26.04.1960
Neðri deild: 71. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3160 í B-deild Alþingistíðinda. (1499)

118. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja örfá orð um þetta mál, áður en það fer til nefndar, og beina þeim aðallega til landbn. hv. deildar, sem mun fá málið til meðferðar.

Hér er gert ráð fyrir, að nýbýlastjórn verði heimilað að veita bændum styrk út á íbúðarhúsbyggingar af fé, sem samkv. þeirri gr. l., sem um það fjallar, er ætlað til annarra hluta. Ég bendi á það, að að því mun koma, að bæta þarf við fjárveitingu til þeirra hluta, sem þar er um að ræða, ef farið er inn á þessa braut. Ég er ekki að mæla á móti þessu, en ég vil bara, að það komi fram núna, að hér er um að ræða að taka af fé, sem ætlað er til þess að koma þeim jörðum landsins, öllum þeim jörðum í sveitum, sem voru sérstaklega á eftir hvað framkvæmdir snertir og lífsskilyrði, á sæmilega viðunandi stig. Þetta vildi ég undirstrika.

Annað, sem ég vildi líka benda á, er það, að ef þetta verður samþ., þyrfti að skapa öruggari og betri reglu um það, eftir hverju nýbýlastjórn á að fara við að úthluta samkv. þessum ákvæðum fé.

Það orðast svo í gr.: „Nýbýlastjórn er heimilt að veita þeim bændum, er hafa örðugan fjárhag, styrk til íbúðarbyggingar á sama hátt og nýbýlastofnendum.“ Það er þetta orðalag: „bændum, er hafa örðugan fjárhag.“ Það er lagt á herðar nýbýlastjórnar að meta það eingöngu sjálf, hverjir eiga að koma undir þetta ákvæði og hverjir ekki. Þetta er ærið mikill vandi, og ég vildi beina því til hv. landbn., sem fær þetta mál til meðferðar, að hún taki til athugunar, hvort ekki er hægt að skapa fastari, ákveðnari ramma að fara eftir en aðeins þetta. Mér þykir þetta of óákveðið orðalag fyrir nýbýlastjórn að fara eftir, því að það verður vandi fyrir hana að meta það, ef ekki er öðruvísi ákveðið en svona.