02.06.1960
Neðri deild: 95. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3019 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

175. mál, Háskóli Íslands

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Frv. til l. um breyt. á l. um Háskóla Íslands var vísað til hv. menntmn. á allra síðustu dögum þingsins. Þar sem frv. fjallaði um fjölgun prófessorsembætta við háskólann, kom í n. fram óánægja með það, hversu seint þetta mál kom til þingsins, þar sem ekki gafst fullnægjandi tími til athugunar á málinu, ef unnt átti að vera að afgreiða það til Ed. nægilega fljótt fyrir þingslit.

Ed. hefur síðan í meðferð málsins bætt inn í frv. ákvæði um nýtt prófessorsembætti við viðskiptadeild háskólans.

Mér þótti nóg um, þegar upprunalega frv. var fleygt inn í þingið á síðustu stundu, en taldi þó ekki ástæðu til að beita mér gegn því, að það yrði samþykkt. En mér þykir keyra um þverbak, þegar nú skal næstsíðasta dag þingsins breyta frv. og bæta við það ákvæði um enn nýtt embætti, og mun því fylgja þeirri brtt., sem fram hefur komið um, að frv. verði samþ. eins og hv. Nd. afgreiddi það fyrir fáum dögum, en fellt verði úr frv. ákvæðið um enn nýtt prófessorsembætti til viðbótar. Ég mun að sjálfsögðu standa með frv., eftir að sú brtt. hefði verið samþ., en mun greiða atkvæði gegn því, verði hún felld.

Ég var boðaður á fund hv. menntmn. 20 mín. áður en hann skyldi hefjast kl. 8 í kvöld og var þá staddur í Hafnarfirði og hafði ekki tök á að mæta fyrr en um það bil að fundi var lokið, og kemur afstaða mín í n. því ekki eins skýrt fram í nál. og ég hefði kosið. En ég fékk þó bókað, að ég áskildi mér rétt til að fylgja brtt., sem fram kynnu að koma, og mun ég, eins og ég áður greindi, fylgja fram kominni brtt, hv. 3 þm. Reykv. (EOI). Menntmn. var áður einróma búin að gefa út nál. um þetta mál og var þar búin að lýsa því, hvernig hún vildi láta samþ. frv. Ég er enn sama sinnis og þá og legg því til, að fram komin brtt. verði samþ., svo að frv. komist aftur í sitt fyrra horf, og er á móti því, að því verði breytt. Ég tel það fullkomna óvirðingu við Alþ. og jafnvel háskólann líka að ætla að afgreiða mál skólans hér í hv. Alþ. eins og hér er lagt til og stórvarhugavert fordæmi.