02.06.1960
Efri deild: 91. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3000 í B-deild Alþingistíðinda. (1171)

175. mál, Háskóli Íslands

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að láta í ljós ánægju yfir afgreiðslu menntmn. á þessu frv. Menntmn. hefur tekið til greina óskir háskólaráðs í þessu efni og farið eftir þess till.

Ég gat þess við 1. umr. þessa máls, að ég teldi af ýmsum ástæðum heppilegast, að við stofnun prófessorsembætta við háskólann væri farið eftir óskum háskólans sjálfs og að háskólinn sjálfur ætti frumkvæðið að stofnun nýrra prófessorsembætta.

Hv. þm. Alfreð Gíslason beindi nokkrum aths. að háskólanum og háskólaráði, að mér fannst, í sinni ræðu og drap á það, að ekki ætti að stofna til nýrra embætta við háskólann af handahófi eða vegna þess, að einhverjir ungir menn væru til, sem gætu gegnt prófessorsembættinu. Ég er honum sammála um þetta síðast talda, en ég hygg hins vegar, að það sé ekki rétt að ásaka háskólann um neitt handahóf í þessum efnum, enda kom það fram í ræðu hans, að háskólinn hafði ekki átt frumkvæðið að stofnun þess prófessorsembættis, sem hann gerði nokkrar aths. út af.

Ég hygg sem sagt, að ef þeirri reglu er fylgt, að háskólanum, en ekki öðrum, sé ætlað að eiga frumkvæðið í þessum efnum, þurfi ekki að óttast svo mjög handahóf í þessu.

Við 1. umr. þessa máls gerði ég nokkrar aths. um formhlið þess. Ég gerði það vegna framtíðarinnar og þess fordæmis, sem það hefði getað skapað. Efnislega er ég auðvitað samþykkur þessu frv., eins og ég þá tók fram. Ég benti að vísu á það við þá umr., að það gæti verið spurning og álitamál um sum störfin, sem þar er um fjallað, eins og t.d. starf yfirlæknisins á Kleppi, og þó ekki síður um störf þau eða kjarnfræðirannsóknir, sem kjarnfræðiprófessornum er ætlað að annast, hvort þau ættu heima undir háskólans hatti eða annars staðar. En um hitt eru vitaskuld allir sammála, að þessum málefnum, Kjarnfræðunum, þurfi að sinna í framtíðinni og þurfi að sinna í vaxandi mæli, og það má sjálfsagt eftir atvikum telja það ekki óeðlilegt, að verkfræðideild taki að sér það hlutverk. En afleiðingin af því, að verkfræðideild er falið þetta hlutverk, hlýtur að vera sú, og það vil ég undirstrika, að Alþ. verður síðar að taka tillit til þess í fjárveitingum sínum til háskólans.

Ég vil svo ítreka það, sem ég fyrst gat um, ánægju mína yfir afgreiðslu n, á þessu máli. Hún ber vissulega vitni því, sem oft hefur komið fram áður, að Alþ. vill gera vel við háskólann.