02.06.1960
Neðri deild: 95. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3027 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

175. mál, Háskóli Íslands

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, kemur ekki fram á hv. Alþ. fyrr en 27. maí, kemur því ekki fram fyrr en örfáum dögum áður en hv. Alþ. er ætlað að ljúka störfum. Og þegar þetta frv. kemur fram, er annríki orðið svo mikið á hv. Alþ., að í raun réttri er ekkert tóm orðið til þess, að menn geti sett sig inn í ný mál. Það er t.d. orðið þannig um fundarhöld hér, að það eru ekki gefnir tímar til flokksfundahalda. Það eru settir fundir í hv. Alþingi, ýmist deildarfundir eða fundir í Sþ., á þeim tímum, sem venjulega eru hugsaðir til flokksfundahalda. Hér munu hafa verið til meðferðar þá í Nd. bæði útsvarsmálið og nýja efnahagsmálafrv. o.fl. og fundir, eins og ég hef þegar lýst, alla daga og fram á kvöld. Ég held, að það sé þess vegna ekkert ofmælt í því, að fæstir hv. þm. hafi haft aðstöðu til að kynna sér til nokkurrar hlítar, hvað í þessu máli var, þegar það kom hér fram og var hér til meðferðar.

Það er alls ekki svo einfalt mál, hvernig haga skuli prófessorsembættum við Háskóla Íslands, og áreiðanlegt, að það er ekki hægt fyrir hv. þm. að átta sig á slíku til nokkurrar hlítar nema hafa aðstöðu til þess að fá sér upplýsingar og kynna sér málið með margvíslegu móti. En svo var að mönnum þrengt um þessar mundir sem ég hef lýst og þannig, að ég efast um, að það hafi t.d. verið hægt að taka þetta mál fyrir á flokksfundum með reglulegum hætti.

Þessi málsmeðferð er stórvítaverð af hendi hæstv. ríkisstj. Það er stórvítavert að draga það svo lengi að leggja fyrir mál, sem ætlað er að gangi fram, og þessi málsmeðferð er í raun og veru alveg óskiljanleg, þegar þess er gætt, að þetta er ekki mál, sem getur hugsanlega borið að í skyndingi. Þetta er mál, sem hlýtur að hafa verið á döfinni alllengi í stjórnarráðinu. En hvers vegna er þessi háttur á hafður? Mönnum gæti dottið í hug, að það væru hálfgildings hrekkjabrögð að fara svona að, það væri meiningin að koma málinu fram lítt athuguðu eða óathuguðu í skjóli þess annríkis, sem hér verður ætíð seinustu daga þingsins, og það væri skákað í því skjólinu, að hv. þm. hefðu ekki tóm til þess að fara ofan í þetta og tækju létt á málinu, enda er sannleikurinn sá, að meðferð málsins hér í Nd. varð í raun og veru þannig. Ég segi fyrir mitt leyti, ég játa það, að ég hafði ekki getað kynnt mér til nokkurrar hlítar, hvað í þessu máli var, þegar það fór hér í gegn, en ég lét það afskiptalaust í því annríki, sem þá var.

Mig minnir hæstv. menntmrh. segja þá eitthvað í þá átt, að í þessu frv. væri ekki neinn kostnaðarauki fólginn og í rauninni væri hér varla um ný embætti að ræða, þau þrjú, sem þá voru áformuð í frv. Ég man ekki, hvort hæstv. ráðh, fullyrti þetta, en þetta var a.m.k. blærinn á því, sem maður heyrði út undan sér um málið, því að það var varla, að maður heyrði þetta nema út undan sér, vegna þess, hve maður var aðþrengdur við meðferð annarra mála.

En nú kemur það vitaskuld í ljós, þegar þetta hefur allt rifjazt upp aftur við það, að málið hefur komið fyrir á nýjan leik og um það hafa orðið meiri umræður en áður, — þá rifjast það upp, að þessu er alls ekki til að dreifa, eins og hér hefur raunar verið sýnt fram á af öðrum.

Það er t.d. um kjarnorkustarfið að segja, kjarnorkuprófessorinn nýja, að vitaskuld þurfum við að hafa nokkra menn, sem kunna þessi fræði, eins og hér hefur verið tekið fram, þó að ekki væri nema til þess að við vitum, hvað er að gerast í þessum efnum. Ef það væri ekki, gætum við átt á hættu, að nýjungar, sem hefðu stórfellda þýðingu fyrir okkur, kæmu fram, án þess að við vissum, og það gæti orðið óbætanlegt tjón fyrir landið, ef þannig tækist til. Og einmitt af því, að málið er þannig vaxið, beitti fyrrv. stjórn, þ.e.a.s. ekki sú síðasta, heldur sú, sem þar áður var, sér fyrir því, að það var sett löggjöf um nefnd, ég held, að hún heiti kjarnorkuráð eða kjarnorkunefnd, og hún átti að hafa framkvæmdastjóra. Auk þess er einn af prófessorunum við háskólann, sem áður var framkvæmdastjóri rannsóknaráðs, sérfræðingur í þessum efnum. Nú er stungið upp á því að breyta þessu og sagt, að það sé í raun og veru ekki nema formsbreyting, þessi

maður, sem hefur verið eins konar framkvæmdastjóri þessarar nefndar, verði prófessor. En er þá nokkur trygging fyrir því, að þessi maður verði í raun og veru framkvæmdastjóri þessarar nefndar, eftir að hann er orðinn prófessor? Mér skilst, að þetta hafi ekki verið nægilega upplýst eða þetta liggi ekki nægilega ljóst fyrir og það, sem manni sýndist svona einfalt í upphafi, sé máske alls ekki svona einfalt. Og gæti vel farið svo, að eftir örstutta stund yrði talið alveg nauðsynlegt, einmitt af því, að þessi maður var gerður að prófessor, að nýr og annar framkvæmdastjóri kæmi fyrir kjarnorkunefndina. Hér gæti því í raun réttri orðið um nýtt starf að ræða í framkvæmdinni. Þetta er sem sagt atriði, sem þm. hafa ekki haft neina aðstöðu til þess að hugleiða, hvað þá heldur til að kynna sér málavexti.

Eins er það, eins og hér hefur verið minnzt á, varðandi prófessoratið í geðsjúkdómafræðum eða hvað það er kallað. Náttúrlega er ekki mjög mikið kennt í þeim fræðum við háskólann í læknadeildinni, því að það er auðvitað mjög takmarkað, sem hægt er að ætlast til, að þeir, sem ætla að verða læknar án þess að verða sérfræðingar, viti um hverja grein læknisfræðinnar og þ. á m. um geðsjúkdóma. Það hlýtur því að vera út af fyrir sig fremur lítið verk og ekki tilefni til embættis að kenna geðsjúkdómafræði við háskólann, hana eina út af fyrir sig. Og sjálfsagt er það ekki nema lítið brot af prófessorslaunum, sem fram að þessu hefur verið greitt fyrir kennslu í þeim fræðum. Þarna er því auðvitað líka um mál að ræða, sem a.m.k. þarf verulegrar íhugunar við. Að vísu vitum við, að prófessorsembætti og dósentsstöður við háskólann hafa verið notaðar til launauppbóta fyrir lækna, myndarlega lækna, sem hafa gengið í þjónustu ríkisins, og ég skal fullkomlega játa, að oft hefur verið þörf á því að hafa það þannig. En þá á heldur ekkert að vera að reyna að fela það á þá lund að halda því fram, að þar sé ekki um kostnaðarauka að ræða. Það er mál, sem þarf að skoða gaumgæfilega, hversu langt á að ganga í því að stofna prófessors- og dósentsstöður við háskólann til launabóta fyrir lækna, sem vinna við aðrar stofnanir ríkisins. En eins og ég sagði, ég viðurkenni, að það hefur þurft á þessu að halda. En það þarf að skoða það gaumgæfilega í hvert sinn, hvort það sé knýjandi og rík ástæða til að gera þetta. Og ástæða væri vafalaust til þess að skoða þessi mál ofan í kjölinn. T.d. væri ákaflega fróðlegt að fá upplýsingar um það hjá hæstv. menntmrh„ hvað margir prófessorar og dósentar eru í læknadeildinni t.d., ég hef a.m.k. ekki orðið var við, að það hafi komið fram í þessum umr. Má vera þó, að það hafi farið fram hjá mér.

Þá vil ég benda á eitt, sem er ákaflega einkennilegt í þessu máli og ég satt að segja víssi ekki um, fyrr en það kom fram nú á síðasta stigi þess, en það er, að þessu máli fylgdi engin umsögn frá háskólanum til Alþingis, þegar frv. var lagt fram. Á hinn bóginn stendur í háskólalögunum, að það skuli leita umsagnar og koma umsögn frá háskólanum; þegar kemur til mála að setja upp nýjar stöður þar, og mér skilst því, að þessi lagaákvæði hafi í raun og veru verið brotin með því að láta ekki koma fram strax umsögn háskólans um þetta mál. Mér hefur verið sagt, að ástæðan til þess, að svona undarlega var farið að, að þetta mál hafi ekki verið nú í vetur borið undir háskólann eða háskólaráðið, sé einfaldlega sú, að háskólinn eða háskólaráðið hafi áður ekki óskað eftir þessum prófessorsstöðum, sem voru í frv., þegar það kom fram. Þetta þykir mér ákaflega einkennilegt, og ég vil fá upplýsingar um, hvort þetta er rétt, að það sé raunverulega þannig, að háskólaráðið hafi ekki óskað eftir þessum stöðum, hvort það sé þá raunverulega þannig, að þetta frv. hafi alls ekki verið samið í samráði við háskólaráðið, eins og mér skilst að skylt sé samkv. háskólalöggjöfinni. Og ef þetta er rétt, hvað er það þá, sem þarna er raunverulega að gerast?

Það virðist líka ákaflega einkennilegt, eða ég fæ ekki betur skilið af þessari umsögn, sem hefur komið fram frá háskólaráði síðar í málinu, en að háskólaráðið hafi í raun og veru fremur viljað, að önnur prófessoröt gengju á undan þeim, sem voru í stjórnarfrv. upphaflega, t.d. viðskiptafræðiprófessor. Að dómi háskólaráðs hefði verið meiri nauðsyn á að fá það starf sett á fót en þau störf, sem hæstv. ríkisstj. hafði í sínu frv.

Ég sé ekki, hvað þessu getur legið á, og mér finnst öll þessi málsmeðferð óheppileg og ekki rétt, og ég hef þess vegna fyrir mitt leyti ákveðið að vera á móti þessu frv. Ég mun greiða atkv. á móti þessu frv., og við það að hafa haft tækifæri til að kynna mér efni málsins, þá sýnist mér alveg einsýnt að greiða atkv. á móti frv. Mér sýnist hér vera stefnt að því með ónógum undirbúningi og ónógum upplýsingum og á óviðeigandi hátt að stofna til nýrra embætta, og það væri miklu skynsamlegra að láta þetta mál bíða og athuga þetta allt betur í heild fyrir næsta fjárlagaþing. Ég get alls ekki komið auga á neina knýjandi ástæðu fyrir hæstv. ríkisstj. eða nokkurn að vera að nota síðustu þingnóttina til þess að knýja fram mál eins og þetta.

Það sýnir kannske bezt, hvað fáránleg öll þessi málsmeðferð er, að hæstv. menntmrh. sagði hér áðan, að hann hefði ekki tíma, — ekki tíma, sagði hann, það væri ekki tími til, að hann gæti rakið þau rök, sem gerðu það eðlilegt að fallast á þá breyt., sem gerð var á frv. í Ed.

Einmitt þessi fullyrðing hæstv. ráðh., að þannig er komið málum, að hann hefur ekki einu sinni tíma til að gera þingmönnum grein fyrir málinu eða einstökum þáttum þess, sýnir betur en nokkuð annað, að það er alveg ósæmilegt, blátt áfram ósæmilegt að ganga frá þessu sem lögum nú, eins og þetta er komið.

Ég mun ekki þreyta hv. þm. á löngum ræðuhöldum um þetta, en ég vildi gera þessa grein fyrir afstöðu minni. Ég mun greiða atkv. á móti þessu frumvarpi.