30.03.1960
Neðri deild: 58. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3062 í B-deild Alþingistíðinda. (1229)

73. mál, sala lands í Vestmannaeyjum í eigu ríkisins

Frsm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Þetta frv. fer fram á, að ríkisstj. verði veitt heimild til þess að selja Vestmannaeyjakaupstað land allt í Vestmannaeyjum, sem ríkið er eigandi að. Í frv. sjálfu er talað um land allt á Heimaey, og hefur n. sú, sem leit yfir frv. og bar það saman við önnur lög hliðstæðs efnis, tekið til athugunar, hvort ekki væri vert að orða hér nokkuð öðruvísi frv., og hefur gert ráð fyrir því og lagt til, að við það verði samþ. brtt., að þar sem frv. talar um Heimaey, þar komi í staðinn: í Vestmannaeyjum. — En svo hagar til, að þetta er ekki nein efnisbreyting. Frv. er byggt á þeirri hugsun, að Heimaey, sem er eina byggða eyjan af Vestmannaeyjum, hefur innan sinna vébanda allmargar jarðir, en þær jarðir eiga ítök í úteyjum. En svo sem mönnum sjálfsagt er kunnugt, eru Vestmannaeyjar taldar 14 alls fyrir utan dranga og sker, og er ekki vissa fyrir því, að öllum eignum í úteyjum eða ítökum sé skipt upp á milli jarða, eða a.m.k. var það svo að fornu, að þar var nokkur almenningur svokallaður, sem var ekki takmarkaður undir eignarheimildir einstakra jarða. Þess vegna þykir fortakslausara og betur í samræmi við efni frv. að segja: land allt í Vestmannaeyjum en Heimaey í Vestmannaeyjum, og hefur n. gert brtt. um þetta.

Þá hefur n. einnig gert örlitla brtt. við það, hvernig skipa beri matsnefnd eða matsdóm, sem meta á landið, ef ekki næst samkomulag milli seljanda og kaupanda, og fært það atriði til samræmis við þau lög, sem áður hafa verið sett hér á Alþ. um hliðstæðar sölur ríkisins á landi. Við samanburð á því hefur landbn., sem fjallaði um málið, borið frv. saman við lögin um heimild fyrir ríkisstj. til þess að selja Kópavogskaupstað það land, sem sá kaupstaður stendur á, og haft það til hliðsjónar. Þetta frv., eins og n. leggur til að það verði samþykkt, er algerlega samhljóða því frv. að breyttu breytanda.

Um málið í heild er það helzt að segja, að það hlýtur að teljast eðlilegt, meðan málum er svo háttað sem hjá okkur er, að ríkið sækist ekki sérstaklega eftir því að verða eigandi að öllu landi, og er þá eðlilegt, að Vestmannaeyjakaupstað sé gefinn kostur á því að kaupa þessa landeign ríkisins, sem hér um ræðir. Á hinn bóginn teldi ég — og veit þó ekki, hvort ég mæli þar fyrir munn n., en það er mín skoðun, — að í slíkum lagasetningum öllum ættu að vera viss ákvæði um það, að kaupendur, slíkir sem hér um ræðir, t.d. Kópavogskaupstaður og Vestmannaeyjakaupstaður, skyldu ekki hafa rétt til þess að endurselja landið einstaklingum. Þetta hefur ekki tíðkazt í frumvörpum, sem samþykkt hafa verið hér á Alþ, um þetta að undanförnu, og hef ég ekki séð ástæðu til þess að taka upp sérstaka tillögu í þá átt um þetta frv., heldur tel rétt, að það verði afgreitt á sama hátt og aðrar lagaheimildir um sams konar efni.

Landbn. er sammála um að mæla með samþykkt frv. með þeim einu breytingum, sem ég hef hér gert grein fyrir.