ég á annað borð stóð upp, langar mig til þess að bæta við örfáum aths. í tilefni af því, sem hv. þm. sagði, að hann teldi varhugaverða þá stefnu, sem fram kæmi í frv. og hann vildi lýsa þannig, að með henni væri verið að færa á kontó háskólans, færa á fjárlög háskólans kostnað við óskyldar stofnanir, og skildist mér, að þar væri átt við yfirlæknisstörfin á Kleppsspítala annars vegar og svo rannsóknarstörf hins nýja væntanlega eðlisfræðiprófessors. En ég er hv. þm. alls ekki sammála um, að yfirlæknisstörf prófessors í geðsjúkdómum séu starfsemi, sem sé háskólanum óviðkomandi, og enn þá siður, að rannsóknarstörf væntanlegs nýs prófessors í eðlisfræði séu starfsemi, sem sé háskólanum óviðkomandi. Það getur enginn maður verið kennari í læknisfræði í sjúkdómum, sem á annað borð er fjallað um á sjúkrahúsum, nema því aðeins að vera um leið yfirlæknir á slíkri sjúkradeild. Um þetta eru allir læknar sammála, og þess vegna er það stefna hvarvetna í læknadeildum og læknaháskólum, að saman fari kennslustörf í grein og yfirlæknisstörf á sjúkradeild, þar sem eru sjúklingar haldnir þeim sjúkdómi, sem kennslugreinin fjallar um. Þess vegna eru svo náin tengsl á milli kennslustarfanna í þessum greinum læknisfræðinnar og yfirlæknisstarfanna, að þar verður bókstaflega ekki á milli skilið, enda hefur sú stefna orðið hér í æ ríkari mæli, eftir því sem fjárhagsaðstæður hafa leyft, að kennslustörf og yfirlæknisstörf hafa verið sameinuð, og þyrfti raunar að gera enn meira að því en gert hefur verið.

Það á auðvitað í alveg sama mæli við rannsóknarstörf í eðlisfræði, að þau geta mætavel farið saman við einhver kennslustörf og geta átt heima í háskóla, þó að engin kennslustörf fylgdu prófessorsembættinu, enda verður það æ algengara annars staðar, að háskólarnir starfræki hreinar rannsóknarstofnanir, og þeim mun fyrr sem háskóli okkar, þrátt fyrir smæð sína og vanmátt, getur eitthvað nálgazt það, sem tíðkast jafnvel hjá hinum litlu frændþjóðum okkar á Norðurlöndum, þeim mun betra.

Ég vil því enn á ný endurtaka og undirstrika þann skilning minn á þessu frv., að því er snertir hið nýja embætti í eðlisfræði og hið nýja prófessorsembætti í geðsjúkdómum, að ég tel þá stefnu, sem þar kemur fram, einmitt vera þá réttu og þá, sem mun verða háskólanum mest lyftistöng á næstu árum og honum hvað mest nauðsyn að sem bezt og dyggilegast sé studd.