13.05.1960
Neðri deild: 81. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3167 í B-deild Alþingistíðinda. (1508)

118. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við þetta frv. á þskj. 280, sem fer fram á heimild til handa nýbýlastjórn ríkisins að veita þeim bændum, er örðugan fjárhag hafa, styrk til íbúðarhúsabygginga á sama veg og nýbýlastofnendum. Ég verð að lýsa því yfir, að ég er samþykkur þessu frv., og ég tel, að það hafi mikla þýðingu og geti haft mikið gildi, enda þótt ekki sé nú, um leið og frv. er samþ., samþykkt fjárveiting á þessu ári, eftir að afgreiðslu fjárlaga er lokið.

Ég geri ráð fyrir því, að hv. síðasti ræðumaður (KGuðj) hafi lesið fskj., sem er prentað á þskj. 407. Það er álitsgerð frá landnámsstjóra ríkisins. Þar segir hann, að það sé hægt að fullnægja báðum verkefnunum á þessu ári, þ.e. styrkveitingum til jarðræktar á þeim jörðum, sem hafa ekki þegar 10 ha ræktaðs lands, og einnig fullnægja frv. að því leyti að hækka styrk til íbúðarhúsabygginga á sömu jörðum. En hann bætir við: „Þá yrði síðar að taka upp viðaukaframlag, ef ákvæði frv. eiga að koma að fullu gagni,“ — þ.e. síðar. „Það skal að síðustu fram tekið, að ég tel það þýðingarmikið atriði, að vel sé verið á verði um að fyrirbyggja, að jarðir fari í eyði, sem komnar eru langt áleiðis og gerðar vel búrekstrarhæfar að ræktun og peningshúsum, en hafa ekki íbúðarhæfan húsakost, og með tilvísun til framanritaðs mæli ég með samþykkt frv.“ Hið sama vil ég gera. Ég vil taka undir þessi orð landnámsstjóra. Ég tel, að það sé rétt athugað hjá honum, að frv. sé mikils virði, hafi mikið gildi að vera samþykkt nú, enda þótt ekki sé í leiðinni samþykkt fjárframlag úr ríkissjóði, eftir að fjárlög hafa verið afgreidd. Og ég vil benda á, að það eru iðulega afgreidd lög frá Alþ., sem hafa fjárframlög í för með sér, þegar þau koma til framkvæmda, en slík lög koma ekki til framkvæmda fyrr en á næsta ári, eftir að næstu fjárlög hafa verið afgreidd.

Ef ekki vildi svo vel til nú, eins og landnámsstjóri segir, að það sé fyrir hendi fé til þess að láta þessi lög koma til framkvæmda strax á þessu ári, mundu þau ekki geta komið til framkvæmda fyrr en á árinu 1961. Ég segi þess vegna: Það er ekki eðlileg meðferð málsins að samþykkja till. á þskj. 350, sem fer fram á beina fjárveitingu að þessu sinni, það er ekki eðlileg meðferð. Það er hins vegar eðlileg afgreiðsla, eftir að þetta frv. hefur orðið að lögum, að ætla fé á næstu fjárlögum, til þess að þessi lög verði ekki framkvæmd aðeins á þessu ári, heldur einnig framvegis.

Till. á þskj. 439 tel ég einnig óþarft að samþykkja, vegna þess að mér finnst ekki eðlilegt að ákveða í lögum hámarkið hvað styrkveitinguna snertir. Mér finnst miklu eðlilegra, að þetta sé í höndum nýbýlastjórnar hverju sinni og hún hagi framkvæmdinni eftir því, sem efni og nauðsyn stendur til. Ég tel ekki eðlilegt að binda hámarkið endilega við 40 þús., ef svo skyldi vera, að það væri unnt að láta 50 þús. og það væri að áliti nýbýlastjórnar ríkisins mikil þörf á því. Þess vegna tel ég eðlilegt, að þetta sé í höndum nýbýlastjórnar, heimildarákvæði, og ekki ástæða til að samþ. till. á þskj. 439.

Ég tel einnig óeðlilegt að samþykkja till. á þskj. 350, eftir að fjárlög hafa verið afgreidd, hins vegar eðlilegt og nauðsynlegt, ef frv. verður samþ. og það á að koma til framkvæmda, eftir að þessu ári er lokið, að þá verði ætlað fé á næstu fjárlögum í þessu skyni í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna.

Þess vegna tel ég eins og landnámsstjóri, að það sé gott mál, sem hér er um að ræða, og frv. vissulega þess virði að vera samþ., enda þótt því fylgi ekki fjárveiting. Og það er sjaldgæft, að í leiðinni sé samþykkt fjárveiting með frv., sem verið er að afgreiða og ekki geta komið til framkvæmda fyrr en eftir fjárlagaafgreiðslu, ef þau hafa fjárútlát í för með sér. Það er aðeins í þetta sinn, sem frv. getur komið til framkvæmda eða þessi lög geta komið til framkvæmda, vegna þess að það er fé fyrir hendi á þessu ári að dómi landnámsstjóra og nýbýlastjórnar.