02.12.1959
Efri deild: 8. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Hæstv. forseti hefur mótmælt því, að till. verði vísað til hv. fjhn. eða til þess mælzt, að hún taki hana til athugunar á milli umræðna. Hv. form. fjhn. hefur tjáð, að hann hafi engan áhuga á málinu, svo að ég geri ráð fyrir, að það sé til einskis að tala um það mál frekar, enda þótt tveir hv. nm. hafi óskað þess, að n. fái brtt. til athugunar á milli umræðna. Þetta þykir mér ekki mikil tillitssemi í garð stjórnarandstöðunnar, að láta annað eins og þetta ekki eftir, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess, að enginn fundur mun verða í þessari hv. deild á morgun.

Það er ekki í fyrsta sinn nú í nótt, að við höfum orðið varir við einkennilegan og lítt skiljanlegan stirðbusahátt af hálfu hv. stjórnarsinna í þessari d., og mönnum dettur í hug: Hvað gengur að mönnunum? Eru þeir svona óliðlegir í eðli sínu, eru þeir svona smáir í sniðunum, eru þeir svona hégómlegir vegna valdanna? Ég held þeir séu ekki neitt af þessu. En það er eitthvað að. Hv. stjórnarsinnar hér eru eitthvað miður sín, spenntir, órólegir, máske hræddir, en við hvað, það get ég ekki sagt um. Ég vildi nú í fyllstu vinsemd ljúka mínum ræðuhöldum hér með því að ráðleggja hv. stjórnarsinnum að endurskoða þessa afstöðu sína, eins og hún hefur verið síðustu sólarhringana. Ég held, að þeir hefðu gott af því að gefa sér tóm og tíma, slappa af, hugleiða.

Ég sé ekki ástæðu til þess að draga þessa till. til baka nú, úr því að undirtektir eru slíkar sem þær hafa verið, og óska eftir, að hún komi til atkvgr. við þessa umr.