02.06.1960
Efri deild: 92. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3184 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

118. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Frsm. minni hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, er þetta frv. komið frá Nd. og flutt af formanni nýbýlastjórnar, hv. alþm. Jóni Pálmasyni, og sýnir það, þetta litla frv., mætavel, hversu glöggan skilning þessi maður hefur á högum landbúnaðarins og hvert stefnir, eins og nú horfir í málefnum bændastéttarinnar almennt.

Upphaflegu lögin um byggingar- og landnámssjóð gerðu svo ráð fyrir, að veitt skyldu lán til að byggja íbúðarhús í sveitum, en að nokkru leyti skyldi veittur styrkur eða sérstakt framlag til íbúðarhúsabygginganna. Þessi lagaheimild gilti allt til 1946, að Sjálfstfl. felldi þessi lög úr gildi, og þá var eina leiðréttingin og einu hagkvæmu kjörin, sem bændunum átti að veita, hagkvæm lán til íbúðarhúsa, en ekki styrkir. Nú hefur það fallið í hlut Sjálfstfl. að kúvenda í þessum efnum. Hann hefur hækkað þessa vexti, sem áttu ekki að vera hærri en það, að þeir áttu að gera bændum kleift að byggja án styrkja. Það hefur líka fallið í hlut þess sama stjórnmálaflokks nú að fara fram á það, að veitt skyldu nú óafturkræf framlög til íbúðarhúsabygginga, eins og þetta litla frv. ber með sér. Þetta sýnir bezt, hversu framsýnir á sínum tíma framsóknarmenn hafa verið, þegar þeir beittu sér fyrir lögunum um byggingar- og landnámssjóð, að þegar Sjálfstfl. er að innleiða kreppu yfir landbúnaðinn í landinu, er eina björgin sú að hverfa aftur að því fyrirkomulagi, sem hann hafði fordæmt áður. En sjálfstæðismenn vilja þó ekki ganga hreint til verks í þessum efnum, þar sem þeir ætlast til samkv. frv. þessu, að tekið sé það fjármagn, sem til annarra hluta skal varið, þ.e.a.s. til að bæta og létta undir með þeim bændum í landinu, sem skemmst eru á veg komnir með ræktun, því að þótt sú ræktun hafi ekki algerlega gengið samkvæmt áætlun, verður maður að vona, að ekki verði það mikill afturkippur í landbúnaðinum á næstu árum, að landbúnaðurinn þurfi aldrei á því fjármagni að halda. Þess vegna er það, að við höfum flutt hér brtt., hv. 5. þm. Austf. (PÞ) og ég, að upp skuli tekin sérstök fjárveiting í þessu skyni til þess að tryggja það, að þeir, sem byggja íbúðarhús í sveitum eftirleiðis, geti gengið að því sem vísum hlut, að þarna verði fjármagn til staðar, þegar þeir hefjast handa um byggingar.

Í öðru lagi höfum við líka lagt til, að þessar 25 þús. kr., sem eru nú í frv., eins og það var lagt fyrir þingið, verði hækkaðar upp í 40 þús. kr. og hygg ég, að það sé ekki nema rétt til að mæta þeim brýnustu og þeim mestu og verstu hækkunum, sem orðið hafa á byggingarkostnaði nú á þessum vetri. Það var lengi vel talið, að vinnuaflið væri meira og dýrara og meiri hluti í íbúðarhúsakostnaði en efni, en nú hefur þetta gerbreytzt við þær efnahagsaðgerðir, sem samþykktar hafa verið á Alþ. í vetur, þannig að miklar líkur eru til þess, nú á meðan kaupgjald helzt óbreytt, að þá verði efniviður í húsin mun meiri en vinnuaflið. Þar sem margir bændur hafa haft þá aðstöðu að geta unnið meira og minna í vinnuskiptum og unnið sjálfir að íbúðarhúsabyggingum sínum, kemur þetta þeim mun verr við þá en aðrar stéttir í landinu, og mun því, þegar fyrra dæmið út af fyrir sig er reiknað, hækkun á byggingarkostnaði koma miklu verr við þá en aðra aðila í landinu, svo að það mun ekki vera of í lagt, þó að sú upphæð, sem til þeirra verður greidd, sem verst eru á vegi staddir í þessum efnum, sé ákveðin eigi minni en 40 þús., eins og við gerum hér ráð fyrir.

Ég vænti nú þess, þegar líður að þinglokum og eins og búið er að búa að atvinnumálum þjóðarinnar og ekki sízt landbúnaðinum, að þeir, sem með völdin fara, sjái sóma sinn í því að samþ. brtt. mínar og hv. 5. þm. Austf. Og ég veit sannarlega ekki, hvernig bændur væru staddir nú, ef hv. alþm. Jón Pálmason sæti ekki á þingi, því að þar hafa aðrir flokksbræður hans hvorki hálfa heyrn né sjón á við hann.