22.04.1960
Efri deild: 63. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3133 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

64. mál, dýralæknar

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Það hefur verið þannig á undanförnum þingum, að ýmsar breytingar hafa legið fyrir á lögum um skipun dýralækna í landinu, og er það hreint ekki að ástæðulausu, þar sem það hefur sýnt sig, að starfssvið þessara embættismanna hefur orðið umfangsmeira með hverju árinu, sem hefur liðið, og valda því að sjálfsögðu ýmsar ástæður og ekki sízt það, að ræktun landsins hefur fleygt mjög fram hin síðari ár, en hins vegar hefur ekki að sama skapi fleygt fram þeim vísindum, sem þurfa að skera úr um, hver áburðarþörf hinna mismunandi jarðvegstegunda er, og þar af leiðandi leiðir af sjálfu sér, að það gras, sem ræktað er, er mjög misjafnt að efnainnihaldi, og þar er m.a. að leita orsakanna að hinum tíðu sjúkdómum, sem hafa stungið sér niður hér og þar á landinu, einkum í mjólkurkúm. Og það er því engum láandi, þótt hann vilji hafa dýralækni svo nálægt sér, að hægt sé með skjótum hætti að ná til hans, þegar sjúkdómar í búfé geisa. Það er sannarlega mikið í húfi þá fyrir þá, sem við búrekstur eru.

Fyrir ári var samþ. breyt. á dýralæknal., og það frv., sem hér liggur fyrir, fer einnig fram á það að fjölga héraðsdýralæknum, því að Borgarfjarðarumdæmi, sem náð hefur yfir Borgarfjarðarsýslu, Mýrasýslu og Snæfellsnessýslu, er svo stórt, að útilokað er, að dýralæknir, þó að hann sé vel staðsettur á þessu svæði, geti innt hlutverk sitt jafnt af hendi við alla sakir hinna miklu fjarlægða, sem þarna er um að ræða. Og þegar farið var að athuga, á hvern hátt mundi bezt að skipta þessu læknishéraði, þá varð niðurstaðan sú, að heppilegast mundi að skipta því eftir sýslum, þannig að Snæfellsnessýsla yrði sérstakt dýralæknisumdæmi út af fyrir sig og Mýrasýsla út af fyrir sig og Borgarfjarðarsýsla einnig út af fyrir sig. Á öllu þessu svæði eru margir nautgripir og einnig margt sauðfé auk nokkurra hrossa. Og það er mikið nauðsynjamál, að löggjafinn fallist á þessa skiptingu. En um leið og dýralæknar koma á þessi svæði, þarf að vanda til um staðsetningu þeirra og jafna aðstöðu þeirra, sem í umdæminu búa. En þegar um staðarval er að ræða, skilst mér, að það sé einkum þrennt, sem ber að hafa í huga. Það er fyrst og fremst það, að héraðsdýralæknirinn sé nokkurn veginn miðsvæðis. Í öðru lagi, að um gott símasamband sé að ræða. Og í þriðja lagi, að samgöngum sé þannig háttað við þennan stað, að þægilegt sé fyrir viðskiptavinina að ná í meðul, ef ekki þarf að fá þau með skjótum hætti, þ.e.a.s. að verzlunarsamgöngur liggi nokkurn veginn um þá staði, þar sem dýralæknar eru staðsettir. Það eru óneitanlega mikil þægindi í þessu öllu saman.

Ég vil geta þess, að landbn., sem hefur fjallað um þetta mál á mörgum fundum, sendi frv. til umsagnar yfirdýralæknisins, og hann leitaði aftur álits héraðsdýralæknis Borgarfjarðarumdæmis um þetta mál, og héraðsdýralæknirinn var því samþykkur, að umdæminu yrði þrískipt, þótt hins vegar skiptingin falli ekki algerlega í þann farveg, sem n. leggur til, því að héraðsdýralæknirinn lagði til, að Snæfellsnessýsla yrði út af fyrir sig og Borgarfjarðarumdæmi næði yfir Mýrasýslu og Borgarfjarðarsýslu vestan Skarðsheiðar, en Borgarfjarðarsýsla sunnan Skarðsheiðar yrði sérstakt umdæmi.

Þetta gat n. ekki fallizt á, sakir þess að það umdæmi, sem yrði sérstakt sunnan Skarðsheiðar, er svo litið og fátt um búfé, að n. taldi, að verkefni fyrir héraðsdýralækni mundi ekki verða nægjanlegt á þeim slóðum, og því réð hin skiptingin, þ.e.a.s. sýsluskiptingin.

Um umsögn yfirdýralæknis má segja, að hann sé á engan hátt mótfallinn málinu, þótt hins vegar hann telji á því nokkra annmarka og einkum þá, hversu fáir menn leggi út í að stunda dýralæknisnám. Þetta er alllangt nám og verður eingöngu fram að fara erlendis og er mjög kostnaðarsamt, og það, sem hefur verið því valdandi á undanförnum árum, að skipting dýralæknisumdæma hefur ekki verið örari en raun ber vitni um, er það, hversu fárra manna hefur verið völ til þessara starfa. En þó standa vonir til þess í framtíðinni, að úr þessu verði verulega hægt að bæta, og með það sjónarmið fyrir augum, að ungir menn vilji halda áfram við það nám, sem þeir hafa þegar lagt fyrir sig í dýralækningum, og fleiri bætist í hópinn, hefur n. viljað einróma mælast til þess, að Alþ. samþ. þetta frv. óbreytt frá því, sem það var lagt fyrir þingið.