02.12.1959
Efri deild: 8. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Í þingsköpum er svo fyrir mælt, að við 1. umr. máls skuli ræða málið í heild, en við 2. umr. skuli fremur ræða einstakar greinar þess, og gefin heimild til að skipta umræðunni í sérstaka kafla, ef málin eru margþætt. Við 1. umr. þessa máls ræddi ég aðeins lítils háttar um þetta frv., eins og það liggur fyrir í heild, en þar sem hér er nú orðið um mjög stórt mál að ræða og margbrotið, verður ekki hjá því komizt nú við þessa umr. að ræða nokkuð um einstakar greinar þess nánar en gert var við 1. umr.

Í 1. gr. þessa frv., a-lið, er ráðgert að innheimta vitagjald með 100% viðauka á árinu 1960. Það munu allir vera sammála um, að framkvæmdir í vitamálum séu mjög nauðsynlegar. Vitarnir eru öryggistæki fyrir skipin, bæði fiskiskipin og millilandaskipin, og þekkjum við næg dæmi þess, að illa getur farið, ef ekki er séð fyrir þessum öryggistækjum. Vitagjaldinu er varið til framkvæmda við vitabyggingar, og í fjárlagafrv. fyrir árið 1960, því sem fyrir liggur og vonandi verður ekki gert ógilt, er gert ráð fyrir því, að vitagjaldið nemi 1 millj. og 700 þús. kr. En til framkvæmda við nýbyggingar vita á að verja nákvæmlega sömu fjárhæð samkv. 20. gr. fjárlagafrv., 1.7 millj. kr.

Ég verð að álíta, að það sé ekki óeðlilegt, að þetta vitagjald sé innheimt sem svipaðri fjárhæð nemur. En ég vil gera fsp. um það til fjhn., sem hefur kynnt sér þetta frv. sérstaklega, hvort það sé ekki svo í lögum, að skemmtiferðaskip greiði lægra vitagjald en önnur skip, og ef þetta er rétt skilið hjá mér, þá finnst mér koma til álita að gera einhverja breytingu á því.

Í c-lið 1. gr. er gert ráð fyrir því að innheimta viðauka við gjöld samkv. 9. kafla laga nr. 68 frá 5. júní 1947, um eftirlit með skipum. Það mun vera miðað við, að sá kostnaður, sem skipaeftirlitið hefur í för með sér, fáist greiddur af þessu gjaldi, svo að ekki þurfi beina fjárveitingu vegna eftirlits með skipum á fjárlögum. Mér finnst, að þetta sé ekki óeðlilegt, en mér finnst, að það komi mjög til álita að breyta því að einhverju leyti, að gjöld samkv. 58. gr. l. séu ekki hækkuð neitt frá því, sem fyrir er mælt í l. frá 1947. En eins og við sjáum á frv., þá eru þau gjöld, sem innheimta á samkvæmt 58. gr. laganna, tekin út úr, og þessi viðauki á ekki að ná til þeirra.

Í d-lið 1. gr. er gert ráð fyrir að innheimta með álagi gjald af innlendum tollvörutegundum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að tekjur ríkissjóðs hafa oft þótt sízt of miklar, og nú er um það rætt, að auka þurfi tekjur sveitarsjóða og bæta stórlega aðstöðu þeirra til innheimtu tekna. Og nú í sambandi við þetta frv. hefur komið fram till. um að greiða hluta af söluskattinum til sveitarsjóðanna.

Við 1. umr. þessa máls hreyfði ég þeirri hugmynd, að tekið yrði í einkasölu ríkinu til handa eitthvað af þeim drykkjarföngum, sem um er rætt í d-lið 1. gr. Ég sé, að fjhn. hefur ekki gert till. til breytinga á frv. í þessa átt, og harma ég það. Eigi að síður tel ég þessa hugmynd mjög koma til álita og athyglisverða, þegar á það er litið, hvað einkasölur ríkisins með t.d. áfengi og tóbak eru traustur tekjustofn fyrir ríkið.

Þá er komið í e-lið 1. gr. inn í þetta frv. ákvæði um að innheimta skemmtanaskatt af kvikmyndasýningum samkvæmt l. nr. 56 frá 31. maí 1927 og af öðrum skemmtunum með 20% álagi. Ég vil taka það fram, að ég kann mjög illa við, að þessi ákvæði um viðauka á skemmtanaskatt skuli vera felld inn í þetta frv. og blandað saman við gersamlega fjarskyld efni, sem áður hafa verið í mörgum frv. En á því er sjálfsagt ekki auðvelt að ráða bót, úr því sem komið er, þar sem svo virðist sem meiri hl. þessarar hv. d. ætli sér að knýja það fram, að þetta frv. nái fram að ganga. En í sambandi við þetta ákvæði um viðauka við skemmtanaskattinn er full ástæða til að rifja það upp, hve framsýnir þeir menn voru, sem settu lögin um skemmtanaskatt og þjóðleikhús 1927. Þá var stigið það skref, að verja skyldi skemmtanaskattinum til byggingar þjóðleikhússins. Á kreppuárunum varð nokkurt hlé á því, að tekjur skemmtanaskattsins rynnu í sjóð þjóðleikhússins, vegna þess, hve fjárhagur ríkisins var þá örðugur. En jafnskjótt og úr rættist, voru lögin frá 1927 látin koma til framkvæmda að nýju, og vegna þess, hve þeir menn, sem beittu sér fyrir þeim l., voru framsýnir og ég vil segja stilltu vel í hóf með þennan tekjustofn, þá njótum við, fyrst og fremst höfuðborgarbúar og raunar meira og minna allir Íslendingar nú þessarar góðu menntastofnunar, þjóðleikhússins.

Það má enn fremur minna á það, hve þarna var vel ratað að meðalhófi, að fyrir þrettán árum kom fram opinberlega till. um það að hækka skemmtanaskattinn að verulegum mun og gera hann að tekjustofni fyrir ríkið sjálft að einhverju leyti. Hv. 11. þm. Reykv. (ÓB) mun sjálfsagt kannast vel við þá tillögu. En þessi till. fékk ekki hljómgrunn hér á hv. Alþingi, heldur hefur verið miðað við það, — stillt svo í hóf álagningu skemmtanaskattsins, — að verja honum til þjóðleikhússins og síðan til félagsheimila og annarrar menningarstarfsemi.

1947 var svo komið, að álitið var, að stofnkostnaður þjóðleikhússins væri að fullu greiddur með því, sem þá var fyrir hendi af tekjum, sem safnazt höfðu af skemmtanaskatti. Þá var sett hin merka löggjöf um félagsheimilin og mikið af skemmtanaskattinum látið renna til stuðnings þeim framkvæmdum, en nokkur hluti skattsins látinn fara í rekstrarsjóð þjóðleikhússins til stuðnings rekstri þess. Þessi merka löggjöf um félagsheimilin hefur orðið lyftistöng undir menningarlif víða úti um byggðir landsins, og ef þessi ráðstöfun hefði ekki átt sér stað á skemmtanaskattinum, þá er vandséð, að félagsheimilin hefði orðið reist svo víða og með svo miklum myndarbrag sem raun hefur orðið á. En því miður kom síðar í ljós, að þær vonir, sem menn gerðu sér 1947 um það, að fyllilega væri séð fyrir þörfum þjóðleikhússins, reyndust ekki að öllu leyti réttar. Og þeir, sem höfðu hug á því að halda uppi hlut félagsheimilanna sem allra bezt, áttu mjög í vök að verjast með það, einkum á árinu 1951, þegar nýjar reglur voru settar um skiptingu skemmtanaskattsins og nokkuð dregið þá úr því framlagi, sem ganga skyldi til félagsheimilanna.

En ég verð að telja, að eitt af þeim góðu verkum, sem vinstri stjórnin vann og stuðningsflokkar hennar hér á hv. Alþingi, hafi verið það að endurskoða ákvæðin um skemmtanaskatt og þjóðleikhús, og þá var gengið þannig frá, að 50% skemmtanaskattsins, að meðtöldum þeim viðauka, sem hér um ræðir, rennur nú í félagsheimilasjóð þeim til stuðnings. Ég verð að fagna því, að svo varð, og vona, að ekki komi til þess, að því hlutfalli verði breytt, a.m.k. á þessu þingi, félagsheimilunum í óhag.

En áður en ég skilst við þetta ákvæði frv., e-lið 1. gr., vil ég beina þeirri fyrirspurn til frsm. fjhn., sem hefur kynnt sér þetta mál allt mjög vel, sem nú er orðið margbrotíð og flókið, hvort það sé ekki rétt skilið, að í viðbót við þetta álag. sem hér um ræðir, sé innheimtur samkv. öðrum lögum 10% viðauki, sem m.a. komi á þetta álag, sem hér um ræðir, og gangi til sérstakra nota.

Þá kem ég að 2. gr.

Það hefur oft verið um það rætt, bæði hér á hv. Alþingi og víðar, þar sem umr. um stjórnmál fara fram, hvað það sé ískyggilegt, að íslenzka krónan, gjaldmiðillinn, fari minnkandi, og það mun vera svo, að ef miðað er við gullgildi, þá stendur krónan mjög lágt. Till. kom fram um það hér á hv. Alþingi fyrir nokkru, að nú væri svo komið um verðgildi peninganna, að það væri full ástæða til þess að fella alveg niður alla fimmeyringa og mynt þar fyrir neðan og nota hana ekki í viðskiptum manna. Þessi till. náði ekki fram að ganga, en mér finnst, að ákvæði 2. gr. þessa frv. séu a.m.k. mjög sanngjörn, þau, að við útreikninga á þessum gjöldum, sem talað er um í 1. gr., skuli broti úr eyri sleppt. Ég er því alveg samþykkur, að ekki sé reiknað nákvæmara en það, að einseyringarnir gildi, og ef hæstv. forseti sér sér það fært að bera 2. gr. upp sérstaklega, þá hef ég mikla tilhneigingu til að greiða atkv. með henni.

Þá kem ég að 3. gr. Ég vakti eftirtekt á því við 1. umr. þessa máls, að ákvæði þessarar gr. grípa mjög inn í lögin um útflutningssjóð. Mér þykir miður farið, að hv. fjhn. hefur ekki séð sér fært að samræma betur en verið hefur ákvæði í þessum tvennum lögum, sem eru í raun og veru sami tekjustofninn, sem rennur að verulegu leyti til sömu þarfa. En ég hef ævinlega verið hlynntur því, að nokkurt framlag yrði látið renna til brúasjóðs. Ég tel, að brúasjóður hafi orðið undirstaða að mjög þörfum og merkilegum framkvæmdum í byggingu stórbrúa og vandséð væri, hvort sum þau mannvirki á þessu sviði væru komin upp og þjóðinni til nota, ef þessi leið hefði ekki verið farin. En þessi liður er einmitt ábending um það, hve þm. átta sig oft miður en skyldi á nýmælum, sem fram eru borin, því að þótt ótrúlegt megi virðast, þá mætti það nokkurri andstöðu hér á hv. Alþingi, þegar — (Forseti: Má ég spyrja hv. þm., hvort hann á mikið eftir af ræðu sinni?) Já, ég á nokkuð eftir. (Forseti: Ætli það sé þá ekki rétt að fresta henni?) Ég get gjarnan gert hlé á ræðunni. — [Fundarhlé.]

Ákvæðin í 3. gr. þessa frv. um ráðstöfun á því innflutningsgjaldi á benzíni, sem þar er ráðgert, minna á það, hve þm. eiga oft erfitt með að átta sig á nýmælum, sem fram eru borin. Reynslan hefur sýnt, að einmitt þessi ráðstöfun, að verja nokkru framlagi af benzínskatti í sérstakan sjóð, brúasjóð, hefur orðið lyftistöng undir byggingu stórbrúa á allmörgum stöðum á landinu, og það er mjög óvíst, svo að vægt sé að orði kveðið, að þjóðin nyti nú þeirra miklu samgöngubóta, sem af því leiðir, ef ekki hefði verið farin sú leið, sem bent er á í þessu frv. Frv. um ráðstöfun á benzínskatti í þessa átt kom fyrst fram 1939, og þá náði það ekki fram að ganga. Það var aftur flutt 1940 og þá fellt. En síðar á því sama ári var þó lögfest að stofna brúasjóð með nokkru framlagi af benzínskatti.

Sem dæmi um það, hve menn eiga oft erfitt með að átta sig á nýmælum og hvað gott muni af þeim leiða, vil ég nefna, hvernig fyrst var tekið undir þetta mál, þegar lagt var til að stofna brúasjóð. Einn hv. þm., sem þá átti sæti í þessari d., í Ed., Sigurjón A. Ólafsson, sagði þá m.a.:

„Ég álít, að mjög orki tvímælis, hvort eigi að ganga inn á þá braut, sem gert er með stofnun brúasjóðs. Brúargerðir hafa á undanförnum árum verið komnar undir ákvörðunum Alþingis, og verður ekki annað séð en Alþingi hafi séð nauðsyn þessara framkvæmda og veitt fé til brúabygginga á ýmsum stöðum í landinu. Þessi krókaleið, sem hér er farin, að mynda sjóð af vissu innflutningsgjaldi, er síðan verði varið til brúasjóðs, er óþörf. Ég held, að treysta mætti Alþingi til þess, að það sæi nauðsyn þessa máls á hverjum tíma og veitti fé til brúabygginga eins og áður. Auk þess tel ég mikið vafamál, hvort rétt sé að auka benzínskattinn. Lítrinn af benzíni kostar nú 49 aura, og við það verður ef til vill ekki staðið nema stuttan tíma, þar sem vænta má, að flutningsgjald á benzíni fari enn hækkandi.“

Og annar hv. þm. tók þá í sama streng með þessum ummælum, með leyfi hæstv. forseta: „Ég vil benda hv. flm. á, að hversu brýn sem þörfin er fyrir brúargerðir, er ekki þar með sagt, að þær megi útiloka margt, sem óumflýjanlegt er að framkvæma, og langt frá því, að aðrir landsmenn, sem minna sakna brúnna, séu búnir að telja fram sínar þarfir. Ég vil beina þeirri spurningu til þeirra, sem nú vilja hækka benzínskattinn í þessum sérstaka tilgangi, hvort þeir séu tilbúnir að hækka ýmsar aðrar álögur til hagsbóta fyrir aðrar hliðstæðar framkvæmdir. Þeir, sem segja, að þingið eigi að leggja á sérstakan benzínskatt til þessa, verða að vera við því búnir að taka undir aðrar svipaðar till. til framdráttar ýmsum nauðsynjamálum.“

Þrátt fyrir þetta, þó að þessari hugsjón um að brúa stórvötnin í landinu með stuðningi af þessu fé væri tekið á þennan hátt, náði frv. um brúasjóð fram að ganga seint á árinu 1940, og ég tel það mikið óhappaspor, eins og raunar fleira í tíð nýsköpunarstjórnarinnar, þegar brúasjóður var sviptur tekjum sínum á árinu 1945. En sem betur fór, stóð sú ráðstöfun ekki lengi, því að í sambandi við stjórnarmyndunarsamninga, sem fóru fram á árinu 1947, beitti Framsfl. sér aftur fyrir því, að framlag í brúasjóð yrði tekið upp, og hefur það staðið síðan. Vona ég, að sú reynsla, sem fengizt hefur af framkvæmdum eftir þessum reglum, hafi fært öllum hv. þm. heim sanninn um, að hér var rétt ráðið.

Þá er gert ráð fyrir því í b-lið 3. gr., að bifreiðaskattur verði innheimtur með nokkru álagi 1960. Samgöngumálin í þessu landi eru mjög kostnaðarsöm og erfið úrlausnar, þar sem þjóðin er tiltölulega fámenn miðað við landstærð og skammt er síðan íslenzka ríkið hafði bolmagn til þess að ráðast í vegagerðir, svo að verulegu næmi. Það eru því mikil verkefni óleyst í samgöngumálum, og má því segja, að ekki sé óeðlilegt, að það gjald sé greitt af hendi, sem gert er ráð fyrir að lagt verði á samkv. b-lið 3. gr.

Bifreiðum fjölgar mjög ört í landinu, og eftirspurnin eftir bifreiðum sýnir það, að sem flestir landsmenn keppa að því að komast yfir þau farartæki. En góðir vegir eru vissulega sparnaður á rekstri bifreiðanna og því ekki óeðlilegt, að á þær sé lagður nokkur skattur, sem fari til stuðnings framkvæmdum í samgöngumálum.

Á síðasta þingi var ríkisstjórninni heimilað að innheimta sérstakt gjald af innfluttum bifreiðum og bifhjólum, og mátti það gjald nema allt að 250% af fob-verði hverrar bifreiðar eða bifhjóls, þegar innflutningsskrifstofan úthlutaði gjaldeyri til kaupanna, en þó mátti það ekki vera yfir 160%, þegar úthlutað væri gjaldeyri til kaupa á bifreiðum fyrir atvinnubifreiðarstjóra og lækna. Gjaldið mátti aftur á móti nema allt að 300% af fob-verðinu, þegar bifreiðin eða bifhjólið væri flutt inn án þess, að gjaldeyri væri úthlutað. Þetta sýnir, að Alþingi leit svo á í fyrra, að hægt væri að ná nokkru fé inn eftir þessari leið. Mér er nú ekki kunnugt um, hve mikill innflutningur á bifreiðum hefur orðið það sem af er þessu ári samkv. þessum ákvæðum, sem sett voru í fyrra, en e.t.v. getur hæstv. fjmrh. eða fjhn. gefið upplýsingar um það. En þetta álit þingsins í fyrra, að auðið væri að ná inn nokkrum tekjum eftir þessari leið, bendir til þess, að það sé í sjálfu sér ekki óeðlilegt að halda áfram að innheimta það gjald, sem ráðgert er í b-lið 3. gr.

Þau ákvæði þessa frv., sem felast í 4. gr. þess, þ.e.a.s. um söluskattinn, eru langsamlega veigamestu ákvæði frv. Ég gerði söluskattinn nokkuð að umtalsefni almennt við 1. umr. þessa máls og skal nú ekki endurtaka það, sem ég drap þá á. En ég tel, að till. sú til breyt. á þessari grein, sem minni hl. fjhn. hefur borið fram, sé fullkomlega réttmæt, og mun styðja hana. Í fyrsta lagi vegna þess, að nú er lögð á það mikil áherzla af hæstv. ríkisstj. og þeim flokkum, sem hana styðja, að fyrir liggi að gera gagngerar ráðstafanir í efnahagsmálum þjóðarinnar síðar á þessu þingi og þær breyt. muni verða svo gagngerar og áhrifaríkar, að það sé jafnvel ekki kleift að fylgja gildandi venju um að ræða fjárlagafrv. nú fyrir þingfrestun. Ef þetta reynist rétt, að síðar á þessu þingi verði gerðar mjög veigamiklar ráðstafanir í fjárhagsmálum, er það alls kostar eðlilegt, að ákvæðin um söluskattinn verði tekin til endurskoðunar í því sambandi, og það á ekki að vera neitt í hættu fyrir hæstv. ríkisstjórn, þó að heimildin til að innheimta söluskatt sé nú miðuð við tvo fyrstu mánuði ársins eins og heimildin til þess að greiða úr ríkissjóði fastar greiðslur, þó að fjárlög ársins 1960 hafi ekki verið sett. En hér kemur fleira til. Ég held, að þó að söluskattinum yrði haldið sem tekjustofni, þurfi að gera ýmsar breytingar á innheimtu hans og ákvæðum löggjafarinnar. Ég held, að í sumum tilvikum orki það mjög tvímælis, hverjir eigi að greiða söluskatt og hverjir ekki, og að jafnvel geti það komið fyrir, að söluskattur leggist tvisvar á sömu vöru. Og í þessu frv. eru beinlínis ákvæði, sem benda í þá átt, að reynslan hafi staðfest þessa skoðun, því að eitt ákvæði frv. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú kaupir innlendur iðnaðarmaður eða framleiðandi eða fær afhenta vöru til framleiðslu sinnar frá öðrum innlendum iðnaðarmanni eða framleiðanda, sem búið hefur vöruna til eða unnið að henni, og í viðskiptum þeirra er söluskatti bætt við verð eða verðmæti vörunnar, og skal þá endurgreiða söluskattinn vegna þessara viðskipta eftir nánari reglum settum af fjmrh. Sama gildir um aðvinnslu á vörum, sem innlendur iðnaðarmaður eða framleiðandi fær annan innlendan iðnaðarmann eða framleiðanda til að gera á framleiðsluvöru sinni.“

Þessi ákvæði eru þannig, að hér er beinlínis gert ráð fyrir eins konar keðjuviðskiptum og það geti orðið mjög flókið í ýmsum tilvikum, hvernig með það skuli fara, jafnvel svo, að til þess geti komið, að endurgreiða þurfi söluskatt, sem áður hefur verið innheimtur. Þetta er eitt meðal annars, sem styður það, að ákvæðin um söluskatt, jafnvel þó að tekjustofninum yrði haldið að meira eða minna leyti, verði öll endurskoðuð síðar á þessu þingi, og eru rök fyrir því, að brtt., sem minni hl. fjhn. ber fram, verði samþykkt.

En það er fleira í sambandi við söluskattinn, sem vert er að íhuga og fyllilega þarf að hafa hliðsjón af, ef gera á breytingar á löggjöfinni í heild. M.a. grípur inn í það, að nú virðist vera nokkur áhugi á því, ekki sízt hjá stuðningsflokkum núv. ríkisstj., að afnema tekjuskattinn með öllu, og á síðasta þingi, — ekki aukaþinginu í sumar, heldur á þingi s.l. vetur, — var samþ. þál. um að láta fara fram athugun á því að fella niður innheimtu á tekjuskatti. Nú er tekjuskatturinn, eins og kunnugt er, allveigamikill gjaldstofn fyrir ríkið, og ef horfið yrði að því ráði, sem mikill áhugi virðist vera fyrir hjá stuðningsflokkum núv. ríkisstj., — því að mig minnir, að það væru þeir, sem stóðu að samþykkt þáltill., — þá hlýtur að koma að því, að ríkið vanti tekjustofn á móti því, sem niður fellur, ef tekjuskatturinn yrði úr lögum numinn. Þá kemur það til álita, hvernig skuli fara að því að bæta ríkinu þennan halla, og inn í þetta grípa vitanlega fjármál sveitarfélaganna, eins og hér hefur verið rætt í umr. um þetta mál. Nú kann mönnum í fyrstu að sýnast auðvelt að bæta ríkinu þann halla, sem af þessu yrði, á þann hátt að hækka eingöngu tolla á miður þörfum varningi. En þess ber að gæta, að þær vörur, sem telja má miður þarfar, eru þegar mjög hátt tollaðar, bæði til þess að standa straum af gjöldum ríkissjóðs og útflutningssjóðs, og ég hygg, að reynslan bendi til þess, að það séu takmörk fyrir því, hvað hægt er að hlaða háum gjöldum á tiltölulega fáa vöruflokka, ef eftirspurn eftir þeim á ekki stórkostlega að minnka. Ég ætla, að slíkt hafi komið fram, t.d. á meðan bátagjaldeyriskerfið var í gildi, að þá var farinn að myndast hali, sem kallað er á óvönduðu máli, þannig að eftirspurnin ætlaði ekki að svara til þess, sem álagið þurfti að nema. Það er mjög hætt við því, að ef ætti að bæta ríkissjóði þann halla, sem af þessu yrði, eftir þeirri leið, þá mundi eftirspurnin eftir þessum hátollavörum minnka, svo að það bætti ekki ríkissjóði nægilega upp tekjuskerðingu, sem af niðurfellingu tekjuskattsins leiddi.

Þá kemur það til álita, til hvaða ráða ætti að grípa. Ef mjög hár tollur yrði lagður á nauðsynjavörur erlendis frá og t.d. iðnaðarvörur fluttar frá útlöndum, þá sýnist mér, að á því kynnu að verða nokkrir annmarkar. Það gætu í sumum tilfellum orðið eins konar verndartollar fyrir framleiðslu hér innanlands, sem ekki væri þjóðhagslega hagkvæmt að draga vinnuafl þjóðarinnar að, því að eins og kunnugt er, hefur undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar, sjávarútvegurinn, átt að undanförnu við mikinn skort á vinnuafli að búa. En það er sá atvinnuvegur, sem framleiðir mestan gjaldeyri eða aflar mests gjaldeyris þjóðarbúinu til handa. Ef ætti aftur á móti að forðast það, að þessi tollaálagning verkaði sem verndartollar fyrir ýmsar starfsgreinar, sem óhagkvæmt væri þjóðhagslega séð að efla, finnst mér þetta mál allt grípa inn í það, hvort ekki þurfi að breyta jafnhliða að meira eða minna leyti ákvæðunum um söluskattinn, að breytingar á löggjöf um söluskatt komi til athugunar í samræmi við öll þessi skattamál í heild. Þetta er enn ein röksemd fyrir því, að það sé eðlilegt, eins og minni hl. fjhn. leggur til, að takmarka nú heimildina til innheimtu á söluskatti við tvo fyrstu mánuði ársins, en allt þetta mál verði tekið til nánari endurskoðunar síðar á þessu þingi.

Þá vil ég leyfa mér að fara örfáum orðum um 5. gr. þessa frv. Þessi grein er um innheimtu á vörumagnstolli og verðtollsviðauka, og síðustu liðir greinarinnar eru um heimildir til þess að fella þessa tollaviðauka niður á einstökum vörutegundum. Hér er gert ráð fyrir því í b-lið, rómverskum II, að undanþegnar tollahækkun þeirri, sem í greininni ræðir um, skuli vera m.a. kaffi, óbrennt eða brennt og malað. Það vekur eftirtekt, að hér er ekki minnzt á te, og ég vil nú beina því til fjhn„ sem hefur athugað frv. mjög vel, hvort það falli undir þessi ákvæði. Ég hygg, í alvöru talað, að það sé ekki, og mér finnst ósamræmt í því, og svo mun hafa verið undanfarið. Vegna þess að ýmsir neyta tes og hafa það algerlega í stað kaffis, þá er eðlilegt, að þarna sé ekki gert upp á milli. Ég hygg líka, að kaflinn, þar sem talað er um mjöl og grjón, nái ekki til allra matvæla, þar sé gert upp á milli, t.d. að sagógrjón og kartöflumjöl falli ekki undir þessi ákvæði. Þetta er bara ábending til hv. n., sem um þetta hefur fjallað, að mér finnst eðlilegt, að þarna sé nokkurt samræmi á milli.

Enn fremur vil ég spyrja hv. fjhn., sem hefur athugað vel þetta flókna frv., hvort í nr. 27,14, steinolía, sé gerður munur á óhreinsaðri steinolíu og hreinsaðri. Ef svo er, þá finnst mér ástæða til, að það sé tekið til athugunar. Mér hefur ekki verið sýnt fram á það með rökum. hvaða ástæða er til þess að gera þar upp á milli.

Loks vil ég benda á það, að mér sýnist, að þessar heimildir, sem veittar eru í þessart grein, séu tvíþættar, það séu tvenns konar heimildir veittar gagnvart sömu vöru. Mér virðist það vera rétt skilið hjá mér, og ef svo er ekki, þá óska ég eftir leiðréttingu á því síðar af hálfu hv. fjhn.

Í rómverskum II segir fyrst, að undanþegnir tollahækkun þeirri, er getur í b-lið A-liðar og B-lið í I. tölulið þessarar greinar, sé fyrst tollskrárkafli 9, nr.l-2, og tollskrárkafli 10, nr. 1—7, tollskrárkafli 11, nr. 1-12, og tollskrárkafli 17, nr. 1-6. Ég fæ ekki betur séð, þegar ég les aftur liðinn rómverska III, en þar sé vitnað í nákvæmlega sömu tollskrárkafla. Ég óska eftir skýringu á þessu síðar, ef þetta er misskilningur, að hér eigi að veita tvenns konar heimildir um niðurfellingu tolla á sömu vörum. Þetta verður væntanlega skýrt síðar af hv. fjhn.

En að lokum er það aðeins eitt atriði þessa frv., sem ég vil benda á og vænti þess, að milli umræðna taki fjhn. það til athugunar. Ákvæðin um undanþágu frá þessum tollum eða heimild til hennar, m.a. á kaffi, eru vitanlega miðuð við það að gera þessa neyzluvöru almennings ódýrari en ella, og það má segja, að með því sé stefnt í rétta átt. En þetta vekur meiri eftirtekt, þegar búið er að steypa öllum þessum málum saman í eina heild, að í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir álagi á kaffibæti. Nú sýnist mér, að ákvæði 1. gr. um álag á kaffibæti dragi mjög úr áhrifum ákvæða 5. gr. um niðurfellingu tolla af kaffi, þetta blandast saman og verður ein og sama varan, þegar hún kemur til neytandans.

Og að allra síðustu þetta: Íslenzka þjóðin hefur verið gædd ríkri skáldskapargáfu, og hér í þessari hv. d. eru menn gæddir sterkri skáldæð. Hér var líka við umræður talað mjög í skáldlegum líkingum um þessi mál, m.a. um fimmbura, og einn hv. ræðumanna komst þannig að orði, að nú væru öll börnin fimm komin í einu og sömu vögguna. Ég held, að það sé afar mikill vandi og eiginlega mikil list, sem stuðningsmenn hv. ríkisstj. þurfa að iðka, að gæta þess, að þessi fóstur, sem nú eru öll komin í einu og sömu vögguna, meiði ekki hvert annað. Og í því sambandi vil ég sérstaklega beina því til fjhn., að hún aðgæti gaumgæfilega þetta ósamræmi á milli kaffisins og kaffibætisins í frv., að önnur varan verði ekki fyrir óþarfahnjaski gagnvart hinni.