13.05.1960
Neðri deild: 81. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3175 í B-deild Alþingistíðinda. (1513)

118. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð viðvíkjandi þessu frv., sem hér liggur fyrir. Það er búið að ræða þetta allýtarlega. Okkur mun öllum vera ljóst, að það er mikil þörf á því að styrkja þá menn, sem hafa verið að byggja og eru að byggja. Hjá þeim, sem eru hálfnaðir með húsin, eykst allmikið kostnaðurinn vegna hækkandi vöruverðs, og enn fremur það, sem kannske er hvað erfiðast fyrir þessa menn, en það er hækkun á vöxtum. Ég er stjórnarflokkunum að því leyti þakklátur, að ég lít svo á, að þetta frv. eigi að sýna það, að þeir vilja í raun og veru bæta fyrir nokkuð af því, sem þeir hafa brotíð eða ríkisvaldið hefur brotið af sér gagnvart þessum mönnum.

Ég held því ekki fram, að það eigi að hjálpa mönnum óendanlega mikið. Það er farsælast og bezt, að mennirnir reyni að hjálpa sér sjálfir. Satt að segja vorkenni ég engum, þó að hann kostaði að mestu eða öllu ræktun á túni sinu. En þegar þarf að byggja íbúðarhús, er það svo mikið átak fyrir fátæka bændur, að þeir geta það ekki öðruvísi en að fá hagkvæm lán eða þá það sé greitt fyrir þeim á einhvern annan hátt. Mér er því mjög mikið áhugamál, að þetta frv. nái fram að ganga, og við megum ekki láta aukaatriðin ráða úrslitum viðvíkjandi því. Vitanlega er betra fyrir mennina að fá 40 þús. kr. styrk en 25 þús. kr., en það er miklu betra að fá 25 þús. kr. en ekki neitt. Þess vegna verðum við að gera okkur ljóst, að aðalatriðið er að hjálpa þeim svo mikið, að þeir missi ekki kjarkinn. Aðalatriðið í lífsbaráttunni er, að sá, sem þarf að leysa verkefnin af hendi, trúi því sjálfur, að það sé framkvæmanlegt, og það eitt getur ráðið úrslitum hjá þessum mönnum, sem eru að basla við að koma upp íbúðarhúsunum, að þeir fái þótt ekki sé nema 25 þús. kr. Flestir þessir menn eru í miklum verzlunarskuldum og hafa mjög örðugan fjárhag. Þetta eru yfirleitt, eins og hv. 2. þm. Norðurl. v. (JPálm) tók fram, efnaminni mennirnir, en bara það, að þeir fái þessa hjálp og fái hana strax, það getur ráðið úrslitum, að þeir yfirgefi ekki sínar jarðir og missi ekki kjarkinn. Ég þekki þó nokkur dæmi um þetta.

Hins vegar geri ég ekki ráð fyrir, að þarna verði um mikil fjárútlát fyrir ríkissjóð að ræða, vegna þess að ég álít, að það muni afar lítið vera gert að því að byggja íbúðarhús á árinu 1960 og jafnvel líka 1961, — það er ekki gott að segja um það, — en ég hygg, að byggingar í sveitum landsins stöðvist svo að segja algerlega í ár, þannig að þessi hjálp kæmi aðallega þeim til góða, sem eru að byggja. Hins vegar nær það engri átt, að ekki sé sett einhver reglugerð um þetta, og það þarf að framkvæma þetta á hlutlausan og skynsamlegan hátt. Vitanlega ætti það ekki að þurfa að vera mjög ýtarlegt, en einhver fyrirmæli þarf nýbýlastjórn að hafa. Ég efast ekki um það, ef þetta frv. er samþykkt, að þá muni ríkisstj. sjá um, að þetta verði hægt vegna fjárhagsástæðna, þannig að þótt landnámssjóður leggi þetta fram í bili, verði það endurgreitt eða séð einhvern veginn fyrir fé.

Við megum ekki láta aukaatriðin ráða. Aðalatriðið er, að þessir menn fái hjálp og fái hana sem fyrst. Svo er endalaust hægt að deila um það, hversu hyggilega þessu fé er varið, sem hefur verið varið og verið er að verja til nýbýla. Það er þannig í Húnavatnssýslu, að það hefur verið varið töluverðu fé til nýbýla, en ekkert fjölgar bændunum. Það fást engir til þess að taka þessi nýbýli. Og ég álít, að það þurfi að athuga það rækilega, hvort þessu fé er á allan hátt skynsamlega varið og hvort ekki er hægt að verja því á einhvern annan hagkvæmari hátt, m.a. að hindra það, að býli fari í eyði, að menn yfirgefi ágæt býli með sæmilega ræktuðum túnum, annaðhvort fyrir það, að það eru slæmar samgöngur, þeir fái ekki nægilega hjálp til að geta byggt íbúðarhús, eða eitthvað annað. Þetta álít ég að sé atriði, sem þurfi að athuga.

Það er nú orðið áliðið þingsins, og ef þessum mönnum á að berast einhver hjálp á þessu ári viðvíkjandi þeim húsum, sem þeir eru að reisa, megum við ekki láta aukaatriði ráða úrslitum. Aðalatriðið er, að þessir menn fái hjálpina og hana sem fyrst, áður en það er of seint.