29.04.1960
Efri deild: 67. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3141 í B-deild Alþingistíðinda. (1444)

57. mál, orlof húsmæðra

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykv. (AGl) gerði hér grein fyrir því, að hann hafði undirritað nál. með fyrirvara, og las hér upp bréf Alþýðusambandsins í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir. Ég hlýt að segja það, að þótt verkakvennafélögin séu alls góðs makleg og að þeim hafi nú undanfarin 2 eða 3 ár verið falið að úthluta því fé, sem ætlað er á fjárlögum til orlofs fyrir húsmæður, þá verð ég að líta svo á, eins og ég reyndar lét getið í framsöguræðu fyrir frv., að það hefði verið rétt að leita til samtaka, sem störfuðu á enn breiðari grundvelli, um úthlutun fjárins. Hitt er annað mál, að þetta er svo lág upphæð á fjárlögum, að það var mjög takmarkað, hve víða væri hægt að dreifa því, ef að nokkru gagni ætti að koma. En alla vega, eins og það frv. er byggt upp eða hugsað, sem hér liggur fyrir, þá tel ég, að það væri óeðlilegt að fela stéttarfélögum eða verkalýðsfélögum úthlutunina. Það er hugsað þannig, að það greiði allar konur á landinu í þennan orlofssjóð, og að fara að taka út úr einhverjar sérstakar tegundir félaga eða samtaka til þess að úthluta því fé, það verð ég að segja að ég teldi meira en vafasamt. Hvort það væri þá hugsað þannig, að verkakvennafélögin ættu að úthluta öllu þessu fé eða einhverjum hluta af því, ég veit satt að segja ekki, hvernig því mætti verða fyrir komið.

Þá sagði hv. 9. þm. Reykv., að það hefði verið eðlilegt, að það hefði verið leitað samráðs við verkakvennafélögin, sem hefðu haft sumardvalir eða orlofsdvalir húsmæðra með höndum, — leitað samráðs við þær, þegar þetta frv. var samið. Því er til að svara, að í Kvenfélagasambandinu eru mörg verkakvennafélög, og fulltrúar þeirra hafa fjallað um þetta mál, sem var lengi til meðferðar hjá Kvenfélagasambandinu, bæði á þingum þess og fulltrúaráðsfundum, svo að fulltrúar verkakvennafélaganna gátu auðvitað komið sínum sjónarmiðum þar að. Ég held, að þar hafi aldrei heyrzt sú rödd, að það ætti að fela úthlutun fjárins einhverjum sérstökum félögum, heldur var einmitt aðaláherzlan lögð á það, að vegna þess að Kvenfélagasambandið er heildarsamtök kvenna í landinu og þau langfjölmennustu, væri langeðlilegast, að á vegum þess eða héraðssambandanna yrði skipað í orlofsnefndir og séð um úthlutun þessa fjár.

Það má vel vera, að það megi sitthvað að frv. finna. En þó mundi ég ekki vilja segja, að kastað hafi verið til þess höndum, því að það er búið að vera lengi til meðferðar og athugunar hjá Kvenfélagasambandinu og þar auðvitað mörg sjónarmið komið fram, og ég held, að það sé ekki hægt að segja, að það hafi fengið fljótfærnislega afgreiðslu þar.

Þá talaði sami hv. þm. um orlofssvæðin. Það stendur í frv., að á héraðssambandasvæðunum skuli vera orlofsnefndir. Það er ekkert takmarkað við, að það skuli bara vera ein. Það er að sjálfsögðu heimilt að hafa þær fleiri og ef svo sýndist að hafa þá sérstakar orlofsnefndir fyrir kaupstaðina, stærri kaupstaðina a.m.k. Það er engu slegið föstu um það í sjálfu frv.

Hv. 5. þm. Austf. kom að þessu atriði líka nokkuð, um stærð orlofssvæðanna. Þetta er ekki hugsað þannig, eins og frv. liggur fyrir, að það séu orlofsnefndir starfandi í öllum hreppum eða ég hef ekki skilið það þannig a.m.k. Það er eins og í frv. segir, það á að meta ástæður umsækjenda, og það er gert ráð fyrir því, að það verði útbúin sérstök eyðublöð, þar sem umsækjendur verði að gefa upplýsingar um þau atriði, sem máli skipta, og verða þá orlofsnefndirnar að vega og meta ástæður eftir fram komnum upplýsingum, vega og meta ástæður þeirra, sem hlut eiga að máli þegar velja skal úr, því að alltaf má búast við því, að fleiri sæki um en unnt er að sinna.

Hv. 5. þm. Austf. mæltist til þess, að heilbr.og félmn. tæki til athugunar þetta atriði, hvernig hugsað væri að orlofsnefndirnar yrðu kosnar. Í frv. segir, að á aðalfundi félagssambands skuli kosið í orlofsnefnd, eina eða fleiri, eftir því sem ákveðið yrði þá hverju sinni. Ég vil endurtaka það, sem ég lét getið við 1. umr. málsins, að héraðssamböndin eru 18 talsins á landinu. Falla sums staðar mörk þeirra saman við sýslumörk, ekki þó alls staðar, og þessi sambönd halda alltaf sína árlegu aðalfundi, og þar yrði að sjálfsögðu kosið í orlofsnefndirnar. Rétt er líka að taka það fram, að konur koma vitanlega til greina með að njóta orlofsfjár, þó að þær séu ekki félagsbundnar, séu ekki starfandi í neinum af þeim félögum, sem eru í Kvenfélagasambandinu.

Úr því að ósk er fram komin um það, þá tel ég sjálfsagt, að heilbr.- og félmn. taki þetta atriði til athugunar, sem hv. 5. þm. Austf. minntist á, milli umr. eða fyrir 3. umr. málsins, en vona að öðru leyti, að málið geti fengið sem skjótasta afgreiðslu hér í d., þar sem nokkuð er orðið áliðið þings, að ætla má, og væri mjög æskilegt, ef hægt yrði að afgreiða málið á þessu þingi.