02.06.1960
Neðri deild: 95. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3036 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

175. mál, Háskóli Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef deilt á þá meðferð, sem þetta mál hafði fengið í Ed., að breyta á síðustu stundu þessu máli og stilla okkur frammi fyrir því að verða nú að taka þetta mál til meðferðar, í staðinn fyrir að láta það ganga sína reglulegu göngu í gegnum d., að verða að afgreiða það á einni nóttu. Ég deildi á þetta sérstaklega vegna þeirra breyt., sem fram hafa komið í Ed. Hvað snerti hins vegar það, sem við höfðum gert hér í Nd, og að vísu hafði verið gert á mjög skömmum tíma, en engu að síður á reglulegan máta, þá var ég ekki að finna að því, það hafði verið afgreitt hér hjá okkur.

Ég held það hafi verið einn eða tveir þm., einn þm. sérstaklega, sem talaði á móti því. Annars var það í n. samróma. Gagnrýni mín beindist þess vegna að því, sem gerzt hafði í Ed. og þarna hafði verið bætt inn í viðvíkjandi þriðja prófessor í viðskiptadeild, sem um leið þýddi að gera deildina að sjálfstæðri deild í háskólanum, sem sé fjölga deildunum í háskólanum.

Nú hefur hv. 5. þm. Reykv. (JóhH), hæstv. forseti okkar d., komið fram hér með skriflega brtt. Ef sú brtt. hans er samþ., þýðir það, að málinu er raunverulega frestað til næsta þings. Það þýðir, að við höfum tækifæri á næsta þingi, ef það er vilji þessarar d., að breyta háskólalögunum hvað þetta snertir, líka

viðvíkjandi þeim þremur prófessorum, líka viðvíkjandi því, hvort við stofnum þarna nýja deild, jafnvel þó að þriðja prófessorsembættið sé myndað.

Nú er í háskólalögunum tekið fram, að þegar þrír prófessorar séu í viðskiptadeildinni, skuli verða stofnuð ný deild, sem sé viðskiptadeild. Þessi brtt. hv. 5. þm. Reykv., hæstv. forseta d., þýðir það, að þetta ákvæði kemur ekki til framkvæmda nú, að ný deild verði stofnuð, og ekki heldur hitt, að nýr prófessor verði settur. því aðeins að næsta Alþ. samþykki á sínum fjárl. þá að stofna slíkt embætti, kæmi það til framkvæmda, svo fremi sem háskólalögunum, áður en það hefur gerzt, hefur ekki verið breytt. Það þýðir m.ö.o., að okkur gefst tækifæri til þess að ræða þetta á eðlilegan og þinglegan hátt hér í þingi í haust, flytja brtt., reyna að koma þeim í gegn, ræða um þetta í sambandi við fjárlög, og þar með er hafður alveg þinglegur háttur um afgreiðslu þessa máls.

Ég veit, að hæstv. ríkisstj. hefur vald til þess að koma málinu í gegn eins og það er nú. Hins vegar vil ég segja það, að þótt ég hefði helzt kosið, að till. mín yrði samþ. eins og hún v ar, get ég sætt mig við þá brtt., sem hv. 5. þm. Reykv., hæstv. forseti, hefur flutt. Hún þýðir það, að okkur gefst tækifæri til þess að meðhöndla þetta mál á þinglegan hátt, koma fram með breytingar, freista þess að fá þessum lögum breytt og enn fremur að hafa áhrif á það, hvort þetta verður í fjárl. eða ekki, þannig að það, sem ég hef hér fyrst og fremst deilt á, að stilla okkur frammi fyrir þessu á síðustu stundu, — okkur er forðað frá því með þessari brtt. hans líka. Ég mun þess vegna fyrir mitt leyti samþykkja hana.

Ég vildi um leið, fyrst þessar deilur hafa orðið um háskólann hér, ítreka það, sem ég minntist á í minni fyrri ræðu, að reynt yrði af hálfu Alþingis að gera eitthvað, beinlínis frá þess hálfu, til þess að undirbúa 50 ára afmæli háskólans.

Það er slæmt, hvernig gengur hjá okkur með undirbúninginn undir lagabreytingar við háskólann, og ég held, að Alþingi sjálft hafi haft of lítið frumkvæði í þessum efnum. Þegar síðast var breytt háskólalögunum 1956–57, var það eingöngu nefnd svo að segja af prófessorum, sem við þetta fékkst. Ég tek eftir því alltaf, að þegar prófessorar okkar við háskólann, að þeim annars ólöstuðum, fjalla um þessi mál, eru þeir tiltölulega takmarkaðir við þær deildir, sem þar eru þegar. Það er nokkurn veginn gefið, að eigi að koma veruleg nýmæli, verulega stór nýmæli, verða þau að koma frá Alþingi.

Ég álít, að það hefði verið ákaflega heppilegt, að sett hefði verið nefnd í samráði við þingflokkana til þess að athuga undir næsta þing, hvað Alþingi Íslendinga vilji gera til að minnast 50 ára afmælis háskólans. Ég kann varla við sjálfur a.m.k. að vera að flytja brtt. um slíkt núna, enda væri viðkunnanlegt, að það kæmi frá öðrum. En því vildi ég þó alvarlega skjóta til athugunar, bæði til hæstv. ríkisstj. og þdm., hvort okkur bæri ekki að gera eitthvað slíkt. Leiðindin eru, hvað þetta er orðið allt saman seint, hvar þetta lendir nú út af því, hvað þetta er seint í hörðum deilum hér hjá okkur. Og jafnvel þó að úr því leysist að nokkru leyti hvað snertir það mál, sem ég deildi á, þá er samt greinilegt, eins og hér hefur komið fram í d. nú, að umræður verða um önnur mál, sem hér höfðu þó verið nokkuð rædd fyrr. Ég mun þess vegna fyrir mitt leyti greiða atkv. með brtt. frá hv. 5. þm. Reykv., hæstv. forseta, sem gerir það að verkum, að það losar okkur við að standa frammi fyrir gerðum hlut, sem Ed. hefur gert, og verða að gefast upp frammi fyrir því. Það gefur okkur möguleika á því að geta fjallað um þetta mál á þinglegan hátt á næsta þingi, bæði í sambandi við fjárlög og í sambandi við breytingar á háskólalögunum, sem ég satt að segja álít heppilegast að hefðu verið undirbúnar af n., sem ynni í því til haustsins, einmitt í samráði við þingflokkana.