04.03.1960
Neðri deild: 42. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3060 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

73. mál, sala lands í Vestmannaeyjum í eigu ríkisins

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er flutt á þskj. 137, um heimild handa ríkisstj. að selja Vestmannaeyjakaupstað land allt á Heimaey í Vestmannaeyjum, sem nú er í eigu ríkisins, og um eignarnámsheimild á lóðar- og erfðafesturéttindum, er hér flutt eftir beiðni bæjarstjórnar Vestmannaeyja.

Eins og fram kemur í grg. með frv., er aðstaða þannig í þessum kaupstað, að byggingarlóðir eru þar ekki lengur fyrir hendi nema þær, sem teknar eru úr ábúð jarða eða landi, sem leigt hefur verið til ræktunar, hinum svokölluðu ræktunarlöndum. Í þeim samningum, sem um þessi lönd gilda og gefnir hafa verið út af ráðuneytinu, er það ákvæði, að ekki megi afsala hluta af þeim, heldur verði að afsala landinu öllu, ef menn vilja ekki nýta það lengur. Þetta hefur þó gengið þannig fyrir sig að undanförnu, að fram hjá þessu hefur verið séð bæði af umboðsmanni jarða í Eyjum og eins af rn., sem staðfest hefur alla lóðasamninga, sem gefnir hafa verið út um byggingarlóðir. Hins vegar er það fyrir hendi, að þeir, sem ábúðarrétt hafa á jörðum og leigusamning fyrir ræktunarlöndum, geta neitað að láta af hendi nokkurn hluta af landi sínu, og ef það færi að verða mjög ofan á, þá mundi koma til þess, að ekki væri hægt af byggingarnefnd og bæjarstjórn að úthluta neinum lóðum til bygginga. Þegar af þessari ástæðu er nauðsynlegt fyrir kaupstaðinn og bæjarstjórn að fá óskoraðan eignarrétt á því landi, sem þarna er og fyrirsjáanlegt er að verður nú í náinni framtíð að taka til skipulagningar fyrir þær byggingar, sem í framtíðinni kunna að rísa í Vestmannaeyjum.

Þetta er sú hlið, sem að því snýr, að það er knýjandi nauðsyn fyrir bæjarstjórnina að fá alveg óskoraða eignarheimild og ráðstöfunarrétt á landi í sambandi við skipulagningu bæjarsvæðisins og úthlutun byggingarlóða. Hitt er svo önnur hlið, að það er að sjálfsögðu í Vestmannaeyjum eins og annars staðar, að við það að gera landið byggingarhæft verður bæjarsjóður árlega í mjög ríkum mæli að leggja út verulegt fjármagn, bæði í sambandi við gatnagerð, holræsi o.fl. En það, að lóðir eru teknar úr ábúð jarða eða af ræktunarlöndum, hefur það í för með sér, að lóðaleiga þeirra, sem byggingarlóðir fá, hækkar mjög.

Leiga fyrir jarðirnar og ræktunarlöndin er mjög lág, en um leið og búið er að úthluta þessum löndum eða hluta þeirra í byggingarlóðir, hefur verið fylgt þar um allt öðrum reglum og lóðarleigan til ríkissjóðs hefur mjög hækkað fyrir hinar beinu aðgerðir bæjarstjórnar að gera þessar lóðir byggingarhæfar.

Það verður að teljast sjálfsagt og eðlilegt, að þeir aðilar, sem fjármagnið láta af hendi, til þess að leigan geti hækkað, njóti þar einhvers góðs af, og kæmi það að sjálfsögðu til, ef bæjarsjóður festi kaup á landinu og nyti arðs af því.

Það skal viðurkennt, að hv. Alþingi hefur að undanförnu nokkuð mætt þessu með því að heimila, að varið væri allt að hálfri lóðaleigu úr Vestmannaeyjum til varnar landbroti þar. Enn fremur hefur undanfarin tvö ár verið á fjárlögum nokkur upphæð til varnar landbroti á hinu svokallaða Eiði, sem er varnarveggur Vestmannaeyjahafnar norðan til, og hefur það fé verið notað til þess að fyrirbyggja tjón, sem af völdum þess gæti orðið, að þessi varnarveggur hafnarinnar raskaðist. Af þessum ástæðum má kannske segja, að það sé ekki fjárhagslega séð kappsmál fyrir Vestmannaeyjakaupstað að eignast landið, og þá að sjálfsögðu ekki heldur tjón fyrir ríkið að selja það. En það er álit flutningsmanna, og það er álit bæjarstjórnar, að það sé eðlilegra og nauðsynlegt fyrir kaupstaðinn að hafa óskoraðan rétt á kaupstaðarlandinu og þá að sjálfsögðu að fá óskoraðan eignarrétt á því og bera þann kostnað, sem leiðir af viðhaldi þess og endurbótum.

Flm. ætlast ekki til, að þeim samningum, sem nú eru í gildi um leigu lands í Vestmannaeyjum, verði raskað, en allir samningar, þó með fáum undantekningum, eru gefnir út til vissra ára, og rennur alltaf út einhver hluti þeirra árlega, og ábúðarsamningar um jarðir eru til lífstíðar.

Það er gert ráð fyrir og fram tekið í grg. frv., að þessu ákvæði skuli þannig hagað, að þessum samningum verði ekki raskað, heldur verði, um leið og þeir renna út, ef til kemur, að af þessum kaupum verður, gefnir út nýir samningar af bæjarstjórn með þeim takmörkunum og með þeim ákvæðum, sem hún telur nauðsynlegt að í slíkum samningum sé í sambandi við skipulag og notkun lands í Eyjum.

Það hagar svo til í Vestmannaeyjum, að það má segja, að þar þurfi kannske meira land undir byggingar en í öðrum kaupstöðum, þar sem þar hafa verið á undanförnum árum mest byggð einbýlishús. Á þessu er skýring, og vil ég láta hana koma hér fram fyrir þá, sem ekki eru þar staðkunnugir. Þetta orsakast vegna þess, að Vestmannaeyjakaupstaður er víst eini kaupstaðurinn á landinu, sem þannig er settur, að þar er ekki um annað neyzluvatn að ræða en regnvatn. Þetta leiðir það af sér, að um byggingu fjölbýlishúsa er ekki að ræða, og bygging húsa, þar sem í eru fleiri en ein fjölskylda, er þeim erfiðleikum bundin, að hætta er á, að vatnsspursmálið verði þar til trafala, ef margar fjölskyldur eru um sama húsþak með möguleika til öflunar neyzluvatns. Þetta er sérspursmál fyrir Vestmanneyinga, sem hefur verið leyst að nokkru með því að þenja bæinn óeðlilega mikið út, með byggingu einbýlishúsa.

Þetta hefur verkað þannig, að það land, sem menn fram að þessu hafa gert sér í hugarlund að yrði kaupstaðarlandið, er þegar að verða fullbyggt, og verður að fara að taka ný og stór landssvæði vestan til á eyjunni til skipulagningar undir íbúðarhús. Þau lönd, sem þar eru, eru öll hin svokölluðu ræktunarlönd og þeim annmörkum háð, sem ég hef hér getið um.

Ég held af því, sem fram kemur í frv. og grg. og því, sem ég hér hef sagt, að þá sé það nokkuð augljóst og eðlilegt, að Vestmannaeyjakaupstaður, eins og aðrir kaupstaðir landsins flestir, eignist það land, sem talið er kaupstaðarlandið, og að bæjarstjórn fái á því óskoraðan og fullan eignar- og ráðstöfunarrétt.

Í frv. er að sjálfsögðu það ákvæði, sem einnig er í lögunum um heimild handa ríkisstj. um sölu á Kópavogslandinu, að þurfi ríkissjóður eða ríkið sjálft á landi að halda til sinna þarfa, verði það af hendi látið með sömu skilyrðum og það kann að verða selt Vestmannaeyjakaupstað.

Eignarheimild á landi í Vestmannaeyjum hefur frá fyrstu tíð verið allsöguleg, samkvæmt þeim heimildum, sem fyrir hendi eru. Þær hafa komizt í eigu Skálholtsstóls, verið þar um langan aldur, afhentar af Skálholtsbiskup, að talið er, upp í skuld til konungs og voru í konungseign í aldaraðir, en munu hafa komizt í eigu ríkisins um 1870, um leið og landssjóði voru afhentar aðrar konungsjarðir.

Ég vil leyfa mér að lokinni þessari umr. að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og landbn.