30.05.1960
Neðri deild: 91. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3157 í B-deild Alþingistíðinda. (1486)

151. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft til athugunar frv. á þskj. 510, sem komið er til þessarar d. frá hv. Ed. N. hefur kynnt sér þær breytingar, sem urðu á frv. í meðförum Ed., og hún hefur einnig yfirfarið umsögn stjórnar Fiskveiðasjóðs Íslands um frv., og niðurstaðan hefur orðið sú, að n. mælir með samþykkt frv., eins og fram kemur í nál.

M.a. segir um þetta mál í bréfi stjórnar fiskveiðasjóðs:

„Sjóðsstjórninni er kunnugt um, að eigendur dráttarbrauta og skipasmíðastöðva telja ógerlegt að hafa jafnan nægan mannafla tiltækan til nauðsynlegra viðgerða á fiskiskipaflotanum, nema unnt sé að hafa jafnframt með höndum smíði skipa, þannig að vinna geti verið stöðug árið um kring, en til þess hefur þær skort fjármagn. Nokkur bót hefur verið ráðin á þessu með ábyrgðarheimild ríkissjóðs fyrir rekstrarlánum til skipasmíðastöðvanna. Þó mun hafa verið erfiðleikum bundið að útvega bráðabirgðalán til smíðanna, auk þess sem slík lán fást ekki nema gegn venjulegum forvöxtum víxla, sem eru allmiklu hærri en vextir fiskveiðasjóðs, og kemur það auðvitað fram í hærra verði skipanna. Af framangreindum ástæðum getur sjóðsstjórnin mælt með hugmynd þeirri, sem í framangreindu frv. felst, en leyfir sér að benda á, hvort ekki væri réttara að orða málslið greinarinnar þannig:

Veita má eigendum innlendra skipasmíðastöðva bráðabirgðalán til smíði fiskiskipa, meðan á smíði stendur, gegn ríkisábyrgð.“

Þessi ábending sjóðsstjórnarinnar hefur verið tekin til greina í hv. Ed., þó þannig, að í stað orðanna „gegn ríkisábyrgð“ stendur í frv., eins og hv. dm. sjálfsagt taka eftir: gegn þeim tryggingum, er stjórn sjóðsins metur gildar. — En sú breyting mun hafa verið gerð að till. hæstv. fjmrh.

Eins og kemur fram í nál., hafa tveir nm. þann fyrirvara á meðmælum sínum með samþykkt frv., að þeir telja, að það muni þurfa að útvega fiskveiðasjóði aukið fjármagn til þess að veita þau lán, sem um ræðir í frv.