26.04.1960
Neðri deild: 71. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3120 í B-deild Alþingistíðinda. (1397)

70. mál, sala tveggja jarða í Austur-Húnavatnssýslu

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Umr. um þetta litla mál eru nú farnar að ganga nokkuð vítt, og eiga þeir fyrst og fremst sök á því, sem hafa mælt gegn þessu frv. Ég skal nú reyna að vera ekki mjög langorður í svörum. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. hafi gert sér grein fyrir, hvernig þessu máli er varið.

Hv. samþm. minn, hv. 1. þm. Norðurl. v., vildi mótmæla því, að opinberar jarðir væru verr setnar en aðrar, og spurði að því, hvort svo væri í minni sýslu, Austur-Húnavatnssýslu. Ég vil nú segja honum og öðrum það, að sem betur fer er fátt af jörðum í Austur-Húnavatnssýslu, sem eru í opinberri eign, og helzt ætti það ekki að vera nein. En ég hef mína þekkingu um þetta yfir landið allt í gegnum starfsemi í fasteignamatsnefnd, og ég hygg, að við, sem þar störfuðum, höfum verið sammála um, að það sé greinilegt, að þær jarðir séu almennt séð verr setnar, og það er náttúrlega af þeirri einföldu ástæðu, að ríkissjóður hefur ekki lagt í það nógu mikið fé að byggja upp á jörðunum og koma þeim í fullkomið stand, enda mundi það vera, eins og margir álíta, ríkissjóði hagkvæmara að gefa þessar ríkisjarðir ábúendunum en eiga þær með þeim skilmálum, sem verið hefur á undanförnum árum.

Varðandi það, sem hv. 3. þm. Reykv. var að tala um eignarréttinn á þessum tveimur jörðum, þá er það ekkert annað en orðaleikur. Eigandi að þessum jörðum er sjóður, sem heitir Afgjaldasjóður kristfjárjarða í Húnavatnssýslu, en sýslan á sjóðinn, og það er ekki farið fram á að eyða þessum sjóði, heldur þvert á móti. Það er ætlunin, að hann eigi áfram það fé, sem jarðirnar seljast fyrir. Við höfum í okkar sýslu hliðstætt dæmi og miklu stærra dæmi en þetta, að það voru nokkrar jarðir í Vatnsdal og Þingi, sem kallaðar voru amtmannsgjafajarðir og svipaðar reglur voru um og þessar. Þær voru seldar á sínum tíma, og sjóðurinn er áframhaldandi starfandi og ekki ætlunin, að honum verði eytt, og það dettur engum í hug, sem mæla með þessu frv., að þessum sjóði verði eytt, því, sem hann fær inn fyrir jarðirnar. En geta menn nú haldið yfirleitt, að að öll landbn. og þrír opinberir trúnaðarmenn þriggja stjórnmálaflokka, sem eru eftirlitsmenn opinberra sjóða, séu sammála um að mæla með þessu frv., ef það væri einhver vitleysa, sem hér er verið að fara fram á? Ég held, að eftirlitsmenn opinberra sjóða, hvað sem líður landbn., — ég verð nú að halda, að hún hafi nú nokkurt traust líka, — en þeir hafi mikið traust, þeir vita, hvað þeir eru að fara með, þegar þeir eru að mæla með slíku frv. sem starfsmenn í þessari nefnd.

Varðandi það, sem hv. 3. þm. Reykv. var að minnast á, að það hefðu verið gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að koma jörðum út úr braski, sem hann kallaði, þá er það nú svo, að ég geri ráð fyrir, að hann eigi við lögin um ættaróðal og erfðaábúð. Það frv. um breyt. á þeim lögum liggur fyrir þessu þingi og hefur verið vísað til landbn., en nefndin hefur orðið sammála um að fresta afgreiðslu þess á þessu þingi, vegna þess að hún hefur fengið tilmæli um það frá búnaðarþingi, sem samþykkti tillögu á þessa leið:

„Tilgangur þeirra laga, sem hér um ræðir, er að ýmsu virðingarverður, en reynslan hefur sýnt, að ýmis ákvæði þeirra eru tæpast framkvæmanleg. Er því þörf á að breyta l. verulega, til þess að þau verði viðunandi, en frv. þetta kom seint til búnaðarþings og hefur því ekki unnizt tími til að athuga málið svo vel sem þarf, og í trausti þess, að Alþ. fallist á að bíða með afgreiðslu málsins, frestar búnaðarþing að taka nánari afstöðu til þess.“

Ég vildi taka þetta fram út af þeim ummælum hv. 3. þm. Reykv., að þarna væri um einhverja fyrirmyndarleið að ræða. Það er vissulega mikið vandamál, sem þar er um að ræða, og þeir, sem verða hér á næsta þingi, hafa auðvitað ástæðu til þess að ræða það mál nánar.

Sú krafa, sem kom frá hv. 3. þm. Reykv. um það, að n. tæki málið aftur til athugunar, ég fæ ekki séð annað en n. hafi gert í því alla þá athugun, sem hún þarf. Hún hefur athugað það frv., sem ræðumaðurinn vitnaði í. Það var aldrei annað en frv., því að það var aldrei samþykkt. Nefndin hefur farið alveg í gegnum það frv. og yfirleitt alla þætti, sem snerta þetta mál, sem m. a. sést á því, að hún hefur fengið rækilega umsögn frá eftirlitsmönnum opinberra sjóða, eins og ég hef hér tekið fram.

Ég vil nú vona, að þessum umr. geti farið að ljúka. Vil ég fara fram á það við hæstv. forseta, að hann sjái um, að atkvæðagreiðslan verði, þegar nokkuð margir hv. þm. eru viðstaddir.