05.05.1960
Efri deild: 70. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3073 í B-deild Alþingistíðinda. (1279)

72. mál, ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár til vinnuheimila

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem er þingmannafrv. komið frá hv. Nd., er um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila og hefur þá eina breyt. í för með sér frá gildandi lagaákvæðum, að ráðh. er heimilað að fengnum till. Tryggingastofnunar ríkisins að veita lán úr erfðafjársjóði til byggingar elliheimila, en þó því aðeins, að efnahagur sjóðsins leyfi. Það má að sjálfsögðu segja, að það geti orðið deiluefni eða álitamál, hvenær eða hvort fjárhagur sjóðsins leyfi slíkar lánveitingar, ef svo ber undir, en að sjálfsögðu yrði það ráðh. og Tryggingastofnun ríkisins, sem fengju það verkefni að skera þar úr.

Erfðafjársjóður var stofnaður með l. nr. 12 1952. Allur erfðafjárskattur rennur í þennan sjóð og enn fremur erfðafé, þar sem ekki er um að ræða lögerfingja eða erfingja skv. erfðaskrá.

Fé þessa sjóðs á skv. gildandi l. að verja til lána og styrkveitinga til að koma upp vinnuheimilum, vinnustofum og vinnutækjum fyrir öryrkja og gamalmenni í því skyni, að starfsgeta þeirra komi að sem fyllstum notum. Félmrh. ráðstafar fé sjóðsins í þessu skyni, að fengnum till. Tryggingastofnunar ríkisins.

Fjárhagur sjóðsins er nú þannig, að eignir hans nema ca. 6 millj. kr. Lán og styrkir úr sjóðnum hafa verið veitt nokkuð á aðra millj. kr.

Eins og ég sagði áðan, er tilgangur sjóðsins sá að styrkja stofnun vinnuheimila fyrir öryrkja og gamalmenni. En frv. það, sem hér er á dagskrá, gerir ráð fyrir, að starfssvið sjóðsins verði nokkuð rýmkað með því að opna möguleika til lánveitinga til elliheimila. Ef frv. verður að l., má ætla, að lán til slíkra elliheimilisbygginga verði bundin því skilyrði, að fullnægjandi vinnustofur verði í sambandi við elliheimili þau, sem lán fengju úr sjóðnum.

Heilbr.- og félmn. hefur haft frv. þetta til athugunar, og nm. eru sammála um að leggja til, að það verði samþ. óbreytt.