26.04.1960
Neðri deild: 71. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3123 í B-deild Alþingistíðinda. (1399)

70. mál, sala tveggja jarða í Austur-Húnavatnssýslu

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ummælum hv. 3. þm. Reykv. (EOl). Hann var að tala um, að menn mættu ekki selja það, sem þeir ættu ekki. En það er sýslan, sem á þetta. Þetta er gefið í vissum tilgangi og með vissum skilyrðum. En nú er aðstaðan breytt, og þess vegna er ekkert við það að athuga. Ef sá aðili, sem á að sjá um þetta og á þetta raunverulega, sem er sýslan, — ef sýslufélagið telur hentugt að breyta þessu eitthvað og fær samþykki ríkisvaldsins til þess, get ég ekki skilið, að það sé neitt saknæmt. Það eru gerbreyttir tímar. Annars er það ofur lítið skrýtið, þegar hv. 3. þm. Reykv. er að tala um lög og reglur. Ef hans virðulegi flokkur kæmist í hreinan meiri hluta hér á landi, haldið þið, að hann færi að virða einhverjar gamlar reglugerðir fyrir einhverjum gömlum sjóðum? Ég held, að þeirra andlegi lærifaðir, Stalín, hafi ekki gert það í Rússlandi forðum. Ég held, að hann hafi ekki verið að grúska í gömlum skjölum, þegar hann tók jarðeignir bændanna og rak þá saman eins og seppa í samyrkjubúin og svo voru kosnir einhverjir trúnaðarmenn flokksins til þess að stjórna þeim. Það er dálítið spaugilegt, þegar þessir menn eru að tala um tveggja alda gamlar reglur. Það má breyta öllum lögum, og ef ríkisvaldinu þóknast að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir viðvíkjandi sjóðum eða gjöfum eða einhverju slíku, þá hefur ríkisvaldið á hverjum tíma vald til þess. En það er í mesta máta spaugilegt, þegar fulltrúi þessa flokks og formaður þingflokks Sósfl. er að tala um að virða lög og reglur, því að þótt það megi vafalaust segja margt gott um kommana, þá er það, sem þeir virða alls ekki, gamlar reglur og gömul lög. Þeir þurrka það allt út og búa til sínar reglur og sín lög. Annars væri æskilegt, ef hv. 3. þm. Reykv. álítur það svo hagkvæmt, að ríkið eigi jarðirnar, að hann vildi senda nokkra úrvals komma norður í Húnavatnssýslu til þess að taka allar eyðijarðir og búa á þeim. Vel skal ég taka á móti þeim, því að satt að segja finnst mér kommar skemmtilegustu menn, og ég veit, að þeir mundu mikið þroskast andlega, ef þeir færu að búa þarna norður frá á eyðijörðunum. Ég skyldi sannarlega vera lipur að reyna að útvega þeim lán og gera allt fyrir þá, sem ég gæti. Þeir eru hressir í bragði og drengir góðir, og svo hef ég mikinn áhuga fyrir því að bæta þá og vitka.