26.04.1960
Efri deild: 65. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3082 í B-deild Alþingistíðinda. (1312)

52. mál, sjúkrahúsalög

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. heilbr.- og félmn. fyrir þá leiðréttingu, sem hún leggur til að gerð verði varðandi rekstrarstyrk til þeirra sjúkrahúsa, sem talizt geta hliðstæð við fjórðungssjúkrahús. N. hefur talið eðlilegra að afgr. málið með almennari ákvæðum en lagt var til í frv. og hef ég ekkert við það að athuga, svo langt sem það nær. Hins vegar tel ég mjög nauðsynlegt, að ákvæði varðandi byggingarstyrkinn verði einnig hin sömu og um fjórðungssjúkrahúsin. Við flm. frv. munum því við 3. umr. áskilja okkur rétt til þess að leggja fram brtt., sem felur það í sér, að þau sjúkrahús, sem hliðstæð geta talizt við fjórðungssjúkrahúsin, fái sama byggingarstyrk, en það eru þau sjúkrahús, sem segir um í brtt., með leyfi hæstv. forseta, eins og hér stendur í nál.:

„Sé slíkt sjúkrahús sérstaklega vel búið tækjum til sjúkdómsgreiningar og meðferðar og hafi fastráðna eða ákveðið að ráða til starfa nægilega marga lækna til þess að leysa af hendi þau störf, sem eru við hæfi þess, þó ekki færri en 3. getur ráðh. veitt því viðurkenningu til þess að njóta sama rekstrarstyrks og fjórðungssjúkrahús.“

Þessu ákvæði tel ég eðlilegt að verði breytt þannig, að heimild ráðh. nái til þess að veita slíku sjúkrahúsi bæði byggingar- og rekstrarstyrk.