03.12.1959
Neðri deild: 9. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Eysteinn Jónsson:

Ég vil leyfa mér að mótmæla þessum aðförum hæstv. forseta, sem eru með öllu óvenjulegar, en að vísu ekki óvenjulegri en margt af því, sem hæstv. forsetar láta nú ríkisstj. hafa sig til að gera á Alþingi, ég segi: hafa sig til að gera á Alþingi. Það hefði verið skylda hæstv. forseta, eins og hefur verið margsinnis drepið á í þeim umræðum, sem verið hafa hér undanfarna daga, að gæta sóma og virðingar Alþingis gagnvart ríkisstj., en ekki láta hana hafa sig til þess að fremja hvers konar óhæfuverk í garð Alþingis. En það hafa þeir óneitanlega gert með því eftir fyrirskipunum hæstv. ríkisstj. að taka hér á dagskrá, þegar henni hefur sýnzt, á alveg óvenjulegum tímum sólarhringsins öll þau mál, sem ríkisstj. hefur fyrirskipað forsetunum að taka fyrir. Í stað þess að þeir hefðu átt að leggja vinnu í að fá ríkisstj. til þess að haga þannig störfum Alþingis, að það gæti notið sín, þá virðast þeir hafa farið eftir fyrirskipunum hennar í hvívetna. Og nú á að bæta þessu við, sem er með öllu óvenjulegt í sögu þingsins, áreiðanlega algerlega fordæmalaust, að á fyrstu dögum þingsins hafi verið gripið til þess ráðs að skera niður umræður. Hér hafa umræður alls ekki farið neitt fram úr hófi, og hér eru brotin þingsköpin gersamlega. Hér hefur það eitt verið gert, að nokkrir þm. hafa notað málfrelsi sitt til þess að mótmæla frestun Alþingis og allri þeirri óhæfuáætlun, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt í því sambandi.

Það virðist ekki vera nóg, að hæstv. ríkisstjórn ætlar að nota þingmeirihluta sinn til þess að reka þingið heim, heldur á, áður en þingið er rekið heim, að brjóta allar venjulegar velsæmisreglur á þingmönnum, en ég fullyrði, að ef nú verður staðið víð það að fara að skera niður umræður, þá er það gert. Ég mótmæli því algerlega í nafni Alþingis, að þannig sé farið að. Og mér finnst það bókstaflega ósæmilegt af hinum unga varaforseta þessarar deildar að láta nota sig til þess að gera slíkt sem þetta.