29.04.1960
Efri deild: 67. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3138 í B-deild Alþingistíðinda. (1442)

57. mál, orlof húsmæðra

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Ég vil í örfáum orðum gera grein fyrir þeim fyrirvara, sem ég hef á um samþykkt þessa frv.

Eins og kunnugt er, hafa verkakvennafélög landsins haft mikinn áhuga á þessu máli, og mér fannst því rétt að leita umsagnar Alþýðusambands Íslands um frv. og fór fram á það, að sú umsögn yrði látin í té. Mér barst hún 17. marz s.l., og vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa þessa umsögn eða álitsgerð frá Alþýðusambandinu. Hún hljóðar svo:

„Eftir móttöku bréfs yðar, dags. 24. febr. s.l., þar sem þér æskið umsagnar Alþýðusambands Íslands um frv. til laga um orlof húsmæðra, skal yður hér með tjáð eftirfarandi:

Um árabil hefur það verið sérstakt áhugamál ýmissa verkakvennafélaga innan ASÍ að koma á og skipuleggja orlofsdvöl fyrir húsmæður, sérstaklega fyrir mæður frá barnmörgum heimilum. Hafa ýmis þessara félaga unnið mikið starf í þessu efni. T.d. hefur verkakvennafélagið Framtíðin í Hafnarfirði gengizt fyrir orlofsdvöl húsmæðra úr Hafnarfirði undanfarin ár, og hefur sú starfsemi verið mjög til fyrirmyndar.

Á árinu 1958 ritaði félmrn. Alþýðusambandinu og fór þess á leit, að sambandið tæki að sér að skipuleggja hvíldardvöl fyrir mæður af barnmörgum heimilum, enda fengi sambandið til ráðstöfunar í þessu skyni það fé, er ætlað hefði verið á fjárlögum til þessarar starfsemi. Alþýðusambandið varð við þessum tilmælum og leitaði samstarfs við fjórðungssamböndin og verkakvennafélögin innan ASÍ um undirbúning og framkvæmd málsins. Vegna þess, hve fjárveiting í þessu skyni var takmörkuð, varð að ráði að skipuleggja það árið hvíldardvöl fyrir mæður af Suður- og Vesturlandi, og nutu mæður úr Reykjavík, Hafnarfirði, Keflavík, Akranesi og Ísafirði orlofsdvalar á vegum þessara samtaka. Síðastliðið ár var þessari starfsemi enn haldið uppi og þá fyrir mæður af Norðurlandi, auk þess sem verkakvennafélagið Framtíðin hélt áfram starfi sínu á þessu sviði.

Svo sem fram kemur af því, sem að framan er sagt, hefur Alþýðusambandið og sambandsfélög þess haft forgöngu um að skipuleggja orlofsdvöl fyrir húsmæður, enda hafa verkalýðsfélögin betri aðstöðu til þess að annast þetta verkefni en flestir aðrir vegna náinna tengsla sinna við alþýðuheimilin, sem mesta þörf hafa fyrir slíka starfsemi.

Það er skoðun Alþýðusambandsins að þessa starfsemi þurfi að auka og efla og sér í lagi að tryggja henni fjárhagslegan grundvöll, og telur sambandið fram komið frv. stefna í rétta átt að þessu leyti. Hins vegar er það álit sambandsins, svo sem áður er vikið að, að slík starfsemi þurfi öðru frekar, einkanlega meðan henni er að vaxa fiskur um hrygg, að beinast að mæðrum frá barnmörgum heimilum. Til þess að skipuleggja slíka starfsemi telur ASÍ verkakvennafélögin hafa bezta aðstöðu og því beri að fela þeim að hafa þessa starfsemi með höndum, svo sem verið hefur, og veita þeim til þess fjárhagslegan stuðning af opinberri hálfu, eftir því sem fært þykir. Forgöngustarf verkakvennafélaganna ber vissulega að meta að verðleikum, og má undir engum kringumstæðum leggja stein í götu þeirra né skerða aðstöðu þeirra til þess að halda áfram því þjóðnytjastarfi, er þau hafa hafið á þessu sviði.

Svo sem fram kemur af því, sem að framan er rakið, er Alþýðusambandið sammála megintilgangi téðs frv., þ.e. að skipuleggja orlofsdvöl húsmæðra, en getur eigi mælt með samþykkt frv. í því formi, sem það er lagt fram.“

Þessi umsögn er undirrituð f.h. Alþýðusambands Íslands af Óskari Hallgrímssyni.

Það er skýrt fram tekið í þessari álitsgerð, að Alþýðusambandið er sammála megintilgangi frv., en að það getur ekki mælt með samþykkt þess eins og það hér liggur fyrir. Úr álitsgerðinni virðist og mega lesa það, að ekki hafi verið haft samráð að neinu marki við verkakvennafélögin, sem þó öllum öðrum fremur hafa sýnt í verki vakandi áhuga á orlofi húsmæðra á undanförnum árum. Við þau bar að hafa sérstakt samráð við samningu slíks frv., þótt ekki væri vegna annars en þeirrar reynslu, sem þau hafa þegar á skipulagningu slíkra orlofa. En þetta virðist sem sagt hafa farizt fyrir einhverra hluta vegna, og ber að sjálfsögðu að harma það.

Það er vitað, að lög um orlof húsmæðra eru ekki til og hafa ekki verið til. Því er þetta frv. hrein nýsmíð, sem hefur ekki við að styðjast neina teljandi reynslu. Má búast við, að ýmsir ágallar þess geti dulizt fyrir mönnum nú eða þangað til einhver reynsla er fengin, og er það raunar ekkert tiltökumál.

Við athugun þessa frv, í hv. heilbr.- og félmn. hnutu sumir hv. nm. um viss atriði eins og t.d. innheimtu 10 kr. árgjalds af hverri húsmóður í landinu. Töldu þeir jafnvel vafasamt, að slík innheimta gæti borgað sig. Munu ýmsir álykta, að frekar hefði þurft að draga opinber gjöld saman, þ.e.a.s. fækka þeim, en að fjölga, eins og gert er með þessu frv. Þetta sem annað í frv. lét n. þó standa óhaggað.

Hvernig skipting landsins í orlofssvæði verður í framkvæmd, er dálítið óljóst í frv., þar sem ákveðið er, að orlofsnefnd, ein eða fleiri, sé á hverju kvenfélagasambandssvæði og hún — eða þær — er kosin á aðalfundi viðkomandi svæðasambands. Mér virðist, að það hljóti að verða krafa kaupstaða og jafnvel stærri kauptúna að hafa sínar eigin orlofsnefndir skipaðar konum hvers byggðarlags fyrir sig. En þetta er sem sagt nokkuð óljóst, eins og frv. er úr garði gert. Skipulagning orlofsferða og orlofsdvalar verður að sjálfsögðu ærið misjöfn og ólík á hinum ýmsu stöðum, og fer það mjög eftir atvinnuháttum og staðháttum, hvernig og á hvaða tímum slíkt verður skipulagt. Þetta finnst mér eitt af veigamiklum atriðum, sem hefði þurft að brjóta betur til mergjar, þegar frv. var samið.

Ég tel sem sagt líklegt, að með meiri vinnu og sennilega með víðtækara samstarfi aðila hefði mátt gera frv. betur úr garði en raun er á, og ef til vill væri nánari athugun þess bezta lausnin að þessu sinni. Hins vegar er hér um að ræða mjög mikilsvert réttlætis- og þjóðnytjamál, sem æskilegt er að megi komast sem fyrst í framkvæmd, og því mun ég greiða frv. atkvæði, en að sjálfsögðu fylgja þó hverri þeirri brtt., sem fram kynni að koma og virtist vera til bóta.