26.04.1960
Neðri deild: 71. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3159 í B-deild Alþingistíðinda. (1498)

118. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta litla frv., sem ég flyt hér á þskj. 280, fer fram á þá breyt. á l. um landnám, ræktun og byggingar í sveitum frá 1957, að nýbýlastjórn ríkisins sé heimilað að borga fátækum bændum, sem eru að byggja íbúðarhús, byggingarstyrk á sama veg og nýbýlamenn fá.

Þegar þessi lög voru til meðferðar á Alþ. 1957, benti ég á það og lagði á það áherzlu, að það væri ekkert samræmi í þeirri aðstoð, sem bændur fengju til ræktunar og bygginga. Eins og verið hefur að undanförnu, hefur verið svo mikill styrkur og lán út á ræktun, að það hefur verið hægt að koma áfram ræktuninni, þar sem verkfæri hafa fengizt til. En það, sem mestum örðugleikum veldur fyrir bændastéttina á síðari árum, er að koma upp nauðsynlegum byggingum, íbúðarhúsum og fénaðarhúsum. Og sannleikurinn er sá, að þetta hefur stórkostlega versnað á þeim árum, síðan lögin voru sett 1957, versnað í mjög stórum stíl við ráðstafanirnar, sem gerðar voru í maí 1958, og svo einnig við þær ráðstafanir, sem gerðar voru nú með gengislækkuninni í febrúar s.l. Hér er þess vegna um mjög mikið nauðsynjamál að ræða og í sjálfu sér fram á lítið farið, að okkur í nýbýlastjórn sé heimilað að borga fátækum bændum þennan byggingarstyrk.

Eins og fram er tekið í grg., hafa hæstu lán, sem veitt hafa verið út á íbúðarhús, verið 75 þús. kr. Þegar l. voru sett árið 1946, var gert ráð fyrir því, að heimilt væri að veita lán úr byggingarsjóði upp í allt að 75% byggingarkostnaðar. Þetta hefur aldrei orðið, og hlutfallið á milli byggingarkostnaðar og lánsfjárhæðar hefur alltaf farið versnandi fyrir þá, sem framkvæmdirnar hafa annazt, og nú á síðustu árum og sérstaklega nú er svo komið, eins og ég bendi á í grg. frv., að lánið er ekki nema 25% og hefur kannske verið hæst upp í 40% af byggingarkostnaði. Meira að segja hefur gengið svo langt í mörgum tilfellum síðan byggingarlánasjóður ríkisins tók til starfa, að það hafa verið veitt hærri lán til byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum en sveitum.

Nú fer ég ekki fram á það með þessu frv., að það sé nein sérstök fjárveiting lögð fram í þessu skyni, og það er af því, að eins og sakir standa er til fé til að sinna þessu verkefni, sem frv. fer fram á. En hins vegar mætti gera ráð fyrir því, ef jafnt halda áfram ræktun og byggingar í sveitum landsins og verið hefur, að nýbýlastjórn þyrfti að biðja um fjárveitingu samkv. 41. gr. l. einu ári lengur en upphaflega var gert ráð fyrir, ef þetta frv. verður samþ., sem ég vona fastlega að hv. alþm. séu mér sammála um, að nauðsyn beri til.

Ég skal ekki fara um þetta fleiri orðum, ef ekkert tilefni gefst til, en legg til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. landbn.