03.12.1959
Neðri deild: 9. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Einar Olgeirsson [frh.]:

Herra forseti. Ég hafði þar komið ræðu minni, þar sem ég rakti nokkur þau boðorð, sem ráðuneytisstjóri efnahagsmrn. hafði látið frá sér fara, þar sem ég var að reyna að leita að þessum nýju fötum keisarans, þessu nýja efnahagskerfi, sem hæstv. fjmrh. lýsti yfir að ríkisstj. væri búin að ákveða að taka upp. Og ég var að leita að þessu í þessum gullkornum ráðuneytisstjórans, sem er einnig ráðuneytisstjóri fyrir alla ríkisstj., og var held ég kominn út í fimmta boðorðið, þar sem hann var að fyrirskipa atvinnurekendum eða fyrirskipa verkalýðsfélögunum, að þau yrðu að losa um þau tengsl, sem verið hefðu milli verðlags og kaupgjalds, þ.e.a.s. það ástand, sem verið hefði síðustu 17 ár á Íslandi, að þegar dýrtíð yxi, þá fengju verkamenn það upp bætt, — það ástand mætti ekki vera lengur. Þessi hluti af því boðorði hans þýðir sem sé, að um leið og dýrtíðin vex, þá eiga verkamenn að sætta sig við lélegri kjör, þeir eiga ekki að fá af sjálfu sér hækkun, sem vegur dýrtíðina upp. Það þýðir, að launþegar, hvort heldur þeir eru hjá einstökum atvinnurekendum eða hjá ríkinu, þá eiga þeir, ef dýrtíðin vex, ekki að fá þetta upp bætt, eins og þeir hafa fengið á Íslandi s.l. 17 ár og eins og raunar hefur verið barizt fyrir meira eða minna alveg frá því að miklu verðlagsbreytingarnar urðu í stríðinu 1914–18. Og ég vakti athygli á því, með hvers konar aðferðum þetta er sett fram, þar sem sagt er: Breyta verður núverandi reglum um tengingu verðlags og kaupgjalds. Ráðuneytisstjórinn segir: verður. Hver verður að gera þetta? Verða verkamenn að breyta þessu? Hver ætlar að skipa þeim að breyta því? Sem sagt, sami ráðuneytisstjórinn sem er að prédika, að það eigi að vera frelsi í öllum ökonómiskum málum, frelsi í efnahagsmálum, frjáist gengi, frjáls skráning á genginu, frjáls verðmyndun, frjáls verðmyndun líka á landbúnaðarafurðum, frjáls verðmyndun á útlendum afurðum, frjáls verðmyndun á fiski, þá á eitt að vera undantekið. Það má ekki vera frjáls verðmyndun á vinnuaflinu, þessari vöru, ef svo mætti kalla, sem helmingurinn af þjóðfélaginu og raunar 3/4 hlutar af þjóðfélaginu, ef maður tekur alla launþega, verða að lifa af að selja. Þar á ekki að vera frelsi. Nei, þar verður að vera eitthvað ákveðið, þegar ráðuneytisstjóri vill. Með hvaða valdi ætlar hann að afnema frelsi verkamanna og launþega, á sama tíma sem hann ætlar, að því er hann segir, að gefa allt annað frjálst í þjóðfélaginu? Með hvaða valdi ætlar hann að segja verkamönnum: Þú verður að losa þarna um. — Má ég spyrja: Hvar er sá þáttur í því nýja efnahagskerfi, sem hæstv. fjmrh. var að boða, því nýja frelsiskerfi, sem á að losa okkur við uppbæturnar og þetta dót allt saman, — hvar er þessi þáttur?

Af því að hæstv. fjmrh. er nýr, eini nýi ráðh. í ríkisstj., þá væri kannske rétt að rifja upp fyrir honum, að það voru einu sinni sumir nýir ráðh., sem voru að reyna eitthvað svona. Ég held þeir hafi allir séð eftir því. Það var einu sinni ríkisstj., sem mynduð var af fleiri flokkum en sú núverandi, sem reyndi gerðardóm í þessu sambandi. Og það hefur aldrei nein ríkisstj. leystst upp eins hrapalega og sú ríkisstjórn. En ráðuneytisstjórinn, sem er að búa til nýju fötin keisarans, heldur, að hann geti sagt: Það verður bara að breyta þessu. — Svo sé það búið. Það er undarlegur hlutur, hvað sumum lærðum mönnum getur dottið í hug, að það sé hægt að stjórna þjóðfélaginu eins og maður mundi stjórna t.d. brúðuleikhúsi, sem sé reikna með því, að það sé hægt að fara að í þjóðfélaginu eins og maður fer með dauða hluti, gleyma því, að það eru lifandi menn, sem þarna eiga í hlut, með ákveðinn vilja, ákveðin samtök, ákveðið vald. Það er ekki það vald til á Íslandi, sem getur framkvæmt þá skipun, sem ráðuneytisstjórinn þarna er með. Það verður þá að búa til eitthvert nýtt vald, kannske eitthvert nýtt útlent vald, ef á að breyta þessu. Nei, ef þarna á að vera frelsi, þá er aðeins um það að ræða að skapa skilning, skapa samkomulag. Sá skilningur og það samkomulag verður að byggjast á því, að menn út frá sinni rökhyggju virði forsendurnar fyrir hlutunum. Og eigi menn að geta virt þær forsendur, sem í hlut eiga, þá þýðir það, að það verður að ræða þessar forsendur. Það verður að ræða þær þannig, að menn hafi haft aðstöðu til þess á allan hátt að setja fram rök með og móti, t.d. verkamannasamtökin, launþegasamtökin, þeir menn, sem eru 75% af öllum Íslendingum, hafi haft aðstöðu til, ef þeir ættu einhverju að fórna, að sannfæra sig um, að það væri búið að vinna þannig á öllum öðrum sviðum, að röðin væri raunverulega komin að þeim, en ekki hitt, eins og oft hefur viljað verða, að það ætti að byrja á þeim og láta alla hina sleppa.

Svo heldur ráðuneytisstjórinn áfram, — ég má vitna í það, með leyfi hæstv. forseta, í þessari leit minni að nýju fötunum keisarans eða hinu nýja efnahagsmálakerfi hæstv. fjmrh.:

„Jafnframt verða verkalýðsfélög og samtök atvinnurekenda að setja sér þær reglur um hækkanir grunnkaups, að þær verði ekki meiri en sem nemur aukningu framleiðsluafkasta.“

Svo mörg eru þau orð. Sem sé, verkalýðsfélög og samtök atvinnurekenda verða að setja sér reglur, segir ráðuneytisstjórinn. Nú eru það ekki lengur bara verkamennirnir og launþegarnir, sem eiga að hlýða ráðuneytisstjóra, nú eru það atvinnurekendurnir líka. Og þá fer það að verða mjög skemmtilegt, þegar svo að segja bæði yfirstéttinni og undirstéttinni í landinu er skipað af einum embættismanni, og það vantar nokkuð mikið raunsæi í þetta. En það hjákátlega við þennan hluta er, að hann segir, að þau eigi að setja sér reglur um hækkanir grunnkaups, að þær verði ekki meiri en nemur aukningu framleiðsluafkasta. Ef mér leyfist að geta í eyðurnar, þá gæti ég bezt trúað, að ráðuneytisstjórinn meinti þarna, að kaupgjald mætti a.m.k. ekki hækka, raunverulegt kaupgjald ætti líklega frekar að lækka að hans áliti frá því, sem nú er, því að ég hef heyrt það frá honum annars, að hann hafi álitið, að kaupgjald hafi verið hækkað of mikið á Íslandi, og satt að segja eru fleiri, sem hafa komið með þá hugmynd, þótt undarlegt sé. En hann þarf að finna sér einhverja dálítið vísindalega stoð, og nú skrikar honum fótur. Hann segir, að það megi ekki hækka meira en sem nemur aukningu framleiðsluafkasta.

Við skulum segja, að við vildum einu sinni fara eftir reglum ráðuneytisstjórans og þetta ætti að felast í þeirri nýju efnahagsmálastefnu hæstv. fjmrh. Hver yrði þá afleiðingin? Má ég benda á, að grunnkaup, þ.e.a.s. raunverulegt grunnkaup á Íslandi í dag, er lægra en það var 1947. Kaupmáttur tímakaups verkamanna er lægri en var, hvort heldur var 1944 eða 1947. Hvað halda hv. þingmenn, að aukning framleiðsluafkasta á Íslandi sé mikil síðan t.d. 1947, síðan 42 togarar komu í gagnið, síðan 300–400 mótorbátar komu í gagnið, síðan allmörg hraðfrystihús voru byggð, síðan allmikið af verksmiðjum var reist? Framleiðsluafköstin á Íslandi hafa stórkostlega aukizt frá því 1947. Ég veit ekki, hvað ráðuneytisstjórinn eða aðrir skraddarar, sem eru að sníða nýju fötin keisarans, mundu segja, ef launastéttirnar segðu: Nú hækkum við grunnkaup um það, sem nemur aukningu framleiðsluafkastanna frá 1947. Það höfum við ekki fengið enn þá. Það er lægra í dag en við höfðum þá.

En þetta er satt að segja í eina skiptið, sem það sleppur út úr honum, að það væri hægt að fóta sig á einhverju, sem þýddi það raunverulega að fara út í mjög harðvítuga baráttu til þess að bæta kjör verkamanna. Ég er því miður hræddur um, að þetta hafi verið óvart. Ég er hræddur um, að hann hafi ekki meint, að verkalýðssamtökin ættu að leggja út í þessa harðvítugu baráttu til þess að ná öllu því, sem þau hafa verið svikin um miðað við aukningu framleiðsluafkastanna frá 1947. Það er ekki svo litið. En af þessu má sjá, að ef hæstv. ríkisstj. hefur ætlazt til þess, að hún gæti að öllu leyti stuðzt við „vísindin“ í komandi árás á lífskjör alþýðunnar á Íslandi, þá er ekki einu sinni ráðuneytisstjórunum treystandi til þess að láta í té almennilegan grundvöll að því. Ef verkalýðssamtökin í landinu leggja þetta til grundvallar, þá stöndum við frammi fyrir harðvítugustu deilum og mestu kauphækkunarkröfum, grundvölluðum á kenningu Jónasar Haralz, sem fram hafa komið enn þá á Íslandi.

Við skulum halda áfram og koma að síðasta boðorðinu, sjötta boðorðinu. Þar segir ráðuneytisstjórinn, með leyfi hæstv. forseta:

„Setja verður þær reglur um verðlagningu og skattlagningu fyrirtækja, sem gera einkafyrirtækjum jafnt sem opinberum fyrirtækjum kleift að endurnýja fjármuni sína á hæfilegum tíma og mynda nýtt fjármagn til eðlilegrar fjármunaaukningar. Aðeins með þessu móti er hægt að tryggja endurnýjun og eðlilega aukningu atvinnutækjanna, sem aftur er undirstaða vaxandi þjóðarframleiðslu og velmegunar.“

Hér kemur enn einn skólalærdómurinn, sem ég mun gera að umtalsefni, af því að ég óttast, eins og ég hef tekið fram áður, að það kynnu að vera til þeir menn í þingliði stjórnarflokkanna, sem tækju þetta alvarlega eða sem vísindi eða eitthvað, sem hægt væri að treysta á. Hann segir, að það þurfi að gera fyrirtækjum kleift að endurnýja fjármuni sína á hæfilegum tíma og mynda nýtt fjármagn til eðlilegrar fjármunaaukningar. Er það eina ráðið til þess að tryggja fjármunamyndun á Íslandi að tryggja, að þessi einkafyrirtæki og opinber fyrirtæki fái þessa aðstöðu viðvíkjandi verðlagningu og skattlagningu, og hvað er átt við með því? Síðar í þessari ræðu sinni segir þessi ráðuneytisstjóri, að þetta, sem hann sé að setja fram, séu algildar reglur, sem eigi við, hvort sem um kapítalisma eða sósialisma væri að ræða. Þetta er sem sagt ein hringavitleysa. Við sósíalisma mundi þessi regla alls ekki eiga og við kapítalisma á hún ekki nema á ákveðnu skeiði og nokkurn veginn algildast fyrir 60–100 árum.

Mundum við Íslendingar nú geta treyst á það, að þetta væri aðferðin til þess að mynda nýtt fjármagn, gefa því það frelsi til verðlagningar og hlífa því við skattlagningu, sem þarna er farið fram á? Gætum við treyst á það til slíkrar fjármunamyndunar? Hver er okkar reynsla af þessu? Okkar reynsla af þessu er svo slæm, að svo að ég fari nú ekki að ræða um tímabilið t.d. 1930–40 og sérstaklega 1930–34, þegar við fengum að kenna á kreppu kapítalismans og sáum, hvernig hann fór að, þá skulum við taka þann tíma, þegar kapítalisminn byrjar að græða hér, á stríðsárunum, þegar hann fyrir alvöru fer að græða. Hvað verður þá? Þá verður ríkið að grípa inn í til þess að setja fasta þá fjármunamyndun, binda þá peninga, sem togaraeigendurnir eignast, binda þá fyrst úti í Englandi. Af hverju? Var ríkisstj., sem sat að völdum, þjóðstjórnin þá, hrædd um, að einkaatvinnurekendurnir mundu annars ekki nota þetta fé til að endurnýja framleiðslutækin? Það var þó sannarlega stjórn, sem hafði trú á einkaframtakinu. Ég held það hafi verið alveg rétt hjá henni. Hún var hrædd um, að þeir mundu ekki nota þá peninga, sem þeir græddu, til að endurnýja framleiðslutækin. Síðan var skorizt í leikinn af nýrri stjórn 1944. Þorði sú stjórn að treysta því, að einkaatvinnurekendurnir mundu nota sinn gróða til þess að setja í ný fyrirtæki? Nei, hún þorði ekki heldur að treysta því, og hún gerði rétt í því. Hún gerði sjálf ráðstafanir til þess að taka úr höndum allra einkaatvinnurekenda á Íslandi valdið yfir gróðanum, sem skapazt hafði, til að stjórna sjálf fjármunamynduninni. Sjálfstfl. braut þá í bága við öll þau „prinsíp“, sem hann er að tala um núna, og þó að merkilegt megi virðast, þá hefur hann aldrei verið eins stoltur af neinu og í það eina skipti á sinni flokksævi, sem hann hefur haft vit á að brjóta öll sín „prinsíp“, enda líka í það eina skipti orðið til þess að vinna eitthvert gott verk með sinni þjóð.

M.ö.o.: það hefur enginn ábyrgur stjórnmálamaður á Íslandi þorað að treysta á það, að frjáls fjármunamyndun hjá atvinnurekendum mundi leiða til þess, að það yrði efling fyrir atvinnureksturinn á Íslandi. Það hefur alltaf orðið að gripa inn í af hálfu þess opinbera til þess að knýja atvinnurekendur til þess að leggja sitt fé, það sem þeir kynnu að græða, í það, sem skynsamlegast væri fyrir þjóðarheildina og þá oft fyrir atvinnurekendurna líka. Forsendan, sem Jónas Haralz, — ég vona ekki ríkisstj., — gengur út frá í þessu, er sú, að ef einkaatvinnureksturinn fær fjármagn í sínar hendur, þá hljóti hann að nota það á þann hátt, sem skynsamlegast er fyrir sjálfan hann, fyrir auðmagnið og fyrir þjóðfélagið.

Nú skal ég taka það fram, að stundum getur þetta átt við í stórum þjóðfélögum. Við skulum taka til dæmis fjármunamyndun í Bandaríkjunum. Gróði yfirleitt allra stærri hringanna í Bandaríkjunum er svo mikill, að samanlögð laun allra verkamanna, sem vinna hjá meiri

hlutanum af öllum fyrirtækjum Bandaríkjanna, eru jafnmikil og gróði viðkomandi atvinnufyrirtækja. Þegar gróði atvinnufyrirtækja er svona gífurlegur, þá er það gefið mál, að þótt viðkomandi auðmannastétt, í þessu tilfelli bandaríska auðmannastéttin, lifi mjög vel, byggi sér sínar lúxushallir, flottari en hér á Gullströndinni, þá er nokkurn veginn gefið, að hún getur ekki eytt í persónulegar þarfir, hve mikið sem hún lifir í vellystingum praktuglega, nema hverfandi litlum hluta af þessum gróða, þannig að meginið af öllum þessum gróða verður þess vegna lagt í ný atvinnufyrirtæki.

Hver er hins vegar reynslan hér á Íslandi á þeim tímum, sem þessi frjálsa fjármyndun á sér stað hjá einkaatvinnurekstrinum? Hér erum við með lítið þjóðfélag, fámenna atvinnurekendastétt, og það gengur upp og niður með gróðann. Það þýðir, — ég hef að vísu ekki hagfræðilegar tölur fyrir því, en ég er ákaflega hræddur um, að hlutfallið af því, hvað einkaatvinnurekendur á Íslandi nota til persónulegra þarfa, og þess, sem þeir nota til nýs atvinnurekstrar, sé versta hlutfallið, sem þekkist í nokkru auðvaldsskipulagi, hvað það snertir, að það fari hlutfallslega meira til persónulegra þarfa einkaatvinnurekendanna og hlutfallslega minna til þess að auka einkaatvinnureksturinn heldur en í nokkru öðru þjóðfélagi. Ef menn vilja véfengja það, þá gætu menn tekið fyrir hvaða heildsölufyrirtæki sem væri hérna í Reykjavík og athugað, hve miklu viðkomandi fyrirtæki hefur varið til þess að stækka fyrirtæki sitt og hve miklu hefur verið varið til að byggja lúxushallir fyrir eigendur fyrirtækjanna, fyrir jafnvel allar fjölskyldurnar, sem átt hafa í þeim.

Það vofir þess vegna alltaf sú hætta yfir íslenzka þjóðfélaginu, einmitt meðfram vegna þess, hve smátt það er, að gróðinn, sem einkaatvinnurekendur fá, sé settur í persónulega eyðslu þeirra, eins og íbúðarhúsabyggingar margar hér í Reykjavík bera vott um, en ekki nema að litlu leyti í að auka þeirra atvinnurekstur. Má ég í því sambandi benda á, og það væri rannsóknarefni líka, hve mikið af öllu rekstrarfé og, ef svo má segja, fjárfestingarfé fyrirtækjanna hér í Reykjavík, þeirra stærstu og ríkustu, er komið frá ríkisbönkunum upphaflega sem lán? Ef menn vilja ganga hér eftir Austurstræti og athuga elztu og grónustu heildsöluverzlanirnar, þá þætti mér gaman að láta skrifa upp lánin, sem þessar heildsöluverzlanir höfðu fyrir 1939, láta athuga síðan, hve lítið er orðið það raunverulega verðmæti þeirra lána fyrir ríkið, sem lánaði féð til bankanna, og hvað hins vegar viðkomandi fyrirtæki hafa grætt, sumpart á verðbólgunni, sumpart á sjálfri verzluninni, og hve mikið það er, sem þau hafa lagt sjálf í að búa til ný fyrirtæki eða stækka. Ég veit, að þarna eru til ýmsar undantekningar. Það er fjarri mér að segja, að það séu ekki ýmsir íslenzkir atvinnurekendur, sem hafa unnið vel að því, hafa sýnt mikinn og lofsverðan áhuga í því að auka sinn atvinnurekstur. En hitt er því miður miklu algengara.

Og að svo miklu leyti sem menn hafa lagt féð í að auka atvinnureksturinn, í hvað hefur þá féð farið? Það er ekki alveg sama fyrir íslenzku þjóðina, í hvaða grein atvinnurekstrar fjármyndunin fer. Svo lengi sem við erum eða viljum vera sjálfstætt þjóðfélag, efnahagslega sjálfstætt og afmarkað þjóðfélag, þá byggist okkar efnahagslega sjálfstæði á því, hvort það er með réttum hlutföllum, sem einkafjármagnið streymir til þeirra atvinnuvega, sem við þurfum að byggja á.

Hvað hefur verið meinið í okkar atvinnurekstri á undanförnum áratug? Hvað var t.d. það, sem slegið var föstu með einhverri beztu rannsókninni, sem gerð hefur verið, — og verðum við að segja það okkur til skammar, vegna þess, hve langt er síðan, — með þeirri rannsókn, sem skipulagsnefnd atvinnumála gerði 1934-35? Hverju var slegið föstu þá sem einkennandi fyrir fjármunamyndunina, fyrir fjármagnsstrauminn í íslenzku þjóðfélagi? Því var slegið föstu, að fjármagnið sækti í verzlunina, en ekki í það, sem þjóðfélaginu væri nauðsynlegast, sjávarútveginn. Og það var sýnt fram á, að hlutfallið væri þannig, ef ég man rétt, að í allri verzluninni á Íslandi væri fjármagnið 100 millj. kr., en í sjávarútveginum 22 millj. kr. Ég þori nú ekki að fullyrða það, af því að ég vitna í þetta eftir minni, en mig minnir, að hlutfallið hafi verið eitthvað svipað og þetta. Þá var enn þá frjáls fjármagnsmyndun. Frá 1920 eða svo höfum við eitt af þeim fáu tímabilum, sem við höfum haft nokkurn veginn frjálsa fjármagnsmyndun, og þetta er straumurinn.

Á Íslandi höfum við yfirleitt haft, þangað til nú alveg á síðustu tveim áratugum, einkennandi verzlunarauðmagnsþjóðfélag, og frá gömlum tíma hafa þær tilhneigingar verið hér, að kapítal sækti fyrst og fremst í verzlun. Það er eðli fjármagns að sækja þangað, sem gróðinn fyrst og fremst er. Það er eðlilegur hlutur. Og gróðinn hefur fyrst og fremst verið í verzluninni. Það þýddi, að fjármagnið hefur flúið sjávarútveginn, sótt í verzlunina, og með þeim tollaráðstöfunum, sem gerðar voru 1934 og þar á eftir, tók það nokkuð að sækja í iðnaðinn líka á grundvelli tollverndar, innflutningshafta og annars slíks.

M.ö.o.: afleiðingin af tilraunum til frjálsrar fjármunamyndunar á Íslandi og því að leyfa fjármagninu að hafa sína hreyfingu frjálsa og án afskipta frá því opinbera hefur verið, að fjármagnið hefur alltaf sótt, ef ég svo mætti segja, á hringlandi vitlausa staði út frá heildarsjónarmiði þjóðfélagsins, en út frá alveg eðlilegum sjónarmiðum fjármagnsins. Þess vegna hefur það verið svo, að á síðustu 25 árum hefur það opinbera orðið að gera ráðstafanir til þess, að sjávarútvegurinn, — mér liggur næstum því við að segja: væri til á Íslandi. Gjaldeyrir sjávarútvegsins hefur verið þjóðnýttur handa verzluninni, heildsölunum og samvinnufélögunum, og meira eða minna hefur verzlunarauðvaldið hér á Íslandi starfað saman og ráðið meira eða minna á kostnað þess kapítals, sem í þeim löndum, sem lengra eru komin, er nú talið höfuðkapítalið, þ.e. sjávarútvegsins hér og iðnaðarins.

Allar þær hugmyndir, sem þarna koma fram um frjálsa fjármunamyndun og að íslenzka þjóðin gæti að einhverju leyti treyst á það, eru hringavitlausar. Það er ekki til nokkurs skapaðs hlutar að ætla að treysta á þetta. Það mundi þýða, að fjármagnið á Íslandi streymdi í verzlunina, og eftir nokkurn tíma yrði að gera aftur sérstakar ráðstafanir til þess að beina því inn í sjávarútveginn. Ef menn ætluðu að reyna að knýja það þangað, þá þýddi það, að það yrði fyrst að skapa svo ægilega kreppu á Íslandi, bókstaflega að láta nokkur ár líða þannig, að sjávarútvegurinn hryndi, og upp úr þeirri kreppu, ef menn ætla að halda sér við þessa kenningu, þá færu svo loksins heildsalarnir og kannske Sambandið, þegar þeir fengju engan útlendan gjaldeyri, að hugsa: Eigum við annars ekki að fara að gera út eða kaupa jarðir? — Og það vil ég nú segja þeim stjórnmálamönnum til leiðbeiningar, sem kynnu að hafa einhverjar tilhneigingar til þess að fara að gera slíkar tilraunir, að ég er anzi hræddur um, að meðan þeir væru að gera tilraunina, misstu þeir völdin, a.m.k. ef þeir ætluðu að láta kjósa.

Ég held þess vegna, að allt þetta skraf vanti allan raunhæfan grundvöll. Í íslenzka þjóðfélaginu, ef við ætlum að halda því sem afmörkuðu, íslenzku efnahagslega sjálfstæðu þjóðfélagi, þá er það ekki til í málinu að leyfa frjálsa fjármunamyndun. Við verðum að stjórna hreyfingu fjármagnsins. Við verðum að stjórna því vitandi vits, ráða því, hvert það fer.

Sannleikurinn er, ef menn vilja kveða upp dóminn yfir því, sem við höfum gert á undanförnum árum, þá höfum við reynt að stjórna þessu þjóðfélagi, stundum sæmilega, stundum lélega. En það, sem við þurfum að læra af því, er að stjórna því vel, stjórna því betur, en ekki hætta við að reyna að stjórna því og ætla að fara að láta það stjórna sér sjálft, því að það er ekkert verra til en ætla að láta fjármagnið stjórna sér sjálft. Það þýðir að gera okkur mennina að leiksoppum fyrir blind öfl, sem leiða yfir okkur kreppur og vandræði, sem við svo verðum að reyna að brjótast út úr aftur með því að fara að reyna að stjórna þeim. Það, að nokkrum manni dettur slíkt í hug, er bara vegna þess, að það er um unga menn að ræða, sem þekkja ekki nema af afspurn, hvað kreppan er, og þekkja ekki íslenzka þjóðfélagið af neinni reynslu.

Það er kannske eitt, sem þessir menn mundu segja, ef þeir væru hér til andsvara eða einhverjir vildu taka upp hanzkann fyrir þá, sem mér finnst nú satt að segja, að hæstv. ráðh. ættu að gera fyrir sinn sameiginlega ráðuneytisstjóra og sérfræðing, — það er eitt, sem þeir mundu kannske segja, og það er: Það er engan veginn meiningin hjá okkur, að Ísland eigi að vera eitt afmarkað svæði fyrir fjármunamyndun. Ísland á að vera einn hluti úr fjármunasvæði, þar sem er frjáls sameiginleg fjármunamyndun, ekki bara fyrir Ísland, heldur líka fyrir England, Frakkland og fleiri lönd. Og sú hugmynd hefur líka skotið upp kollinum, að fjármunamyndunin eigi að fá að vera frjáls fyrir öll þessi lönd, að fjármagn í Englandi eða Frakklandi eða Vestur-Þýzkalandi ætti að geta sótt hingað, ef því fyndist praktískt að vera hér, og íslenzkt gæti þá farið líka til Bretlands, ekki satt, og Vestur-Þýzkalands og reynt að græða þar. Við skulum hugsa þá hugsun til enda, hvernig það færi.

Hvað snertir íslenzkt fjármagn og þess straum út á við, þá mundi það m.ö.o. þýða, ef við reyndum að skapa slíkt frjálst fjármunamyndunarsvæði með þessum stóru löndum úti í Evrópu, að íslenzkir atvinnurekendur, — í þessu tilfelli sérstaklega þeir, sem flyttu út vörur, — hefðu þá leyfi til þess að láta sinn gjaldeyri, að svo miklu leyti sem þeir væru ekki sjálfir nauðbeygðir til þess að flytja hann heim í eigin þarfir, vera þar, kaupa fyrirtæki erlendis eða koma upp fyrirtækjum erlendis, og það mætti þess vegna flytja allt fjármagn frá Íslandi, eftir því sem menn vildu. Síðan ætti maður að treysta á það til þess að bæta þetta upp, sem við mundum missa af fjármagni á þennan hátt, að útlent kapítal mundi vilja streyma hingað, og við ættum að treysta á, að útlent kapítal mundi vilja gera þetta af eigin hagsmunum. Þetta vantar allan grundvöll, nema menn vilji gera allt Ísland að svo eftirsóknarverðri nýlendu vegna ódýrs vinnuafls og ódýrra orkulinda fyrir útlent auðvald, að það sæktist frekar hingað en til Algier eða eitthvað annað.

Það, sem þeir hagfræðingar, sem hugsa um frjálsa fjármunamyndun fyrir svæði, sem væri t.d. stærra en Ísland, skilja ekki, er eftirfarandi: Ísland er ekki endilega bezta landið í Evrópu til þess að búa í. Ísland er ekki af náttúrunnar hálfu útbúið með betri aðstöðu til þess að lifa í en öll önnur lönd Evrópu. Það eru engar þær auðlindir hér á Íslandi, sem gerðu það af sjálfu sér svo eftirsóknarvert fyrir auðmagnið úti í Evrópu, að það flykktist hingað þess vegna. Ísland er eitt erfiðasta og harðbýlasta land Evrópu. Það er einvörðungu hægt að byggja Ísland og gera það að verulega góðu landi að búa í með því, að íbúar þess vilji sameinast um að gera þjóðfélagsástandið í landinu svo gott, að það geti verið öðrum þjóðum til fyrirmyndar, að þeir vilji leggja mikið á sig, að þeir vilji beita í ríkara mæli en allar aðrar þjóðir sinni skynsemi og sinni þekkingu og sinni miklu atorku til þess að gera landið byggilegra en önnur lönd. M.ö.o.: Það verður að miðast við, að menn vilji frekar búa í þessu landi en nokkru öðru, og af því að menn vilji það, þá leggi menn sig í framkróka til þess að gera aðbúnaðinn í því landi svo góðan, að menn flykkist ekki burt frá því, eins og oft hefur verið, heldur vildu búa hér.

Ef Ísland er gert að hluta af stórri fjármunamyndunarheild, stórri fjármagnsheild, þá þýðir það ekki aðeins, að það streymi burt fjármagn frá Íslandi og að það kemur aðeins lítið af fjármagni til Íslands, það þýðir líka, að fólkið fer burt frá Íslandi. Það þýðir, að fólkið yfirgefur landið. Þeir menn, sem ætla að bera ábyrgð á því að leiða kreppu yfir Ísland, eru ekki bara að gera verkalýðnum á Íslandi erfiðara að lifa og rýra lífskjör fólksins, þeir eru að reka Íslendinga burt af sínu eigin landi.

Það var einu sinni reynt að byrja með slíka frjálsa fjármunamyndun, eins og ég hef áður minnzt hér á. Það var samkv. ráðleggingum dr. Benjamíns Eiríkssonar 1950, og því var þá haldið fram, að frjáls fjármunamyndun væri öruggt ráð til þess að fá heilbrigðan og traustan grundvöll að þjóðfélaginu. Hver var afleiðingin af því og raunar af fleiru, — það voru fleiri orsakir, sem komu til? Afleiðingin var sú, að þrír landsfjórðungar voru meir og meir að tæmast af fólki. Það var ekki aðeins Keflavíkurflugvöllur og hernámsvinnan, sem dró fólkið þaðan í burtu, það er líka sú stefna, sem ég var að skýra frá fyrr í ræðu minni. Ef það ætti að fara að binda enda á allar lánveitingar úr ríkissjóði, alla ríkisábyrgð og allt annað slíkt, þá getum við séð, hvernig færi með byggðina í þeim þrem landsfjórðungum. Það voru slíkar ráðstafanir og því skyldar, sem voru að byrja að leggja þá landsfjórðunga í eyði. Og ef nú ætti að gera Ísland að hluta úr einhverju slíku fríverzlunarsvæði, sameiginlegu fjármunamyndunarsvæði, þá mundi það þýða að leiða sams konar örlög yfir allt Ísland. Það er ekki hægt að byggja upp skásta auðvaldsþjóðfélagið í Evrópu á Íslandi nema með því að einbeita atorku, skynsemi og samtökum þjóðarinnar í landinu að því að gera þetta þjóðfélag gott með sameiginlegum átökum þjóðarinnar sjálfrar sem aðskilið þjóðfélag, efnahagslega, verzlunarlega og pólitískt aðskilið þjóðfélag frá öllum öðrum þjóðfélögum Evrópu.

Það að ætla að fara eftir kenningum eins og þarna eru settar fram, það þýðir bara að byrja á því aftur að fara að leggja Ísland í eyði. Þetta að halda, að eðlilegur straumur fjármagnsins, að Mammon gamli bjargi okkur Íslendingum, geri okkar land byggilegra og slíkt, því fer fjarri. Það er einungis okkar atorka sjálfra, það, að við höfum þorað að fara brautir, sem fæstar aðrar þjóðir hafa farið enn þá, það, að við höfum svo duglega þjóð, að það er hægt að bjóða henni að vinna meira en nokkur önnur þjóð í Evrópu gerir nú, en líka þjóð um leið, sem gerir kröfur til lifsins, ekki hvað sízt til íbúða, sem eru meiri en flestar aðrar þjóðir Evrópu gera. En þetta stafar af því, að við höfum aldrei skeytt, meðan við höfum verið að reyna þetta, um neinar kenningar þessara hagfræðinga. Við höfum skapað okkur okkar eigin íslenzku brautir í þessu. Auðvitað skapar það erfiðleika. Það veit hver einasti maður, sem braut ryður, að hann verður að troða spor, sem áður hefur ekki verið troðið í. Þess vegna er nauðsynlegt, að menn átti sig alveg til fulls á þessu.

Svo segir ráðuneytisstjórinn í fasteignamatsboðorðinu, sem ég las upp, að einungis með þessu móti, sem hann talar um, þessari frjálsu fjármunamyndun, sé hægt að tryggja endurnýjun atvinnutækjanna. Þegar við höfum prófað þetta, eins og eftir gengislækkunina 1950, þegar allt var gefið frjálst, verðlagningin og allt saman, hvað gerðist? Svo að ég vitni í hæstv. viðskmrh., — hann tók það í gegn, sem þá gerðist, í ágætri ræðu og raunar tveimur, jafnvel fleiri, sem hann hélt einmitt 1952. Hvað var það, sem hæstv. núverandi viðskmrh. sýndi fram á? Jú, hann sýndi fram á, að það, sem hafði breytzt við það, að allt var gefið frjálst, var álagningin, sem heildsalarnir og smásalarnir, þ.e. verzlunarauðvaldið til samans, tóku. Hún var jafnmikil og allt innkaupsverð varanna, sem um var að ræða. Um leið og allt var gefið frjálst, hrifsaði verzlunarauðvaldið hlutina til sín. Þegar tilraunin var gerð um frelsið, frjálsa fjármunamyndun og allt saman slíkt 1950 með gengislækkuninni, þá skapaðist slíkur auður hjá heildsölunum, að meira að segja hæstv. viðskmrh., sem þó er nú alls ekki sérstaklega vondur við heildsalana, sá ofsjónum yfir því, hve miklir peningar fóru til þeirra. En hvað fór mikið af peningum í togara, hvað fór mikið í báta? Hvað keyptu heildsalarnir marga togara nýja á árunum 1950–56? Ekki einn einasta. Það var það, sem þjóðin átti að treysta á, frjálsa fjármunamyndunin, sem ráðuneytisstjórinn segir, að sé eina leiðin, að aðeins með þessu móti verði tryggð endurnýjun og eðlileg aukning atvinnutækjanna. Hún tryggði enga aukningu, ekki einu sinni viðhald. Svona stóðst sú eðlilega fjármunamyndun prófið. Hún tryggði sem sé ágætan gróða hjá heildsölunum, sem hæstv. núv. viðskmrh. afhjúpaði mjög vel og skörulega, eins og hans var von og vísa, en hún tryggði enga aukningu á atvinnutækjum, ekki nokkra. Það, sem aukið var við atvinnutækin þá, varð ríkið að gera. Það varð að byggja sementsverksmiðju, það varð að gera ýmsar slíkar ráðstafanir. Það er sama, hvar drepið er niður. Alls staðar vantar grundvöllinn, alls staðar vantar raunsæið, alls staðar stangast boðorðin á við reynsluna, sem við höfum. Og svo ætti eftir þetta allt saman að fara að gera okkur að tilraunadýrum fyrir þessar vitlausu kenningar einu sinni enn.

Ég held, að hæstv. ríkisstjórn, ef hún fengist til þess að segja eitthvað, gæti ekki annan en verið mér sammála um, að það væri hið argasta glapræði, sem hægt væri að gera, að fara að einhverju leyti eftir þessum kenningum, eftir þessum boðorðum, sem þarna eru sett fram. Og nær gat ég ekki komizt því að reyna að finna hið nýja efnahagskerfi, sem fjmrh. boðaði. Hvar ætti það að vera að finna, ef ekki í svona merkilegri ræðu aðalsérfræðings, sameiginlegs sérfræðings allrar ríkisstj., sem þar að auki hefur sérstök sambönd við ameríska Alþjóðabankann.

Ég held þess vegna, að hæstv. ríkisstj. ætti að gera sér ljóst, að það er rétt af henni að ræða þessi mál við Alþingi, áður en hún fer sjálf að reyna að koma sér niður á ákveðna stefnu í þessu. Ég held, fyrst hæstv. fjmrh. sýnir sig nú ekki hjá okkur, að nýja efnahagskerfið hans sé ekkert betra en nýju fötin keisarans, — ég held, að það sé ekkert kerfi til að klæðast í og sízt af öllu til þess að fara að reyna að ginna íslenzku þjóðina til þess að klæðast í.

En hvernig stendur þá á því, að hæstv. ríkisstj. fæst ekki til þess að ræða þetta við okkur og að hún vill losna við Alþ. núna? Þessi ótti við Alþingi, ótti við að ræða þessi mál, er annars vegar ótti við alþýðuna í landinu, að hún fái að vita í tíma um þær fyrirætlanir, sem ríkisstj. hafi, og hins vegar, held ég, — ég vona, að ég geri hæstv. ráðh. ekki órétt til, — að það sé slæm samvizka þeirra sjálfra. Ég held, að þeir séu allir saman svo hikandi og svo smeykir við að leggja út í eitthvert svona ævintýri, leggja í svona heljarstökk, að þeir séu hræddir um, ef þeir fara að ræða þetta alvarlega við okkur, þá séu þeir ekki sterkari á svellinu en það, að þeir bili, að þeir leggi aldrei í það, og það er einmitt það, sem þarf að verða.

Hvað mundu þessar ráðstafanir þýða, ef þær væru gerðar? Gengislækkun, þar sem dollarinn væri settur upp í 38 kr., eins og ráðuneytisstjórinn virðist leggja til. Það mundi þýða stórkostlega aukna dýrtíð í landinu. Það mundi þýða, að allar nauðsynjavörur, sem almenningur flytur inn, og brátt hinar íslenzku líka, mundu stórhækka í verði. M.ö.o.: sú sama ríkisstjórn, sem lýsir því yfir, að hún sé á móti allri verðgildisrýrnun, jafnvel sérstaklega á móti verðbólgu og slíku, mundi þá stórauka alla dýrtíð í landinu og einmitt hvað tilfinnanlegast á því, sem alþýðu manna er nauðsynlegast að kaupa. Það er alltaf eðlilega afleiðingin af gengislækkun. Hún kemur alltaf mest fram á nauðsynjavörunum, en tollarnir draga óbeint úr henni á lúxusvörunum.

Í öðru lagi: Ef farið væri að þessum ráðum, þá þýðir það, að um leið og dýrtíðin stórvex og verðlagið á vörunum, sérstaklega nauðsynjavörum, hækkar, þá verður laununum haldið niðri, vegna þess að ein aðaltillagan þarna er sú að hindra, að kaupgjaldsvísitalan, sem hingað til hefur bætt launþegum upp nokkuð af dýrtíðinni, yrði afnumin, þannig að kaupgjald mundi ekkert hækka í krónutölu, þó að allar nauðsynjavörur stórhækkuðu í krónutölu.

Í þriðja lagi: Hver yrði fyrir alþýðu manna þriðja afleiðingin? Afleiðingin yrði sú, að heildartekjur manna, verkamanna og annarra launþega, mundu stórminnka. Af hverju eru heildartekjur ýmissa launþega núna sæmilegar? Af því að þó að daglaunin hafi verið lækkuð við þá, tímalaunin hafi verið lækkuð, þá hafa þeir margir hverjir unnið því lengur og getað þannig bætt upp það, sem þeir hafa misst í lækkuðu tímakaupi samkv. lögum frá 1. febr. Hvernig mundi þetta verða, svo framarlega sem þetta frjálsa kerfi, nýja efnahagskerfi hæstv. fjmrh. væri komið í gang? Þegar atvinnurekandinn á að reikna út frá sínum hagsmunum einvörðungu og þjóðfélagið er orðið þannig, að það er engin sérstök eftirspurn eftir vinnuafli, eins og nú er, þá kaupir enginn atvinnurekandi vinnuafl á 50 og 100% hærra verði en hann getur fengið það á. Þá kaupir enginn atvinnurekandi verkamann til að vinna eftirvinnu, ég tala nú ekki um nætur- eða helgidagavinnu, vegna þess að það borgar sig ekki fyrir hann.

Hann getur fengið nóga menn til þess að vinna dagvinnu. Og það þýðir, að verkamenn og aðrir launþegar hafa ekki lengur þann möguleika að bæta sér upp þær heildartekjur, sem minnkuðu með lækkuðum launum, með því að vinna lengur, því að eftirvinnan hyrfi. Og ekki nóg með, að eftirvinnan hyrfi. Það færu meira að segja að koma þeir dagar, þegar menn væru atvinnulausir. Það er ekki til frjáls fjármunamyndun í heiminum án atvinnuleysis, vegna þess að kapítalisminn getur ekki staðizt á sinn heiðarlega hátt án atvinnuleysis. Þegar við afnámum atvinnuleysi á Íslandi, settum við öll lögmál kapítalismans úr gangi. Ætli maður að viðhalda auðvaldsskipulagi án atvinnuleysis, þá verður að stjórna því þjóðfélagi, og því þjóðfélagi er ekki hægt að stjórna án samtaka verkalýðsins. Ef menn ætla að reyna að stjórna auðvaldsskipulagi á móti verkalýðnum, þá verða menn að hafa atvinnuleysi, því að menn verða að hafa svipu neyðarinnar og hungursins, og það er það, sem þessi kenning um frjálsa fjármunamyndun þýðir. Það þýðir, að launin eiga að lækka hjá almenningi, dýrtíðin að vaxa, tekjurnar að minnka, en gróði atvinnurekendanna að vaxa, hin frjálsa fjármunamyndun, eins og það heitir á hinu fína máli hagfræðinga.

Þetta er inntakið, þetta eru afleiðingarnar af þeim boðskap, sem þarna liggur fyrir. Mig furðar ekkert, þó að hæstv. ríkisstj. sé hrædd við að sjá réttar ályktanir dregnar af boðskap ráðuneytisstjóra sins. Fari ég með rangt mál, geri ég hæstv. ríkisstj. rangt til, sem ég sízt af öllu vil gera. Þá hefur hún tækifæri til þess að hrekja þetta allt saman hérna strax. Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir, að hann væri með nýtt efnahagskerfl. Ef ég hef reiknað efnahagskerfi hans rangt út, af því að ég studdi mig við ráðuneytisstjórann fyrir alla ríkisstj., þá getur hann komið hér og sagt: Nei, nei, það er allt annað efnahagskerfi, sem ég er með, og á ekkert skylt við þetta, sem Jónas Haralz var að blaðra um. — Hann hefur tækifæri, hæstv. fjmrh. Þá getur hann hrakið þetta allt saman með einni yfirlýsingu, eins og ég hef sagt. En geri hann það ekki, og geri enginn það úr ríkisstj., þá stendur áfram sá grunur, að þetta sé það, sem koma skal. Haldið þið, að það sé nokkur tilviljun, að svo að segja sama dag er íhaldsmeirihluti stúdenta látinn fá Jónas Haralz til þess að tala? Maður veit, hvert þræðirnir liggja. Það eru meira að segja kannske menn hér í salnum, sem hafa allgóð sambönd til að stjórna og eru duglegir að skipuleggja. Haldið þið, að það sé nokkur tilviljun, að sama daginn, sem Jónas Haralz heldur þessa ræðu sína, þá er einn af helztu mönnum Efnahagssamvinnustofnunarinnar á ferðinni hér, heldur ræðu mjög líka í háskólanum, bara ekki alveg eins vel að sér hvað kartöflurnar snertir og slíkt? En við sjáum svo sem, hvað er verið að gera. Það er verið að reyna að telja, svo að maður noti gamalt orðalag, — það er verið að telja okkur, sauðsvörtum almúganum á Íslandi, trú um, að frá Ameríku og Frakklandi og annars staðar komi svo fínir og lærðir menn, að við verðum að líta upp til þeirra og trúa þeim, sem tala um kartöflur og gengi. Við getum ekki verið að hafa á móti því, að svona fínir menn vilji lækka kaupið á Íslandi. Ómögulegt að vera að andæfa slíku. Við hljótum að þakka þeim fyrir, að þeir hafi flutt okkur slíkan vísdóm, kominn svona langt að, litið í sinni náð til okkar og meira að segja lofað okkur því, að ef við færum eftir þessu öllu saman, þá mundu þeir kíkja til okkar enn þá betur.

Nei, það er engin tilviljun, sem þarna er á ferðinni. Þarna er verið að reyna að blekkja þjóðina. Það er verið að reyna, af því að hagfræði er allerfið grein, að telja henni trú um, að þegar hún heyri einhvern mann tala, sem sé hagfræðingur, þá megi hún treysta því eins vel og þegar hún heyrir einhvern lækni tala um, hvernig eigi að varast sjúkdóma eða lækna þá, og annað slíkt, — þá sé það nákvæmlega samsvarandi vísindamaður, sem þarna sé á ferðinni. Menn gá ekki að því, að hagfræðin er umdeildasta grein, sem til er, af öllum vísindum.

Það eru þess vegna þessar ályktanir, sem ég hef dregið út af þeim hugmyndum, sem ég hef verið að reyna að stilla saman um hið nýja efnahagskerfi hæstv. fjmrh., sem ég vildi biðja hæstv. ríkisstjórn að hrekja, ef það er rangt, en varast, ef það er rétt. Ég vil vara hana við því að fara að gera enn einu sinni tilraun, eins og önnur ríkisstj., öðruvísi samsett, gerði 1950. Það er ekkert gaman að því að þurfa hvað eftir annað að taka við og reyna að vinna upp mörg glötuð ár. Það voru næstum sjö mögur ár, sem voru leidd yfir okkur með gengislækkuninni þá. Og það varð síðan að taka til óspilltra málanna með því, sem vinstri stjórnin reyndi að gera í þeim efnum til þess að vinna upp það, sem tapazt hafði, og enn þá liðum við undir þessu. Við liðum enn þá undir því að hafa sleppt þarna einum sex árum, sem hægt var að nota til þess að stórauka áfram sjávarútveginn og undirbyggja þannig gjaldeyrisöflunina á Íslandi. Þessum árum var sleppt. Það var gerð tilraun með frjálsa fjármunamyndun í staðinn fyrir skipulagðan þjóðarbúskap. Og það varð að taka við aftur árið 1956 og reyna að fara að bæta upp þessi ár. Það tókst ekki að bæta þau upp á þessum tíma. Það þurfti að gera stóra hluti, það þurfti að snúa þróuninni við hvað snertir þrjá landsfjórðunga, skapa atvinnu í þeim, fulla atvinnu, þar sem eyðingin vofði yfir þeim áður. En það er ekki hægt á þremur árum að vinna upp glapræði, sem gert er á sex eða sjö. Þess vegna má ekki aftur fara að gera slíkar tilraunir með íslenzku þjóðina. Þess vegna ber ríkisstj. að staldra nú við.

Við stjórnarandstæðingar höfum notað þau mál, sem hér liggja fyrir, til þess að reyna, að svo miklu leyti sem við höfum getað fengið ríkisstj. til að hlusta, til þess að reyna að fá hana til að sjá að sér, áður en það er orðið of seint. Við erum hræddir um, að þegar hún sé búin að senda Alþingi heim þá muni hún geta leyft sér hluti, sem hún mundi ekki þora, ef Alþingi sæti. Ég er hræddur um, að hún geti þá beygt sína þingflokka til þess að fylgja sér út í fjármálapólitík, efnahagspólitík, sem væri glapræði. Og við erum hræddir um, að þegar hún væri búin að koma sér niður á þetta og búin að beygja sína flokka undir það, þá mundi hún ekki kunna við það vegna síns stolts, vegna síns metnaðar, jafnvel þótt við gætum sannfært einhverja af þeim á eftir, þegar farið væri að ræða þetta í þinginu, um, að hún væri að gera rangt. Við erum hræddir um, að þá væri orðið of seint að fá hæstv. ríkisstj. til að sjá að sér. Þess vegna höfum við beðið um að fá að ræða við hana nú. Þess vegna höfum við óskað eftir því, að upplýsingar yrðu gefnar um ástand fjármálanna, óskað eftir því, að hinu nýja efnahagskerfi hennar, sem hún væri búin að ákveða sína stefnu um, væri lýst. Við höfum því miður ekki getað fengið þetta fram. Ég notaði tækifærið nú, þegar þessi bandormur kom til umr., minnti á, í upphafi míns máls, hvílíkur ills viti svona bandormsfrumvarp venjulega hefði verið á Alþingi, bæði 1939–40 og 1948, hefði verið byrjun á afturhaldstímabilum, og hef nú, eftir því sem mér er fært, reynt að vara hæstv. ríkisstj. við, þannig að hún stígi ekki þau skref, sem ég óttast að hún sé að hugsa um að stíga og ég veit með fullri vissu, ef ég hef átt kollgátuna um þá nýju efnahagspólitík, sem hæstv. fjmrh. lýsti yfir, að mundi þýða óskaplega ógæfu fyrir okkar þjóð. Það er síður en svo ánægjuefni fyrir okkur, sem finnum okkur nú allt í einu fara að verða með elztu þingmönnunum, að eiga að horfa upp á það, að ógæfa, sem hægt væri að afstýra núna, væri leidd yfir þjóðina og það gæti tekið okkur aftur kannske fimm eða sex ár að vinna það upp. Ég vil þess vegna eindregið nú við 1. umr. þessa frv. beina þeirri áskorun til ríkisstj., að hún hætti þeim leik, sem hún hefur hér háð, að ætla sér þá dul að fótumtroða Alþingi, einskisvirða álit og skoðanir sinna stjórnarandstæðinga, einskisnýta þau ráð, sem nú væri hægt að gefa henni, áður en hún grípur til þeirra aðferða í okkar efnahagsmálum, sem mundu valda okkur vandræðum um langt áraskeið.

Mér þykir leitt, að sá ráðh., sem ég sérstaklega beindi máli mínu til, hæstv. fjmrh., hefur ekki látið svo lítið að sýna sig hér hjá okkur. Það er ekki góðs viti, að ráðherrar líti þannig á sjálfa sig sem þeir séu upphafnir yfir það að tala við þm. Það gera a.m.k. engir þeir ráðherrar, sem alllengi eru búnir að sitja í þeim sætum. Það er rangt af þeim mönnum, sem eru nýkomnir í þau sæti, að halda, að þeir upphefji sig þannig á einhvern hátt yfir þm. Einmitt slíkum bæri hvað frekast að sitja hér og hlusta, ég tala nú ekki um, ef þeir fengjust til að taka þátt í umræðum. Þeir hefðu áreiðanlega margt að læra, ekki hvað sízt þegar þeir hefðu tekið við slíku embætti eins og fjmrh., sem er víst það voldugasta í einni ríkisstjórn.