30.11.1959
Efri deild: 6. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Hermann Jónasson [frh.]:

Þessi orðsending frá forseta lengir hvorki né styttir mitt mál. Ég hef ekki ætlað mér að halda hér langa ræðu, en ég vildi gera grein fyrir því, — sem væri skráð í þingtíðindi, — hvers vegna ég álít þessar vinnuaðferðir, sem hér á að taka upp, hættulegar og ég vil segja óverjandi og hvers vegna ég tel mér skylt sem alþm. að rísa öndverður gegn svona vinnubrögðum. Ég bendi á það, að málið er ekki enn sem komið er komið á það stig, að hægt sé að kalla umræður hér málþóf. En ég álít, að hvort sem umr. verða lengri eða skemmri, þá séu þær aðeins sýnishorn af því, sem stjórnarandstaðan vill að komi hér fram, — að það er hægt fyrir stjórnarandstöðuna, hvenær sem er, hvort sem það verður gert nú eða ekki, þá er búið að sýna það af því, sem fram hefur komið, að það er hægt að beita þeim vinnuaðferðum við ríkisstjórnina, ef hún notar slíkar vinnuaðferðir, að ríkisstjórninni er það ekki fært. Og þetta er einmitt það, sem verið er að sýna svolítinn lit á, án þess að það verði ef til vill gert á því stigi, — það er undir vilja þm. komið, — sem hægt er að gera.

Ég sagði, að það væru alls staðar nokkur átök milli ríkisstjórna og þinga og þau víða meiri en hér og þess vegna væri þessi framkoma stjórnarandstöðunnar eðlileg. Þegar við athugum þetta nánar, kemur fram það furðulegasta í þessu öllu saman. Það er ekki gerð ein einasta tilraun af hálfu hæstv. ríkisstj. til þess að sýna fram á eða færa líkur að því, að þessi vinnuaðferð sé nauðsynleg fyrir framgang mála eða nauðsynleg vegna einhverra aðkallandi atvíka, sem knýi ríkisstj. til þess að taka upp þessar vinnuaðferðir. Það, sem hefur verið fært fram, er, að það sé sparnaður. Það er búið að sýna fram á, að það er ekki sparnaður. Það, sem búið er að færa fram enn fremur til viðbótar, er það, að þetta sé gert til þess, að þingið sé ekki aðgerðalaust. Það er búið að sýna fram á það með skýrum rökum, að þingið er ekki enn þá búið að inna af hendi þær skyldur, sem því ber að inna af hendi, þ.e.a.s. að taka fyrir til umræðu fjárhagsafkomu ríkissjóðs og brbl. Og það liggja fjöldamörg mál fyrir þinginu. Það þarf síður en svo að vera aðgerðalaust. Það á fyrir höndum núna næstu daga að sinna málum, sem eru beinlínis aðkallandi. Þessi röksemd fær því undir engum kringumstæðum staðizt. Hún er ekkert annað en blekking, það sér hver einasti maður.

Þá er það sagt, að stjórnin þurfi að fá vinnufrið. Hún fær kannske alls ekki fyrr vinnufrið, þó að hún taki upp á þessum vinnubrögðum. Það er alveg óvíst, að hún fái það. Og a.m.k. er það alveg víst, að þetta þóf, sem er hér milli stjórnarandstöðu og ríkisstj., tekur það mikinn tíma, þó að ráðherrarnir séu ekki nema annað slagið viðstaddir, að þeir vinna ekki þá dagana, — og ef til vill þreytir það meira en ýmislegt annað, þannig að þeir fá hvorki betri vinnufrið né ef til vill ekkert fyrr vinnufrið fyrir því, þó að þeir taki upp á þessum vinnubrögðum.

Hvað er þá eiginlega eftir, sem knýr stjórnina til þessara vinnubragða? Því meira óverjandi verða vinnubrögðin, þegar ekki er gerð grein fyrir því, að þetta sé af knýjandi nauðsyn. Það gætu ef til vill legið þær ástæður fyrir, að slík vinnubrögð væru talin af öllu þinginu ekki óeðlileg. En um það liggja engar skýringar fyrir. Þeir segjast þurfa að kynna sér efnahagsmálin og ætli að nota tímann til þess. Nú halda ýmsir því fram, og ég skil vel rök þeirra, að þessa ætti ekki að vera þörf. Upplýsingar um efnahagsmálin ættu að geta legið fyrir. Þeir benda á það, og ég skal nota tækifærið til að svara því með örfáum orðum, að ég hafi lýst því yfir, að úttekt á öllu fjárhagsástandinu skyldi verða birt fyrir alþjóð, þegar ég var forsrh. síðast. Það hefur oft verið rætt um það, — ég hef aldrei sérstaklega svarað því. Þegar þessi úttekt, sem fór fram, eða rannsókn á efnahagsástandinu, ef menn vilja kalla það því nafni heldur, hafði farið fram og skýrslum var safnað að fullu, þá var þeim manni, sem hefur staðið fyrir skýrslugerð fyrir fyrrv. ríkisstj. og þá ríkisstj., sem var þar á undan, og þá ríkisstj., sem nú situr, Jónasi Haralz, falið að sjá um að gefa út þessa skýrslu. Hann var þá í vinnu fyrir ríkisstj. á árinu 1958 jafnhliða þessu, og það kom í ljós, þegar var búið að safna öllum þessum skýrslum saman, að skýrslurnar voru það langar, að það var útilokað að gefa þær út í heild, ef það átti að vera aðgengilegt fyrir almenning. En þá kom annað. Þegar átti að gera útdrátt úr hverri skýrslu, þá töldu hagfræðingarnir, sem ég tel ekki óeðlilegt, að það væri útilokað annað en hver og einn, sem hefði samið þessar skýrslur, gerði útdráttinn sjálfur eða færi yfir hann. Og í þessu var staðið, þegar ríkisstj. fór frá völdum, án þess að það kæmist í verk, en ekki vegna þess, að það væri ekki vilji ríkisstj. að koma því verki fram.

Því hefur stundum verið haldið fram, að við hefðum haldið öllum upplýsingum fyrir Sjálfstfl., þegar stjórnarskiptin urðu 1958, og forsetinn hafi orðið að skerast í leikinn til þess að fá mig til að afhenda þessar skýrslur. Þetta er kærkomið tækifæri, vegna þess að minnzt hefur verið mikið á þessar skýrslugerðir, til þess að taka það fram, að ég hafði aldrei, þegar stjórnarskiptin stóðu fyrir dyrum eða voru um garð gengin, verið beðinn um þessar skýrslur, fyrr en forsetinn minntist á þær. Það var vitanlega ekkert annað en sjálfsagt, að þeir flokkar, sem þá voru að gera tilraun til þess að mynda ríkisstjórn, fengju þessar skýrslur. Þeir fengu allar skýrslur um efnahagsástandið, sem lágu fyrir, allar skýrslur, sem höfðu verið gerðar, frá því að svokölluð vinstri stjórn tók við og fram að þeim tíma, sem stjórnarskiptin urðu. Og greinilegasta yfirlitið var síðasta árið. Þá var komið nokkurn veginn niður á fastan útreikningsgrundvöll, enda sýndi það sig, að eftir að Sjálfstfl. hafði fengið þessi skjöl í hendur, taldi hann sér fært að koma fram með till. í efnahagsmálunum, sem hann sagðist ekki hafa getað komið fram með, fyrr en hann hefði fengið þessar skýrslur.

Og án þess að fara langt út í þá sálma, þá er rétt að vekja athygli á því, að þegar sú stjórn, sem ég veitti forstöðu, sagði af sér, þá hefur ástandið verið þannig, eftir því sem fyrrv. hæstv. forsrh. hefur gefið upplýsingar um, að tekjuafgangur hjá útflutningssjóði var 5 millj. kr. Og tekjuafgangur hjá ríkissjóði er a.m.k. ekki minna en 40—50 millj., þó að það liggi ekki alveg ljóst fyrir og komi ekki í ljós, fyrr en yfirlit verður gefið um afkomu ríkissjóðs á þessu ári, vegna þess að þær tölur hafa ekki enn þá verið birtar. En þá er ekkert óeðlilegt, þó að ýmsum hv. þm. úr stjórnarandstöðunni virðist sem Sjálfstfl. og Alþfl. ættu að geta gert þessar till. nú, þar sem þeir virðast hafa verið sammála um þær fjárhagsráðstafanir, sem gerðar voru á þessu ári, og ýmislegt sagt um það, sem hér hefur verið rakið, m.a. að það væri komin á fullkomin stöðvun og allt væri í bezta lagi með ríkissjóðinn og útflutningssjóður aldrei betur stæður. Og þeir hafa haft allar þessar skýrslur, sem til voru hjá þeirri ríkisstj., sem ég veitti forstöðu, nú í heilt ár, gert ráðstafanir samkvæmt þeim og haft aðstöðu til að byggja á þessum útreikningum til þess að gera till. fyrir það ár, sem nú er fram undan.

En taki menn vel eftir. Ég er ekki hér að flytja skoðun mína. Þó að ég telji, að skoðun þeirra manna, sem hafa sett þetta fram, sé að mörgu leyti eðlileg, þá er ég ekki að segja, að það sé óeðlilegt, að hæstv. ríkisstjórn fái frest til þess að hugsa um málin. Ég hef aldrei haldið því einu sinni fram. Og ég mundi ekkert segja við því, og ég veit, að þm. mundu vel sætta sig við það, þó að þeir telji ýmsir eðlilegt, að ríkisstj. hefði tillögurnar til, eins og allt er í pottinn búið, þar sem fyrrv. ríkisstj. tók við þessum skýrslum öllum og þessir flokkar tveir, sem nú standa að ríkisstj., hafa staðið að fyrrv. ríkisstj. í heilt ár og þar sem því hefur verið hvað eftir annað lýst yfir, síðast í Morgunbl., held ég í gær, að þessir tveir flokkar væru algerlega sammála um allar ráðstafanir, sem ætti að gera. En ég held þessu ekki til streitu. Það er ekki hærra eða öfgakenndara risið á þessum aðfinnslum, sem við berum hér fram eða a.m.k. ég ber hér fram og fjöldamargir þm., — það er ekki hærra á þeim risið en það, að við óskum eingöngu, að haldin sé sú venja, að fjárlagaræðan, ræðan um afkomu ríkissjóðs, sé haldin hér, eins og venja hefur verið til, og brbl. lögð fyrir þingið. Og svo segjum við: Gott og vel, ef stjórnin þarf frest til að hugsa um fjárhagsmálin þrátt fyrir það, þó að þannig hafi verið í hendur hennar búið og hún hafi haft eitt ár, þá er ekkert við því að segja. — Þetta er öll ósanngirnin, og þetta vil ég að komi greinilega fram. Og það sýnir sig, að hæstv. forsrh. hefur áreiðanlega talið þetta ekki ástæðulaust, þar sem hann tók upp viðræður við báða formenn stjórnarandstöðuflokkanna um þetta mál og taldi sig mundu næsta dag gefa svör við því, hvort hann gæti fallizt á kröfur þeirra eða ekki. Það er mér kunnugt, að ráðherrar hafa líka rætt um þetta í dag við formenn stjórnarandstöðuflokkanna. En það er alveg ófrávíkjanlegt, að það má ómögulega halda ræðuna um fjárhagsafkomu ríkissjóðs, ómögulega leggja fyrir og afgreiða brbl. um landbúnaðarverðið. Ekki að tala um! Og svo koma hér a.m.k. 2 eða fleiri ræðumenn og eru hneykslaðir yfir því, að stjórnarandstaðan vilji ekki sætta sig við þessar vinnuaðferðir. Ósanngirnin er sú, sem ég hef lýst.

Þetta vil ég, að komi greinilega fram af minni hálfu, og ég vil taka það fram, að afstaða mín til málanna, hver sem hún hefði orðið, ef eðlilega hefði verið hér að farið og ekki farið fram með ofríki og ofbeldi og misbeitingu á aðstöðu, — öll mín afstaða til málanna markast af því að mæta þessum vinnubrögðum og sem mótmæli gegn þessum vinnubrögðum.