26.04.1960
Neðri deild: 71. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3111 í B-deild Alþingistíðinda. (1392)

70. mál, sala tveggja jarða í Austur-Húnavatnssýslu

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar þetta frv. var hér til 1. umr., fór ég fram á það við hv. landbn., að hún kynnti sér skilmála, sem fylgt hefðu þessum gjöfum frá þeim aðilum, sem gáfu þær á sínum tíma. Ég veit ekki, hvort hv. nefnd hefur gert þetta, en ég hef ekki orðið var neinna upplýsinga frá henni um þetta atriði. Það er ekkert að því vikið í nál., og ekki var heldur á það minnzt í framsöguræðu hv. frsm. hér áðan. Ég hygg, að þetta sé þannig, að samkvæmt gjafabréfunum sé óheimilt að selja jarðirnar, það sé einmitt þess vegna, sem þetta frv. sé borið fram og farið fram á, að Alþingi ákveði, að heimilt sé að selja þær þrátt fyrir slík ákvæði í gjafabréfunum.

Ég gerði grein fyrir því við 1. umr. og vil nefna það enn, að þegar um slíkt er að ræða, þá tel ég, að það eigi ekki að víkja frá fyrirmælum gefenda, nema þess sé brýn þörf eða það sé óhjákvæmilegt. En ég get ekki fallizt á, að svo sé.

Ég tel alveg víst, að umráðamenn þessara jarða eða stjórnendur sjóðsins, sem á þær, hefðu að undanförnu getað leigt þessar jarðir á erfðafestu og þá með þeim skilmálum, að leiguliðar kostuðu nauðsynlegar umbætur á jörðunum, bæði húsabætur og ræktun, án þess að sjóðurinn þyrfti að leggja fram fé til þess, enda hann ekki þess megnugur. Þá þyrfti að sjálfsögðu að veita heimild til þess að veðsetja jarðirnar fyrir umbótalánum, og það er annað mál. Ég sé ekkert athugavert við það. Þannig er það nú með jarðir í opinberri eigu yfirleitt, að ábúendur hafa undanfarið fengið leyfi til þess að veðsetja þær fyrir lánum hjá sjóðum Búnaðarbankans, og þeir hafa getað tekið þar lán til umbóta eftir sömu reglum og sjálfseignarbændur. Ég er ekki í vafa um, að þannig væri hægt að byggja þessar jarðir og þess vegna óþarft að víkja frá fyrirmælum gefendanna og heimila sölu á jörðunum.

Brtt., sem nefndin flytur, er, að því er mér virðist, til leiðréttingar á frv. og ekkert við hana að athuga. En a.m.k. meðan ekki koma nýjar upplýsingar í málinu, tel ég, að þd. eigi ekki að fallast á þetta frv.