13.05.1960
Neðri deild: 81. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3085 í B-deild Alþingistíðinda. (1324)

52. mál, sjúkrahúsalög

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Eins og þetta frv. var upprunalega flutt í hv. Ed., var lagt til, að ráðh. veittist heimild til þess að viðurkenna til viðbótar því, sem núgildandi sjúkrahúsalög viðurkenna, eitt fjórðungssjúkrahús á Vesturlandi. Var þá sérstaklega átt við sjúkrahúsið á Akranesi, sem rekið er af Akraneskaupstað. Vitnuðu flm. til þess, að það sjúkrahús nyti mikils trausts hjá almenningi, hefði á að skipa úrvalslæknum og hjúkrunarfólki og aðsókn þangað væri mikil úr öllum byggðum Vesturlands. Hins vegar væri rekstrarafkoma þess hin bágasta og væri því eðlilegt, þegar tillit væri til þess tekið, hversu víðtæka þjónustu það veitti og það tæki á móti sjúklingum af stóru svæði, að það yrði viðurkennt sem fjórðungssjúkrahús og nyti þess styrks úr ríkissjóði, sem slíkum sjúkrahúsum er ákveðinn lögum samkvæmt.

Hv. Ed. vildi ekki fallast á þá meginbrtt. þessa frv. að gera sjúkrahúsið á Akranesi að fjórðungssjúkrahúsi. Hins vegar breytti hv. heilbr.- og félmn, og hv. Ed. frv. þannig, að sé sjúkrahús sérstaklega vel búið tækjum til sjúkdómsgreiningar og meðferðar og hafi fastráðið eða ákveðið að ráða til starfa nægilega marga lækna til þess að leysa af hendi þau störf, sem eru við hæfi þess, þó ekki færri en þrjá, þá geti ráðh. veitt því viðurkenningu til þess að njóta sama rekstrarstyrks og fjórðungssjúkrahús. Hv. Ed. hafnaði sem sagt þeirri ósk, að sjúkrahúsið yrði gert að fjórðungssjúkrahúsi, en lagði hins vegar til, að það nyti sama rekstrarstyrks og fjórðungssjúkrahús njóta, eða breytti lögunum þannig, að talið er, að Akranessjúkrahúsið, sem er sérstaklega vel búið tækjum, komist undir lögin og njóti sama styrks og fjórðungssjúkrahús, eftir að þessi breyting hefði verið lögfest.

Eins og kunnugt er, njóta sjúkrahús nú styrkja í þrem flokkum samkvæmt lögunum frá 1953: 1) Almenn sjúkrahús bæjar-, sýslu- og hreppsfélaga svo og einkasjúkrahús, sem áður hafa notið dagstyrkja úr ríkissjóði, þau fá 10 kr. á legudag. 2) Sjúkrahús bæjar-, sýslu- eða hreppsfélaga, sem að dómi landlæknis er vel búið tækjum og hefur a.m.k. tvo fastráðna lækna, yfirlækni og einn aðstoðarlækni, 15 kr. á legudag. 3) Fjórðungssjúkrahús 25 kr. á legudag.

Heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. vildi fallast á frv., eins og það kom frá hv. Ed., þ.e.a.s. að sjúkrahús eins og segir í 2. lið 1. gr. frv. fái sama styrk og fjórðungssjúkrahús. Ég hygg, að frv. í þessari mynd sé talið fullnægjandi fyrir hv. flm., sem að frv, upprunalega stóðu, og fyrir það sjúkrahús, sem stefnt er að því að veita aukinn styrk.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál. Einstakir nm. innan hv. heilbr.- og félmn. áskildu sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma við frv., en n. í heild mælti þó með samþykkt þess í meginatriðum.