02.06.1960
Efri deild: 91. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2995 í B-deild Alþingistíðinda. (1168)

175. mál, Háskóli Íslands

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Ég gat því miður ekki nema lítið eitt hlustað á 1. umr. þessa máls, en vildi aðeins minnast lítillega á það frv., sem hér liggur fyrir. Í því er gert ráð fyrir, að stofnuð verði þrjú prófessorsembætti við Háskóla Íslands, tvö í læknadeild og eitt við verkfræðideild, auk þess sem nú er komin fram till. um fjórða prófessorsembættið. Það er ekki ætlan mín að ræða þetta mál að öðru leyti en því, sem það snertir læknadeildina og þá sérstaklega stofnun prófessorsembættis í geðlæknisfræði.

Mér hefur virzt vera dálítið á reiki hjá Háskóla Íslands um stofnun prófessorsembætta yfirleitt. Það er eins og þar sé ekki um neina fastmótaða stefnu að ræða, heldur miklu frekar um handahóf eða ástæður, sem eru breytilegar frá ári til árs. Ég vil í því sambandi minna á, að fyrir um það bil 10 árum, í kringum árið 1950, var það einróma skoðun læknadeildar, háskólaráðs, landlæknis og heilbrmrn., að mest aðkallandi í læknadeild væri stofnun prófessorsembættis í röntgenfræði. Þetta munu allir læknar landsins hafa og talið mjög eðlilegt, svo stór og víðtæk og vaxandi sem sú fræðigrein er innan læknisfræðinnar. En snögglega á árinu 1951 verða hér veðrabrigði. Þá vill læknadeildin, háskólaráðið, landlæknirinn og heilbrmrn. ekkert um þetta tala meira, því að nú hafa allir þessir aðilar fengið aðra flugu og það er stofnun prófessorsembættis í lífeðlisfræði. Það embætti fékkst svo stofnað eftir nokkur ár. En þótt rætt hafi verið um þörfina á stofnun prófessorsembættis í röntgenfræðum, hefur ekki neinn þessara aðila fengizt til þess að mæla með því.

Nú er, eins og kunnugt er, yfirlæknisstaða á röntgendeild landsspítalans, en röntgenfræðin er mjög mikilsverð, eins og ég tók fram áðan, og vaxandi fag. Þar er mikil þörf prófessors, og það er meira að segja í því fagi þörf tveggja prófessora, því að þessi fræðigrein er orðin svo víðtæk, að full þörf er á að skipta henni í tvennt, eins og nú er víða gert erlendis. Annars vegar eru þar röntgenlækningar og hins vegar röntgenskoðun. Þetta þyrftum við að fá eins og aðrar þjóðir, ekki sízt vegna þess, hvað röntgenfræðin er mikilsverð sem lækningagrein við þá illkynja sjúkdóma, krabbameinið, sem nú er svo mikið af í heiminum.

Í fyrravetur var flutt frv. hér í Nd. þess efnis, að stofna skyldi nýtt prófessorsembætti í læknisfræði, prófessorsembætti í geðlæknisfræði, og það embætti tengt við stöðu yfirlæknis á Kleppi. Þetta frv, fékkst afgr, úr n. í hv. Nd., en dagaði þar uppi. Þessi hugmynd að stofna prófessorsembætti í geðlæknisfræði kom upp mjög snögglega. Hugmyndin kom ekki frá læknadeild háskólans né frá háskólaráði, en mun hafa fyrst komið fram frá fyrrverandi landlækni, Vilmundi Jónssyni, sem síðan fékk læknadeildina og háskólaráðið til að mæla með stofnun þessa embættis.

Ég hef hér fyrir framan mig meðmæli Læknadeildar háskólans, og er þar mælt með því, að stofnað verði prófessorsembætti í geðlæknisfræði og að það embætti verði tengt við yfirlæknisstöðuna á Kleppi. Háskóladeildin mælir með þessu og segir þar m.a.:

„Hún telur og háskólanum mikla nauðsyn á kennarastólí í geðsjúkdómum, að vísu telur deildin eðlilegt, að stofnað yrði á undan prófessorsembætti í kvensjúkdómum og fæðingarfræði.“

Á árinu 1958 virðist þannig fremsta ósk læknadeildar vera að fá stofnað prófessorsembætti í kvensjúkdómum og fæðingarfræði. Þetta munu margir læknar geta fallizt á. Nú er á þetta ekki minnzt, heldur er farið fram á stofnun tveggja embætta í læknadeildinni, prófessorsembættis í geðlæknisfræði og efnafræði. Þannig virðist vera dálítið breytilegt, hverjar óskirnar eru, og kann ýmislegt að valda. En verst þykir mér, ef oft er um það að ræða, að hér valdi tillit til persóna, að embætti við háskólann séu stofnuð vegna þess, að ákveðin persóna er í dálæti hjá einhverjum þeirra aðila, sem um þessi mál fjalla mest og mestu ráða. Þetta ber að vita, að svo miklu leyti sem þetta kemur fyrir, og mér er ekki grunlaust um, að ekki aðeins nú, heldur oft endranær hafi þetta sjónarmið verið ráðandi. Það er samúð eða andúð á vissum mönnum innan læknisfræðinnar, sem oft og of oft er ákvarðandi.

Háskólamenn hafa að vísu afsakað þetta að nokkru með því, að það sé einkar hentugt að stofna prófessorsembætti, þegar viðkomandi staða verður laus, er viðkomandi yfirlæknir eða kennari hættir störfum vegna aldurs eða dauða. En þetta er notað, þegar það hentar, en ekki annars, og ég vil rétt minna á í því sambandi, að síðasta prófessorsembættið, sem stofnað var við læknadeild háskólans, var einmitt stofnað handa manni, sem gegnt hafði viðkomandi kennslustarfi í 20 ár. Þar þurfti ekki að bíða eftir því, að starfið losnaði, þannig að unnt yrði að auglýsa það með nægum fyrirvara til undirbúnings undir starfið.

Þegar þetta mál kom fram hér á hinu háa Alþ. í fyrra, stofnun prófessorsembættis í geðlæknisfræði, hafði ég ekki neitt tækifæri til þess að láta álit mitt í ljós um það, þar sem það kom aldrei fyrir hv. Ed. En ég ritaði álitsgerð af eigin hvötum og sendi hana læknadeild háskólans og stjórn Læknafélags Íslands, en báðir þessir aðilar höfðu að mínum dómi glæpzt til þess að mæla með þessu. Nú er það ekki svo, að ég sé mótfallinn því, að stofnað sé prófessorsembætti í geðlæknisfræði, síður en svo, því að ef ég gerði það, væri ég að bregðast þeirri sérgrein, sem ég hef sjálfur helgað mína krafta. Það, sem ég hafði á móti og taldi varasamt, var að tengja þetta prófessorsembætti við yfirlæknisstöðuna á Kleppi. Mér er kunnugt um, að í maí s.l. vor komu allir læknar, sem sérfróðir eru hér á landi í geðsjúkdómum, til fundar og ræddu þetta mál. Ég var þá fjarverandi. Allir þessir læknar lögðust sem einn maður gegn því, að stofnað yrði prófessorsembætti í þessari grein á þann veg, að það yrði tengt við Kleppsspítalann, — allir sem einn. Það sýnir það, sem ég raunar vissi áður, að þegar landlæknir, læknadeild háskólans og háskólaráð mæla með þessu, dettur engum þessara aðila í hug að leita til sérfræðings um hans álit. Um þetta fjalla þá sem sagt menn, sem enga sérfræðiþekkingu hafa í faginu. Þetta taldi ég og tel stórvítavert.

Eftir að það frv., sem hér liggur fyrir, kom fram á hinu háa Alþ., var gerð á því breyting. Breyt. var gerð í hv. Nd. og er á þá lund, að inn í 2. gr. frv. er bætt orðunum: „Unz komið hefur verið á fót fleiri sjúkradeildum fyrir geðveika.“ En í því felst það, að prófessorinn í geðlæknisfræði skuli vera forstöðumaður geðveikrahællsins á Kleppi, unz komið hefur verið á fót fleiri sjúkradeildum fyrir geðveika. Hér hefur verið gerð breyting, sem skiptir að mínum dómi meginmáli og gerir það að verkum, að nú get ég fylgt þessu frv. Hitt verð ég að viðurkenna, að ég er ekki ánægður með breytinguna. Mér finnst hún óljós, og í raun og veru þarf aldrei að fullnægja því, sem í viðbótinni felst. Það er ekkert skilyrði um það, að fleiri sjúkradeildum verði nokkurn tíma komið upp á þessu landi. Það felst ekki í því, og með það er ég vissulega óánægður.

En mér er kunnugt um, enda kemur það fram í grg. fyrir frv., að núverandi landlæknir, dr. Sigurður Sigurðsson, hefur góðan skilning á þessu máli, hefur þann skilning, sem ég hafði bent á, skilning á nauðsyn þess, að ekki verði öllu lengur unað við eitt geðveikrahæli fyrir allt landið, eina geðveikradeild. Þetta kemur glögglega fram í grg., að þessi er skoðun landlæknis, og ég veit og treysti því, að hann muni beita sínum miklu og góðu áhrifum þeirri skoðun til framdráttar og fulltingis.

Það er eitt í þessu frv., sem ég er óánægður með og mig langar til að fá breytt. Þar er aðeins um að ræða orðalagsbreytingu. Nú þarf þetta frv. að öllum líkindum að fara til hv. Nd. aftur, hvort sem er, og þess vegna leyfi ég mér að bera fram brtt., sem ég annars mundi ekki hafa gert, til þess að verða ekki til að tefja málið. Það er talað um prófessorinn í geð- og taugasjúkdómafræði. Þetta er óheppilegt orð, og óheppilegt að tvennu leyti. Í fyrsta lagi er þetta rangnefni. Það er ekki um það að ræða að stofna prófessorsembætti í geð- og taugasjúkdómafræði, heldur í geðsjúkdómafræði. Geðsjúkdómar og taugasjúkdómar eru sitt hvort. Það eru aðgreindar sérgreinar. Við eigum sérfræðinga hér á landi í geðsjúkdómafræði og við eigum líka sérfræðinga í taugasjúkdómafræði. Þetta er aðgreint. Víða erlendis eru prófessorar í hvoru faginu fyrir sig, en ekki er ætlunin að stofna hér nú annað prófessorsembætti en í geðsjúkdómum.

Í öðru lagi er orðið geðsjúkdómafræði leiðinlegt orð og óheppilegt og ekki í samræmi við önnur heiti samsvarandi í læknisfræði. Við skulum taka fyrst og fremst heildarhugtakið, medicin. Það heitir ekki sjúkdómafræði, það heitir læknisfræði. Við skulum taka sérgreinar. Handlæknisfræði heitir ein, en ekki handlæknissjúkdómafræði eða eitthvað þvílíkt. Lyflæknisfræði er annað, það heitir ekki lyfsjúkdómafræði, heldur lyflæknisfræði. Orðið geðlæknisfræði er þjálla og það er réttara en geðsjúkdómafræði. Ég vil því leyfa mér að bera fram brtt. við frv. á þessa leið:

„Í stað orðanna „prófessor í tauga- og geðsjúkdómafræði“ í 2. gr. komi: prófessor í geðlæknisfræði.“

Vonast ég til, að hæstv. forseti leiti afbrigða.

Að lokum, til þess að gera ofur lítið betri grein fyrir skoðun minni á þessu máli, sem ég hef tæpt á að vísu, um það, hvers vegna ekki eigi að knýta prófessorsembættið í geðlæknisfræði við yfirlæknisstöðuna á Kleppi, þá langar mig til að lesa stuttan kafla úr þeirri grg. minni, sem ég gat um áðan, með leyfi hæstv. forseta:

„Geðlæknisfræðin er víðfeðm og mikilsverð fræðigrein, sem skipar að réttu lagi sess við hliðina á lyflæknisfræði og handlæknisfræði. Hér á landi er henni skorinn of þröngur stakkur, og er það sök stjórnarvalda og ráðgjafa þeirra. Á meðan öll spítalaþjónusta í þessari grein er einskorðuð við eina stofnun og einn sérfræðing, er engra verulegra framfara að vænta. Eðlilegur vöxtur hennar og viðgangur er heftur. Það mundi vera lítið spor í rétta átt, að á Kleppi störfuðu þrír sérfróðir læknar í stað eins, enda þess full þörf á jafnstórum spítala og hann er. Það mundi einnig reynast fræðigreininni lyftistöng að reisa annað geðveikrahæli alveg óháð Kleppi, t.d. á Norðurlandi. En mest um vert og brýnast, eins og sakir standa, er, að komið verði á fót geðveikradeild við einhvern stórspítalann í Reykjavík og þá helzt landsspítalann. Erlendis er geðveikradeild talin sjálfsagður hlutur við hvern almennan ríkisspítala. Hún gegnir ekki alveg sama hlutverki og geðveikrahæli, myndar annað stig og verður þannig til að auka á fjölbreytnina í geðlækningum. Sjúklingar dveljast þar ekki til langframa. Þar eru skilyrði til fræði- og vísindaiðkana höfð sérlega góð, og þar er kennslustóll sérgreinarinnar. Ekkert eitt mundi reynast geðlækningum hér á landi jafnmikils virði og stofnun slíkrar deildar. Svo vel vill til, að nú er verið að stækka landsspítalann til mikilla muna. Sú stækkun gerir það kleift að koma upp geðveikradeild þar í fyrirsjáanlegri framtíð, ef vilji er til þess. Þeir, sem telja sig bera hag íslenzkra geðveikimála fyrir brjósti, eiga nú að beita sér fyrir stofnun geðveikradeildar landsspítalans. Með því vinna þeir þeim málum gagn, sem meira er en nafnið eintómt. Hvort sem þessi deild verður til fyrr eðasíðar, þá er sú tilhögun eðlileg og sjálfsögð, að yfirlæknir hennar hafi á hendi kennsluna í geðlæknisfræði, og þegar stofnað verður prófessorsembætti í fræðigreininni, er sá yfirlæknir sjálfkjörinn í það. Þannig mundi á málið litið alls staðar erlendis, þar sem þessari grein er meiri sómi sýndur en hér, og er ótrúlegt, að læknum sé þetta ekki ljóst.

Nýlega er fram komið á Alþingi frv. til l. um breyt. á háskólalögunum, þar sem ráðgerð er stofnun prófessorsembættis í geð- og taugasjúkdómafræðum, og tekið fram, að hinn nýi prófessor skuli vera yfirlæknir spítalans á Kleppi. Þótt stofnun slíks embættis sé út af fyrir sig ekki óæskileg, þá er tenging þess við Klepp alveg fráleit. Með þeirri tengingu er ákvörðun tekin um, að fábreytninni skuli haldið við um nálæga framtið og að sami kyrkingurinn og verið hefur skuli áfram há fræðigreininni. Þetta frv. ber því vott um fádæma vanhugsun eða mikinn ókunnugleik á þörfum geðlæknisfræðinnar í þessu landi. Það á að halda áfram að einskorða allt í þessari grein við eina stofnun og einn sérfræðing, greininni til ómetanlegs tjóns. Í grg. með frv., sem fylgir, telur landlæknir upp þau margvíslegu störf, sem hlaðizt hafa á yfirlækninn á Kleppi af þeirri ástæðu einfaldlega, að ekki er í annað hús að venda. Þessi upptalning er í 7 liðum, og að henni lokinni segir landlæknir orðrétt:

„Til þess að rækja á viðunandi hátt hvert eitt þessara hlutverka, þyrfti valinn mann, hvað þá til að hafa þau á sínum höndum öll í senn.“

Ég vil undirstrika þessi orð landlæknis. Þau eru sönn, en ályktunin, sem dregin er af þeim sannindum, þykir mér hæpin í meira lagi. Hlutverkin eru a.m.k. 7 og í hvert þarf valinn mann. Lægi ekki nærri að láta sér detta í hug þá lausn að leggja þessi hlutverk á herðar fleiri manna en eins? Nei, sú hugsun virðist ekki vakna. Það eina, sem að kemst, er, að leita verði uppi þennan 7 valinna manna maka, og ráðið til þess er stofnun prófessorsembættisins. Það skal vera agnið, sem dugir til að lokka ofurmennið að Kleppi. Ekki er það líklegt, að ofurmenni fæðist á Íslandi oftar en á allmargra alda fresti, en ef til vill stendur nú svo á, að eitt þeirra sé á meðal vor. Um það er mér ekki kunnugt.

Svo er að sjá sem óhamingju íslenzkra geðveikramála verði flest að vopni. Mér til furðu les ég, að læknadeild háskólans hafi mælt með samþykkt frv. um prófessorsembætti á Kleppi. Þar heggur sá, er hlífa skyldi. Í meðmælabréfi deildarinnar segir, að deildarkennarar hafi rætt málið ýtarlega, en mér er spurn: Hafa þeir hugsað málið ýtarlega, eða hafa þeir kynnt sér álit sérfræðinga á því? Um það bera ummæli þeirra ekki vitni.

Í bréfi læknadeildarinnar getur enn fremur að líta þessa setningu: „Að vísu telur deildin eðlilegt, að stofnað yrði á undan prófessorsembætti í kvensjúkdóma- og fæðingarfræði.“ Sé þetta álit deildarkennaranna, og um það er raunar ekki að villast, hvers vegna mæla þeir þá ekki með stofnun þess embættis og þar með því, sem þeir telja eðlilegt? Sá rökstuðningur fær ekki staðizt, að þetta sé gert vegna þess, að yfirlæknisstaðan á Kleppi sé nú laus og því hentugt að stofna þar prófessorsembætti. Síðasta prófessorsembættið, sem stofnað var í læknadeild, var með þökkum þegið af deildinni, þótt viðkomandi staða væri ekki laus, en það var prófessorsembættið í lyfjafræði. Það fer ekki hjá því, að eitthvað er í þessum meðmælum, fljótfærni eða annað, sem illa sæmir læknadeild Háskóla Íslands.

Þetta er kafli úr þeirri álitsgerð, sem ég sendi nokkrum aðilum, er frv. um stofnun þessa embættis kom hér fram í fyrra. Nú hefur sem sagt verið gerð nokkur bragarbót, og þó að hún sé dálítið óljós og megi fara í kringum hana og teygja hana, þá treysti ég sérstaklega núv. landlækni til þess að standa heill í því máli og vinna að því, eftir að þetta frv. er orðið að lögum.