13.05.1960
Neðri deild: 81. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3177 í B-deild Alþingistíðinda. (1514)

118. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Frsm. meiri hl. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Það leyndi sér nú ekki, eins og í rauninni eðlilegt er, að hv. síðasti ræðumaður, 5. þm. Norðurl. v. (BP), hefur meiri þekkingu á landbúnaðarmálum en sá, sem talaði næst á undan honum, hv. 3. þm. Norðurl. e. (GíslG). Hann flutti hér ræðu um ýmsa hluti í sambandi við landbúnaðarmál, og mér fannst ræða hans hníga öll að þeirri viðleitni að reyna að koma í veg fyrir það, að þetta frv. yrði samþykkt, og fór þar út í margvíslega hluti.

Hv. þm. vék að því, hvernig á því stæði, að byggingarlánin hefðu ekki verið greidd fyrr en núna alveg nýlega út á íbúðarhúsabyggingar 1959. Þetta ætti þessi hv. þm. að vita, því að það var fyrir fjárskort í byggingarsjóði og vegna þess, hvernig við hann var skilið, þegar sú stjórn, sem hann studdi, fór frá, og ekki hafði tekizt að útvega honum fyrr fé.

Þá vék hann einnig að því, hvernig á því stæði, að það hefðu ekki verið hækkuð lánin úr 75 þús. Ég skal nú taka það fram, að ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að þessi byggingarlán mættu ekki vera minni en 100 þús. kr., og hef oft hreyft því í bankaráði Búnaðarbankans. En það hefur ekki fengizt samþykkt. Og það var á þeim árum, þegar sá sjóður hafði betri fjárhagsástæður en hann hefur nú, sem flokksmenn þessa hv. þm. í bankaráði felldu það að hækka lánin nokkurn hlut. Nú er náttúrlega satt, og við vitum það allir, að þörfin er enn þá meiri en hún hefur nokkru sinni áður verið, og þess vegna er það, að þetta litla frv., sem hér er flutt, er ekki flutt út í bláinn. Það er flutt af ríkri nauðsyn, og það er flutt vegna þess, að bæði ég sem formaður nýbýlastjórnar og framkvæmdastjóri okkar, landnámsstjóri við höfum alltaf meiri og minni ásóknir af fátækum bændum utan af landsbyggðinni, sem eru í hreinustu fjárhagskröggum, vegna þess að þeir eigi í stríði með það að koma sínum byggingum áfram. Þess vegna er það ekki að neinu leyti út í bláinn, að þetta frv. er flutt, og ég hefði sennilega, hefði ég verið á þingi, þegar fjárlög voru til afgreiðslu, flutt till. um að heimila hærri fjárveitingu til nýbýlastjórnar en ákveðið er.

Þá eru það lögin, sem þessi hv. þm. vék að, og hann vék einnig að því, að honum virtist einhvers staðar vera til þau sjónarmið, að það ætti að fækka bændunum og rýra hag sveitanna. Það getur vel verið, að þau sjónarmið séu til hjá einhverjum mönnum, sem hafa ekki neina minnstu þekkingu á landbúnaðarmálum, og maður hefur heyrt það stundum í útvarpi, að það séu til slíkir menn. En ég geri mér vonir um, að það sé ekki einn einasti slíkur maður innan veggja þingsins, ég hef að minnsta kosti ekki orðið þess var, svo að það er alveg óþarfi bæði fyrir þennan hv. þm. og aðra að vera með nokkrar getsakir til alþm. í því efni. Ég get að vísu verið þakklátur þessum hv. þm. fyrir það, að hann tók mig undan í þessu efni, og var það í sjálfu sér ekki mikið, meðan ég er formaður nýbýlastjórnar og skipaður þar af formanni Framsfl. En varðandi meðferðina á lögunum 1957, þá var það eins og þessi hv. þm. vék að, að ég var í þeirri mþn., sem undirbjó þessi lög. Og eitt aðalatriðið í þeim, sem þó er ekki að öllu leyti eins frá gengið og ég vildi vera láta, er að gera meira til þess en áður hafði verið að koma í veg fyrir, að jarðir færu í eyði. Þetta hefur verið gert aðallega með því að auka ræktun, þar sem hún er skemmst á veg komin. En það nægir ekki til, og það getur verið þýðingarlítið að fara að rækta í stórum stíl á jörðum, sem ekki er hægt að byggja upp viðunandi húsakost á. Nú er það svo, að það var ætlun okkar, sem sömdum þessi lög, að ganga meira út á það svið en áður hafði verið að tryggja, að jarðirnar, sem í byggð voru, héldust það áfram. En það hefur alltaf meira og meira snúizt á þá sveif, að það er af sumum mönnum talið eins og það sé fullnægjandi að sjá um, að það sé ræktað á jörðunum, án þess að hugsa nokkuð um samgöngur eða húsakost. Við vitum allir, að það er þó nokkuð víða á landinu enn, líklega í öllum héruðum landsins, að það eru jarðir, sem hafa ekki bílfæran veg heim til sín, og það er það hættulegasta. Þess vegna er það mjög illt, að það hefur verið svo í mörg ár, að ekki hefur fengizt nein hækkun á framlögum til vegaframkvæmda eða nýbygginga á vegum, þó að allaf hafi hækkað kostnaðurinn við það. Hitt eru svo húsin, það er ekkert um það að villast.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. vildi slá því alveg föstu, að það væri verið að fara eitthvað út fyrir lögin eða væri rangt, að það ætti að taka nokkra upphæð í þessa byggingarstyrki, sem ég fer fram á, af því fé, þeim 24 millj., sem ætlað er nýbýlastjórn til að koma í veg fyrir, að jarðir fari í eyði. Í 31. gr. þessara laga segir svo: „Skylt er nýbýlastjórn að sporna við því eftir föngum, að jarðir (sérmetnar) fari í eyði, sem að dómi trúnaðarmanna nýbýlastjórnar og jarðræktarráðunautar Búnaðarfélags Íslands eru vel fallnar til jarðræktar og búrekstrar.“ Þetta er fyrsta setningin í þeim kafla, og fyrirsögnin á kaflanum er: „Um endurbyggingu eyðijarða, eftirlit með ábúð á jörðum og sérframlög til jarða, þar sem ræktun er skemmst á veg komið.“

Nú fengum við í landbn. umsögn frá landnámsstjóra um þetta frv., og þar segir m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Það skal tekið fram, að verði frv. samþykkt, mundi það auðvelda nýbýlastjórn ríkisins að vinna gegn því, að jarðir fari í eyði“.

Það er líka aðaltilgangurinn með þessu, og þó að það fáist ekki í gegn á þessu þingi að taka upp fjárveitingu til þessa verkefnis, þykir mér það mjög undarlegt, ef mönnum finnst þeir vilji setja það sem skilyrði fyrir samþykkt þessa frv., sem til er fé í, að það sé um leið samþykkt hér ný fjárveiting til þessara framkvæmda.