26.04.1960
Neðri deild: 71. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3113 í B-deild Alþingistíðinda. (1394)

70. mál, sala tveggja jarða í Austur-Húnavatnssýslu

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það var aðeins eitt atriði, sem fram kom í síðari ræðu hv. 2. þm. Norðurl. v. (JPálm). Hann sagði, að þær jarðir væru verst setnar, sem væru í opinberri eigu og leigðar út af því opinbera. Ég veit ekki, hvernig það er í hans sýslu, þar sem hann á heima, en í þeirri sýslu, þar sem ég á heima, er allt aðra sögu að segja. Þar eru að vísu hlutfallslega mjög fáar jarðir í opinberri eigu, en það er langt frá því, að það sé verr búið á þeim jörðum eða þær verr setnar en aðrar jarðir í sýslunni. Ef nokkuð er, þá er frekar það gagnstæða, — ég hygg, að búskapurinn á þeim jörðum sé yfir meðallagi.

Ég vildi láta þetta koma fram og mótmæla þessari kenningu eða þessari fullyrðingu, sem hér kom fram um, að þeir, sem eru leiguliðar á ríkisjörðum, sitji sínar jarðir miklu verr en aðrir menn. Það er a.m.k. langt frá því, að það sé algild regla, — langt frá því.

Ég sé ekki frekar en hv. 2. þm. Norðurl. v. ástæðu til að fara að ræða hér um stefnur í þessum málum. Það, sem gerir það að verkum, að ég vil ekki fylgja þessu máli, er, að ég tel, að það eigi ekki að brjóta gegn fyrirmælum hinna gömlu sýslumanna Húnvetninga, sem gáfu þessar jarðir, ég sé ekki, að það sé nein þörf að brjóta gegn þeim, og þess vegna eigi ekki að gera það. Ég tel alveg víst, að það væri mögulegt að leigja þessar jarðir, ef stjórnendur sjóðsins gefa mönnum kost á því að fá þær á erfðafestu, eins og ég hef áður vikið að. A.m.k. vil ég, að sú leið sé reynd, áður en Alþ. fer að rifta fyrirmælum í þessum gömlu gjafabréfum.