26.04.1960
Efri deild: 65. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3089 í B-deild Alþingistíðinda. (1332)

53. mál, lögheimili

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég tel viðeigandi að byrja á því að segja ágrip af sögu þessa frv. Ég gerði það að vísu að nokkru leyti við 1. umr. hér í þessari hv. d., en vil þó gera það nánar, enda hefur sagan ofur lítið lengzt.

Heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. flutti frv. þetta á síðasta reglulega Alþ. og gerði það samkv. beiðni þáv. hæstv. félmrh. N. athugaði þá frv. mjög vandlega og gerði á því nokkrar breyt., áður en hún lagði það fram. Stjórnskipuð n. hafði samið frv. Sú nefnd var á sínum tíma skipuð vegna áskorunar frá þessari hv. d. Breyt. þær, sem heilbr.- og félmn. gerði á frv., gerði hún í samráði við höfunda frv. eða fulltrúa nefndarinnar. Frv. var afgreitt til hv. Nd. í fyrra, en þar dagaði það uppi í heilbr.- og félmn.

Eftir áramótin í vetur fór hæstv. núv. félmrh. þess á leit við heilbr.- og félmn. Ed., að hún tæki frv. á ný til flutnings, og n. féllst á að gera það. Nm. höfðu þann fyrirvara á, að þeir töldu sig óbundna og hafa rétt til að flytja brtt. við frv. eða fylgja brtt., ef fram kæmu. Málið var tekið fyrir til 1. umr. hér í d. 9. febr. og afgr. til 2. umr. með shlj. atkv.

Heilbr.- og félmn. taldi sér skylt að hafa frv. til athugunar milli 1. og 2. umr., og hún sendi það lagadeild háskólans til umsagnar, enda hafði við 1. umr. verið gert ráð fyrir því, að það yrði gert. Í fyrra hafði frv. verið sent þremur aðilum til umsagnar: stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, Lögmannafélagi Íslands og lagadeild háskólans. Stjórn sveitarfélagasambandsins mælti með frv., Lögmannafélagið eða stjórn þess gerði við það eina ákveðna brtt., en mælti að öðru leyti með því. Brtt. var tekin til greina, og er hún komin inn í frv., eins og það liggur hér fyrir. Lagadeildin svaraði engu í fyrra, en einn af prófessorum hennar ráðlagði nefndarmanni í heilbr.- og félmn. Nd. að stuðla að því, að málinu yrði frestað, og þess vegna — einmitt þess vegna — dagaði það uppi í Nd. Nú var málið aftur sent lagadeildinni, eins og ég sagði, og beðið eftir svari hennar, þar til það kom um páskana. Áður en ég lýk máli mínu, mun ég lesa upp umsögn lagadeildarinnar, en fyrst vil ég fara nokkrum orðum um frv.

Gildandi lög um heimilisfang eru frá 1936. Þau eru í mörgum atriðum úrelt orðin, eins og geta má nærri, og hreint og beint ónothæf til þeirrar viðmiðunar, sem þau þurfa að vera fyrir aðra löggjöf í landinu. Síðan þau voru sett, hefur líf í landinu tekið miklum breyt., sem áhrif hafa á dvalir manna og sókn til atvinnu, skyldur og réttindi. Þessar breytingar yfirleitt auka þörfina fyrir glögg og skýr ákvæði um lögheimili. Einstaklingurinn þarfnast þess, að til séu glögg og skýr ákvæði um lögheimili, og þjóðfélagið þarfnast þess líka. Til þess að annast skráningu hvers manns á réttum stað árlega og finna honum rétt heimilisfang var sett á stofn starfsemi, sem hlaut nafnið þjóðskrá. Sú stofnun vinnur samkv. sérstökum lögum að almannaskráningu. Hún hefur orðið til stórra bóta. En til þess að þjóðskráin geti notið sín sem skyldi, vantar nýja löggjöf um heimilisfang. Þetta frv. er samið til þess að ráða, svo sem unnt er, bót á þeirri vöntun. Það á, ef að lögum verður, að tryggja, að hægt sé að ganga að því vísu, hvar hver maður á lögheimili.

Frv. er byggt upp beinlínis til þess að vera grundvöllur allrar annarrar lagasetningar, sem miða þarf ákvæði sín við lög um lögheimili. En það kemur á engan hátt í staðinn fyrir aðra löggjöf og grípur ekki inn í hana á neinn hátt um önnur efni. N., sem samdi frv., hafði þetta sjónarmið, og hagstofustjórinn vann sem fulltrúi þjóðskrárinnar að samningu frv. með n. til þess að sníða það m.a. eftir þörfum þjóðskrárinnar. Það má þess vegna ekki líta á frv. eins og það væri eingöngu gert til þess að ákveða, hvar menn eiga að greiða gjöld til sveitarfélaga, heldur til að ákvarða, hvar lögheimili manns er, vegna alls þess, er við lögheimili er miðað í löggjöf landsins.

1. gr. frv. slær því föstu, að enginn maður geti átt nema eitt lögheimili í senn. Það er höfuðbreyting frá því, sem nú er og hefur verið. Eins og er, geta menn átt lögheimili á tveim eða fleiri stöðum. Veldur það oft margháttuðum vafa um skyldur og réttindi á hverjum stað, og virðist einsætt, að það sé algerlega ófært að heimila mönnum að eiga lögheimili á fleiri en einum stað.

2. gr. ákveður, að þar sé lögheimili manns, sem hann á heimili. Og í þeirri grein er skilgreint, hvað sé heimili, og ekki heimili, þótt dvalarstaður sé, m.ö.o. menn geta átt heimili á fleiri en einum stað, en lögheimili er aldrei nema eitt.

3. gr. gerir einmitt ráð fyrir því, að maður geti átt heimili á fleiri en einum stað samtímis og hvernig þá skuli greint á milli heimilis og lögheimilis.

4.–6. gr. eru til ákvörðunar um, hvar þeir menn skuli hafa lögheimili, sem hvergi hafa aðsetur, sem talizt geti heimili.

Í 7. gr. eru sérreglur um hjón, sem búa ekki stöðugt saman. Í 8. gr. eru sérreglur um börn innan 16 ára. Í 9. gr. eru sérreglur um fólk, sem er innan 21 árs. Í 10. gr. sérreglur um fólk, sem dvelst erlendis. Í 11. gr. sérreglur um alþm. og aðra, sem gegna tímabundnum trúnaðarstörfum, svo sem nefndastörfum í þágu ríkisins.

Í 12. gr. eru ákvæði um tilkynningar, þegar skipt er um lögheimili. Í 13. gr. fyrirmæli um skyldur þjóðskrárinnar til að semja íbúaskrár, miðaðar við lögheimili og byggðar á l. um lögheimili.

Í 14. gr. er ákveðið, að leita megi úrskurðar dómara, um hvar lögheimili manns sé, ef ágreiningur er um það. Fyrst og fremst getur þjóðskráin leitað úrskurðar aðila, aðilar sjálfir einnig og svo sveitarstjórnir. Þessum úrskurðum, sem þannig fást með undirdómum, má áfrýja til hæstaréttar.

15. gr. mælir svo fyrir um, að lögin frá 1936, þ.e.a.s. lögin um heimilisfang, sem nú gilda, falli úr gildi.

Enginn vafi er á því, að hér er um að ræða mjög þýðingarmikla lagasetningu. Mér virðist frv. skipulega samið og fastmótuð þar sú stefna þess, að menn eigi fyrst og fremst að hafa frjálst val til að velja sér lögheimili, en þó ekki svo frjálst, að þeir megi eða geti haft lögheimili sitt einhvers staðar og einhvers staðar að yfirvarpi eftir geðþótta, án þess að tilteknum takmörkuðum skilyrðum sé fullnægt.

Í frv. er gert ráð fyrir mörgum tilbrigðum að því er snertir heimili og heimilisleysi, atvinnu og aðrar ástæður til dvalar. Vafalaust verða þó tilbrigðin fleiri, löggjöfin getur aldrei orðið tæmandi um þess háttar. Og þess vegna er líka í frv. gert ráð fyrir úrskurðum þjóðskrár í smærri atriðum, sem þarf þó ekki að hlíta, nema rétt þyki, úrskurðum dómara, allt upp til hæstaréttar, eins og ég sagði áðan. Ég held því, að sæmilega sé séð fyrir réttaröryggi um alla sannanamöguleika.

Ég sagði frá því áðan, að heilbr.- og félmn. sendi lagadeild háskólans frv. til umsagnar, og nú vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa umsögn lagadeildarinnar. Frv. var sent strax að lokinni 1. umr., 9. febr. Umsögnin er dags. 12. þm., en barst ekki til heilbr.- og félmn. fyrr en 18. þ.m. eða á annan í páskum. Erindi lagadeildarinnar er svo hljóðandi:

„Um frv. til l. um lögheimili, þskj. nr. 60, 53. mál Ed. 1959–1960.

Heilbr.- og félmn. Alþ. hefur óskað álits laga- og viðskiptadeildar háskólans um ofangreint frv. Málið er flókið og vandasamt, og getur álit það, sem hér fer á eftir, aðeins orðið fremur lauslegt og almenns eðlis.

Deildin telur, að frv. sé að ýmsu leyti til bóta og lofsverðan þann tilgang þess að skapa skýrar reglur um heimilisfang. Það virðist og hafa tekizt allvel, eftir því sem efni standa til. Deildin vill hins vegar benda á, að af skiljanlegum ástæðum eru fjölmörg atriði óleyst eða svo óákveðin, að mjög hlýtur að koma til kasta dómstóla, þótt frv. yrði að lögum. Dæmi:

1. gr.: „ætlar að dveljast“, „stunda atvinnu“. — Þessi orð eru tekin til ábendingar um það, að ekki sé orðað þannig, að óumdeilanlegt hljóti að verða.

2. gr.: „dvelst eingöngu eða aðallega til lækninga eða heilsubótar“. Sama er um dvalarstað vegna árstíðarbundinnar atvinnu o.s.frv.

3. gr.: Eins og áður verða sönnunarefni í sambandi við tímamörkin, sem tilgreind eru, og teknahlutfallið erfið.

4. gr.: Sjá aths. við 3. gr. — Það eru endurtekningar á því sama.

6. gr.: Sjá aths. við 3. gr. — Það eru sömu orðasambönd.

7. gr.: Ákvæðið um, að þjóðskráin skuli skera úr um heimilisfang hjóna, má e.t.v. skilja á þá leið, að 1. mgr. 14. gr. komi þá ekki til. Er það varhugavert. Sönnunarvandkvæði geta einnig risið í sambandi við 2. mgr.

8. gr.: Hér geta risið ýmis vandamál, auk sönnunaratriða, sem dómstólar hljóta að leysa. Heimilisfesti barna fer eftir því, hver foreldraráðin hefur, en ekki eftir því, hvar barnið á heima í raun og veru. Vafasamt má telja, hvort rétt sé, að „fósturforeldrar“ séu þeir einir taldir, sem enga meðgjöf þiggja. Auk þess verður hugtakið „fósturforeldrar og fósturbörn“ ekki öllu ákveðnara en er.

9. gr.: Hér rísa mörg vafamál, sem meta verður og dómstólar hljóta að fást við, þótt frv. verði að lögum. Dæmi: „dvalizt“, „stunda nám“.

10. gr.: Sjá aths. við 3., 9. o. fl. greinar.

11. gr.: „tímabundið trúnaðarstarf“.

12. gr.: Spurning er, hvort 2. mgr. er ekki óþörf og e.t.v. villandi.

14. gr.: Viðkunnanlegra orðalag „þjóðskrárritari“. Spurning er, hvort aðildin er ekki of þröng. Fleiri aðilar af hálfu ríkisvaldsins en þjóðskráin koma til greina, t.d. skattayfirvöld. Athuga þarf og aðild fleiri einstaklinga en aðila sjálfs, t.d. foreldra í vissum tilfellum, sbr. 8. gr.

3. mgr. er mjög óljós. Talað er um úrslit einkamáls. Væntanlega er átt við einkamál í héraði. Úrslit þess geta, eins og kunnugt er, orðið á ýmsan veg, mál dæmt að efni til, það hafið, aldrei þingfest, eða vísað frá. Hér mun sennilega vera átt við, að máli sé áfrýjað, eða gæti orðið frávísað. Skv. orðanna hljóðan væri þá talsverður hluti formmeðferðar einkamála dreginn undan hinum almennu einkamáladómstólum og undir sakadóm. Þetta er varhugavert. Ef til vill er hugsunin sú, að krefjast megi rannsóknar á heimilisfangi fyrir sakadómi, eftir að einkamál er höfðað, en ákvörðun um heimilisfangið verði síðan tekin í einkamálinu sjálfu, þ.e. að sakadómur afli gagna um heimilisfangið, eða þá að kveðið sé á um varnarþing í sakadómi, áður en einkamál er höfðað. Það fær þó varla samrýmzt orðunum.

15. gr.: Það er auðvitað sjálfsagt, að lög nr. 95 frá 23/6 1936 verði felld úr gildi, ef frv. verður að lögum. En hvað er þá um ýmis sérákvæði í gildandi l., er fjalla um heimilisfang beint eða óbeint? Sennilega er hugmyndin sú, að þau falli úr gildi flest a.m.k., t.d. 8. gr. 3. málsgr. útsvarslaganna, nr. 66 1955, sbr. og það, sem segir um framfærslulögin í aths. við 2. málsgr. Hér hljóta þó að rísa mörg flókin lögskýringaratriði.

Hér hafa verið nefnd nokkur dæmi þess, að reglur frv. eru á ýmsum sviðum mjög sveigjanlegar og matskenndar, enda verður aldrei hjá því komizt. Er því ljóst, að sá tilgangur frv. að skapa skýrari og fastari reglur en verið hafa næst aðeins að takmörkuðu leyti, og kann þá ávinningurinn að verða vafasamur. Þá er og þess að gæta, að l. ná ekki til félaga eða stofnana. Þrátt fyrir þetta verður þó að telja samþykkt frv. til bóta að ýmsu leyti.

Einn fyrirvara verður þó að gera. Setning almennra laga um heimilisföng kemur svo víða við og snertir svo ólík svið, að mjög er vafasamt, hvort heildarreglur hæfa. Hér að framan hafa verið nefnd dæmi og mörg fleiri mætti telja. Á sviði réttarfars má t.d. nefna, að þótt skráð heimilisföng eigi að vera marklaus á sviði gjaldskyldu og kosningarréttar, ef heimili er annars staðar í raun og veru, þá má telja eðlilegt, að skráð heimilisfang sé talið rétt varnarþing í dómsmálum. Yfirsýn um það, hver áhrif almennar lögfestar reglur um heimilisfang kunna að hafa á ýmsum sviðum þjóðlífsins og réttarins, skortir alveg. Hún fæst aðeins við mjög ýtarlega og umfangsmikla rannsókn, sem ekki virðist hafa farið fram.

Deildin telur því frv. of víðtækt og varar við því, að það verði samþ. óbreytt. Telur hún, að það ætti að einskorða við heimilisfang á sviði sveitarstjórnarmála. Til greina kæmi og að lögfesta það á sviði gjaldskyldu, en það þarf nánari athugunar. Hennar mundi og vera þörf, ef frv. ætti að ná til heimilisfangs á sviði kosninga, annarra en til sveitarstjórna.“

Þannig hljóðar þetta erindi, sem heilbr.- og félmn. barst frá lagadeild háskólans.

Ég vil í stuttu máli minnast á þessar aths. Ég vil fyrst undirstrika það, sem sagt er hér, að „deildin telur, að frv. sé að ýmsu leyti til bóta og lofsverðan þann tilgang þess að skapa skýrar reglur um heimilisfang. Það virðist og hafa tekizt allvel, eftir því sem efni standa til“. Þessi yfirlýsing er fullkomlega jákvæð fyrir frv. En svo koma aðfinnslur. Það er bent á, að þó að frv. verði að lögum, geti það ekki komið í veg fyrir, að úrskurða þurfi við um ýmis atriði. Og hér eru nefnd orðasambönd eins og „ætlar að dveljast“, „stunda atvinnu“, en einmitt þetta orðalag er tekið upp úr gildandi l., hefur fengið þar hefð og virðist eiga hana allfasta. Og það er sjálfsagt algerlega óvinnandi verk, eins og líka kemur fram í umsögninni, að skilgreina í hverju tilfelli svo nákvæmlega öll þau tilbrigði, sem fyrir kunna að koma, að ekki geti einhver ágreiningur risið, eitthvað verið óákveðið og umdeilanlegt og þurfi að leita úrskurðar um, enda er gengið út frá því í frv., að það sé gert. En með frv. er áreiðanlega mjög mikið fækkað þeim atriðum, sem eru nú mest deiluefni og valda mestum vandræðum í þjóðfélaginu, að því er snertir ákvörðun um heimilisfang. Hér er líka minnzt á það: „dvelst eingöngu eða aðallega til lækninga eða heilsubótar“. Nákvæmlega þetta orðalag er í l. um framfærslu, þ.e. framfærslulögunum. Sama er um dvalarstað vegna árstíðabundinnar atvinnu. Þar er miðað við 3. gr. Ef menn vilja lesa yfir 3. gr., þá eru þar fram teknar ástæður, nefndar sem dæmi um það, hvað er árstíðabundinn dvalarstaður í því sambandi, og verður, held ég, varla nær komizt, þegar á að undanþiggja vissar dvalir frá, að þær verði til heimilisfestu.

Þá er sagt hér um 7. gr.: „Ákvæðin um, að þjóðskráin skuli skera úr um heimilisfang hjóna, má e.t.v. skilja á þá leið, að 1. mgr. 14. gr. komi þá ekki til.“ En það er 14. gr., sem ákveður það, að hægt sé að leita úrskurðar, og 1. mgr. er einmitt á þessa leið, sú sem er vitnað til: „Nú leikur vafi á um lögheimili manns skv. lögum þessum, og skal þá leita úrskurðar dómara.“ Öll ákvæði frv., sem umdeilanleg gætu orðið, heyra undir það, að þá skuli leitað úrskurðar og megi leita úrskurðar. Það er þess vegna undarlegt, að þessi aths. skuli vera gerð.

Þá er minnzt hér á í sambandi við 8. gr.: „Vafasamt má telja, hvort rétt sé, að fósturforeldrar séu þeir einir taldir, sem enga meðgjöf þiggja.“ Þegar á að ákveða það, hvað skuli teljast fósturforeldrar, og er ákveðið, eins og t.d. í almannatryggingalögunum, þá er miðað við, að það séu foreldrar, sem hafa börn, sem þeir að vísu eiga ekki, en annast meðgjafarlaust. Og það verður ekki séð annað en á það sé komin hefð, enda væri mjög varhugavert, hygg ég, að miða við annað en þetta. Það væri hart, ef foreldrar, faðir eða móðir, einstæðir foreldrar t.d., gætu ekki komið fyrir börnum sínum með meðgjöf, án þess að þeir, sem þau dveldust hjá, fengju yfir þeim foreldraráð.

Við 9. gr. eru aths. um orðið „dvalizt“ og „stunda nám“, en eins og ég er búinn að segja, eru það orð, sem hafa fengið hefð.

Og við 11. gr. er það talið eitthvað vafasamt, hvort nógu skýrt sé að tala um „tímabundið trúnaðarstarf“ í sambandi við þm. eða aðra, sem starfa að opinberum nefndarstörfum. Ég hygg, að það muni engum vandkvæðum valda að fá þar úrskurði, ef eitthvað þykir vafasamt. En ég hygg, að það þurfi langa leit til þess að geta útilokað það, að hægt sé að telja, að þetta og hitt hljóti að verða matsatriði. Undir flestum kringumstæðum hlýtur margt að verða matsatriði á sviði þessarar löggjafar.

Þá er um 12. gr. sagt, að seinni mgr., að tilkynning um, að lögheimili sé heimili annars manns, verði ekki tekin til greina, ef hann mótmælir því, að lögheimilið sé talið hjá honum, sé villandi og jafnvel óþörf. Ég hygg, að þetta sé einmitt mjög eðlilegt ákvæði, vegna þess að fráleitt væri, að menn gætu talið og tekið sér lögheimili án samþykkis þess, sem ræður húsum á því heimili.

Þá er minnzt hér á 14. gr., að orðið „þjóðskrá“ sé ekki viðkunnanlegt, en viðkunnanlegra orðalag kynni að vera „þjóðskrárritari“. Það er nú svo. Ég skal játa það, að orðið þjóðskrá sem persóna er ekkert skemmtilegt í málinu. En það á margar hliðstæður. Við tölum um, að Landsbankinn fyrirskipi hitt og þetta eða landssamböndin fyrirskipi hitt og þetta. Þjóðskráin er hliðstæð stofnun. Það, sem er óþægilegast við hana í málinu, er, að við erum svo vön því að hafa alls konar skrár fyrir framan okkur, sem virðast ekki vera gæddar nokkru því lífi, sem þarf að vera til þessa, sem hér er um að ræða. T.d. þjóðskráin í þeim samböndum, sem hún er sett hér fram, vinni sín hlutverk. Það er minnzt á þjóðskrárritara í staðinn. Ég hygg, að í l. um þjóðskrá og almannaskráningu sé þjóðskrárritari ekki nein persóna, og þess vegna held ég, að við verðum að sætta okkur við það, þar sem við höfum stofnað með löggjöf til þessa fyrirtækis og falið því verkefni, að miða líka við það í lögum, og það verður ekki langt þangað til venjan mun helga það svo, að það meiði ekki málkennd manna.

Þá er talað hér um það, að 3. mgr. í 14. gr. sé mjög óljós. En nú vill svo einkennilega til, að þessi 3. mgr. er einmitt sett inn eftir ósk Lögmannafélagsins, og þeir hinir lögfróðu menn, sem þar ráða ríkjum, bera ábyrgð á þessari mgr. Ég held líka, að þær aths., sem koma þarna fram hjá lagadeildinni, hafi ekki við svo mikil rök að styðjast, að ástæða sé til þess að tefja málið á nokkurn hátt þeirra vegna.

Þá er aðalathugasemdin, getur maður sagt, sú aths., sem er á þá leið, að lagadeildin telur frv. of viðtækt og varar við, að það verði samþ. óbreytt. Hún segir þrátt fyrir það, þótt hún telji frv. hafa góðan tilgang og hafi tekizt eiginlega vonum framar að semja það, þá vilji hún hafa einn fyrirvara. Hún segir, að setning almennra laga um heimilisfang komi svo víða við og snerti svo ólík svið, að mjög sé vafasamt, hvort heildarreglur hæfa. Nefndin, sem samdi frv. upphaflega, byrjaði á því að hugsa sér að setja inn í l. um sveitarstjórnarmál ákvæði um heimilisfang, eingöngu í sambandi við sveitarstjórnarmálefnin. En hún komst að þeirri niðurstöðu, að það væri of þröngt svið, ef þannig ætti að breyta lögunum um heimilisföng, það væri óheppilegt, blátt áfram óheppilegt, að í þjóðfélaginu giltu ýmiss konar reglur um lögheimili, sem væru ekki fyllilega samhljóða, og þess vegna samdi hún frv. á þessa leið og hugsaði sér það sem grundvöll að annarri lagasetningu, hugsaði sér, að önnur lög gerðu grein fyrir þeim lögfylgjum, sem að stæðu. Frv. er því beinlínis samið til þess að vera svo víðtækt sem það er.

Það er minnzt á það í athugasemdunum, að löggjöfin um lögheimili grípi ekki inn í aðra löggjöf, og það er einmitt af ráðnum hug gert, að hún er ekki látin gera það á þann hátt að segja á nokkurn hátt fyrir um aðrar lagasetningar, en er miðuð við það, að önnur lagasetning byggi á þessum l. Frv. segir ekki fyrir um neinar lögfylgjur, þær sem tengdar eru lögheimili. Önnur lög eiga að gera það, t.d. lög um kosningarrétt. Kosningarréttur er að vísu háður lögheimili, en hann er háður ýmsu fleira. Þess vegna væri það í raun og veru óskipulegra, að lög um heimili færu að bera með sér ákvæði um kosningarrétt. Útsvarslög hafa sín sérákvæði, miðað við lögheimili, en lög um lögheimili eiga ekki sérstaklega, þegar þau eru allsherjarlög, að grípa neitt inn í útsvarslög eða vera með ákvæði, sem snerta þau sérstaklega. Og sama er um skattalög og lög um framfærslu. Þó að lögheimili sé sameiginlegt skilyrði í fjölda sambanda, þá er það þó ekki eitt út af fyrir sig venjulega nægilegt, og þess vegna þarf það sérstakar lögfylgjur í öðrum lögum.

Hér er kvartað um það, að inn í frv. vanti ákvæði um heimili félaga. En nú er það svo um félög, að fyrirskipað er, að þau séu skráð og eigi lögheimili, og þess vegna er ekki ástæða til þess í þessum lögum að fara að skipa þeim fyrir um heimili. Hér er talað um það í athugasemdunum, að óheppilegt kunni að vera, að ekki séu fleiri en eitt lögheimili, þegar t.d. um varnarþing er að ræða, þegar um málshöfðanir er að ræða eða stefnur. En þessi lög breyta á engan hátt þeim ákvæðum, sem eru þar. Áfram verður t.d. fasteignavarnarþing, skuldavarnarþing o.s.frv. Þessi lög eiga blátt áfram miklu frekar að auðvelda bæði þeim, sem þarf að leita réttar síns og stefna, að vita, hvar á að birta stefnur, og einnig að gera hinum auðvelt að vita það, hver réttur hans er í þeim efnum að þola slíkt, þ. e. hvar honum er skylt að taka til greina stefnur og hvar ekki.

Að allvel athuguðu máli ákvað heilbr.- og félmn. að flytja málið áfram og gera engar brtt. við frv. þrátt fyrir hugleiðingar lagadeildarinnar, sem eru, eins og ég þykist hafa sýnt fram á, allmjög óákveðnar. Nm. hafa þó óbundnar hendur sem fyrr að því er brtt. snertir. Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að óhjákvæmilegt sé að setja nýja löggjöf um heimilisföng. Mér virðist lagadeildin líka á þeirri skoðun. Þjóðskráin eða þeir, sem fyrir hana starfa, eru í vandræðum með að vinna verk sín vegna þess, að löggjöfin er svo óskýr og ónákvæm. Sveitarfélögin deila af sömu sökum. Einstaklingar eru í vandræðum með að vita rétt sinn og skyldur í þessum efnum.

Ég bar fyrir hönd heilbr.- og félmn. athugasemdir lagadeildarinnar undir formenn n. þeirrar, er samdi frv. Hann leit svo á, að þær mættu ekki verða til þess að tefja framgang frv. og væru í aðalatriðum jákvæðar fyrir frv., og taldi sig hafa á reiðum höndum fullnægjandi svör við hinu neikvæða í umsögninni, og það virtist mér hann líka hafa. Nefnd hans hefur áreiðanlega gert sér ýtarlega grein fyrir lagasetningunni, og hún hefur unnið það verk, sem lagadeildin telur sig ekki sjá að hafi verið unnið, að rannsaka, hvaða lögfylgjur verða hér, og hún telur sig vissa um það, að frv., þó að það verði að lögum, valdi engum óþægindum á sviði annarrar löggjafar, þvert á móti.

Ég held líka, að frv. sé svo vel gert, að það sé fullkomlega forsvaranlegt að gera það að lögum og láta reynsluna segja til um, hvernig það fellur við löggjöf landsins aðra og lífið í þjóðfélaginu. Ég get ekki séð, að nein hætta sé á, að það raski annarri löggjöf til skaða og mér sýnist einboðið, að lögheimili verði látið vera einnar og sömu merkingar í allri löggjöf, en fráleitt, að fólk eigi tvenns konar eða margs konar lögheimili, eins og umsögn lagadeildarinnar virðist jafnvel mæla með, þegar talað er um að láta lögin eingöngu gilda t.d. fyrir sveitarfélög.

Ég tel fráleitt, að fólk eigi eins konar lögheimili sem gjaldendur, annars konar lögheimili sem kjósendur og þá þriðja lögheimilið í réttarfarsmálum o.s.frv. Það mundi valda miklum glundroða og rugla fólk í ríminu og gera starfsemi þjóðskrárinnar óvinnandi verk og lítils virði á móts við það, sem ætlað var, að hún yrði, og frv. leggur áreiðanlega grundvöll að, að hún geti orðið.

Ég leyfi mér þess vegna eindregið að mæla með því, að frv. verði samþ. og ég tel, að heilbr.- og félmn. öll sé þeirrar skoðunar, þó að hins vegar, af því að hér er um vandasama löggjöf að ræða, hafi hún haft þann fyrirvara að telja sig óbundna, ef koma fram viturlegar brtt.