02.06.1960
Neðri deild: 95. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3055 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

175. mál, Háskóli Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér í þær umr., sem hér hafa farið fram, að öðru leyti en því, sem að mér var vikið og fsp. borin fram til mín, að mér skildist, hvort það væri rétt, að það hefði staðið á mér að einhverju leyti um flutning þessa frv.

Það liggur í augum uppi, að hér er að meginstofni til, varðandi ráðstöfun geðveikralæknisembættis og tengingu þess við háskólann, um að ræða mál, sem hlýtur að koma til athugunar bæði heilbrmrn. og menntmrn. Umsögn landlæknis um málið lá ekki fyrir, fyrr en eftir að ég fór út á Genfarráðstefnuna, og mér gafst ekki kostur á að kynna mér hana til neinnar hlítar. Þó að ég að vísu sæi hana þann dag, er ég kom heim, áður en ég fór aftur af landi brott, gafst mér ekki kostur á að kynna mér hana eða setja mig inn í málið, fyrr en eftir að ég kom heim um miðjan maí, og að sjálfsögðu var ekki hægt að taka ákvörðun um þetta mál, fyrr en búið var að athuga það af hálfu beggja rn., heilbrmrn. og menntmrn. Ég staðfesti því í einu og öllu það, sem hæstv. menntmrh. sagði um þetta.