26.02.1960
Efri deild: 31. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3057 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

71. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Fjhn. flytur þetta frv. að beiðni hæstv, fjmrh. Svo sem hv. dm. er kunnugt, var ríkisstj. veitt heimild, áður en þingi lauk fyrir áramótin, til þess að greiða allar venjulegar greiðslur úr ríkissjóði til febrúarmánaðarloka 1960, þar eð augljóst var, að fjárlög yrðu ekki afgreidd fyrir áramót. Vegna þeirra miklu breytinga, sem fyrirsjáanlegar eru á fjármálum ríkisins á þessu ári vegna efnahagsráðstafana þeirra, sem samþykktar hafa verið frá Alþ. og þá voru fyrirhugaðar, var ljóst, að nauðsynlegt yrði að undirbúa nýtt fjárlagafrv., og kom því aldrei til þess fyrir áramótin, að það fjárlagafrv., sem lagt var fram í byrjun þings, væri tekið til meðferðar af fjvn. Hið endurskoðaða fjárlagafrv. var lagt fram þegar í þingbyrjun eftir áramótin, en því var ekki vísað til fjvn. fyrr en 8. febr. N. hafði þó nokkru áður tekið til starfa og hafið athugun frv., og síðan hefur í fjvn. verið samfellt unnið að því að athuga frv. og undirbúa það til 2. umr. Vegna þeirra miklu umr., sem verið hafa á Alþ., og vinnu í sambandi við efnahagsmálalöggjöfina var að sjálfsögðu ekki auðið að haga nefndarfundum í fjvn. með þeim fyllsta hraða, sem hugsanlegur hefði verið. En hins er þó að gæta í þessu sambandi, að það hefur ætíð verið svo, að meðferð fjárl. í fjvn. hefur tekið alllangan tíma. Frv. hefur oftast verið vísað til n. í þingbyrjun, þegar þing hefur komið saman um 10. okt., og ekki verið afgreitt úr n. fyrr en rétt fyrir jól, þegar fjárlög hafa verið afgreidd fyrir áramót.

Það mun engan hv. þm. vafalaust undra á því, þó að ekki hafi verið auðið að ljúka afgreiðslu fjárlaga nú, áður en þessi bráðabirgðaheimild rann út, þar sem fjvn. hefur ekki haft nema mjög skamman tíma til þess að athuga frv., og augljóst er, að vissar athuganir eru óhjákvæmilegar og því takmörk fyrir því, hvað hægt er að hraða aðgerðum í málinu. Fjhn. þótti því sjálfsagt og óumflýjanlegt að veita hina umbeðnu heimild, að bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði megi framkvæma til marzloka. Með þessu er ekki sagt, að fjárlög verði ekki afgreidd fyrir þann tíma. Það mun verða hafður á því sá mesti hraði, sem auðið er, en það þótti þó skynsamlegra að miða heimildina við marzlok, til þess að ekki þyrfti aftur, ef eitthvað bæri út af, að fara að endurnýja þessa heimild.

Mér þótti rétt í sambandi við málið að gefa þessar upplýsingar varðandi undirbúning málsins í fjvn. Ég þori ekki um það að fullyrða, hvenær n. hafi lokið störfum, þannig að hún geti lagt álit sitt fram til 2. umr. frv. En þess mun nú ekki langt að bíða úr þessu, þannig að mér sýnist augljóst, að þessi heimild, sem hér er farið fram á, ætti fullkomlega að nægja, og raunar mætti þess vera að vænta, að fjárlög gætu orðið tilbúin nokkru fyrir marzlok.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr., og sé ekki ástæðu til, að það verði frekar tekið til meðferðar í nefnd.