06.05.1960
Efri deild: 71. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3146 í B-deild Alþingistíðinda. (1453)

57. mál, orlof húsmæðra

Friðjón Skarphéðinsson:

Herra forseti. Eftir að mál þetta var síðast rætt hér í þessari hv. d., og þá sætti það nokkurri gagnrýni um ýmis atriði, eins og hv. þdm. væntanlega muna, þá hefur heilbr.- og félmn. enn haft málið til meðferðar á nokkrum fundum. Árangur eða niðurstöður af hinum nýju athugunum n. birtast á þskj. 393, sem eru brtt., sem n. flytur og er sammála um.

Heilbr.- og félmn. telur og væntir þess, að hv. þdm. fallist einnig á þá skoðun, að það væri nánast fjarstæða eða það stappi nærri fjarstæðu að leggja þann 10 kr. skatt á, sem ráðgert er í 3. gr. frv. að lagður skuli á húsmæður á aldrinum 18–65 ára og innheimtur skuli með þinggjöldum af innheimtumönnum ríkissjóðs. Ekki þó vegna þess, að þessi skattur sé hár eða tilfinnanlegur, því að því fer vitanlega fjarri, að svo sé, heldur vegna hins, að það liggur í augum uppi, að kostnaður við innheimtu þessa gjalds mundi að öllum líkindum fara fram úr gjaldupphæðinni sjálfri. Það er talið, að í landinu séu 32 þús. húsmæður, sem gjaldskyldar yrðu samkv. 3. gr. frv., og gjaldupphæðin yrði því samtals 320 þús. kr. sem innheimta bæri af 32 þús. gjaldendum. Ég þarf ekki að reyna að lýsa því eða gera grein fyrir því, hversu mikil fyrirhöfn yrði við innheimtu þessa gjalds og við reikningshald á þessu gjaldi og reikningsskil.

Ég ræddi mál þetta fyrir nokkrum dögum við Torfa Hjartarson tollstjóra, sem hefur, eins og allir vita, manna mesta reynslu og þekkingu um innheimtu opinberra gjalda. Skoðun hans á þessu máli var sú, að ekki mætti koma fyrir, að skattur slíkur sem þessi yrði í lög leiddur. Stefnan hefur verið sú undanfarin ár að fækka opinberum gjöldum og reyna að gera innheimtu og reikningsskil sem einföldust, þótt að vísu hafi hægt miðað í þeim efnum og margt standi enn þá til bóta, en segja má þó, að nokkuð hafi miðað í þá átt að gera þessa hluti einfaldari en þeir hafa verið.

Heilbr.- og félmn. leggur því til með brtt. sinni á þskj. 393, að þessi skattur, sem ráðgerður er í 3. gr. frv., verði felldur úr frv. Í stað þess er gert ráð fyrir í brtt., að frá kvenfélögum og kvenfélagasamböndum komi nokkurt framlag í orlofssjóð, og er það hugsað þannig af n. hálfu, að konurnar sjálfar með sínum alkunna kvenlega dugnaði afli þessa fjár með frjálsum framlögum húsmæðra. Aðrar breyt. í till. n. leiðir beinlínis af þessu og þurfa ekki frekari skýringa við. Ætlazt er til, að ríkisframlagið sé hið sama og frv. gerir ráð fyrir, en heimilt sé þó, að það verði hærra.

Um 5. gr. frv. leggur n. til, að brott verði numinn fyrri málsl. síðari málsgr., en hann virðist vera óþarfur og að nokkru leyti villandi, eins og hv. 5. þm. Austf. (PÞ) benti á hér í umr. um daginn.

Fleiri athugasemdir tel ég ekki efni til að láta fylgja þessum brtt. að svo komnu.