19.05.1960
Efri deild: 80. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3151 í B-deild Alþingistíðinda. (1471)

151. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft mál þetta til athugunar, og hún leitaði jafnframt umsagnar fiskveiðasjóðsstjórnarinnar um málið. Í svari frá sjóðsstjórninni segir svo í sambandi við efni frv.:

„Sjóðsstjórninni er kunnugt, að eigendur dráttarbrauta og skipasmíðastöðva telja ógerlegt að hafa jafnan nægan mannafla tiltækan til nauðsynlegra viðgerða á fiskiskipaflotanum, nema unnt sé að hafa jafnframt með höndum smíði skipa, þannig að vinna geti verið stöðugt árið um kring, en til þess hefur þær skort fjármagn. Nokkur bót hefur verið ráðin á þessu með ábyrgðarheimild ríkissjóðs fyrir rekstrarlánum til skipasmíðastöðvanna. Þó mun hafa verið erfiðleikum bundið að útvega bráðabirgðalán til smíðanna, auk þess sem slík lán fást ekki nema gegn venjulegum forvöxtum víxla, sem eru allmiklu hærri en vextir fiskveiðasjóðs, og kemur það auðvitað fram í hærra verði skipanna. Af framangreindum ástæðum getur sjóðsstjórnin mælt með hugmynd þeirri, sem í framangreindu frv. felst, en leyfir sér að benda á, hvort ekki væri réttara að orða málsliðgreinarinnar þannig:

Veita má eigendum innlendra skipasmíðastöðva bráðabirgðalán til smíði fiskiskipa, meðan á smiði stendur, gegn ríkisábyrgð.“

Nefndin hefur orðið sammála um að mæla með því, að þetta orðalag verði haft í sambandi við afgreiðslu málsins, og hefur með nál. 472 leyft sér að leggja til, að 1. gr. orðist svo, að á eftir 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. l. komi nýr málsliður, svo hljóðandi:

„Þó má veita eigendum innlendra skipasmíðastöðva bráðabirgðalán til smíði fiskiskipa, meðan á smíði stendur, gegn ríkisábyrgð“.

Með þessu orðalagi er náð nákvæmlega sama tilgangi og felst í frv. sjálfu, og ég ætla enn fremur, að það sé enn fremur náð þeim tilgangi, sem ætlað var, þegar gengið var frá heimildinni í fjárlögum um ríkisábyrgð til handa skipasmíðastöðvunum.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, en vil vísa til framsögu minnar um málið, þegar það var hér flutt í d. Það er einmitt hið sama, sem þar kom fram og kemur fram í svari fiskveiðasjóðsstjórnarinnar, að þetta er fyrst og fremst gert til þess að tryggja mannafla á skipasmíðastöðvunum, því að með þeim hætti, sem nú er, að enga aðra atvinnu sé upp á að hlaupa en viðhald bátaflotans, sem verður að framkvæma á skömmum tíma á milli vertíða, þá segir það sig sjálft, að ekki er um nægjanlegt atvinnuöryggi að ræða í sambandi við atvinnugreinina og menn fást ekki til að binda sig yfir slíkri atvinnu.

Ég vil leyfa mér að þakka þær undirtektir, sem málið hefur fengið hjá fiskveiðasjóðsstjórninni og meðnm. mínum í sjútvn.