23.05.1960
Efri deild: 82. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3154 í B-deild Alþingistíðinda. (1478)

151. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Með frv. þessu er aðallega stefnt að því að tryggja skipasmiðum samfelldari atvinnu en nú á sér stað hjá skipasmíðastöðvunum, þar sem atvinna þeirra er nú að mestu bundin við viðhald vélbátaflotans, því að segja má, að um nokkurt skeið hafi verið heldur lítið af skipasmíðum innanlands. Mikill meiri hluti af þeirri aukningu, sem hefur átt sér stað í vélbátaflota landsmanna, hefur verið framkvæmdur af erlendum skipasmíðastöðvum. Það hefur verið áhugamál margra, að á þessu gæti orðið nokkur breyting, og það er mjög æskilegt einmitt, að það væri hægt að auka skipasmiðarnar innanlands og færa atvinnuna, sem við það mundi skapast, inn í landið.

Í áliti stjórnar Fiskveiðasjóðs Íslands eða í svari stjórnarinnar til sjútvn. segir, að sjóðsstjórninni sé kunnugt um, að eigendur dráttarbrauta og skipasmíðastöðva telji ógerlegt að hafa jafnan nægan mannafla tiltækan til nauðsynlegra viðgerða á fiskiskipaflotanum, nema unnt sé að hafa jafnframt með höndum smíði skipa, þannig að vinna geti verið stöðug árið um kring, en til þess hefur þær skort fjármagn. Eins og fram kom í grg. fyrir frv., var ráðin nokkur bót á í sambandi við þetta við afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár, þar sem ríkisstj. er heimilað að ábyrgjast allt að 10 millj. kr. fyrir skipasmíðastöðvarnar. Eftir að sjútvn. hafði haft málið til athugunar, gerði hún nokkra orðalagsbreytingu á frv., sem hljóðaði þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Þó má veita eigendum innlendra skipasmíðastöðva bráðabirgðalán til smíði fiskiskipa, meðan á smíði stendur, gegn ríkisábyrgð.“

Áður var það þannig í lögunum, að það var einungis heimilt að veita lán út á 1. veðrétt skipanna.

Svo kom við þessa umr.brtt. frá hæstv. fjmrh„ sem var á þá leið, að í staðinn fyrir „gegn ríkisábyrgð“ komi: gegn þeim tryggingum, er stjórn sjóðsins metur gildar.

N. hefur haft þessa brtt. til athugunar og rætt hana á tveimur fundum sínum. Einstakir nm. hafa haft samband bæði við framkvæmdastjóri a fiskveiðasjóðs og einstaka menn úr stjórninni og rætt málið, og ég legg til eftir þær viðræður, sem ég hef átt m. a, við þessa aðila, að þessi brtt. á þskj. 489 verði samþ. Ég tel, að með þessu verði náð þeim tilgangi, sem ætlazt var til með flutningi þessa frv. Það er fyrst og fremst að tryggja samfelldari atvinnu skipasmiðanna, um leið og stefnt er að því að færa skipasmíðarnar sjálfar meira inn í landið en hefur verið nú um nokkurt árabil.