02.12.1959
Efri deild: 8. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umræður. Það eru aðeins nokkur orð út af þeim tilmælum, sem hv. 9. þm. Reykv. (AGl) bar hér fram til forseta um það, að fjhn. d. fengi tækifæri til þess að athuga brtt. hans á þskj. 48. Eins og komið hefur hér fram í umr., er þessi brtt. nálega alveg shlj. frv. til l. um hluta sveitarfélaga af söluskatti, sem núv. hæstv. fjmrh. hefur flutt a.m.k. þrisvar sinnum hér á Alþingi. Ég held, að í öll þessi skipti hafi þetta frv. hlotið fullkomlega þinglega afgreiðslu, og ég fæ ekki séð, hverju það á að sæta, að þetta sama frv., þó að það sé flutt hér sem brtt., fái nú ekki svipaða þinglega meðferð og frv. núv. hæstv. fjmrh, hefur fengið á undanförnum árum. Ég kalla það að böðlast á þingsköpum og þingvenjum. ef okkur, sem skipum fjhn., er meinað að fjalla um þessa till. og skila um hana áliti.

Ég fagna því, að hæstv. forseti þykist einn hafa ákveðið það, að þessum málum skuli ýtt í gegnum d. hér í nótt, án þess að venjulegum þingvenjum sé fylgt um meðferð mála, því að þá hlýtur það líka að vera á hans valdi og hans valdi eins að breyta þeirri ákvörðun, og ég ber enn svo mikið traust til þessa hæstv. forseta, þó að ýmsu hafi verið ábótavant við hans stjórn hér í d., það sem af er, að hann sé ekki fráhverfur því, að hv. d. og þær n., sem d. skipar, fái að fjalla um mál á sama hátt og venja hefur verið og reyndar er skylt eftir öllum réttum reglum.

Ég bendi á það, að það getur verið dálítið varhugavert að snúa öllum venjulegum réttarvenjum, hvort sem er í meðferð mála á Alþingi eða annars staðar, við, eftir því hverjir það eru, sem hafa völdin hverju sinni. En ég sé ekki betur en svo sé að farið, ef ekki verður orðið við þessum sjálfsögóu og réttmætu tilmælum hv. 9. þm. Reykv.