04.04.1960
Efri deild: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3076 í B-deild Alþingistíðinda. (1286)

49. mál, eignarnámsheimild fyrir Húsavíkurkaupstað á Preststúni

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað frv. þetta um eignarnámsheimild fyrir Húsavíkurkaupstað á svokölluðu Preststúni í Húsavíkurlandi. N. sendi frv. ásamt fram kominni brtt. á þskj. 105 til umsagnar dóms- og kirkjumrn. og til umsagnar biskupsins yfir Íslandi. Frá rn. barst engin umsögn, og er eftir því var gengið, voru gefin þau svör, að rn. mundi ekki láta umsögn í té á næstunni og óvíst væri yfirleitt, hvort það sendi nokkra umsögn. Að svo komnu taldi allshn. ekki lengur ástæðu til að bíða eftir rn. með afgreiðslu málsins.

Frá biskupi barst hins vegar umsögn strax. Er niðurstaða hennar á þá leið að mæla með samþykkt frv. með því skilyrði, að fram komin brtt. þess efnis, að andvirði túnsins verði óskilorðsbundin eign Húsavíkurkirkju, verði samþ.

Frv. þetta um eignarnámsheimild á Preststúni er flutt eftir tilmælum bæjarstjórans á Húsavík að undangenginni samþykkt bæjarstjórnar. Er fyrirhugað að taka túnið undir byggingarlóðir og reisa þar m.a. íþróttamannvirki. Er því brýn nauðsyn fyrir Húsavíkurkaupstað að eignast þetta land. Samþykkt frv. yrði ekki annað en ítrekun á þeirri margyfirlýstu stefnu löggjafarvaldsins, að eðlilegt sé, að kauptún og kaupstaðir eigi sjálfir lóðir og lendur innan síns lögsagnarumdæmis. Allshn. hefur því í nál. á þskj. 265 einróma lagt til, að frv. verði samþ. N. hefur á hinn bóginn ekki tekið afstöðu til brtt. um, að andvirði túnsins verði óskilorðsbundin eign Húsavíkurkirkju, en þó hygg ég, að meiri hl. nm. sé þeirri till. fylgjandi.