03.12.1959
Neðri deild: 9. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég er nú eins gamall og á grönum má sjá, en ég tel mér skylt að játa það, að ég fer svolítið hjá mér að koma hér í ræðustólinn næst á eftir einum allra duglegasta ræðumanni og mælskasta ræðumanni þingsins. Ég missti af fyrri hluta ræðu hans, en af því að þetta er utan dagskrár, að ég vík að þessu, sem ég hlustaði á, þá skildist mér, að hann væri að tala um sex boðorð hins nýbakaða ráðuneytisstjóra, Jónasar Haralz, og hann hefði ekki trú á því, sem ráðunautur stjórnarinnar hefði þar gefið út sem boðorð. Ég skal ekki leggja dóm á það, hvort þau verða eins lengi í gildi og þau, sem sá aldni og síðskeggjaði og æruverðugi öldungur Ísraelsmanna gaf út á sínum tíma. En ég vil benda hv. 3. þm. Reykv. á, að það er þó ef til vill a.m.k. eitt hættulegra hjá ráðuneytisstjóranum, að hann hefur sín boðorð ekki nema sex, í staðinn fyrir að spámaður Gyðinga hafði þau tíu, og það er óneitanlega auðveldara fyrir hæstv. ríkisstj. og aðra, sem vilja á þessi boðorð ráðuneytisstjórans hlusta, að muna sex boðorð og framfylgja þeim heldur en muna þau tíu, sem kennd voru þjóðunum fyrir mörgum tugum hundraða ára og okkur var uppálagt að læra og fara eftir, áður en við vorum tekin í tölu kristinna manna. Ég heyrði það á hv. 3. þm. Reykv., að hann var mjög á móti þessum sex boðorðum. Ég hef ekki tekið afstöðu til þeirra, því að ég hef ekki haft tækifæri til að kynna mér þau, en ég vil bara benda honum á það, og kannske okkur báðum til huggunar, en a.m.k. honum, að ég efast um, að jafnmælskur maður og einarður og hv. 3. þm. Reykv. hafi risið upp meðal Ísraelsmanna til að mótmæla, þegar boðorðin voru flutt í fyrsta sinn. Þess vegna má vel vera, að þeir, sem eru á móti þessum sex boðorðum, — og þar á meðal verði ég líka, — að þeir geti huggað sig við, að það eru þegar fram komin sterk mótmæli og veruleg rök gegn þeim. — Þetta var, eins og ég gat um, alveg utan dagskrár.

Ég skal þá hverfa að því máli, sem hér er til umræðu, og víkja nokkuð aftur til þess stutta tíma, sem þingið hefur setið. Hinn fimmta og sjötta dag þingsins gerðust þau tíðindi, að rigna tók niður yfir Alþingi lagafrumvörpum um framlengingu ýmissa tekjustofna ríkisins, sem venja hefur verið undanfarin ár að framlengja frá ári til árs. Á undanförnum árum hefur mér stundum fundizt fátt til um þau vinnubrögð, sem af og til hafa tíðkazt um sum þessi mál, að framlengingarnar hafa ekki ætíð verið lagðar fyrir þingið fyrr en síðustu dagana fyrir jólafrí og því komið fyrir, að afgreiðsla hefur þurft að fara fram á Alþingi með nokkrum hraða og jafnvel í einstaka tilfelli með afbrigðum. Þessi frv. ríkisstj. munu því í upphafi hafa vakið meiri athygli en að öðru leyti stóðu efni til, og að einhverjum kann að hafa hvarflað, að munur væri á mannsliðinu, hér væru komnir 7 ráðherrar, sem í meira en tæka tíð kæmu fram með mál, sem oft hefðu tafizt, jafnvel óþarflega lengi, hjá sex ráðherrum. í þessum tekjuöflunarfrv, var það sjáanlegt, að ríkisstj. ætlaði sér að nota áfram þessa gömlu tekjustofna og þ. á m. söluskattinn, sem sumir, er nú sitja í ráðherrastólum, hafa stundum áður hamazt gegn að gengi til ríkissjóðs. Ég held, að ekki verði sagt, að út af fyrir sig sé óeðlilegt, að þeim tekjustofnum, sem hér er um að ræða, sé við haldið, og allra sízt verður það sagt hvað áhrærir skemmtanaskattinn. Hins vegar má það teljast ástæðulaust svona löngu fyrir venjulegt jólafrí þm., að þessi mál séu lögð fram til skyndiafgreiðslu, eins og nú er á daginn komið, og það áður en ríkisstj. hefur lagt nokkrar till. fram í fjáröflunarmálum og efnahagsmálum almennt. Það mátti þó teljast eðlilegast, að allar fjáröflunartill. lægju fyrir samtímis, svo að þm. gæfist kostur á að meta þær saman í einni heild. Í kjölfar þessara fjáröflunarfrv, kom svo till. um heimild fyrir ríkisstj. um bráðabirgðagreiðslur úr ríkissjóði til febrúarloka næsta ár. Þessi till. mun hafa vakið nokkra furðu, því að bæði er, að það mun fordæmalaust, að slík till. sé borin fram í þingbyrjun, þegar eftir er a.m.k. 3 vikna tími, þar til gefa þarf jólafrí, og eins mun það líka vera fordæmalaust, að svona till. sé fram komin, áður en búið er að hafa 1. umr. um fjárlagafrv. og því vísað til n. Hins vegar mátti það teljast út af fyrir sig einsýnt, fyrst Alþingi var ekki kvatt saman fyrr en 20. nóv., að þá mundi ekki gefast tími til að ljúka fjárlögum fyrir jól og nauðsynlegt mundi reynast fyrir ríkisstj. að fá umrædda greiðsluheimild, áður en Alþingi tæki jólafrí sitt.

Þegar nú hin óvenjulega snemmbæra ríkisstjórn í þessu tilfelli hafði skilað öllum framangreindum málum inn á þingið, þá var meira en full ástæða til að ætla, að næsta opinberun frá hinum sjö vísu mönnum í ráðherrastólunum, sem þeir að vísu hafa lítið notað til þessa dags, yrði sú, að hæstv. forsrh, birtist hér í ræðustóli til að efna það fyrirheit, sem hann gaf þingheimi þingsetningardaginn. Það fyrirheit var þannig, að ríkisstj. mundi fljótlega gefa Alþ. skýrslu um þær ráðstafanir, sem hún hygðist gera í efnahagsmálunum, og mér fannst ekki örgrannt um, að brygði fyrir hátíðleika í rödd þessarar öldnu stríðskempu, þegar hún bað þingheim að halda með sér vöku, að sofa ekki á verðinum þessa fáu daga, þar til ríkisstjórnin legði öll spilin á borðið.

Til þess nú að stjórnarliðið ætli ekki, að ég fari hér með rangt mál, þar sem ég skýri frá því, sem hæstv. forsrh. boðaði í þingbyrjun, þann dag, sem Alþ. var sett, að ríkisstj. mundi fljótlega koma fram með efnahagstill. sínar og gefa skýrslu um þau mál, þá vil ég, með leyfi hæstv. forseta, vitna hér lítils háttar í aðalstjórnarblaðið, Morgunbl., sem ég ætla að stjórnarstuðningsmennirnir telji fullgóða heimild í sambandi við allt það, sem viðkemur hæstv. ríkisstjórn. Morgunbl. skýrir frá því, að þann dag, sem Alþ. var sett, hafi hæstv. forsrh. tilkynnt Alþ. myndun nýrrar ríkisstjórnar. Það skýrir enn fremur frá því, að formenn andstöðuflokkanna hafi talað í tilefni af þessari tilkynningu hæstv. forsrh., og hefur eftir í stórum dráttum það, sem formenn stjórnarandstöðuflokkanna sögðu, segir t.d. frá því, að formaður þingflokks Framsfl., hv. 1. þm. Austf., hafi. m.a. tilkynnt fyrir hönd Framsfl., að flokkurinn mundi hvorki styðja hina nýju ríkisstj. né veita henni hlutleysi. Á sömu lund skýrir Morgunbl. þennan dag frá því, að formaður Alþb. hefði lýst því yfir, að Alþb. væri í andstöðu við þessa ríkisstjórn. Eftir að formenn þessara þingflokka hefðu skýrt frá afstöðu sinna flokka gagnvart nýmyndaðri ríkisstjórn, kvaddi hæstv. forsrh. sér hljóðs og sagði m.a. samkv. því, sem Morgunbl. skýrir frá, með leyfi hæstv. forseta:

„Ólafur Thors tók aftur til máls. Kvað hann í sjálfu sér ekkert af því, er formenn hefðu mælt, hefði komið sér á óvart og væri ekki ætlun sín að svara því í einstökum atriðum. Kvaðst hann viðurkenna, að álit þessara manna og flokka skipti mjög miklu máli.“

Ég vil nú leyfa mér að bæta því við, að samkvæmt framkomu hæstv. ríkisstj., eftir að þingsetningardagurinn leið, bendir ekkert til þess, að hæstv. ríkisstj. láti sig neinu skipta, hvað andstöðuflokkarnir segja um þau mál, sem hafa verið til meðferðar á Alþingi.

Forsrh. heldur áfram og segir: „En meira máli skiptir þó, hvernig þjóðin sjálf lítur á málin.“

Ég geri ráð fyrir því, að þjóðin eigi eftir að dæma, hvernig hún lítur á málin, eins og þau horfa nú við. En það er vonandi, að þjóðin fái sem fyrst tækifæri til að meta meðferð hæstv. ríkisstj. á nauðsynjamálum þjóðarinnar.

Forsrh. hæstv. heldur áfram og segir, að ríkisstj. munt fljótlega gefa skýrslu um þær ráðstafanir, er hún hygðist gera, og kvaðst forsrh. vilja heita á menn að halda vöku sinni og kynna sér þá skýrslu af gaumgæfni, því að þekking í efnahagsmálunum væri skilyrði þess, að menn gætu gert sér fullkomna grein fyrir þeim mismunandi úrræðum, er til greina gætu komið, valið eða hafnað á þeirri örlagastundu, sem nú væri ugp runnin. Það lítur út fyrir, að hæstv. ríkisst;j. hafi gleymt því, að forsrh. boðaði, að örlagastundin væri upp runnin,og þjóðin og þá náttúrlega að sjálfsögðu Alþ. og alþm. þyrftu að athuga gaumgæfilega nú þegar þær till., sem ríkisstj. hefði fram að bera í efnahagsmálunum.

Síðan þetta gerðist, verður ekki sagt annað en þm. hafi haldið vöku sinni og notað tímann til að byrja á því að leggja fram þáltill. og frv. um mál, sem þeir báru fyrir brjósti. En þá skeður það, að þá berst sú fregn út einn þingdaginn, að hæstv. forsrh. hafi birzt á Varðarfundi í Sjálfstæðishúsinu og gefið þar skýrslu um ástand og horfur í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ýmsir hafa legið hæstv. forsrh. mjög á hálsi fyrir að haga sér þannig, að gefa Varðarfélaginu skýrslu um mál, sem fyrst átti að vera heyrinkunnugt hér í þingsölunum. Ég tek fyllilega undir þessa ádeilu. En ég geri ráð fyrir, að hæstv. forsrh., þegar hann fær heilsu til að birtast hér í þingsölunum og halda ræðu, þá hafi hann einhver svör við slíkri aðfinnslu, svör, sem a.m.k. reynast ekki lakari en svar, sem hæstv. landbrh. gaf einum hv. þm. nú fyrir skömmu, sem spurði hæstv. ráðh. ósköp hógværlega, hvað hann hygðist gera við brbl. frá s.l. hausti um verðfestingu búvara bænda. Það má vel vera, að undir niðri hafi hv. fyrirspyrjandi verið í vígahug og á honum hafi e.t.v. mátt skilja, að hann vildi, að þessi skjólstæðingur ráðh. þ.e. bráðabirgðalögin, yrði strax framseldur undir öxina hér á Alþingi. Eitt er víst, að hæstv. landbrh. brást fár við öllum tilmælum um að framselja til Alþingis þetta eftirlætisgoð og eftirlætisfóstur stjórnarflokkanna og lofaði engu góðu um framsalið. Kvaðst hann hafa rætt málið við framleiðsluráð landbúnaðarins, og gæti fyrirspyrjandi og aðrir, sem áhuga hefðu í þessu máli, leitað þar frétta um, hvað hann hefði sagt og hvað hann og ríkisstjórnin ætlaði sér fyrir í þessu máli. Það hafa ýmsir tekið þessu svari illa og talið það bæði fávíslegt og ókurteist. Ég ætla ekki hér að skýra frá skoðun minni á framkomu hæstv. ráðh. í þessu tilfelli. Það gæti farið svo, að ég fengi þá aðvörun frá hæstv. forseta á þá leið, að oft megi satt kyrrt liggja. En hæstv. ráðh. virtist mjög ánægður með svar sitt, eins og hans reyndar var von og vísa, og segja má, að út af fyrir sig hafi ekki verið í kot vísað, þar sem framleiðsluráð landbúnaðarins er. Hitt er svo annað mál, hvort hæstv. landbrh. hefur skilið þar eftir sig annað en geitarhár í stað ullar.

Út af fyrir sig óttast ég ekki heldur, að hæstv. forsrh. verði svarafátt við þeirri aðfinnslu að hafa villzt inn á Varðarfund með efnahagsskýrslu, sem honum bar skylda til að flytja fyrst á Alþingt. En ef hæstv. forsrh. vill ekki verða eftirbátur hæstv. landbrh. og vill svara í svipuðum dúr, þá mætti fara svo, að hæstv. forsrh, segði: Ja, ykkur er opin leið að ganga í Varðarfélagið og sækja fundi þar til þess að hlusta á það, hvað ríkisstj. hefur að segja í efnahagsmálum þjóðarinnar og öðru því, sem hana varðar í heild. — En ég geri ráð fyrir, að mér og fleirum á hæstv. Alþingi þyki slík tilvísun verri en í kot vísað.

En hver var svo fréttin, sem barst frá Varðarfundinum og höfð var eftir hæstv. forsrh.? Hún var engin önnur en sú, að fjárhagsástandið væri svo alvarlegt, að útlit væri fyrir, að ríkissjóð og útflutningssjóð vantaði fyrir næsta ár að óbreyttum aðstæðum ekki minna en kvartmilljarð króna, ef allt ætti að bjargast, og þá upphæð yrði ríkissjóður og ríkisstj. að fá með góðu eða illu, ef hún ætti að fara á flot eftir áramót. Það mundi nú kannske minna gera til, þó að ríkisstj. færi ekki á flot eftir áramót. En mér dettur í hug, fyrst ég nota það orð að fara á flot, að það mun verða alvarlegra fyrir þjóðina, ef bátarnir færu ekki á flot eftir áramót, en um það má ugga, og það er þjóðarvoði, en ekki þó að núv. hæstv. ríkisstjórn færi ekki á flot eftir áramót.

Eftir þessum fréttum mátti skilja, að hæstv. forsrh. hefði komið sú vitneskja mjög á óvart, að ástandið í efnahagsmálunum væri svo alvarlegt sem hann tilkynnti á fyrrnefndum Varðarfundi. Mér skilst eftir þeim fregnum, sem hermt er af þessum merkilega fundi, að hann hafi látið það a.m.k. í veðri vaka eða skýrt frá því, að hann hefði raunar allt þetta ár verið af og til að gægjast í stjórnarplöggin yfir öxl vinar síns, fyrrv. hæstv. forsrh., eins og honum líka bar skylda til, sökum þess að Sjálfstfl. bar ábyrgð á öllum stjórnarathöfnum fyrrv. stjórnar, og m.a. þurfti þess vegna formaður Sjálfstfl. að hafa gætur á, að Alþfl.-stjórnin svokallaða gerði engin önnur skammarstrik en henni var ætlað að gera.

Og um fjárhaginn skilst mér, að forsrh. hafi látið í veðri vaka sér til afsökunar, að hann hefði einnig, eins og aðrir, lesið það bæði í Morgunbl. og Alþýðubl., meðan á kosningahríðinni stóð í haust, að allt væri í lagi, að fjárlögin fyrir þetta ár reyndust pottþétt, svo að nægir peningar væru til í ríkissjóði, sama væri að segja um útflutningssjóð, og einnig væri nægur gjaldeyrir í bönkunum, bæði til að flytja inn lúxus- og óþarfavörur ríkisstj. sem og lífsnauðsynjar þjóðarinnar. Hins vegar höfðu ýmsir, meðan í kosningabaráttunni var staðið, haldið því fram, að allt önnur og verri tíðindi hefðu gerzt á þessu ári í fjárhagsmálunum undir samstjórn Sjálfstfl. og Alþfl., og það var óneitanlega þægilegt þá stundina fyrir stjórnarliðið að geta í kosningunum sagt, að allar slæmar fregnir í þessum málum væru ósannar, og geta fullyrt, að hið góða fjárhagsástand, sem þjóðin byggi nú við, væri allt að þakka samstjórn Sjálfstfl. og Alþfl., og að svo vel hefðu þessir flokkar haldið vöku sinni, að dýrtíðarskrúfan hefði ekki haggazt um hænufet.

En það er nú svo, að það kemur ætíð að skuldadögunum og hið sanna kemur í ljós fyrr eða síðar. Það getur náttúrlega hver sem vill láð hæstv. forsrh. það, að hann kaus fremur að stynja einhverju af sannleikanum í þessum málum upp við vini sína í Varðarfélaginu, áður en hann gekk á fund Alþingis sömu erinda. Það er hægt að gera sér grein fyrir því, að það er ekki fýsilegt fyrir hæstv, forsrh. landsins að standa hér frammi fyrir hinni mislitu hjörð innan veggja Alþingis og verða að játa, að allt, sem stjórnarflokkarnir sögðu í síðustu kosningum um fjármál ríkisins og fjárhagsmál þjóðarinnar yfirleitt, einmitt það, sem þeir fengu mörg atkv. út á í kosningunum, hefði verið fals og blekking, — að þurfa að viðurkenna, að allir sjóðir frá tíð vinstri stjórnarinnar væru horfnir í eyðsluhítina og allt væri um koli keyrt og stjórnin vissi ekki sitt rjúkandi ráð, nema vist væri, að hún yrði fyrir næstu áramót að fá kvartmilljarð í hendurnar, ef hún ætti að haldast við í stólunum. Og það er því miður jafnan svo, að ef menn vita ekki sitt rjúkandi ráð, þá er oft stutt fyrir misvitra menn — og ef til vill því hættara sem þeir eru fleiri — að grípa til örþrifaráða.

Ég var kominn þar sögu um mál á Alþingi, að mörg tekjuöflunarfrv., sem nú er að vísu búið að steypa saman í eitt frv., sem gengur meðal fólksins undir nafninu „bandormur“, voru ásamt heimild til bráðabirgðagreiðslna lögð fram á Alþ. af sjömenningunum í hæstv. ríkisstjórn. Og það þarf ekki að taka það fram, að hv. þm. héldu vöku sinni samkvæmt beiðni forsrh. og voru viðbúnir að móttaka boðskap um það, hvað ríkisstj, teldi að gera ætti í fjárhagsmálunum, og einnig viðbúnir að beiðni forsrh. þingsetningardaginn að kynna sér þær skýrslur og tillögur vandlega. En þá springur stjórnarbomban. Þá er lögð fram till. til þál. á Alþ. um að senda þm. heim, — senda þá heim tíu dögum eftir að þeir höfðu verið kallaðir saman. Þessari þáltill. hæstv. forsrh. fylgdi gagnstætt venju engin grg. En eitt stjórnarblaðið, Alþýðubl., það blaðið, sem þm. hafa ekki aðgang að hér í þinghúsinu, — það er kapítuli út af fyrir sig, að Alþýðubl. skuli, að ég ætla, vera eina stjórnmálablað landsins, sem virðir Alþingi svo lítið, að það telur ekki ástæðu til eða þess vert að sjá um, að þm. eigi hér á Alþingi auðvelt með um þingtímann að fylgjast með því, sem blaðið lætur á þrykk út ganga, — ég er ekki að halda því fram fyrir hönd þm., að hér sé mikill skaði skeður, þótt blaðið hafi þennan hátt á, en það er blærinn, sem er ekki viðfelldinn, — Alþýðublaðið virðist hafa viljað hlaupa undir bagga með hæstv. forsrh. — og ber það sannarlega ekki að lasta — og bæta úr greinargerðarleysi í sambandi við þáltill. um að vísa þinginu heim. Mér er sagt, að útskýring blaðsins, nokkurs konar rökstuðningur fyrir þáltill. hafi verið sá, að með því að senda Alþingi heim nú um mánaðamótin og kalla það ekki aftur saman fyrr en í janúarlok mundu sparast í þinghaldi nálega 900 þús. kr. Þennan sparnað má skilja svo samkv. framsetningu blaðsins, að því er mér er tjáð, að hann eigi að vera nægileg grg., nægileg ástæða til þess að brjóta allar venjur og senda Alþingi strax heim, fáum dögum eftir að það hefur komið saman. Ja, fallegur er nú hugsunarhátturinn, sem á bak við virðist búa, — sá, að ef hægt er að spara með því nokkra fjárhæð, þá er það nægileg ástæða. Hitt má skilja eftir frásögn blaðsins um þetta mál, að það skipti ekki miklu máli eða kannske engu máli, þótt venjur og lýðræðíslegar reglur séu um leið brotnar. En þetta er ekki allt. Það versta er, að þessi málflutningur um umræddan sparnað í sambandi við að fresta þinghaldinu nú er ósannur og hrein blekking, sem á engan hátt fær staðizt.

Ég álít, að í raun og veru sé hin svokallaða sparnaðarhlið á heimsendingarmálinu algert aukaatriði, þó að sönn hefði verið. Heimsending Alþingis nú er miklu alvarlegra mál en svo, að það verði metið frá peningalegu sjónarmiði, og málið er því að mínum dómi ekki ræðandi á þeim grundvelli.

Ríkisstj. hefur sjálfsagt líka strax virzt, að slík grg. með þáltill, væri ónothæf, því að þá kemur það fram, að flutt eru sem ástæða fyrir heimsendingunni þau rök, að ríkisstj. þurfi að hugsa, — það er eins og ríkisstj. hafi aldrei hugsað fyrr, en hún þarf nú að hugsa um efnahagsmálin, en getur það ekki fyrir hávaðanum á Alþingi, — hún þurfi að breiða feld yfir höfuð sér og hún þurfti að fá algera kyrrð og næði. Þetta finnst stjórnarliðinu vafalaust virðulegri og á allan hátt frambærilegri grg. fyrir till. um heimsendingu Alþingis heldur en fram kom í Alþýðublaðinu. En þá vaknar bara sú spurning: Hafa þá stjórnarflokkarnir raunverulega ekkert hugsað um efnahagsmálin það heila ár, sem þeir hafa setíð við völd? Og hafa núv. stjórnarflokkar raunverulega verið svo uppteknir á liðnum valdatíma að bæta pólitíska aðstöðu sína í tvennum kosningum þessa árs, að þeir hafa látið undir höfuð leggjast að hugsa um vandamál þjóðarinnar, sem þeir þó vissulega hafa sjálfir átt drjúgan þátt í að skapa? Og á nú á þeim báðum að sannast betur en nokkurn tíma áður það kjörorð, sem hinn stærri stjórnarflokkurinn virðist hafa áður fyrr tileinkað sér, það er: Ég fyrst, flokkurinn svo og þjóðin síðast?

Ef þetta er rétt, því í ósköpunum játa stjórnarherrarnir ekki hreinlega, að þeir hafi ekki hugsað ráð sitt gagnvart vandamálum þjóðarinnar, það sé enn eftir, og þess vegna þurfi nú stjórnin að fara að fá hvíld og frið til þess að hugsa? En það má í tilefni af þessu líka spyrja: Hvar er nú leynivopn hæstv. forsrh., sem hann boðaði fyrir mörgum árum? Því er nú ekki gripið til töfrapennans? Hvenær væri meiri ástæða en nú og hvenær kæmi það a.m.k. meira í þágu hans flokks en nú, þegar hann er búinn að fá yfirtökin í stjórn landsins? Því er ekki gripið til töfrapennans, sem sagður var á sínum tíma þeirrar náttúru, að ekki þurfti nema eitt pennastrik með honum til þess að lækna alla verðbólgu og fjárhagsvandræði þjóðarinnar? Hafa kannske ýmsir ráðamenn stjórnarflokkanna trúað þessari þjóðsögu um töfrapennann og þess vegna losað sig við að hugsa, en séu nú orðnir uggandi um mátt pennans eða hræddir við pennann, að hans eðli sé þannig, að það geti orðið hættulegt fyrir ríkisstj. að beita honum, og því sé a. m. k, vissara að hugsa eitthvað, áður en honum er beitt? Hvað sem um þetta er að segja, þá er heimsendingaráform ríkisstj. óheyrileg framkoma gagnvart Alþingi. Og mér virðist hún bera eingöngu vott um nazistísk vinnubrögð, og hún er að mínum dómi mesta móðgun við þing og þjóð, sem fram hefur komið hér á landi af hendi stjórnarvalda, síðan Trampe greifi hinn danski rak þjóðfundinn sællar minningar burt frá störfum.

Samkv. þessari þáltill. hæstv. forsrh. er ljóst, að hæstv. ríkisstj. ætlar að svíkja það loforð, sem hún gaf Alþingi þingsetningardaginn, að gefa því fljótlega skýrslu um þær ráðstafanir, sem hún hygðist gera í efnahagsmálunum. í staðinn ætlar hún að senda Alþingi reim um tveggja mánaða skeið.

Hér er um að ræða nýkosið þing, sem vitað er að þarf að hafa með höndum mörg erfið og aðkallandi vandamál, sem endilega þarf að leysa sem allra fyrst og helzt að mestu eða öllu fyrir næstu áramót. Og þetta er nýkosið þing eftir lýðræðíslegri aðferð — að dómi stjórnarflokkanna — en nokkurn tíma áður hefur komið saman. En samt á að senda það heim yfir þann tíma, sem mest þörf er á að það sitji og ráði ráðum sínum. Og m.a. ætlar hæstv. ríkisstj. með þessu framferði að koma sér undan þeirri lýðræðislegu skyldu að leggja fyrir Alþingi bráðabirgðalögin frá s.l. hausti, sem níðast á einni stétt landsins og engir hafa þorað opinberlega að mæla bót nema minnsti þingflokkurinn, og þessi brbl. voru í upphafi sett í trássi og gegn vilja þingmeirihluta, samkvæmt m.a. yfirlýsingu Sjálfstfl., og því voru þessi brbl. í eðli sínu frá upphafi réttlaus frá sjónarmiði viðurkenndra lýðræðisreglna.

Stjórnarandstaðan vill halda vöku sinni að beiðni hæstv. forsrh., og ég skora á stjórnarliðið að halda einnig sinni vöku í þessu máli og hindra það, að svona vinnubrögð verði viðhöfð í þessu mikilvæga atriði, að reka Alþingi heim frá störfum á þessu stigi málanna. Vill hv. þingmeirihluti bera ábyrgð á svona fáránlegum gerðum ríkisstjórnar sinnar? Vill hann t.d. bera ábyrgð á því, að brbl. um verðbindingu búvara bænda haldi óstaðfest á Alþ. gildi sínu til lokadags, en það vita allir hv. þdm., að þeim er ætlað að óbreyttu að halda gildi til 15. þ.m., og að útrunnum þeim tíma sé e.t.v. von á nýjum og engu betri brbl. í þessu efni? Vill hv. þingmeirihluti bera ábyrgð á því, að Alþingi eigi ekki kost á að vinna að einhverri lausn efnahagsmálanna fyrr en eftir 2 mánuði, þótt vitað sé, að málin þoli enga bið, hvað þá svo langa, og óttast megi, að núverandi ríkisstjórn, sem virðist láta sér fátt fyrir brjósti brenna, sé jafnvel vís til þess að setja um efnahagsmálin brbl., eftir að hún er búin að reka þingið heim, og fremja þannig enn eitt ofbeldi gegn löglega kosnu og nýsamankomnu Alþingi? Vill hv. stjórnarlið hjálpa ríkisstj. sinni til þess að skapa þá hættulegu venju, að ríkisstj. geti eftir geðþótta sniðgengið löggjafarþing þjóðarinnar, gert það óvirkt og því ómögulegt að rækja skyldur sínar? Vill hv. þingmeirihluti e.t.v. stuðla að þeim vinnubrögðum ríkisstjórnar sinnar, sem minna á hætti og síðu Estrups hins danska og illræmda, að stjórn ríkisins stjórni með brbl. og tilskipunum, sem gæti auðveldlega orðið undanfari algerra fasistískra stjórnarhátta.

Ég tel, að það hefði aldrei verið ástæða til að bera traust til núverandi eða fyrrverandi ríkisstjórna. En að hin nýmyndaða stjórn gerði þjóðina óttaslegna með fyrstu aðgerðum sínum, er meira en ég fyrir fram gat gert mér grein fyrir eða átt von á. Var það ekki nóg, að þjóðin hefur orðið að sætta sig við allt þetta ár, að stjórnarflokkarnir höguðu sér ábyrgðarlítið í fjárhags- og efnahagsmálum meira og minna sér til pólitísks stundarhags og framdráttar? Var það ekki nóg fyrir þjóðina að þurfa nú og í framtíðinni að súpa seyðið af slíku framferði? Ég spyr: Var það, sem á undan var gengið, ekki nóg, þótt ekki væri nú þegar höggvið í hinn sama knérunn með því að gera tilraun til að brjóta niður allar þingræðisog lýðræðisvenjur og skyldur, eins og lítur út fyrir að eigi að gera í flestum málum, sem ríkisstj. hefur borið fram, og þá fyrst og fremst í sambandi við það að reka Alþingi nú þegar heim?

Ill virðist hin fyrsta ganga þessarar ríkisstj. ætla að verða, og munu þá fleiri spor slík á eftir koma. Hvers vegna bregzt hæstv. ríkisstj. þeirri venju og skyldu að taka fjárlagafrv., sem fyrir liggur, til meðferðar og láta vísa því til nefndar, um leið og fjmrh. gefur Alþ. skýrslu um afkomu ársins, eins og föst venja er og skylda er, um leið og fjmrh. þá að sjálfsögðu gefur einnig þinginu yfirlit yfir fjárþörf ríkisins á komandi ári og eftir föngum yfirlit í heild um fjárhagsmál þjóðarinnar? En í þessu máli er alger þögn af hendi hæstv. ríkisstj. og um ieið í raun og veru alger fyrirlitning í garð Alþingis, og þessa fyrirlitningu undirstrikar ríkisstj. með því að bera fram, áður en hún rækir fyrrgreindar skyldur sínar, lagafrv. um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1/6 hluta næsta árs. Ég spyr: Hver er tryggingin fyrir því, að svona ríkisstj. greiði aðeins út lögboðin gjöld og því um líkt, eins og venja hefur verið, þegar bráðabirgðagreiðsluheimildir hafa verið gefnar? Mér finnst a.m.k. von, að spurt sé um tryggingu í þessu efni, ekki sízt eftir það, sem á undan er gengið, síðan þessi hæstv. ríkisstj. tók við völdum. (Forseti: Ég vil spyrja hv. þm., hvort hann eigi mikið eftir ólokið af ræðu sinni.) Já, ótrúlega mikið. (Forseti: Þá vil ég biðja hann að gera svo vel að gera hlé á máli sínu, því að nú verður gert fundarhlé til kl. 11.30. ) Ég þakka forseta fyrir hvíldina. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég mun hafa verið kominn þar máli mínu, þegar hæstv. forseti bauð þm. upp á þá ágætu hressingu, sem á boðstólum var og þm. hafa nú notið, að ég lét í ljós efa um, hvort ástæða væri til með tilliti til þess, sem á undan var gengið, að treysta núverandi hæstv. ríkisstj. til að beita greiðsluheimildarlögunum þannig, að ekki yrði ofgert, að greiðsluheimildarlög yrðu ekki misbrúkuð í höndum hennar. Og ég taldi ástæðu til að spyrja, — og enn meiri ástæðu tel ég til að spyrja, eftir að hafa í kvöld hlustað á vífilengjur hæstv. fjmrh. út af fsp. um, hvort ríkisstj. ætlaði raunverulega ekki að visa fyrirliggjandi fjárlagafrv. til n. og gefa um leið skýrslu um fjárhag ríkissjóðs og efnahagsmálin yfirleitt, eins og venja er og ríkisstj. ber skylda til í þingbyrjun. Vífilengjur hæstv. fjmrh. voru í raun og veru mjög athyglisverðar, þótt allt virtist ganga út á það fyrir hæstv. ráðherra að segja ekkert með þeim orðum, sem hann sagði. En vissulega fannst mér, að honum hefði þá skjöplazt nokkuð í því efni. Hæstv. fjmrh. sagði, út af fsp., að hann teldi, að væntanlegar aðgerðir í efnahagsmálunum mundu verða þannig, að fyrirliggjandi fjárlagafrv. væri einskis nýtt og semja þyrfti því nýtt fjárlagafrv. frá grunni. Hverjar þessar efnahagsráðstafanir yrðu, var hæstv. fjmrh. vissulega jafnþögull um og aðrir ráðherrar, sem talað hafa — eða í raun og veru þagað hafa í sambandi við fsp. um þau efni, sem komið hafa hér fram marga undanfarna daga á hv. Alþingi. En samt tel ég yfirlýsingu hæstv. fjmrh. boða mikil tíðindi í efnahagsmálunum, ef svo er, að ráðstafanirnar verða þess eðlis, að fyrirliggjandi fjárlagafrv. er ónýtt plagg og að engu hafandi. Þögnin um fyrirhugaðar aðgerðir hæstv. ríkisstj. er þannig með yfirlýsingu hæstv. fjmrh. enn þá uggvænlegri en áður og reyndar alveg óþolandi.

Það er svo út af fyrir sig einnig sorglega skoplegt, þegar þessi hæstv. fjmrh. og fyrrverandi borgarstjóri hér í Reykjavík fór að tala um vinnubrögð fjvn. á liðnum árum. Hann deildi á fjvn. fyrir það, að hann teldi, að hún hefði á flestum tímum og í raun og veru undantekningarlaust sýnt slæleg vinnubrögð, og hann gaf það meira en fyllilega í skyn, að hann teldi það óhæfilegt, hve fjvn. hefði ætíð haldið fjárlagafrv. lengi hjá sér. Þessi ádeila hæstv. fjmrh, hittir fyrst og fremst formenn fjvn. á hverjum tíma. En ég vil fullyrða, að þessi hæstv. fjmrh. verður að hafa sýnt af sér meiri afrek en hann hefur þegar sýnt sem fjmrh. og eins sem borgarstjóri, áður en hann er þess umkominn að knésetja þá formenn fjvn., sem undanfarin 14 ár hafa stjórnað málum n., en þann tíma, s.l. 14 ár, hef ég setið í fjvn., og ég tel því, að ég sé þessum málum kunnugri en hæstv. fjmrh. og um leið jafnframt dómbærari. Lengst af þennan tíma stjórnuðu verkum fjvn. tveir þjóðkunnir sjálfstæðismenn, þeir núverandi 1. þm. Vestf, og fyrrv. þm. Borgf. Þetta eru menn, sem allir viðurkenna, nema þá hæstv. núverandi fjmrh., fyrir skörungsskap og dugnað, og ég ætla, að þeir sjálfstæðismenn, sem unnu í fjvn. með þeim manni, sem síðast var formaður n., þ.e. hv. 6. þm. Sunnl., muni ekki taka undir slettur og sleggjudóma hæstv. fjmrh. í hans garð. Ég ætla, að hv. 6. þm. Sunnl. sem fjárveitinganefndarformanni verði ekki borið neitt það á brýn, sem hæstv. fjmrh. virtist vilja hitta hann með, og ég mótmæli enn fremur þessum sleggjudómum hæstv. fjmrh. í garð fjvn. í heild, fyrr og síðar, þessi 14 ár, sem ég er málum og störfum hennar kunnugur. Og þetta eru ummæli hæstv. fjmrh., þess ráðherra, sem þarf að hafa mikið og náið samstarf við fjvn., og þessi ummæli, ef á að taka þau alvarlega, boða ekki neitt gott í sambandi við samstarf hæstv. fjmrh. og núverandi fjvn.

En þessi ummæli hæstv. fjmrh. í garð fjvn. í heild og í garð formanna fjvn. eru svo sem ekki ólík öðru, sem fram hefur gengið af munni þessarar hæstv. ríkisstj., síðan núverandi Alþ. kom saman. Það virðist allt þar á sömu bókina lært. Og þessi hæstv. fjmrh. leyfir sér, áður en að hans dómi nokkurt fjárlagafrv. er fram komið, sem mark er á takandi, að segja við fjvn.: Í lok næstkomandi janúar legg ég fram mitt fjárlagafrv., og annað verður ekki þolað en n. vinni þannig, að hægt verði að afgreiða fjárlög fyrir næstkomandi febrúarlok. M.ö.o.: frv. á að leggjast fram, takast til 1. umr., það er útvarpsumræða, vísast til n., skilast frá fjvn. til 2. umr. og ræðast í Sþ. við 2. og 3. umr. ásamt venjulegum brtt. fjvn. og þm., og þetta á að gerast allt á einum mánuði, frá því Alþ. á að koma aftur saman í janúarlok n.k. Þetta þýðir það að mínum dómi, að n. fær sennilega rúman hálfan mánuð til að vinna sitt verk. Þvílík fjarstæða að dómi allra þeirra, sem til þeirra mála þekkja, og þvílíkur diktator er hér kominn á meðal okkar í fjmrh.-sætið! Það á svo sem ekki að gefast tækifæri í þessu efni frekar en öðru að vinna að málum í fjvn. á sómasamlegan hátt fremur en annars staðar á þingi, þannig að hægt sé að taka málin rækilega fyrir á venjulegan hátt, athuga þau og ræða í n. og láta þau svo á eðlilegan hátt ganga í gegnum afgreiðslu hv. Alþingis. Og þó er hér um að ræða eitt allra þýðingarmesta mál Alþingis og þjóðarinnar, fjárlögin.

Það lítur út fyrir, að hæstv. fjmrh. ætlist til, að fjvn. taki á móti fjárlagafrv. frá honum og ríkisstjórninni og segi tafarlaust já og amen við öllu því, sem þar stendur, án þess að hafa haft tækifæri til eftir föngum að sannprófa það, gera sér grein fyrir efni þess og mynda sér skoðun um það. Það virðist ekki eiga við, að slíkur háttur sé á hafður, að dómi hæstv. fjmrh.

Og svo að ég víki aftur að efnahagsmálunum, þá spyr nú maður mann: Hvers vegna helzt þessi þögn og þessi dul yfir væntanlegum aðgerðum ríkisstjórnarinnar? Hvers vegna svíkur hæstv. ríkisstj. loforð, hátíðleg loforð, sem hún gaf Alþ. þingsetningardaginn, að gefa því fljótlega skýrslur um þær efnahagsráðstafanir, sem hún hyggst gera? Er ríkisstjórninni ekki ljóst, hvaða óhappaverk hún er að vinna í þessum efnum með framferði sínu, og er henni ekki ljóst, að það er enn þá meira óhappaverk, eftir að hæstv. forsrh. hefur talað í einkafélagi hér í Reykjavík á þann hátt, sem hann hefur talað, um efnahagsmálin og þar láta eftir sér hafa, að þau séu í algeru öngþveiti? Það má segja: fyrr má nú rota en dauðrota.

Hér á Alþingi hefur áður verið m.a. vakin athygli hæstv. ríkisstj. á því, að slík þögn um væntanlegar aðgerðir í efnahagsmálunum sé stórhættuleg, m.a. sökum þess, að í tilefni af því myndast alls konar sögusagnir, komast alls konar sögusagnir á kreik um, hvað ríkisstjórnin hyggst fyrir í þeim málum. M.a. hefur áður á hv. Alþingi verið bent á, að kominn sé fyrir löngu á kreik orðrómur um, að ríkisstj. ætli að skella á gengislækkun, og ýmsir ráðamenn stjórnarflokkanna eru bornir fyrir þeim sögum. Það var annar hv. þdm., sem vakti athygli á þessu, ég vil taka þar undir, vegna þess að það er staðreynd, að svona orðrómur er á kreiki og er stórhættulegur gagnvart öllu efnahagslífi þjóðarinnar og stórhættulegur gagnvart þeim ráðstöfunum, sem mætti ætlast til að þessi hæstv. ríkisstjórn gerði.

Ég skal ekki endurtaka þau rök, sem hér hafa verið borin fram um hættu í þessu efni, þau mega vera öllum hv. þdm. ljós, bæði af því, sem áður hefur verið sagt um þau mál í þessari hv. deild, og eins af sjálfsögðum kunnugleika hvers einstaks þdm. um slík mál.

Það skiptir ekki máli, þótt ég vilji ekki leggja trúnað á þennan orðróm, sem gengur staflaust, fyrst og fremst hér í Reykjavík, að hæstv. ríkisstj. ætli að framkvæma gengislækkun nú. Ég skal ekki út af fyrir sig leggja trúnað á þann orðróm og ekki heldur fara á þessu stigi að ræða það mál nánar. En það skiptir máli, hverju fólkið trúir. Svona orðrómur gerir ekkert annað en skaða þjóðina, skaða alla nema þá nokkra fjársterka braskara, sem kunna að haga sér samkvæmt því, að hér eigi innan tíðar og kannske fyrirvaralítið að skella á gengislækkun. Slíkur orðrómur sem þessi er svo óhafandi, að ég tek undir þau orð, sem sögð hafa verið áður hér í þessari hv. þd., að þótt svo væri, að hæstv. ríkisstj. hefði hugsað sér eða væri jafnvel ákveðin í að framkvæma gengisfellingu, þá bar henni og ber henni enn skylda til þess að lýsa opinberlega þennan orðróm ósannan. Svo hættulegt er, að svona orðrómur skuli komast á kreik.

Á alþýðumáli er sagt um suma menn, að þeir hafi læknis- og líknarhendur, þ.e. að það, sem slíkir menn snerta á, vinna að, verði þeim, sem í hlut eiga, til góðs. Aðrir eru taldir hafa óhappahendur, vondar hendur, og eðli þeirra er það, að hvað sem slíkir menn fást við, verður þeim og öðrum, sem að búa, til böls og ógæfu. Hæstv. núverandi ríkisstj. virðist í þessum skilningi ekki hafa góðar hendur, jafnvel svo slæmar hendur, að út af fyrir sig virðast eðlileg mál hafa í höndum hennar breytzt í hættuleg mál, svo hættuleg, að fólkið sjálft hefur skírt þau og kallað þau bandorm, nafni þess sníkjudýrs, sem þjóðin hefur um langan aldur óttazt einna mest. Hvað sem um þetta má segja, þá virðist hæstv. ríkisstj. hafa nú of margt óhreint í pokahorninu, sem hún virðist vilja dylja í lengstu lög. Þjóðin er nú þegar slegin ótta yfir innihaldi stjórnarpokans, sem svo laumulega er með farið, og hún veit a.m.k., að hjá ríkisstj. er maðkur í mysunni, ef það er ekki eitthvað verra. Og þjóðin virðist vera farin að óttast það, að núv. hæstv. ríkisstjórn hafi ekki læknishendur, hafi vondar hendur. Ég óttast líka, að sú trú þjóðarinnar sé sönn. Ég vona þess vegna, að dagar þessarar hæstv. ríkisstj. verði sem allra fæstir og að hrammar hæstv. ríkisstj. dveljist sem stytzt á bríkum ráðherrastólanna hér í þessari hv. deild.