26.04.1960
Neðri deild: 71. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3107 í B-deild Alþingistíðinda. (1390)

70. mál, sala tveggja jarða í Austur-Húnavatnssýslu

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 134, fer fram á það að heimila sýslunefndinni í Austur-Húnavatnssýslu að selja tvær jarðir, sem eru í eigu sýslunnar og hafa lengi verið. Sýslunefndin er á einu máli um að fara fram á þessa söluheimild og leggur á það töluvert mikla áherzlu, eins og fram kemur í þeim bréfum frá sýslumanninum í Húnavatnssýslu, sem fylgja grg. þessa frv. Og ástæðurnar fyrir því, að sýslunefndin leggur á þetta áherzlu, eru þær, að það hefur ekki þótt fært af hálfu sýslunnar að leggja fram svo mikið fé til umbóta á þessum jörðum sem annars mætti kannske telja æskilegt, og er komið svo með aðra þessa jörð, að ábúandinn, sem þar var, lagði þar í mjög dýrar og miklar framkvæmdir, sem hann varð svo að ganga frá með tiltölulega slæmum kjörum, en þeir ábúendur, sem nú eru þar, keyptu framkvæmdirnar, og það, sem sýslan á í jörðinni, er einungis beitilandið og þess vegna mikill minni hluti af verðgildi jarðarinnar. Þessi jörð heitir Meðalheimur í Torfalækjarhreppi. Hin jörðin heitir Hamar í Svínavatnshreppi, og með hana er svo ástatt, að íbúðarhúsið brann þar s.l. haust, og liggur mjög við borð, að jörðin fari í eyði, a.m.k. ef ekki fæst heimild til þess, að ábúandinn, sem þar er, fái hana keypta.

Landbn. hefur haft þetta litla frv. til meðferðar og sent það til umsagnar eftirlitsmönnum opinberra sjóða, eins og fram kemur í nál. frá landbn. Álitsgerð frá þessari n., eftirlitsmönnum opinberra sjóða, fylgir nál. landbn., og þeir fara fram á þá breyt. á frv., að jarðirnar verði metnar af dómkvöddum mönnum og að þeir, þessir eftirlitsmenn sjóðanna, samþykki söluna. Landbn. hefur fallizt á þessa till. eftirlitsmannanna og leggur til, að seinni hluti 1. gr. frv. breytist í samræmi við það, eins og hv. þm. geta séð á nál. landbn.

Ég vil mega vænta þess, að hv. þm. geti fallizt á það með landbn. að samþ. þetta litla frv.