13.05.1960
Neðri deild: 81. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3164 í B-deild Alþingistíðinda. (1506)

118. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil með fáeinum orðum gera grein fyrir brtt., sem ég flyt við þetta frv. á þskj. 439.

Í lögunum frá 1957, um landnám, ræktun og byggingar í sveitum, er ákvæði í 26. gr. þeirra um framlag til íbúðarhúsabygginga á nýbýlum. Segir þar, að heimilt sé að veita allt að 25 þús. kr. framlag til hvers býlis til íbúðarhúsabyggingar og greiðist þetta að hálfu, þegar hús er fokhelt, og að fullu, þegar byggingu þess er lokið. Síðan þetta var í lög tekið, hefur orðið mjög mikil hækkun á byggingarkostnaði í landinu. Það varð hækkun á byggingarkostnaði þegar á næsta ári, eftir að lögin voru sett, en þó sérstaklega nú á þessu ári mjög mikil hækkun á byggingarkostnaði vegna áhrifa þeirrar efnahagslöggjafar, sem sett var í næstliðnum febrúarmánuði. Það er því fyllilega tímabært og áreiðanlega mikil þörf að hækka þetta framlag. Ég hef því gert till. um á þessu þskj., sem ég nefndi, að framlagið verði hækkað úr 25 þús. kr. í 40 þús. kr. handa hverju býli. Vitanlega er þetta ekki nema örlítið brot af þeirri kostnaðarhækkun, sem orðið hefur, en þetta er þó nokkuð til stuðnings þeim mönnum, sem eru að byggja og þurfa að byggja íbúðarhús á nýbýlum, þó að ekki sé lengra gengið í því að hækka þetta framlag.

Frv., sem fyrir liggur, er um það, að nýbýlastjórn verði veitt heimild til að veita fleiri bændum en þeim, sem stofna nýbýli, slíkan styrk til íbúðarhúsabygginga. Það er vissulega full þörf á slíku, eins og nú er komið, og verði brtt. mín samþ., fyrri brtt. á þskj. 439, verða það bæði nýbýlamennirnir og einnig bændur á öðrum jörðum, sem þurfa að byggja íbúðarhús, sem eiga að geta notið þessarar hækkunar, sem ég flyt till. um.

Í frvgr. segir, að styrkurinn skuli greiddur af því fé, sem fram er lagt skv. 41. gr. laganna. Í þeirri grein segir, að til framkvæmda, er um getur í 38. gr., skuli ríkissjóður greiða 4 millj. árið 1957 og síðan 5 millj. kr. á ári næstu 4 árin. Nú mun það liggja fyrir, að nokkru sé óráðstafað af þessu fjárframlagi, og leggur flm. frv. til, að það fé sé notað til þeirra styrkveitinga, sem frv. gerir ráð fyrir.

En þær framkvæmdir, sem ákveðið er í 38. gr. laganna að styrkja og þetta framlag eftir 41. gr. á að fara til, eru ræktunarumbætur á jörðum, sem hafa lítið ræktað land, og er þetta styrkt til þess, að unnt sé að bæta jarðirnar, svo að þær megi teljast sæmileg býli og nokkuð öruggt sé, að þær fari ekki í eyði.

Landnámsstjóri hefur fengið þetta frv. til umsagnar, og í umsögn hans kemur fram, að á yfirstandandi ári mundi verða mögulegt að leggja fram fé til þessarar styrkveitingar, sem frv. gerir ráð fyrir, en síðar yrði að taka upp viðaukaframlag vegna þessara nýju styrkveitinga og vegna framkvæmdanna samkv. 38. gr. laganna. Nú er ekki auðvelt að sjá það fyrir fram eða gera um það áætlun, hvað miklu fé mundi þurfa að verja í þessu skyni, en um það mætti að sjálfsögðu gera áætlanir, og mætti þá á fjárlögum næsta árs taka upp fjárveitingu í þessu skyni, t.d. með því að setja í lög, að auka skyldi framlagið skv. 41. gr. laganna.

En síðari brtt. mín á þskj. 439 er um það, að ríkissjóður skuli endurgreiða það fé, sem fer til þessara styrkveitinga, jafnskjótt sem fjárins er þörf til þeirra framkvæmda, er um getur í 38. gr. laganna. Ég geri ekki ráð fyrir, að þarna yrði um mikil fjárútlát að ræða á yfirstandandi ári, þar sem, eins og áður segir, nokkurt fé er fyrirliggjandi, sem má nota í þessar styrkveitingar í bili, en að sjálfsögðu þyrfti viðbótarframlag á fjárlögum næsta árs. Hitt tel ég þýðingarmikið, að ákvörðun verði tekin nú þegar um þessa hækkun á styrknum til bygginganna vegna þeirra miklu erfiðleika, sem nú eru hjá bændum bæði á nýbýlum og öðrum jörðum við að koma upp íbúðarhúsum, vegna þeirrar miklu hækkunar á byggingarkostnaði, sem þegar er fram komin. Ég vænti þess því, að hv. þdm. geti fallizt á þessar brtt. mínar á þskj. 439.