03.12.1959
Neðri deild: 8. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér þætti mjög vænt um, ef hæstv. fjmrh. væri viðstaddur, af því að ég sá, að hann heiðraði okkar d. með nærveru sinni hér fyrir skömmu, og ég þyrfti ýmislegt við hann að tala.

Ég mun fyrst víkja nokkuð að því frv., sem hér liggur fyrir, og einstökum atriðum þess, áður en ég fer út í nokkrar almennar hugleiðingar um það, sem veldur því, á hvern hátt þetta frv. er nú fram komið. (Forseti: Fjmrh. er því miður ekki í húsinu.) Það er nú máske hægt að gera ráðstöfun til þess að láta hann vita af því, að það er óskað eftir honum. Ég mun þá máske geyma aðalhlutann, þangað til hæstv. fjmrh. kemur. Hann verður a.m.k. látinn vita af því, að hans sé óskað.

Það er komið fram hér frv., sem þegar er kallað á þingmannamáli „bandormurinn”, og það lítur satt að segja út fyrir, að það eigi á tíu ára fresti eins konar ormasýki að grípa um sig hér á Alþingi, og er það venjulega ills viti, þegar ríkisstj. finna upp á því að fara að íklæða frumvörp sin í slíkt form. Á þinginu 1939–40 gerðist þetta sama. Þá var líka flutt frv. til laga um bráðabirgðabreyting nokkurra laga og hlaut þá nafnið bandormurinn, og þannig er það orð komið inn í þingsöguna. Í því frv. var í 1. gr. verið að breyta 20 lögum eða fella niður alls um 20 atriði eða breyta eða draga úr, sem voru í öllum mögulegum öðrum lögum, og af því að þetta hafði aldrei tíðkazt á Alþingi áður, tók sú stjórn, sem þá sat að völdum, upp á þessu, og það var engum efa bundið, af hverju gripið var til þessa ráðs. Sú ríkisstj. hafði frekar ósamstæðan hóp að baki sér, Sjálfstfl., einn af þeim flokkum. sem fylgdu þeirri ríkisstj., var opinberlega svo að segja klofinn í stjórnarstuðninginum, og það var mikill órói í þingflokkum hinna beggja stuðningsflokkanna. Með þessum lögum var verið að fella úr gildi ótal endurbætur, sem framkvæmdar höfðu verið á árabilinu áður, og rýra hvers konar réttindi, sem almenningur í landinu hafði öðlazt. Þessi bandormur var upphafið svo að segja að öllum þeim afturhaldsráðstöfunum, sem gamla þjóðstjórnin gerði. Og allir muna, hvernig þessari illu göngu, sem hófst með bandorminum, lauk, hvernig sú stjórn eftir þrjú ár sundraðist við smán undir átökum alþýðunnar í landinu og megininu af þeim afturhaldsráðstöfunum, sem hún hafði gert, var kollvarpað, sumpart af þeim flokkum sjálfum, sem höfðu tekið þátt í henni, og sumpart undir áhrifum verkalýðssamtakanna og Sósfl. E.t.v. mætti þetta vera nokkur viðvörun fyrir þá stjórn, sem nú hefur tekið við völdum, hvernig fer fyrir stjórnum, sem þannig byrja, sérstaklega vegna þess að ástæðurnar til þess, að þetta frv. er flutt, eru nokkurn veginn þær sömu og þá. Þá var ríkisstjórnin hrædd, hrædd við Alþingi, hrædd við sinn eigin veikleika, hrædd við sitt eigið sundraða þinglið, og þorði ekki að eiga það á hættu að ræða málin eins og frumvörpin, sem átti að breyta, gáfu tilefni til.

Lögfræðilega séð er svona bandormur hrákasmíði, óskapnaður, sem á ekki að sjást í þingsölunum, og menn hafa varazt það, síðan þetta gerðist, að gripa aftur til svona aðferða. Það hefur aðeins verið gert einu sinni, ef ég man rétt. Það var á árinu 1948, sem sé tæpum tíu árum seinna, þegar afturhaldsstjórnin var aftur tekin við, samsett af sömu flokkum og gamla þjóðstjórnin hafði verið samsett af, — var stundum kallað á þingmannamáli þá höggormurinn og var ills viti, var upphafið að þeim afturhaldsráðstöfunum, sem þá voru gerðar á næstunni, og þeim árásum, sem gerðar voru á lífskjör almennings.

Það, sem er einkennandi fyrir þetta frv., sem hér liggur fyrir, þó að það sé ekki í sjálfu sér eins illkynjað og tvö þessi frumvörp voru, eru ástæðurnar til þess, að þetta frv. er komið fram, og aðferðin við að leggja það fram. Nú eins og þá óttast hæstv. ríkisstj. sitt eigið þinglið. Hún er hrædd um, að hún haldi því ekki saman, svo framarlega sem öll málin, sem um er að ræða og um þarf að ræða á Alþingi nú, verða rædd, þannig að öllum þm. stjórnarflokkanna verði alveg ljóst, um hvað er að ræða. Hæstv. ríkisstj. var hrædd við að hafa þau 5–6 mál, sem framlengja þurfti og framlengd hafa verið ár eftir ár nú upp undir tíu ár, sitt á hverju þingskjali. Um þau hefði þurft 35–36 umræður í þinginu, og það óttaðist hún. Hún óttaðist, að það kæmi svo margt fram í sambandi við þær umræður, að hennar eigin þm. færu að gera sér það ljóst, um hvað væri að ræða. Þess vegna er gersamlega áskyldum málum hrært saman í einn óskapnað, í einn hrærigraut, eins og þetta frv. er, sem hér liggur fyrir. Og svo óvenju ráðvillt virðist hæstv. ríkisstj. hafa verið, að hún hefur, þegar þing var sett og stjórnin var mynduð, auðsjáanlega ekki verið búin að ákveða að hafa þennan hátt á, vegna þess að þá hefði hún ekki látið leggja þessi 5–6 frv. fyrir þing. Hún virðist sem sé, rétt eftir að þing er byrjað, allt í einu hafa

verið gripin hræðslu. Ég skal ekki um það fullyrða, hve mikið hæstv. ríkisstj. hefur talað við sína þm., hvort hún hefur yfirleitt nokkuð skýrt þeim frá, hvað hún hafi í hyggju að gera. Ég er frekar á því, að það hafi hún ekki gert. En ég er hræddur um, að það lítið sem hún hefur talað við sína þm., þá hafi hún orðið þess vör, að því færi ákaflega fjarri, að þeir væru reiðubúnir til þess að gera það, sem ríkisstj. helzt hefur dottið í hug enn sem komið er. Hæstv. ríkisstj. hafði þess vegna fljótlega komizt að þeirri niðurstöðu, að eitt yrði hún að gera, það væri að forða sínum þm. frá því að vera að hugsa um þessi mál og þaðan af frekar að fara að tala um þau. Það er engu líkara en hæstv. ríkisstj. hafi byrjað sína starfsemi með því að svipta þingmenn stjórnarflokkanna málfrelsi. Hún hefur látið eitt boð út ganga til þeirra, þ.e., að þeir skuli þegja, þeir skuli ekki segja eitt orð, þeir skuli ekki dirfast að fara að láta í ljós skoðanir sínar um þau mál, sem fyrir liggja. Meira að segja þeir menn í liði stjórnarinnar, sem eru hvað mestu mælskugarpar þingsins og aldrei liggja á liði sínu, þegar þarf að berjast vasklega fyrir hvort sem er góðum eða slæmum málstað, meira að segja slíkir þm. virðast vera alveg múlbundnir nú.

Hæstv. ríkisstjórn virðist þess vegna leggja ákaflega mikið upp úr því, að hennar þm. hugsi sem minnst um þessi mál, heyri sem minnst um þessi mál og sérstaklega framar öllu tali alls ekki neitt um þessi mál, því að e.t.v. hafi þeir komið með ýmsar fallegar, en að því er ríkisstj. mundi finnast barnalegar hugmyndir úr nýafstöðnum kosningum, og það væri máske dálítil hætta, ef þeir færu að tala, að þeir færu að rifja upp eitthvað af því fagra og góða, sem þeir voru að lofa kjósendum í þeim tvennum kosningum, sem afstaðnar eru. Ég býst við, að það hafi verið eitthvað svipað, sem olli því fyrir 10 og 20 árum, að óskyldum málum var steypt saman í eitt til þess að forðast umræður og stjórnarliðinu þá fyrirskipað að hafa sig sem minnst í frammi um þau mál. Það voru að vísu ekki allir, sem hlýddu þá. Það voru á þeim tímum ýmsir menn úr stjórnarflokkunum, sem voru óþekkir, sem létu ekki binda sig til þess að samþykkja þá hluti, sem ríkisstj. þá vildi fara fram á. Þá voru þeir kallaðir kommúnistar. Og ég býst við, að núv. hæstv. ríkisstj. hafi máske óttazt, að það mundi fara svo, ef farið væri að ræða þessi mál allmikið í þinginu, að það kæmi í ljós, hvaða skoðanaágreiningur er til innan stjórnarflokkanna. Þess vegna, eftir að hæstv. ríkisstj. hefur uppgötvað, hvílíkt voðaástand ríki í hennar eigin þingflokkum, er gripið til þessara ráða, að gerbreyta öllum þeim lögum, sem ríkisstj. sjálf hefur lagt fyrir Alþ., steypa þeim saman í eitt, gefa út fyrirskipun til allra sinna fylgjenda á Alþ. um að ræða ekki málin og helzt varast að hugsa um þau og reyna síðan að knýja það fram með offorsi, að Alþ. sé sent heim hið allra fyrsta. Síðan eigi að reyna fyrst að laga ástandið innan ríkisstj. og því næst að ganga með oddi og eggjum að hinum ósamstæðu þingflokkum stjórnarinnar til þess að reyna að samræma skoðanir manna þar, á meðan þingmenn stjórnarflokkanna séu ekki undir áhrifum þeirra raka, sem fram koma við umr. á Alþ., og sem lausastir undan áhrifum kjósenda sinna. Mikið má vera, ef þær ráðstafanir verða ekki gerðar helzt að kalla þinglið stjórnarflokkanna saman, eftir að þingið væri sent heim, á einhverjum ákveðnum tíma og loka það helzt inni meginið af deginum í alþingishúsinu, í flokksherbergjunum, til þess að kenna því, hvernig það eigi að hugsa, og sérstaklega a.m.k., hvernig það eigi að greiða atkv. og hvernig það eigi að þegja um ýmis mál.

Það hefur alltaf gefizt illa, þegar svona hefur verið farið að. Bandormurinn og höggormurinn voru upphaf að afturhaldstímabili í sögu þjóðarinnar, þó mismunandi lengi, svona 3–6 ár. En það er rétt, að nú einmitt, þegar svona einkennilega hefur viljað til, að ríkisstj. í þessu óðagoti hefur gripið til þess að beita þessari gömlu aðferð, þá má hún gjarnan íhuga forgengileik þessara bandorma og hvernig farið hefur fyrir þeim stjórnum, sem áður hafa gripið til svona ráða.

Ég ætla ekki að fjölyrða um fráganginn á þessu frv. Hann er með sama hneykslisyfirbragðinu, sami óskapnaðurinn og slíkir bandormar hafa verið áður. Og það hefur ekki einu sinni verið snert við því að reyna að laga í meðferðinni það frv., sem þarna er fellt inn í og nú er 4, gr. og alltaf hefur verið hreint hneyksli að frágangi, þegar það hefur verið lagt hér fyrir, þannig að það virðist auðséð, að hæstv. fjmrh., — og nú er mig satt að segja farið að lengja eftir honum, — hinn nýskipaði fjmrh. virðist ekkert ætla að læra eða reyna að bæta úr því, sem áður hefur misfarizt hjá hans fyrirrennurum. Það er þess vegna dálítið fróðlegt að athuga einmitt það, sem er nú helzta uppistaðan hvað tekjuaflanirnar snertir af þessu öllu saman, söluskattinn, 4. gr., hvernig það er til komið og hvernig frágangurinn á því er, vegna þess að það ber að ekki ósvipað og var fyrir upp undir áratug. Í 4. gr. í þessu frv. segir, að gildi III. kafla l. nr. 100 1948 framlengist þannig, — og síðan kemur: a) ákvæðin um tekjuöflun, sem sett eru í III. kafla laga o.s.frv. M.ö.o.: hér er verið að framlengja enn einu sinni ákvæði um tekjuöflun úr lögum, sem fallin eru úr gildi. Lögin um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna eru sjálf fallin úr gildi. III. kafli þeirra, — og alltaf gengur hann undir nafninu III. kafli, þó að enginn I. og II. kafli séu til, — það er sem sé sporðurinn á þessu, þó að hausinn og búkurinn séu farnir fyrir löngu, og er sporðinum við haldið og þingið látið sporðrenna þessu hvert einasta ár. Og sá nýi fjmrh., sem nú tekur við, — ég veit ekki, hvort hann hefur nokkurn tíma hugsað um þetta áður eða yfirleitt um fjármál, en a.m.k. hefur hann ekki sýnt neinn lit á því að ætla að reyna að laga nokkurn skapaðan hlut það, sem þarna hefur farið aflaga. Og nú fer ég satt að segja, herra forseti, að kunna hálfilla við, að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera kominn. (Gripið fram í.) Ég get varla ætlazt til þess, að hæstv. landbrh. fari að gerast þingskrifari hér. Það er til of mikils ætlazt. En það er ekki alveg víst, að mín skoðun á því, hvað merkilegt sé, og skoðun hæstv. landbrh. á því, hvað merkilegt sé, falli algerlega saman, og þar að auki, þegar þetta á að fara til þriðja aðila, sem sé hæstv. fjmrh., þá getur verið, að honum fyndist eitthvað stórmerkilegt, sem okkur fyndist báðum tiltölulega ómerkilegt, og honum þætti slæmt að missa af því.

Þess vegna er það svo, að þessi III. kafli laganna er ekki framlengdur, nei, ekki einu sinni 1. gr. af honum, það eru bara ákvæðin um tekjuöflun í honum. Það eru margir nýir þm. nú á Alþingi. Það eru ekki nema 17 þm., sem enn sitja á Alþ. af þeim, sem voru 1948, þegar þess lög voru samþ., og það er máske rétt að rifja upp fyrir þeim hv. þm., hvers vegna þessi lög um söluskatt voru sett.

I. kaflinn í þeim lögum er um ríkisábyrgð á útflutningsvörum. Það er kafli upp á 12 greinar, þar sem ákveðið er, að ríkisstj. ábyrgist fyrir hönd ríkissjóðs þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til þess að tryggja bátaútveginn, fyrst árið 1949 og síðan áfram, og tryggja honum ákveðið verð. M.ö.o.: allar ráðstafanirnar í I. kafla laganna voru gerðar til þess að tryggja útveginn, og II. kafli fjallaði enn fremur um aðstoð til útvegsmanna. Þessi söluskattur var því í upphafi lagður á til þess að tryggja það, að útvegurinn á Íslandi gæti gengið. Það var a.m.k. hinn yfirlýsti tilgangur hans. Og fyrirsögn III: kafla er: Um dýrtíðarsjóð, og það átti að afla honum tekna á þann hátt, sem enn þá er viðhafður. Hvað hefur svo gerzt síðan? Það, sem hefur gerzt síðan, er það, að þegar þessi dýrtíðarsjóður var búinn að starfa um nokkurt skeið, þegar útflutningnum höfðu verið tryggðar útflutningsbætur um tveggja ára skeið, þá komu fram miklir spekingar og sögðu við ríkisstj.: Þessi söluskattur er ósköp ljótur. Hann er þungur á almenningi, og það er ósköp ljótt að vera að leggja svona skatta á almenning. Í öðru lagi eru þessar útflutningsuppbætur hreinasta óféti. Bátaútvegurinn eða annar útvegur á Íslandi á það alls ekki skilið, að það sé verið að leggja skatt á almenning, til þess að útvegurinn geti gengið. Geti hann ekki gengið af sjálfu sér, þá getur hann stöðvazt. Enn fremur getur það verið slæmt fyrir heildsalana, að það sé verið að gera sérstakar ráðstafanir til að tryggja sjávarútveginn og engar ráðstafanir til að tryggja heildverzlunina. — Þessir spekingar sögðu þess vegna við þáverandi ríkisstjórn: Við skulum breyta þessu. Við skulum fella niður þennan söluskatt, og við skulum fella niður allar þessar útflutningsbætur. Og þetta gerum við með afar einföldu ráði, sem liggur alveg í augum uppi og allar þjóðir mundu gera og þau einu sönnu vísindi boða, við gerum það með gengislækkun. — Og mennirnir, sem fluttu þennan boðskap til ríkisstjórnarinnar, ári eftir að þessi lög höfðu verið sett, voru hálærðir menn, komnir beint frá Ameríku með doktorsnafn bætur o.fl., höfðu meira að segja verið um nokkurt skeið, jafnvel um árabil, starfandi hjá Alþjóðabankanum, þeirri miklu stofnun, sem þykist vita, hvernig eigi að leysa efnahagsvandamál flestra þjóða, og þeir sögðu: Ráðið er afar einfalt, bara afnema útflutningsuppbætur og söluskatta og annað slíkt óféti og lækka gengið, og þá gengur þetta allt af sjálfu sér. — Og ríkisstj., sem þá var tekin við eftir kosningarnar 1949, trúði þessum mönnum álíka og keisarinn í ævintýri H. C. Andersens trúði sínum ágætu klæðskerum, skröddurunum, sem ætluðu að búa til fínu fötin handa honum. Og hæstv. ríkisstj. sagði við skraddarana: Búið þið til fínu fötin. Það er ósköp gott að losna við allan söluskattinn og enn þá betra að losna við útflutningsuppbæturnar. — Og svo bjuggu vísindamennirnir til ósköp fínt frv., langa, langa grg., svo langa, að ég efast um, að öll ríkisstj. hafi lesið hana. Við í fjhn. urðum að pæla í gegnum hana alla saman, en hvort ríkisstj. las hana nokkurn tíma, veit ég ekki. En forsrh. sagði, þegar hann sá niðurstöðurnar: Nú, er það svona mikið? — Og svo var gert það, sem skraddararnir sögðu. Útflutningsuppbæturnar voru afnumdar, gengið var fellt, — en hvað varð um söluskattinn? I. kaflinn var felldur burt úr þessum lögum, sem nú á að framlengja. II. kaflinn var felldur burt, hvað áttu menn að vera að aðstoða útgerðarmenn, þótt þeir væru að tryggja það, að bátaútvegurinn gæti gengið? En söluskatturinn var allur saman látinn haldast. í löngu grg., sem við fengum og urðum að pæla í gegnum í fjhn., var náttúrlega sagt, að söluskatturinn ætti ekki að hverfa. Söluskatturinn, það voru álögur á almenning. Hví í ósköpunum átti að vera að fella niður álögur á almenning? Nei, það var vist ekki mikil ástæða til þess. Það var eitthvað betra að láta ríkissjóð koma út með vænar fúlgur, leggja á 1–2 hundruð millj, meira en nauðsyn var á. Þetta kemur sér oft vel fyrir óráðsíustjórnir. Það er ósköp þægilegt fyrir stjórn, sem ekkert vissi, hvað hún átti að gera, að hafa í rassvasanum 100–200 millj. kr. afgangs, sem hafði verið lagt á of mikið og að óþörfu á almenning. Íhaldssamar ríkisstj. hafa tilhneigingar til þess og íhaldssamir fjmrh. að leggja álögurnar á, halda álögunum og hækka álögurnar. Þess vegna vildi ég gjarnan tala við hæstv. fjmrh. núna. En mér finnst hann þyrfti að segja okkur eitthvað ofur lítið um þennan blessaða söluskatt, sem hann leggur til að fara að framlengja, af því að hann er alltaf öðru hverju að minnast á gengislækkun um leið. Þess vegna vildi ég nú spyrja hæstv. fjmrh.: Hvað er meiningin hjá honum að gera? Ætlar hann að fella söluskattinn niður? Ætlar hann að lofa því sama, sem lofað var undir svipuðum kringumstæðum fyrir tíu árum? Eða er hann orðinn það vitrari af svikunum þá, að hann hugsi, að það sé bezt fyrir ráðh. að gera það, sem þeir fyrirskipa sínum þm., að þegja?

En ef hæstv. ráðh. eru orðnir svona hvekktir á sínum vísindamönnum, á sínum eigin skröddurum, þegar þeir eiga að fara að búa til nýju klæðin handa þeim, að þeir þora ekki einu sinni að trúa neinu af því, sem þeir segja, og því, sem þeir hafa sagt áður, fer þá ekki að verða til nokkuð mikils mælzt að ætlast til, að alþýðan og Alþingi gleypi þetta allt saman hrátt eftir kannske tvo mánuði eða svo? Ég held þess vegna, að hæstv. fjmrh. þurfi að segja okkur það, — ég tala nú ekki um, þegar hann tekur nú svo djúpt í arinni, að hann er farinn að boða hér nýtt efnahagskerfi, — hann þarf að segja okkur það: Er meiningin að framlengja þennan söluskatt í þessu frv.? Er farið fram á að framlengja hann allt árið 1960? Það er ekki verið að tala um að framlengja hann fram að einhverri gengislækkun eða einhverju öðru slíku, fram að efnahagsráðstöfunum eða einhverju öðru slíku. Er máske meiningin, ef hæstv. ríkisstj. ætlar að grípa til slíkra ráða eins og gengislækkunarinnar, að allar álögurnar eigi að haldast eins og áður? Og mætti ég þá gefa hæstv. fjmrh. eina viðvörun, — og það væri gott, að henni væri komið til hans, því að ef ég fæ ekki að sjá það rækilega, að hann sé búinn að fá að vita þetta, og hann segir það sjálfur hér úr stólnum seinna, þá er alltaf hætta á, að ég verði að endurtaka þetta allt saman, — ég held, að það væri nauðsynlegt, að hann gæfi okkur yfirlýsingu um, að hann ætlaði ekki að framlengja þennan söluskatt, svo framarlega sem hann gerir ráðstafanir, sem miða að gengislækkun eða slíku. En þá vil ég um leið aðvara hann um eitt. Þegar því var lofað að afnema söluskattinn 1949–50 og það svikið, þá var gengið lækkað og útflutningsbæturnar afnumdar, og það var sagt: Loksins er komið eilífðarráðið. Héðan af gengur allt af sjálfu sér. Fyrst búið er að lækka gengið, gengur allt af sjálfu sér. — Og hvað var eilífðin löng? Gengið var lækkað 20. marz 1950, og 1951 var settur á bátagjaldeyririnn. Eilífðarráðið vísindamannanna, skraddaranna, dugði eitt ár. Og það hefði allur bátaútvegurinn stöðvazt, ef ekki hefði verið gripið til þessara sérstöku ráða. M.ö.o.: skraddararnir sýndu sig ekki vera neitt betri en skraddararnir í ævintýrinu. Það var náttúrlega ekki tekið tillit til barnanna, þegar þau voru að aðvara um þetta. En þegar útvegsmennirnir fóru að segja: Nú stöðvum við bátana, ef við fáum ekki uppbót eftir gengislækkunina, — þá lét sú ríkisstj., sem framkvæmt hafði gengislækkunina, uppbæturnar í té, m.ö.o.: ári eftir að eilífðarráð vísindamannanna var tekið upp, voru uppbæturnar settar á aftur. Þetta væri gott að hæstv. landbrh. gerði ekki aðeins fjmrh. ljóst, heldur og allri ríkisstj., prédikaði vel yfir hausamótunum á henni, fyrst hún nú sýnir sig ekki í því að hafa neina tilhneigingu til þess að læra nokkurn skapaðan hlut af afglöpum annarra fyrri ríkisstjórna, — er líklega búin að gleyma öllu, sem gerðist fyrir 10 árum, og virðist ætla í dag að trúa nýju skröddurunum alveg jafnvel og sú ríkisstj. núv. forsrh., sem tók við eftir kosningarnar 1949, trúði þeim þá.

Það er slæmt, ef hæstv. ráðh. geta ekkert lært. Það var nefnilega aldrei sagt um keisarann í Kína, sem ævintýri H. C. Andersens fjallar um, að þessir sömu skraddarar hefðu getað komið til hans aftur og ginnt hann aftur á sama hátt og fengið hann til að ganga allsnakinn aftur eftir götunum í höfuðborg sinni. En hæstv. ráðh., sem mynda núverandi ríkisstj., virðast auðsjáanlega ekkert smeykir við, þó að yrði hlegið að þeim um alla Reykjavík og allt Ísland fyrir að láta ginna sig á nákvæmlega sama hátt aftur. Hins vegar hafa þeir náttúrlega mikla afsökun, ef þeir heyra aldrei nokkurn tíma neitt af því, sem talað er á Alþingi. Ég veit alveg, hvað þeir munu segja seinna. Þeir munu segja eftir svona tvö til þrjú ár, þegar allar vitleysurnar hjá þeim koma í ljós, — þá segja þeir: Já, mér datt þetta bara ekki í hug. Hvernig í ósköpunum átti ég að vita þetta, þetta voru hálærðir menn. — Þeim hefði verið nær að vera við. Og ég verð að segja það, að hæstv, landbrh. yrði bókstaflega látinn sligast undir þeirri ábyrgð, sem hann yrði að taka á herðar, af því að hann er samviskusamastur af öllum ráðh., að hann skuli verða að taka að sér að fara að flytja þeim skilaboðin. Og svo munu þeir seinna meir segja við hann: Ja, þetta var þokkalegt þarna fór þetta allt til andskotans hjá okkur og var tóm vitleysa frá upphafi vega. Og þú vissir það. Þú heyrðir þetta allt saman og gazt aldrei komið því inn í hausinn á okkur. — Ég skal segja ykkur það, að ég hef varla samvizku til þess að íþyngja svo hæstv. landbrh., sem mér er alveg sérstaklega vel við, að ætla að fara að láta alla hina sex hálfsleppa við ábyrgðina og ætla að koma henni yfir á hann, bara fyrir það að hann skuli einn hafa haft samvizku og sýnt Alþingi þá virðingu að sitja hér. Og svo að auki líka hitt, að þeir eru allir svo illa að sér í hagfræði, að þó að hann færi einu sinni að segja þeim þetta og hefði skilið þetta vel og skilmerkilega, þá mundi ekki veita af því, að þetta væri tuggið í þá tvisvar, þrisvar, fjórum sinnum, þangað til það færi loksins að opnast eitthvað hjá þeim fyrir því.

Ég verð að segja það, að ég hef nefnilega því miður orðið var við slíka menn, sem eiga að vera sérfræðingar í þessum málum, — og er ég þó ekki að tala um hagfræðinga í þetta skiptið, ég á við bankastjóra, — ég hef reynt það hér á Alþ., að við vorum einu sinni búnir, n. hér frá þinginu, að kaupa eina 30 togara, höfðum nógan útlendan gjaldeyri í það og réðum honum sjálfir, höfðum keypt hann inn fyrir ríkið, en bankastjórarnir í Landsbankanum, — það var á þeim tíma stundum talað um landsbankavald, — réðu yfir íslenzku peningunum. Við réðum bara þeim útlendu og keyptum þessa 30 togara án þess að spyrja Landsbankann að. Og hver haldið þið svo að hafi verið vandræðin á eftir? Jú, vandræðin voru þau, að Ísland, íslenzka ríkið, íslenzka lýðveldið, sem var búið að eignast þessa 30 togara og borga þá út, gat helzt ekki flutt þessa togara heim upp á að láta nokkurn mann á Íslandi eignast þá, vegna þess að Landsbankinn, bankastjórarnir í Landsbankanum, þeir vildu ekki lána neina íslenzka peninga, til þess að neinn íslenzkur borgari, einstaklingur eða bæjarfélag, gæti eignazt þessa togara.

Við náttúrlega vorum ekki í neinum vandræðum, sósíallstarnir, með þetta. Við sögðum: Nú jæja, ef þið ekki viljið, að það sé hægt að selja þessa togara ýmsum bæjarfélögum eða öðrum slíkum, þá á ríkið þá alla 30 og verður þá að gera þá út, og við þurfum aldrei að spyrja ykkur neitt um það, því að við erum búnir að borga þá. Bankastjórar Landsbankans gátu ekki skilið, áð það að snara út 100 millj. kr., íslenzkum krónum, fyrir þessa 30 togara, þýddi, að það kæmi aldrei neinn einasti af þessum seðlum í gang á Íslandi, vegna þess að þeir færu allir saman um leið til þess að kaupa þennan útlenda gjaldeyri, sem við vorum búnir að nota. Í hálft ár stóð Landsbankinn, bankastjórarnir, á móti því, að það væru hér á Alþingi gerðar ráðstafanir til þess, að íslenzkir borgarar og íslenzk bæjarfélög fengju að kaupa þessa togara, sem íslenzka ríkið var búið að kaupa. Og síðan urðum við í hálft ár í viðbót að knýja í gegn hér á Alþ. lagafyrirmæli, sem fyrirskipuðu Landsbankanum að stofna hina svokölluðu stofnlánadeild sjávarútvegsins og leggja þar þessar 100 milljónir fyrir.

Svona er það undarlegt. Stundum er svo um einföldustu hluti, sem þarf að gera til þess að byggja okkar þjóðfélag upp, að mennirnir, sem eiga að heita sérfræðingar, mennirnir, sem jafnvel ráða peningamálunum, virðast ekki hafa hugmynd um, hvað það er, sem skapar peningana, sem þeir eru að reyna að ráðstafa. Þá virtist það vera svo, að bankastjórarnir, sem réðu öllum gjaldeyrinum, sem framleiddur var, gerðu sér ekki grein fyrir því, á hvern hátt þessi gjaldeyrir væri til kominn, sem sé frá sjávarútveginum, og ef menn ætluðu að útvega meiri gjaldeyri, þá yrði það að gerast með því að auka sjávarútveginn.

Ég nefni þetta sem dæmi um, hvernig það er viðvíkjandi þessum málum, þegar farið er að tala um nýja efnahagsstefnu, eins og hæstv. fjmrh. var að tala um, þegar farið er að gera ráðstafanir með söluskatt, með útflutningsuppbætur, með gengislækkun og annað slíkt. Það, sem menn þurfa að skilja, til þess að ekki hljótist tjón af því, sem þeir gera, er að skilja grundvöllinn, sem okkar þjóðfélag byggist á, atvinnutækin og nauðsyn ríkisins, nauðsyn þjóðfélagsins á því, að þessi atvinnutæki séu rekin. Það hefði verið mjög gott, að hæstv. fjmrh. hefði gert sér þessa hluti ljósa. Hann er nýbyrjandi í að skipta sér af fjármálum, hvort sem hann ætlar sér að vera lengi í því eða ekki, og honum hefði verið ákaflega gott að læra af mistökum, sem gerð hafa verið áður. Og nú vildi ég alveg sérstaklega, að það væri gerð ráðstöfun til þess, að hæstv. fjmrh. kæmi, því að ég ætlaði að ræða við hann um eitt atriði, þar sem ég vil tala við hann ekki aðeins sem fjmrh., heldur einnig sem formann Sogsvirkjunarstjórnarinnar. Ég á sæti með honum í Sogsvirkjunarstjórninni og hef sjálfur kosið hann sem formann þar, þannig að mér þætti alveg sérstaklega vænt um, svo að ég neyðist ekki til, kannske einhvern tíma í nótt að fara að endurtaka þetta allt saman og fá hann til þess að ræða þetta þá, að í hann væri nú hóað.

Það hefur komið fyrir, að ríkisstj. hafi verið að minnast á verðbólgu. Ég býst við, að það sé enginn hv, þm., sem ber á móti því, og mig langar til þess að gefa hæstv. fjmrh. ofur litið dæmi um, hvernig í sambandi við það lagafrv., sem hann hér leggur fyrir, og þær ráðstafanir, sem hann hefur verið með í að gera og fleiri með honum, — hvernig verðbólga er sköpuð og hve frámunalega vitleysíslega er farið að. Því háttar svo, að þessi söluskattur, sem hér er um að ræða, er lagður líka á öll ríkisfyrirtæki, og ég skal þá taka dæmi t.d. af Sogsvirkjuninni og vélunum til Sogsvirkjunarinnar. Það var svo bæði í virkjuninni 1953 og virkjuninni núna, raunar eins og af áburðarverksmiðjunni, að það var lagður söluskattur á allar vélarnar til Sogsvirkjunarinnar. Sogsvirkjunin er eign ríkisins og Reykjavíkurbæjar, er sem sagt alveg opinber eign. Söluskatturinn er lagður á til þess að afla ríkinu tekna. M.ö.o.: ríkið leggur skatt á andvirði vélanna, sem þarf til þessa opinbera fyrirtækis. Það er að taka úr einum vasanum til þess að láta í hinn. Nú vill svo til um þá samninga, sem ríkisstjórnir undanfarið hafa gert, — og eiga þar allar ríkisstjórnir sama mál, sem setíð hafa á undanförnum 6 árum, — að þær hafa venjulega gengið svo frá í sambandi við lántökur til Sogsvirkjunar, að það hafa ekki fengizt þau lán, sem þurfti til að borga þennan söluskatt, þannig að það hafa engir peningar verið til til þess að borga til ríkisins söluskattinn af vélunum til þessa ríkis- eða opinbera fyrirtækis. Þá hefur verið farin sú leið og er farin núna, að það er farið í einn ríkisbankann til þess að reyna að knýja þar út lán handa þessu ríkisfyrirtæki. M.ö.o.: ríkið leggur skatt á vélar til ríkisfyrirtækis, pínir það fyrirtæki til að fara til ríkisbankans til þess að taka lán í ríkisbankanum og borga með því skattinn í ríkissjóð. M.ö.o.: þrjár deildir ríkisins eru að innheimta hver hjá annarri, leggja skatt hver á aðra til þess, — já, til hvers á endanum? Það eru sömu aðilarnir, sem raunverulega borga þetta. Til þess að auka verðbólguna í landinu. Um það, hve slysalega þarna er að farið og vitleysislega, skal ég nefna eitt dæmi.

Í sumar brast garður, sem hlaðinn hafði verið út í Þingvallavatn, og ég býst við, að það tjón, sem verktakar þeir, sem þar eru að byggja, verða fyrir af þessu, verði kannske 4–5–6 millj. kr. Það er tilfinnanlegt og sárt og slæmt. En hvert haldið þið að tjónið sé, sem Sogsvirkjunin sjálf verður fyrir af því að verða að borga þennan söluskatt? Söluskatturinn er 30 millj. kr., það sem ríkið innheimtir hjá ríkisfyrirtækinu, og ríkisfyrirtækið verður að fá lán hjá ríkisbankanum til þess að borga þessar 30 millj. kr. En hvað þarf þetta opinbera fyrirtæki, Sogsvirkjunin, að gera til þess að fá þessar 30 millj. kr. að láni til þess að borga ríkinu? Það þarf, — það er gert á móti mínu atkv., — að taka lán hjá ríkisbankanum; þessar 30 millj. kr., sem fara eingöngu í að borga söluskattinn, og hvað haldið þið að það þurfi að borga fyrir þessar 30 millj.? Það þarf að borga 6 millj. kr. fyrir það til ríkisbankans, m.ö.o.: það sama og slysið, sem varð uppi við Þingvallavatn, kostaði verktakana þar. Það sama kostar þetta slys, að ár eftir ár er það fjmrh., sem stjórnar landinu þannig, að þessi hringavitleysa innan ríkisbáknsins á sér stað og kostar okkur 6 millj. kr., sem náttúrlega leggst aftur á í auknu rafmagnsverði, sem þýðir aftur, að það verður að borga enn þá hærra, af því að þetta eru allt rafmagnsvísitölubréf, sem nú eru gefin út, — það verður að borga enn þá meira úr sjóði Sogsvirkjunarinnar á eftir. Og þetta hjálpar allt til þess að auka rafmagnsverðið hjá almenningi, sem aftur kemur fram í vísitölunni. Svona er hringavitleysan í þessum ráðstöfunum.

Haldið þið nú, að hæstv. fjmrh., sem nú er nýtekinn við og kann ósköp lítið í þessu, hefði ekki haft gott af því að sjá, hvers konar hringavitleysa það er, sem hann leggur hér fyrir Alþingi, sérstaklega vegna þess, að hann er sjálfur formaður Sogsvirkjunarstjórnarinnar, hefur staðið sjálfur í því að verða að reyna að fá þessi lán, hefur sjálfur verið að stritast við að semja við bankastjóra Landsbankans eða Seðlabankans og situr sjálfur alveg eins og ég með sveittan skallann við að undirskrifa skuldabréf upp á alla þessa vitleysu? Haldið þið ekki, að það sé eðlilegt, að mönnum ofbjóði, þegar þessi sama hringavitleysa er lögð núna fyrir einu sinni enn þá, þó að það sé nýr fjmrh., sem ætti einmitt að þekkja þennan hlut betur en allir aðrir fjmrh.? Haldið þið ekki, að það sé von, að manni ofbjóði, þegar þetta er nú endurtekið, sama vitleysan og var 1953, nákvæmlega sama vitleysan? M.ö.o.: slysin, sem forráðamenn ríkisins og í þessu tilfelli líka meiri hlutinn í stjórn Sogsvirkjunarinnar valda, eru meiri og dýrari en slysið 17. júní í sumar austur við Þingvallavatn.

Þið haldið kannske, fyrst ég minntist á vexti, þessar 6 millj. kr., sem við verðum að borga í vexti af þessum 30 millj., sem við verðum að taka í söluskatt, að það sé raunverulega hið eina, sem sé verulega erfitt viðureignar í þessum málum. Ég held nefnilega, að hæstv. fjmrh. ætti að gera sér ljóst, þegar verið er að tala um vexti, hvað þeir raunverulega þýða. Mér finnst, að í þeim prédikunum, sem fram fara til almennings, líka frá þessari hæstv. ríkisstj., sem nú hefur nýlega tekið við, sé stundum nokkuð lítið rætt um þá hluti. Ég varð nefnilega var við, að það var minnzt á það í yfirlýsingu ríkisstj., þegar hún tók við, að við Íslendingar lifðum um efni fram. Það virtist eiga við, að alþýða manna hefði líklega of hátt kaup, borðaði of mikið og klæddist of vel og byggi í of góðu húsnæði. Og manni virðist, að hjá þeim hagfræðingum, sem mest tala nú að því er virðist óbeint fyrir hönd ríkisstj., sé eins og gengið út frá því, að allur kostnáður í landinu, við alla framleiðslu og annað slíkt, sé óhjákvæmilegur og óhagganlegur nema kaupgjaldið.

Ég skal nú, ef þm. hafa orðið hissa á því, að Sogsvirkjunarstjórnin skuli hafa orðið að taka lán bara til þess að borga söluskattinn, 30 millj. kr., og borgar 6 millj. kr. fyrir það lán, fræða menn á því, að helmingurinn og stundum upp undir 2/3 af öllum kostnaði við Sogsvirkjunina eru vextir, vextir og ekkert annað. Það er talað um, að það eigi e.t.v. að lækka gengið á íslenzku krónunni, og svo framarlega sem það væri gert, þar sem hér er mestmegnis um útlend lán að ræða, mundu þessir vextir stórhækka, vegna þess að Framkvæmdabankinn, sem hefur annazt lánin með þeim þokkaskilmálum, sem hann bindur slíkum stofnunum eins og Sogsvirkjuninni á herðar, veltir gengislækkunaráhættunni af sér yfir á þessar stofnanir. Það hefur undanfarin ár í sambandi við lánin til t.d. núverandi virkjunar Sogsins verið tekið lán með miklu dýrari vöxtum en þurfti, og hæstv. núverandi fjmrh. hefur beinlínis staðið að því. Það eru fleiri, sem eru honum samsekir um það. Ég hef hér fundargerðir Sogsvirkjunarstjórnarinnar, þegar þessara lána var leitað, og ég hef hér afrit af því, sem gerðist á ráðstefnu Sogsvirkjunarstjórnarinnar við þá ríkisstj., sem sat að völdum um það leyti. Og um eitt var meiri hlutinn í Sogsvirkjunarstjórninni, Sjálfstfl. og þeir tveir flokkar, sem þá voru með okkur í ríkisstjórn, Framsókn og Alþfl., — um eitt voru þessir 3 flokkar sammála, og það var að hindra, að tekin væru ódýr lán til Sogsvirkjunarinnar, — lán, sem staðfest er hér í þessum plöggum, sem ég get lesið upp, ef þörf gerist, sérstaklega ef hæstv. fjmrh. óskar eftir því, hann kæmi hér og væri búinn að gleyma þessu, þá liggur það fyrir, að það var hægt að fá lán með 21/2% vöxtum fyrir allri Sogsvirkjuninni, eins og hún lagði sig, söluskattinum handa fjmrh. líka. Meiri hlutinn í stjórn Sogsvirkjunarinnar, þar sem hæstv. fjmrh. er formaður, neitaði að leita fyrir sér um þessi lán. Í staðinn voru svo tekin alldýr lán, lán með 5–7% vöxtum í Bandaríkjunum, lán, sem mér skilst að hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstj. séu að hugsa um að hækka í verði núna með gengislækkun, þannig að það eigi að velta yfir á neytendur í landinu verðhækkunaröldu með gengislækkun, og um leið náttúrlega hækka vextirnir af þessu, sá íslenzki yfirfærði hluti þeirra. Og nú er Sogsvirkjunin að taka lán til þess að borga þessar 30 millj. kr, í söluskatt, er að borga 6 millj. kr. út í hönd, fyrir fram greidda vexti, til þess að rísa undir því að borga fjmrh. þessar 30 millj., og er að skuldbinda sig um leið samkv. ákvörðunum meiri hluta hér á Alþingi til að borga meira, svo framarlega sem rafmagnið hækkar á næstunni. Þó að hún hafi getað fengið lán til þess að borga með m.a. þessar 30 millj. með 21/2 %, þá verður hún nú að undirgangast að borga frá 5 og upp í 7% og með vísitölu og eiga gengislækkun yfir höfði sér.

Menn eru kannske undrandi yfir því, að ég sé að ræða þessi mál. Hvaða máli skiptir það, þó að ríkið eða ríkisfyrirtæki séu féflett af þeim, sem stjórna þeim, og þó að þeir menn, sem ráða þessum hlutum, skeyti aldrei um hagsmuni þeirra? Ég er ekkert sérstaklega hissa á því, — það hefur komið fyrir hér í sambandi við aðra hluti, eins og Áburðarverksmiðjuna, sem ég var að ræða nýlega, — að maður verður ár eftir ár að standa hér í sömu pontunni, nú í nýjum stól, til þess að reyna að bjarga því, að það sé ekki stolið af ríkinu fyrirtæki upp á hundruð milljóna króna, og maður verður að standa ár eftir ár í baráttu til þess að reyna að bjarga því, að ríkið sé ekki féflett og ríkisfyrirtækin með hringavitleysu eins og þessum söluskatti á ríkisfyrirtæki og með allt of háum vöxtum.

Ég veit, að það mun mörgum mönnum finnast hjákátlegt, að menn skuli yfirleitt vera að hugsa um hag ríkisins, um hag þjóðfélagsins í þessum efnum. Ég hef stundum orðið var við það, að miklum valdamönnum hér í ríkisstjórn og á Alþingi finnst ríkið og ríkisfyrirtækin vera eins og bráð, sem þeir hafi lagt að velll. Ef tveir flokkar hafa fengið meiri hluta á Alþingi, hvað eiga þeir þá að gera, finnst þeim? Þeir eiga að ganga í skrokk á ríkinu og reyta það eins og hægt sé. Maður hefði þó hugsað, að fjmrh. ætti að hafa einhvern áhuga fyrir ríkissjóði, og ég vil spyrja hæstv. fjmrh., hvort hann hafi nokkurn áhuga fyrir ríkissjóði, eða hvort honum sé alveg sama, hvernig með fé ríkisins sé farið. Og ég vil spyrja hann sérstaklega vegna þessa tilfellis, sem ég hér er búinn að rekja, af því að ég veit, að hæstv. fjmrh. á að þekkja þessa hlið málsins hinum megin frá. Hann er oft búinn að standa í sömu sporum og við aðrir í stjórn Sogsvirkjunarinnar að reyna að slást um að reyna að útvega þessa peninga, og hann hlýtur að vera farinn ofur lítið að skilja, hvers konar hringavitleysa þetta er. Þess vegna var ég forvitinn að heyra, hvort hann hefði nokkuð áttað sig og ætlaði að fara að breyta eitthvað um frá því, sem verið hefði áður, og þá dengir hann þessu frv. yfir okkur hér, þessum líka óskapnaði, með allan söluskattinn fram undan jafnvitlausan og áður, og svo kemur þetta allt saman til með að enda með því, að fjmrh. Gunnar Thoroddsen verður að keyra í hausinn á Sogsvirkjunarstjórnarformanninum Gunnari Thoroddsen þessari kröfu: rlt méð þessar 6 millj., út með þessar 30 millj. hækkaðar með rafmagnsverði o.s.frv.

Það verður þokkalegt ástand, sem hæstv. fjmrh, verður kominn í, ef hann áttar sig ekki í tíma, og það var það, sem ég vildi reyna að hjálpa honum til að gera. Þess vegna vil ég taka það enn einu sinni fram, að það er ákaflega slæmt, að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera viðstaddur, — ekki vegna þess, að ég treysti ekki hæstv. landbrh. til þess að reyna að troða þessu í kollinn á honum, en hæstv. fjmrh. hefði átt að bregðast fljótt við, ef hann hefði heyrt þetta allt saman, vegna þess að hann er vissum þáttum í þessu mjög kunnugur, en hefur aldrei fyrr en núna haft það tækifæri að vera fjmrh. um leið. Nú getur hann látið stjórn Sogsvirkjunarinnar njóta þess, að hann skilji eitthvað af þessum hlutum og að við þurfum ekki að standa frammi fyrir þeirri hringavitleysu, sem við höfum staðið frammi fyrir í sambandi við söluskattinn undanfarið. Þess vegna þykir mér ákaflega mikið miður, að hann skuli ekki vera mættur hér. Svo er líka alltaf slæmt að þurfa að vera að endurtaka hvað eftir annað yfir hausamótunum á honum það, sem hann þarf að vita, áður en hann tekur þátt í því að afgreiða svona frv. Ég get nefnilega vel skilið, að að sumu leyti hafi hann máske alls ekki hugsað neitt út í þetta, þegar hann setti þetta fyrir þingið. Það getur vel verið, að hann hafi alls ekki áttað sig á því, hvað þetta frv. sé vitlaust, og mundi þess vegna, þegar honum væri sýnt fram á það nú, vera reiðubúinn til að breyta þarna til.

Ég vil líka í sambandi við þetta, ekki sízt í sambandi við þá mynd, sem ég hef dregið upp af vöxtunum og þeirra þætti í svona fyrirtæki eins og Sogsvirkjuninni, leggja áherzlu á, að þegar verið er að tala um það af hálfu hæstv. ríkisstj. við atmenning, að hann lifi um efni fram, þá verður hver sú ríkisstjórn, sem ætlar að leyfa sér að prédika slíkt, að byrja á því að sýna vilja sinn til þess að skera niður þann kostnað við framkvæmdir, framleiðslu og annað, sem hægt er að skera niður, og þar eru vextirnir stór liður. Vextirnir valda um þriðjungnum af allri dýrtíð á Íslandi. Og ef þessi hringavitleysa, sem þarna hefur verið með vextina, eins og ég lýsti núna, er ekki stöðvuð, þá er sama, hvað margar gengislækkanir eru framkvæmdar á 10 ára fresti á Íslandi. Það verður enginn endir á því, ef þið byrjið ekki þar á, sem upphafið er að, — áður en farið sé að segja við nokkurn alþýðumann í þessu landi, að hann lifi um efni fram, þá sé ríkisstj., sem með völdin fer, búin að skera niður á öllum þeim sviðum, sem spara má, allt, sem hægt er að skera niður.

Ég hef hér sýnt fram á bara á þessu litla sviði í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, viðvíkjandi söluskattinum, hvernig beinlínis ríkisstjórnirnar sjálfar gera ráðstafanir til verðbólgunnar, hvernig skatturinn á þessi ríkisfyrirtæki, eins og í þessu tilfelli, verður til þess að skapa sífellt aukið og hækkað verð á rafmagninu í þessu sambandi, hvernig ríkið innheimtir hjá sjálfu sér hluti, sem engum óvitlausum manni nokkurs staðar í veröldinni mundi detta í hug að framkvæma.

Þess vegna eru vaxtagreiðslur langt yfir efni fram, gengislækkanir langt yfir efni fram hlutir, sem þarf að stöðva. Við höfum ekki efni á þess háttar vitleysispólitík, eins og er fólgin í þessum söluskatti, hvernig honum hefur verið beitt, og eins og fólgin er í þeim ráðstöfunum til gengislækkunar, sem gerðar voru 1950 með þeim afleiðingum, sem ég hef lýst, og talað er um að gera núna og mundu hafa sömu afleiðingarnar. Við höfum ekki efni á þessum ráðstöfunum.

Þess vegna er nauðsynlegt, að Alþingi og ríkisstj., þegar rætt er um þetta frv., sem hér liggur fyrir, geri sér ljóst, að það er tími til kominn að stöðva þessa vitleysu. Það er tími til kominn að stinga þarna við fæti og breyta þarna um stefnu, ekki á þann hátt, sem gert var 1950, sem leiddi alla sömu vitleysuna yfir aftur, en tafði hins vegar fyrir virkjununum, heldur með því að taka upp þá stefnu að skapa stöðugt verðlag í landinu, með því að hafa skipulagt þjóðfélagið og atvinnuvegina þannig, að búið væri að nema brott allt, sem óþarfi væri, arðrán eða vitlausa stjórn, og ef það dygði ekki til að tryggja þau lífskjör, sem almenningur býr við í landinu, þá fyrst væri hægt að koma til hans og tala við hann um að breyta þeim.

En hvernig stendur á því, að þetta frv. skuli vera lagt fyrir nú? Hvernig stendur á því, að þessar vitleysur, sem ég nú hef rakið, skuli af fjmrh., sem ætti þó að vita betur og eitthvað geta lært af reynslunni, vera endurteknar alveg á sama hátt og áður hefur verið gert? Jú, það stendur þannig á þessu, að það er verið að reyna að flaustra þinginu af. Það er verið að reyna að losna við þingið. Og í sambandi við það, í sambandi við þennan ótta, sem fram kemur hjá hæstv. ríkisstj., þennan ótta við Alþingi og umræðurnar hér, vildi ég gjarnan ræða nokkuð til viðbótar við hæstv. fjmrh. út af yfirlýsingu, sem hann gaf. Nú vildi ég mælast til þess við hæstv. forseta, að það verði gerð gangskör að því að vita, hvort ekki er von á hæstv. fjmrh. í þingið. (Gripið fram í: Það er ekki von á honum fyrr en kl. 7.) Er ekki von á honum fyrr en kl. 7? Þá býst ég við, að það verði nú gert hlé. Skyldi vera von á honum í kvöld? (Gripið fram í: Ég sagði fyrir 7.) Já, en það er þá kannske von á honum eftir 7? (Gripið fram í: Ef það verður kvöldfundur, þá geri ég ráð fyrir því. ) Er það ekki alveg víst, að það verði kvöldfundur? (Gripið fram í: Ætli það séu ekki nógir á mælendaskrá, ef þessi þm. frestar sínu máli?) Ég hef nú sem stendur orðið, og ef fjmrh. kemur ekki fyrr en á kvöldfundinum, þá get ég náttúrlega líka talað við hann á kvöldfundinum. Það er víst einu sinni svo, að ef fjallið kemur ekki til Múhammeðs, þá verður Múhammeð að fara til fjallsins. Maður verður víst að sætta sig við það, að mönnum, sem eru nýorðnir svona voldugir höfðingjar, finnist, að þeir þurfi ekki að tala við þing eða þingmenn, nema þegar þeim þóknast. Það eru ekki allir ráðherrar, sem eru eins lítillátir og hæstv. landbrh., enda vanur því að sitja í þessum stól áður, að hann sýni þinginu þá virðingu að ræða og hlusta á þá hluti, sem þar eru ræddir.

Hæstv. fjmrh. gaf þá yfirlýsingu í gær, að það væri stefna ríkisstj. að taka upp nýtt efnahagskerfi, ég held meira að segja, að hann hafi sagt: að taka upp nýtt efnahags- og fjármálakerfi. Ég varð satt að segja dálítið hissa. Ég hafði eins og aðrir hv. þm. hlustað á stefnuyfirlýsingu ríkisstj. Ég hafði hlustað á hæstv. forsrh. flytja stefnuyfirlýsingu ríkisstj. hér 20. nóv., þegar Alþingi var sett. Ég hef lesið þessa stefnuyfirlýsingu yfir, og ef menn væru búnir að gleyma henni, þá gæti ég lesið hana upp fyrir mönnum einu sinni enn þá, hún er ekkert mjög löng. Ég hef farið vel í gegnum hana; hafði hlustað á hana og hugsað ofur lítið um hana, af því að það féll í minn hlut að tala ofur lítið á eftir hæstv. forsrh. Og ég hef leitað með logandi ljósi í þessari ekki svo mjög löngu stefnuyfirlýsingu að boðuninni á nýju efnahagskerfl. Ég hef verið að athuga það. Byrjunin er, með leyfi hæstv. forseta:

„Að undanförnu hafa sérfræðingar unnið að ýtarlegri rannsókn á efnahagsmálum þjóðarinnar. Skjótlega eftir að þeirri rannsókn er lokið, mun ríkisstj. leggja fyrir Alþingi tillögur um lögfestingu þeirra úrræða, er hún telur þörf á. Athuganir hafa þó leitt í ljós, að þjóðin hefur um langt skeið lifað um efni fram og að hættulega mikill halli hefur verið á viðskiptum þjóðarinnar við útlönd. Tekin hafa verið lán erlendis til að greiða þennan halla, og erlend lán til stutts tíma eru orðin hærri en heilbrigt getur talizt.“

Síðan er haldið áfram og talað um traustan og heilbrigðan grundvöll og ýmislegt slíkt, en hvergi nokkurs staðar í yfirlýsingunni er eitt einasta orð um nýtt efnahagskerfl. Ég held ég fari þar áreiðanlega rétt með. Ef einhver ber brigður á það, skal ég lesa þetta upp orð fyrir orð. En ég held, að menn megi hafa það fyrir satt, að það er hvergi nokkurs staðar í þessari stefnuyfirlýsingu með einu orði talað um nýtt efnahagskerfl. En hæstv. fjmrh. lýsir því yfir núna, — í gær, held ég það hafi verið, — að það sé stefna ríkisstj. að taka upp nýtt efnahagskerfl. Hvernig er þetta? Er ríkisstj. búin að fá nýja stefnu síðan 20. nóv.? Er allri rannsókninni lokið? Eru sérfræðingarnir komnir með þetta allt saman? Eru þeir alveg til með kerfið og ríkisstj. búin að fallast á það og búin að móta sína stefnu? Og því í ósköpunum er þá verið að senda okkur heim? Eða veit hæstv. fjmrh. svona miklu, miklu meira en hæstv. forsrh. vissi og ríkisstj. öll vissi, þegar ríkisstj. var mynduð? Menn tala ekki um, að það sé stefna ríkisstj. að skapa nýtt efnahagskerfi, fyrr en menn vita, hvers konar kerfi er ætlunin að skapa. Það er þess vegna ekkert undarlegt, þó að okkur þm. langi til þess, að hæstv. fjmrh. sé hér viðstaddur hjá okkur, til þess að við getum fengið að heyra um þetta nýja efnahagskerfl. Það væri ekki gaman fyrir okkur, ef það væru einu sinni enn bara nýju fötin keisarans, sem ætti að fara að klæða ríkisstj. í, ef aumingja hæstv. ríkisstj. ætti nú að standa berstrípuð eftir nokkurn tíma, ef þetta nýja efnahagskerfi væri ekkert haldbetra en nýju fötin keisarans. Þess vegna held ég, að það sé alveg óhjákvæmilegt, fyrst hæstv. fjmrh. er nú nýr í ríkisstj., nýr sem fjmrh., og gefur þess vegna svona skorinorðar yfirlýsingar, að hann lýsi þessu nýja efnahagskerfi fyrir okkur. Maðurinn fer varla að tala um nýtt efnahagskerfi, ef hann veit ekki um, að ætlunin sé að skapa kerfi, — og ætli maður að skapa kerfi, þá veit hann, hvernig það er. Það er kannske hitt til, að hann hafi einhverja hugmynd um, hvernig kerfið eigi að vera, en hinir ráðh. séu alls ekki búnir að fallast á það. Ef svo væri, þá væri náttúrlega enn þá meiri þörf á því, að hann lýsti þessu efnahagskerfi fyrir okkur. Ef til vill er þetta nýja efnahagskerfi hans svo gott, að ýmsir þm. vildu fara að fylgja því, ef hinir ráðh. væru með eitthvað miklu verra. Kannske er líka hitt til, að hans efnahagskerfi sé svo slæmt, að menn vildu miklu frekar aðhyllast eitthvað, sem hinir ráðh. væru með. Ég held það væri alveg nauðsynlegt, að við fengjum að vita um þetta.

Ég tók eftir, að hæstv. ráðh. talaði dálítið flott, sló dálítið um sig. Hann sagði, að það mundi vanta 200–300 millj. kr. Ég hélt, að forsrh. hefði sagt, að það væru 250 millj. kr. En þetta er kannske nokkuð mikið á reiki, hvort það eru 200, hvort það eru 300, — vonandi fáum við ekki að heyra eftir einn mánuð, að það séu 400. M.ö.o.: ef annars vegar á að vera búið að skapa nýtt efnahagskerfi og móta stefnu ríkisstj. viðvíkjandi því og hins vegar sé vafamál, hvort það séu 200 eða 300 millj., sem vantar, þá er satt að segja ekkert óeðlilegt, þó að maður vilji gjarnan fá að vita, hvað af þessu öllu saman það er, hvort það eru 200 eða 300 og hvort búið er að ákveða stefnu ríkisstj. viðvíkjandi nýju efnahagskerfi eða ekki.

Meðan hæstv. fjmrh, eða aðrir ráðh. gefa ekki neina yfirlýsingu um stefnuna í þessu og meðan við fáum ekki að heyra frá þeim hér á Alþingi, hvort það eru 200 millj., hvort það eru 250 millj. eða hvort það eru 300 millj., sem vantar, og með hvaða kerfi þeir ætla að skapa þessar milljónir, þá er máske ekki óeðlilegt, að við höldum okkur ofur lítið að einu upplýsingunum, sem við höfum fengið enn þá, — upplýsingum, sem enginn úr hæstv. ríkisstj. hefur mótmælt, og upplýsingum, sem eru frá helzta sérfræðingi ríkisstj. í þessum málum, frá æðsta samstarfsmanni ríkisstj. í efnahagsmálum, Jónasi Haralz ráðuneytisstjóra. Í ræðu, sem birt er í Morgunblaðinu og hann hélt 1. desember, í þeim sex boðorðum, sem hann segir ríkisstj., að hún eigi að breyta eftir, tekur hann m.a. fyrir, hvernig afgreiða skuli fjárlögin. Ég veit ekki, hvort hæstv. fjmrh. litur á það sem einhverja véfrétt, en ég vona a.m.k., að hann geri það ekki. Það stendur í þessari ræðu, eins og hún er birt í Morgunbl., í öðru boðorðinu þar, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjárlög verða að vera hallalaus og helzt með nokkrum greiðsluafgangi. Binda verður enda á lánveitingar úr ríkissjóði og draga úr eða helzt hætta með öllu veitingu ríkisábyrgða fyrir lánum. Þetta hvort tveggja, veiting lána og ábyrgða, er verkefni banka, sem ríkissjóður getur ekki tekið að sér, svo að vel fari.“

Er þetta stefnan? Er þetta einn liðurinn í nýja efnahagskerfinu? Ef svo er, má ég þá minna á, hvað gerðist hér á Alþingi í þessum efnum fyrir 25 árum? Þá var nýtekin við völdum ríkisstjórn. Ísland var fátækt, átti erfitt. Það var kreppa og atvinnuleysi í landinu, og ríkisstj. vildi gjarnan reyna að vinna að því að byggja upp atvinnulíf landsins. En til þess þurfti hún að fá leyfi til að taka erlent lánsfé. Það var m.a. á þeim tíma verið að undirbúa það að koma upp fyrstu Sogsvirkjuninni og verið að undirbúa það að koma upp hitaveitu í Reykjavík. Hver voru skilaboðin, sem sú ríkisstj. fékk viðvíkjandi lántökum erlendis og ríkisábyrgðum? Skilaboðin, sem sú ríkisstj. fékk, — það var ríkisstj. Framsóknar og Alþfl., sem tók við árið 1934, — voru þau, — það var frá Hambros Bank í London, sem var aðalviðskiptabanki Íslands, — að ríkisstj. yrði að gera svo vel að gefa yfirlýsingu um það, að hún ætlaði ekki að ganga í neinar ríkisábyrgðir og ekki aðstoða nein atvinnufyrirtæki á Íslandi til þess að vinna að þjóðþrifamálum, sem menn höfðu áhuga á, bæði Reykjavíkurbær og fleiri. Ríkisstjórnin varð að gefa svona yfirlýsingu, af því að útlendur banki heimtaði það, og þetta þýddi m.a., að ríkisstj. mátti ekki ábyrgjast Sogsvirkjunina, og það kostaði mörg ár og langa baráttu að útvega lán til Sogsvirkjunarinnar, af því að ríkið gat ekki ábyrgzt það. Og sömu baráttuna varð að heyja viðvíkjandi hitaveitunni og láta hana dragast lengi þess vegna.

Ég hef ofur litla hugmynd um, hvernig hlutirnir gerast, þegar lán hafa verið tekin á Íslandi á síðustu tímum.

Ég veit og hef upplýst það hér áður, að eitt af skilyrðunum fyrir lánunum, sem Sogsvirkjunin fékk, — sú Sogsvirkjun, sem fullgerð var árið 1953, Írafossvirkjunin, — var skilyrði frá hálfu Alþjóðabankans, að helmingurinn af öllu rafmagni, sem hægt væri að framleiða með virkjununum, væri seldur á verði, sem raunverulega var undir kostnaðarverði til áburðarverksmiðjunnar í næstu 15 ár. M.ö.o.: ég veit ósköp vel, hvernig Alþjóðabankinn setur íslenzkum stjórnarvöldum skilyrði í sambandi við lánveitingar. Ég veit líka, hvernig reynt var að koma áburðarverksmiðjunni úr ríkiseign, gera hana að hlutafélagi undir þrýstingi slíkra aðila, og ég veit, hvernig reynt var að koma sementsverksmiðjunni úr ríkiseign, þótt sú stjórn, sem þá sat að völdum, stæði vel á móti þeirri tilraun og léti hana ekki heppnast.

Ég vil spyrja, og það væri gott, að hæstv. fjmrh. upplýsti það: Hvernig stendur á, að ráðuneytisstjóri efnahagsmrn. og ríkisstj. skuli gefa í ræðu, sem haldin er um sama leyti og einn helzti maður Efnahagssamvinnustofnunarinnar er á ferðinni hér, eins konar fyrirskipun, því að hér er að ræða um fyrirskipun: binda verður enda á lánveitingar úr ríkissjóði, — hvernig stendur á, að þetta er gert, á sama tíma sem á að senda Alþingi heim? Ég get svarað þessu. Það stendur þannig á því, að þessir menn, sem þarna eiga að starfa, standa í sambandi við útienda aðila, Alþjóðabankann, og fara eftir áliti frá þeim um þessi mál. Og hér koma útlendir aðilar, eins og Sargent nú, og gefa yfirlýsingar um það í fyrirlestrum í háskólanum, að ef kartöflurækt sé minnkuð á Íslandi og aðrar slíkar álíka viturlegar ráðstafanir, þá séu allir styrkir til reiðu, sem Efnahagssamvinnustofnunin geti í té látið, og annað slíkt. M.ö.o.: það eru þarna útlendir aðilar, sem hafa ekki hundsvit á íslenzkum atvinnuháttum, eins og þeir sýna í sínum ræðum og afskiptum, að gefa eins konar fyrirmæli til okkar Íslendinga, til ríkisstjórnar, til hæstv. fjmrh. um, hvernig eigi að afgreiða fjárlög til Alþingis, hvort það eigi að vera ríkisábyrgðir á fjárlögum. Þeir ætla að fara að fyrirskipa, hvernig 22. gr. sé. Hvað ætla þessir menn sér? Hvað leyfa þeir sér? Er þetta nýja efnahagskerfið, sem á að koma? Á það, sem var neyðarúrræði fyrir íslenzku þjóðina, þegar hún var beygð undir erlent vald, undir brezka bankavaldið árið 1934, á það að vera eitthvert evangelíum, á það að vera einhver fagnaðarboðskapur, sem sérfræðingar flytja núna um, hvernig traustur efnahagsgrundvöllur eigi að vera?

Meðan hæstv. fjmrh. fæst ekki til að gera grein fyrir sínu nýja efnahags- og fjármálakerfi, verð ég að halda mér áfram við yfirlýsingar hins sameiginlega ráðuneytisstjóra allrar ríkisstjórnarinnar, sérfræðings hennar í efnahagsmálum. Hvernig byrjar fjórða boðorðið hjá honum í þessari ræðu, sem ég vitnaði í áður? Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Sama gengi verður að gilda fyrir útflutning og innflutning, er sé miðað við að skapa jafnvægi í greiðsluviðskiptum landsins við önnur lönd. Það er einmitt hlutverk gengisins að skapa slíkt jafnvægi, og ekkert annað tæki er til, sem getur komið í þess stað.“

Svo mörg eru þau orð. Má ég vekja athygli hæstv. ríkisstj. á því, hvað gengisbreyting, hún er venjulega aðeins rædd í sambandi við, hvort kaupgjald, raunverulegt kaupgjald hækki eða lækki, hvort útflutningsafurðirnar hækki eða lækki, og við höfum rætt það svo oft, að ég ætla ekki að gera það að umtalsefni, — en má ég vekja athygli hæstv. ríkisstj. á því, ef hún hefur ekki þrauthugsað það mál, hvers konar tilfærsla gengisbreyting nú væri á öllum eignum í landinu? Ég skal skýra, hvað ég á við.

Það voru gerðar í tíð vinstri stjórnarinnar ýmsar ráðstafanir, sem ég fyrir mitt leyti var á móti. Með þeim ráðstöfunum, 55 prósentunum og öðru slíku, hefur engin eignatilfærsla verið gerð. Ég skal. skýra þetta nánar. Við skulum taka togareiganda, sem hefur fengið togara á 3 millj. kr. á sínum tíma, — fengið 75–85% af þessum 3 millj. kr. að láni frá ríkinu, og að nokkru leyti stendur þetta enn þá sem skuld við stofnlánadeild sjávarútvegsins við Landsbanka Íslands. Þrátt fyrir útflutningsuppbæturnar og 55 prósentin og önnur prósent, sem á hafa verið lögð, þá er eignaafstaða þessa togaraútgerðarmanns hin sama og hún var áður. Viðkomandi togaraútgerðarmaður eða ef hann er eigandi hraðfrystihúss, sem líka hefur fengið slíkt stórlán úr ríkissjóði, og aðrir slíkir, — viðkomandi togaraútgerðarmaður, hraðfrystihússeigandi eða slíkur er jafnháður ríkisvaldinu og áður um rekstur síns útvegs, og þar með er hans eignarhald á þessum eigum honum ekki sérstaklega mikils virði, ekki a.m.k. hægt fyrir hann að nota það sem eign á móti ríkinu og þjóðfélaginu, á meðan þetta ástand ríkir, sem nú er. Eigandi hraðfrystihúss og eigandi togara verður að koma á hverju ári til ríkisins, til þjóðfélagsins og segja við ríkisstj., hver sem hún er: Get ég fengið samning við ykkur um að reka minn útveg og mitt hraðfrystihús? Og ríkisstj. er þá í þeirri aðstöðu, að hún getur sagt við hann, eins og flestallar ríkisstj. hafa gert á Íslandi á undanförnum áratugum, — hún getur sagt við hann: Já, það er sjálfsagt, við viljum tryggja, að þú getir rekið þinn atvinnuveg, vegna þess að hann er um leið undirstaða okkar þjóðarbús, og við viljum tryggja, að þú getir rekið hann án þess, að það sé taprekstur. Þess vegna viljum við veita þér uppbætur. — Þetta hafa ríkisstj. sagt á Íslandi nú í meira en áratug.

Þessar ríkisstj. hafa getað sagt þetta vegna þess, að viðkomandi eigandi varð að koma til ríkisins og biðja um að fá að reka þetta. Og ríkisstj. gátu um leið sett það skilyrði, að hann ræki þennan atvinnuveg, að togurunum væri haldið úti, að hraðfrystihúsin væru rekin.

Hvað gerist nú, svo framarlega sem gengi er breytt? Ég vil undirstrika þetta, vegna þess að ég efast um, að þeir menn, sem tala núna um gengisbreytingar, reikni með því, hvaða afleiðingar þetta hefur. Eignin, sem eigandi hraðfrystihúss á núna í sínu hraðfrystihúsi, er orðin raunverulega hverfandi lítils virði. Þjóðfélagið hefur sterk tök á þessari eign, einmitt í gegnum þetta uppbótakerfi, sem alltaf er verið að bölva. Þjóðfélagið, ríkið hefur í gegnum það tök á þessum einkaatvinnurekendum til þess að geta knúið þá til að gera út og reka sin hraðfrystihús. Hvað gerist, um leið og gengi er breytt? Þá gerist það, að skuldirnar, sem þessir menn eiga, eru svo að segja afskrifaðar. Ég skal taka sem dæmi, að þeir hafa fengið þessi lán, fjöldinn af þessum mönnum, meðan dollarinn enn þá var kr. 6.32, og sumir hafa fengið lán seinna, eftir að hann komst upp í 16 kr. Ef dollarinn væri nú settur upp í 38 kr., þá yrðu svo að segja allar skuldir þessara manna, allar skuldbindingar þeirra hvað fjármuni snertir gagnvart ríkinu þurrkaðar út. Og þeir eiga þessar eignir. Þeim eru gefnar þessar eignir sem einstaklingseign þeirra, óháð ríkinu og óbundin því á allan hátt. Þessi till. frá þessum ráðuneytisstjóra þýðir fyrir utan allt annað, fyrir utan alla árás á lífskjör almennings, og allt saman annað slíkt, þá þýðir hún að gefa nokkrum atvinnurekendum í landinu hundruð milljóna króna, færa þeim ávísun fyrir því, gefa þeim sem algera einkaeign þeirra fyrirtæki, sem nú eru að vísu að nafninu til í þeirra eigu, en þjóðfélagið hefur svo sterk tök á, að þeir geta ekki ráðið þessum eignum nema í samkomulagi við þjóðfélagið.

Ég veit ósköp vel, jafnvel og aðrir hv. þm., hve leiðinlegt uppbótakerfið er, hvaða galla það hefur, hvaða spilling er viða með því, hvaða óhagræði er í sambandi við það og tekjuöflunina til þess. En fyrir utan allt annað, utan alla þá tryggingu, sem það hefur verið fyrir stöðugri atvinnu í þjóðfélaginu, og annað slíkt, þá vil ég benda á þennan þátt. Og af hverju er ég að benda á hann? Af því að ég býst við, að meginið af þeim mönnum, sem fjalla um þessi mál nú, þekki alls ekki það ástand í þjóðfélaginu, þegar einkaeigendurnir gátu ráðið yfir þessum eignum án þess að spyrja þjóðfélagið og ríkisstj. Ég man eftir ástandinu hér 1936. Alþfl. hefði kannske gott af að hugsa um það, hann var þá í stjórn með Framsfl. Þá stöðvuðu togaraeigendurnir hér í Reykjavík, sem þá áttu alla togarana, þeir stöðvuðu alla togarana til þess að knýja ríkisstj. til þess að láta að vilja sínum. Ég vil vekja athygli þeirra, sem hugsa um gengislækkun bara sem eins konar bókfærslu í dag, á því, að það þýðir að stela raunverulega frá ríkinu og almenningi og þjóðinni hundruðum milljóna króna, sem yrðu gefnar ríkustu mönnum Reykjavíkur, afskrifaðar skuldirnar á þeirra fyrirtækjum, afskrifaðar allar skuldbindingar þeirra gagnvart ríkinu og þeim gefin í einkaeign öll þau hraðfrystihús og togarar, sem þeir hafa nú að nafninu til sem sína eign, en þeir geta ekki ráðstafað sem sinni eign nema í samfélagi við ríkið. Ég vil vekja athygli á þessu, vegna þess að strax og búið væri að breyta genginu svona, þá er skipt um herra í þjóðfélaginu. Í dag eru það ráðherrarnir, sem milljónamæringarnir í Reykjavík verða að koma til og spyrja þá: Get ég fengið samkomulag við þig nú fyrir nýárið um að fá að gera út? Get ég fengið samkomulag við þig? — Og ráðh. getur sagt: Já, ég skal láta þig hafa svona og svona miklar uppbætur, þú færð kannske 5000 kr. fyrir hvern dag, sem þú rekur togarann. — Og það þýðir, að atvinnurekandinn vill heldur reka togarann en láta hann liggja. Það voru þeir dagar hér, að togararnir voru bara gerðir út hundrað daga á ári, og þeir dagar geta komið aftur, ef togaraeigendurnir fá algera einkaeign yfir sínum togurum.

Það er alveg rétt, að það er óttalegt ónæði að því fyrir ríkisstj. að þurfa um hver áramót að gera sérstakar ráðstafanir til þess, að útflutningsatvinnuvegirnir gangi. En ég veit ekki, hvort þeirri ríkisstj. þætti betra að vera við völd, sem væri stillt frammi fyrir því af voldugum milljónamæringum, sem væru búnir að fá alger eignaryfirráð yfir sínum fyrirtækjum eftir slíka gengislækkun, ef dollarinn væri settur upp í 38 kr., — ég veit ekki, hvort þeim ráðherrum þætti betra að vera í sínum sessi, sem sæju alla togarana og hraðfrystihúsin stöðvuð, vegna þess að atvinnurekendurnir væru að heimta þetta og þetta og skipuðu ríkisstj. að láta það í té. Það var ástand, sem við þekktum áður, t.d. 1936, við sem höfum lifað alla kreppuna hér. Ef gengislækkun er gerð og útflutningsuppbæturnar þurrkaðar burt, þá eru öll þau afskipti og öll þau áhrif, sem ríkið hefur haft undanfarið á einkaatvinnurekendurna, þurrkuð út. Það eina, sem við þá gætum gert til þess að knýja slík afskipti í gegn, er bein þjóðnýting, sem yrði helmingi harðvítugri að berjast um, vegna þess að eftir stjskr. er það nokkuð dýrt fyrir ríkið að verða kannske að taka eignarnámi seinna meir alla togarana og frystihúsin. Og af hverju yrði það dýrt? Það yrði dýrt vegna þess, að hér eru nú menn, sem ætla að fara að gefa atvinnurekendunum í Reykjavík, milljónamæringunum í Reykjavík, allar þessar eignir með gengislækkun. Ef Alþingi ákvæði á morgun að þjóðnýta togarana og hraðfrystihúsin, þá er það auðveldur hlutur og ódýr, ódýrt fyrir þjóðfélagið. Ef þessi gengislækkun verður gerð, þá kostar það þjóðfélagið hundruð milljóna króna, ef ekki meira, að kaupa þetta af þessum aðilum. Og þó er það ríkið, sem hefur lánað þessum mönnum allt, sem þeir þurftu svo að segja til þess að koma þessu upp, lánað þeim upp í 70 og 80% af andvirði þessara eigna.

Ég veit ekki, hvort hæstv. ríkisstjórn eða sá ráðuneytisstjóri, sem skrifar þetta, hefur athugað þessa hlið á málinu. Það er að vísu ekki möguleiki á því nú að fá fram ráðstafanir um þjóðnýtingu á stærstu hraðfrystihúsunum. Því miður virðist hér stefnt í öfuga átt af meiri hlutanum. En það er ekki ástæða til þess að gera ráðstafanir til þess, ef menn vildu taka upp svo skynsamlegt fyrirkomulag eins og þjóðnýting á stærstu hraðfrystihúsunum mundi vera, að baka ríkinu með því þann óskapabagga, sem því væri bakaður, ef gengið nú væri fellt. Ég vil vekja athygli á því, að ef slíkt er gert, þá yrði það aldrei aftur tekið, það er ráðstöfun, sem einu sinni er búin og gerð. Ef maður ætlaði að fara að breyta því aftur, þá þýddi það bókstaflega „konfiskation“, þýddi það upptöku eigna án skaðabóta, sem er á móti stjskr., þannig að þeir menn, sem mundu gera svona ráðstafanir núna, þurfa helzt að vita, hvað þeir gera.

Ég var líka í fjhn. þessarar hv. d., þegar gengislækkunin var gerð 1950. Ég stóð líka í því þá að yfirheyra þann efnahagsmálaráðunaut, sem ríkisstj. hafði, og við sáum þá strax, ýmsir í fjhn., hvert þetta mundi leiða, ráðstafanirnar, sem gerðar voru, og það sýndi sig árið eftir. Þeir höfðu reiknað vitlaust, reiknað allt vitlaust þessir menn, af því að þeir þekktu ekki ástandið hér á Íslandi. Þess vegna veit ég, hve mikil nauðsyn er á því, að hægt væri að ræða þessi mál við þá menn, sem nú eiga að taka ákvarðanir um þau, bara vegna þess, að við, sem eldri erum á þinginu, höfum ýmsa reynslu í þessum efnum, sem er gott að þeir yngri viti af. Þeir síðan um það, hvernig þeir vilja hagnýta hana. Það eru menn hér á þinginu, sem mundu svara viðvörun minni við því að gefa milljónamæringunum í Reykjavík mörg hundruð milljóna króna og ótakmarkað eignarhald á fyrirtækjum, sem ríkið hefur lánað þeim peninga til að koma upp, — það eru menn, sem mundu segja: Það er hið eina rétta í þjóðfélaginu, að örfáir menn eigi öll atvinnutækin, og þess vegna er ágætt, að ríkið gefi þeim þetta. Það eru til slíkir menn. En ég vildi a.m.k., að þeir, sem væru á annarri skoðun, þeir, sem álitu heppilegt, að almenningur réði sjálfur nokkru um og ríkið og bæjarfélögin réðu sjálf nokkru um þau fyrirtæki, sem við byggjum líf okkar á, gerðu sér það fullkomlega ljóst, hvað þarna væri um að ræða.

Í því, sem ég vitnaði í áðan, segir þessi ráðuneytisstjóri: „Það er einmitt hlutverk gengisins að skapa slíkt jafnvægi, og ekkert annað tæki er til, sem getur komið í þess stað.“ Þessi setning ein sýnir, af hvílíkri fádæma fávizku og yfirborðshætti er talað um þessi mál, í tón, eins og menn væru að boða algildan sannleika, eins og gengið sé eina aðferðin til þess að skapa svona jafnvægi. Í meiri hluta af löndum veraldarinnar er gengið ekki einu sinni það, sem notað er til að skapa svona jafnvægi. Gengið var það einu sinni, um miðja 19. öld. Það var á tímum hinnar óhindruðu, frjálsu samkeppni, á tímum Manchester-stefnunnar, eins og það er kallað í hagfræðikenningum, þá var þetta rétt. Og hvernig var þá? Jú, þá var hægt að kaupa hvaða gjaldeyri sem var í hvaða landi sem var fyrir gjaldeyri annarrar þjóðar, — algerlega frjáls gjaldeyrissala, og gengi hverrar þjóðar var skráð af kauphöllunum daglega eftir því, hvernig gekk hjá viðkomandi þjóð. Þetta er fyrirkomulag, sem er horfið fyrir allmörgum áratugum, og það eru ekki nema tvær, þrjár, fjórar þjóðmyntir í veröldinni, sem þetta gildir um núna. Meginið af öllum þjóðum veraldarinnar hefur aðrar aðferðir til þess að skapa sér jafnvægi. Og meira að segja þær þjóðir, sem sjálfar þykjast nú halda mest í þetta við skulum segja Bandaríkjamenn með sinn volduga dollar, — meira að segja þeir skrá dollarinn hringlandi vitlaust og viðurkenna það. Hann er ekki skráður eftir gullgengi. Meginið af þjóðfélögum veraldarinnar hefur aðrar aðferðir til þess að skapa þetta jafnvægi. Sum þjóðfélög, eins og þau sósiallstísku þjóðfélög, gera þetta með algerlega framkvæmdum áætlunarbúskap. Þjóðir, sem eru okkur skyldastar og nánastar, blanda þessum kerfum saman, — við skulum segja Norðmenn, sem framkvæma allmikinn áætlunarbúskap og hvers konar eftirlit, en reyna að hafa vissa hluti frjálsa um leið, en undirbyggja með áætlunarbúskapnum þann atvinnurekstur, sem þeir álíta að geti gefið sem mestan gjaldeyri. En Norðmenn, hvað gera þeir um leið? Norðmenn styrkja sinn sjávarútveg.

Ef það eru einhverjir menn, sem láta sér detta í hug, að afnám uppbóta sé fyrirkomulag, sem er einhvers staðar annars staðar í gildi í heiminum, þá eru þeir menn blekktir. Mér þætti gaman að sjá framan í þær þjóðir, sem hafa ekki uppbætur í einhverju formi. Við skulum taka fyrst og fremst Bandaríkin. Hvaða þjóð er það, sem gerir meira að því að kaupa upp landbúnaðarafurðir heldur en Bandaríkin, styðja landbúnaðinn með því? Þau gera þær ráðstafanir núna, að upp undir tveggja ára framleiðsla af landbúnaðarvörum Bandaríkjanna liggur í eigu bandaríska ríkisins uppkeypt. En það er keypt upp með því skilyrði, að um leið séu bændurnir að minnka ræktunina, eyðileggja ræktað land í Bandaríkjunum. Englendingar styrkja sína eggjaframleiðslu þannig, að þeir eru búnir með uppbótunum til eggjaframleiðenda að eyðileggja allan markað fyrir dönsk egg í Englandi. Uppbótakerfið er því hjá öllum þessum þjóðum, sem eru að senda sína sérfræðinga nú til okkar og segja okkur: Afnemið þetta. Skapið gengi, sem er alveg frjálst, og látið gengið eitt skapa jafnvægið. — Það er engin þjóð í heiminum, sem framkvæmir þetta. Ekki nokkur. Og það eru valdamenn vissra þjóða, sem dettur í hug að telja mönnum trú um, að þetta sé gert. Það eru engir stjórnmálamenn í veröldinni kosnir af sínum þjóðum til þess að stjórna, sem láta sér detta í hug að ætla að eyðileggja sinn eigin þjóðarbúskap með því að gera hann að tilraunastöð fyrir einhvers konar hagfræðikenningar. Hver einustu stjórnarvöld í veröldinni skipta sér af því, hvernig þjóðarbúskapurinn er rekinn, hafa áhrif á hann, á hinn undarlegasta hátt oft og tíðum. Þess vegna er það alveg fram úr hófi, ef t.d. nýju fötin keisarans, nýja efnahagskerfið hæstv. fjmrh., skyldi nú eiga að fara að búa til úr þessu efni. Það er ekki miklu betra en þegar átti að afnema söluskattinn um árið. Og ef svo skyldi nú vera, á meðan við fáum ekki að sjá framan í nýju fötin, að það ætti að sníða þau úr þessu, þá heldur ráðuneytisstjórinn áfram og segir í fimmta boðorðinu, með leyfi hæstv. forseta:

„Breyta verður,“ — ekki vantar tóninn, „breyta verður núverandi reglum um tengingu verðlags og kaupgjalds og tengingu kaupgjalds og afurða- og fiskverðs, þannig að ekki sé hætta á víxlverkun verðiags og kaupgjalds.“

„Breyta verður“ — hvað hugsar þessi maður? Hverjir eiga að breyta? Er það Alþingi, sem á að breyta þessu? Það getur það að vísu á mjög eðlilegan hátt viðvíkjandi afurðaverðinu og fiskverðinu, sem sett var inn í lögin í vetur og Sjálfstfl. og Alþfl. þá stóðu að, og voru mjög vitlausir hlutir þar gerðir að mínu áliti. En „breyta verður núverandi reglum um tengingu verðlags og kaupgjalds“. Er það meiningin, að það eigi að fara að fyrirskipa, á hvern hátt kaupgjald og verðiag skuli tengt? Í 17 ár hefur nú kaupgjald meira eða minna breytzt í hlutfalli við verðlag. Allir aðilar, jafnt verkamenn sem opinberir starfsmenn, hafa fengið dýrtíðaruppbót, ef dýrtíðin hefur vaxið, til þess að firra því, að þeir þyrftu að fara út í sífelld verkföll til þess að laga sitt kaupgjald að dýrtíðinni, bæta sér hana upp. Og þó að margt megi að þessu fyrirkomulagi finna, þá hefur það gefizt þannig vel fyrir almenning, að það hefur tryggt hann gegn því, að dýrtíð, ef hún væri aukin í þjóðfélaginu, lenti einvörðungu á honum. (Forseti: É:g vil spyrja hv. ræðumann, hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni. ) Já, ég á nokkuð eftir enn þá. (Forseti: Ef svo er, þá vil ég biðja hann að gera svo vel að gera hlé á ræðunni.) — [Frh.].