12.05.1960
Neðri deild: 80. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3208 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

153. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég var fyrr í vetur búinn að gera mér þá skoðun fyllilega ljósa, að Húnvetningar hefðu átt því láni að fagna að senda bæði vitmenn mikla og reynslumenn á Alþingi, þannig að óþarft var fyrir hv. 2. þm. Norðurl. v. (JPálm) að árétta það frekar. En ég satt að segja efast stórlega um, að sú fullyrðing hans fái staðizt eftir — ja, mig langar til að segja þá sýndarmennsku, sem hann sýndi hér í ræðustól áðan. Ég held satt að segja, að sú sýning hefði betur verið ósýnd. Þegar talað er um, að menn öðlist bæði vit og reynslu á veiðarfærum og fiskveiðiaðferðum með því að sitja í 20 ár á sigggrónum rassi í sölum Alþ., þá álít ég, að menn láti betur ósagt sumt, sem þeir láta út úr sér á þessum stað, eins og hann gerði hér áðan. Ég var byrjaður að krota niður hjá mér ýmislegt af því, sem hv. þm. sagði, en steinhætti, þegar hann sagði þetta, sem ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að hafa eftir honum, en hann sagði, að botnvarpan væri ekki jafnhættulegt veiðarfæri og dragnótin, vegna þess að neðan á botnvörpunni væru eins konar hjól, sem fiskurinn gæti synt undir. — Ég læt þetta nægja.

Hv. 5. þm. Vestf. (BF), form. sjútvn. Nd., ræddi nokkuð í framsöguræðu sinni hin almennu viðhorf til dragnótaveiði innan landhelginnar, og af því að ég er einn þeirra nm., sem þátt eiga í samningu þessa frv., sem hv. 2. þm. Norðurl. v. hafði sem mest við að athuga, langar mig til þess að fara nokkrum orðum um, hvað valdi eindreginni afstöðu minni með þeirri takmörkuðu heimild til dragnótaveiða, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þrátt fyrir einlægan stuðning minn við friðunaraðgerðir okkar á sínum tíma, sem höfðu þá í för með sér algera útilokun dragnóta sem veiðarfæris hjá akkur. Ástæða mín fyrir þeim sinnaskiptum er einfaldlega sú, að þeir menn, sem við Íslendingar höfum byggt allar okkar aðgerðir á í sambandi við friðunaraðgerðirnar og útfærslu landhelginnar, vísindamenn og sérfræðingar okkar, mæla nú eindregið með leyfum til takmarkaðra dragnótaveiða undir eftirliti þeirra sjálfra. Og í fskj. nr. 1 og II, sem eru á þskj. 5, má sjá öll rök þeirra fyrir þessu máli. Þar segir m.a. dr. Árni Friðriksson þetta, með leyfi forseta:

„Það er því eigi aðeins æskilegt, heldur nauðsynlegt að leyfa dragnót í landhelgi Íslands, því að aðeins þannig er hægt að fullnytja sjóð, sem er eðlileg lyftistöng fyrir fiskiðnaðinn í landi og sókn bátaflotans á nálægustu mið.“ Og hann lýkur álitsgerð sinni með þessum orðum: „Það er eindregið álit mitt, að notkun dragnóta við Ísland miði til mikilla heilla fyrir land og lýð.“

Enn annar af forustumönnum vísindamanna á þessu sviði, Jón Jónsson, deildarstjóri í fiskideild atvinnudeildar háskólans, segir m.a.:

„Það verður að mæla eindregið með því, að ýsu- og skarkolastofnarnir verði betur nýttir af Íslendinga hálfu en gert hefur verið undanfarin ár. Stofnarnir hafa rétt svo við, að skynsamleg nýting þeirra er orðin aðkallandi. Hófleg veiði gerir meira gagn en engin eða of lítil veiði. Markmið friðunaraðgerða okkar er vitaskuld, að stofnarnir gefi af sér hámarksarð.“ Og enn fremur segir hann: „Það er því orðið tímabært að leyfa veiðar með dragnót í íslenzkri landhelgi.“

Það mætti vissulega hafa fleiri orð til stuðnings þessum veiðum en kemur fram í rökum vísindamannanna, og ég ætla að minnast á nokkur þeirra, vegna þess að ég er því miður sannfærður um, sérstaklega eftir ræðu hv. 2. þm. Norðurl. v., að margir þeirra ágætu manna, sem gleypt hafa í sig andúð á dragnótaveiði, hafa gert blátt bann við notkun þess veiðarfæris að trúaratriði, sem síðan verður arfgengt í einstökum byggðarlögum og sölum Alþingis líka. Hitt skal ég svo fúslega viðurkenna, að áður en til friðunaraðgerðanna kom, hjálpuðum við drjúglega til með takmarkalítilli og eftirlitslausri dragnótaveiði við þá ofveiði og rányrkju, sem sérstaklega kom fram á stofni flatfisksins. En þetta var aðeins einn þáttur þeirra orsaka. Margt annað kom þar til greina, svo sem feikileg ásókn erlendra veiðiskipa inn í flóa og firði, sérhæfni okkar í bátastærð, margs konar aflabrestur og margt fleira.

Það leikur enginn vafi á því, að ef dragnótaveiði verður heimiluð á ný, verður hún einn sá mesti stuðningur, sem hægt er að veita atvinnulífinu í dreifbýlinu, fiskiðjuverunum og smábátaútgerðinni. Fiskiðjuver dreifbýlisins voru öðru fremur byggð á sínum tíma með vinnslu dragnótaaflans í huga. Sá tími, sem dragnótaveiði yrði heimiluð, er sá tími, er gæði kolans eru mest, og þá er haft í huga að fullnýta aflann og pakka honum í neytendaumbúðir, tilbúinn á neytendamarkað. Þessi tími, sumarmánuðirnir, er í mörgum tilfellum veikasti hlekkurinn í nauðsynlegum samfelldum rekstri frystihúsanna þrátt fyrir síaukna trillubátaútgerð, sem vissulega hefur mikið bætt úr um atvinnuafkomu á þessu sviði, þótt hiklaust megi fullyrða, að dragnótaveiðarnar yrðu þar miklu drýgri fyrir afkomu hins vinnandi fólks, sem býr á þessum stöðum, og eins fyrir þjóðarbúskapinn í heild. Það verkafólk, sem við frystihúsin vinnur, mundi stórauka tekjur sínar. Þannig er áætlað, að ef heildarmagnið af veiddum flatfiski næmi 5000 tonnum, yrðu vinnulaunin við vinnslu hans af bryggju, í flökun, pökkun, frystingu og útskipun allt að því 4400 kr. á hvert hráefnistonn, eða allt að því 22 millj. kr. Þar við mundi bætast annar fiskur og hlutur sjómannanna sjálfra og útgerðarmannanna. Þessi mikla vinnuaukning yrði á sama tíma og mörg kauptún og kaupstaðir búa við vandamál, sem kallað hefur verið sumaratvinnuleysi unglinga og skólafólks.

Hvað mörkuðum okkar viðvíkur, hafa framámenn í fiskiðnaði tjáð mér, að ef frumskilyrðum góðrar neyzluvöru yrði fullnægt, vöruvöndun og vörugæðum, séu þeir sannfærðir um, að fljótt megi vinna markað í Bandaríkjunum fyrir ótakmarkað magn, sem greitt væri fyrir hátt og gott verð í eftirsóttum gjaldeyri. Verðið þar þorðu þeir ekki að fullyrða um, sögðu það fara eftir gæðum vörunnar, sem eðlilegt er. En einn aðalframkvæmdamaður okkar Íslendinga á þessu sviði sagðist gizka á, með nokkurri bjartsýni þó, að ef reiknað væri með áðurnefndum 5000 tonnum af kola, sem vísindamenn okkar telja hæfilegt byrjunarhámark, mætti reikna með 150 millj. kr. gjaldeyristekjum. En að sjálfsögðu yrði þetta ekki unnið í einu stökki. Til að sýna enn betur verðmæti þessa fisks, sem við Íslendingar teljum okkur ekki hafa efni á að nýta, má taka fram, að við ísfiskssölur í Englandi í marz fengu togararnir okkar 5300 kr. meðaltalsverð fyrir hvert tonn fisks og þótti gott, og í þessu verði eru þá allar tegundir meðtaldar, en ef tekið er meðalverð frá áramótum á sama markaði á rauðsprettu og sólkola, hefur tonnið af þeim selzt á sama markaði fyrir 19–20 þús. kr., enda held ég, að enginn efist um verðmæti þessa sparisjóðs. Ég kalla þetta sparisjóð, sem hefur fengið að vaxta sig í áratug á toppvöxtum friðunar- og landhelgisútfærslu.

Sú þýðing, sem nýting flatfisksins hefur fyrir þjóðarbúið í heild, virðist a.m.k. raunhæfari en fjarlægari draumur um milljónatuga fjárfestingu til stóriðnaðar. Alla vega yrði nýting þessara auðæfa til þess að færa þá drauma nær veruleikanum, og það mætti segja mér, að mörgum þætti sú nýting geðþekkari en margar þær ráðstafanir lærðra og ólærðra, sem gerðar hafa verið undanfarin ár og átt hafa að bjarga þjóðinni frá gjaldeyrisskorti og annarri vesöld.

Það mætti tína fleiri atriði til, sem styrkja þá heimild, sem frv. gerir ráð fyrir að veita. Þegar athugaðar eru veiðiskýrslur Englendinga um hinn stóraukna flatfisks- og ýsuafla á miðunum hér við land, eftir að friðun okkar tók gildi, má hiklaust fullyrða, að hin mikla ásókn erlendra togara að og inn fyrir 12 mílna mörkin standi að miklu leyti í sambandi við síaukið magn þessa verðmæta afla. Ef við sjálfir nytjum flatfiskinn, sem alls ekki er hægt nema með dragnót, — ef við sjálfir nytjum þann afla, sem við höfum friðað í landhelgi okkar í 10 ár að mestu til hagsbóta útlendum skipum, fullyrði ég, að ágangur erlendu togaranna mundi stórminnka á landgrunnið hér við land og með því mundi los koma á girðingu botnvörpunnar umhverfis grunnmiðin og skapa aukna möguleika á göngu bolfisksins á þau mið, sem færa- og línuveiðar eru stundaðar á.

Hvað sem menn greinir á um nauðsynina á afnámi útflutningsuppbótanna, sem voru afnumdar í vetur með efnahagslögunum, er sú staðreynd ljós, að fjöldi sjómanna og útvegsmanna um allt land telur sig hafa beðið mikið tjón vegna niðurfellingar sérbótanna svonefndu á ýsu og steinbít, og það má segja alveg sama viðkomandi frystihúsunum. Ég er sannfærður um, að þetta takmarkaða leyfi til dragnótaveiða og nýtingar hins dýrmæta flatfisks yrði gott búsílag, svo að ekki sé meira sagt, fyrir þessa aðila alla.

Sú röksemd, sem stendur í beinu sambandi við útfærslu landhelginnar, er alls ekki sú veigaminnsta. Hennar er getið í grg. fyrir frv. frá sjútvn., því að það kom fram í mörgum þeim bréfum, sem bæði hafa verið send Alþ. og hv. 2. þm. Norðurl. v. vitnaði einmitt í hér áðan, og eins í álitsgerðum, sem sjútvn. bárust, að það gæti verið, að dragnótaveiðarnar, ef þær yrðu leyfðar, kynnu að spilla málstað okkar í landhelgismálínu. En n. kynnti sér álit Hans G. Andersens sendiherra og Davíðs Ólafssonar fiskimálastjóra á þessu atriði, eins og segir í grg. Þeir mættu á fundi hjá okkur í n. og lýstu þar báðir þeirri skoðun sinni, að það mundi á engan hátt skaða málstað okkar í landhelgisdeilunni, þótt dragnótaveiðar yrðu teknar upp á ný. Og sú skoðun kom skýrt fram hjá þeim, að við Íslendingar yrðum að sýna fram á það. að um leið og við krefðumst aukinnar landhelgi, værum við færir um að nytja þá fiskistofna, sem þar vaxa upp. Þetta voru þeirra orð.

Hv. 2. þm. Norðurl. v. vitnaði hér nokkuð í álit sjómanna og þá að sjálfsögðu sjómanna úr hans eigin kjördæmi. Ég þykist nokkuð þekkja til sjómanna, ekki aðeins héðan frá Faxaflóa, heldur í kringum allt land, og hef reynt að kynna mér skoðanir þeirra. Ég held, að það sé eitt sameiginlegt í öllum þeim skoðunum, og það er, að það eru engir sammála um, hvað skaðsemi dragnótarinnar sé mikil. Það virðist vera þannig, að þetta álit þeirra fari eingöngu eftir því, hvaða hagsmuna þeir sjálfir eiga að gæta í sambandi við veiðar á viðkomandi stöðum. Og ég held satt að segja, að það verði ekki hægt að fara eftir þess konar álitum, ekki eingöngu, heldur verði vísindin að vera grundvöllurinn og lokaorð í rökræðum um, hverjir séu beztir hagsmunir heildarinnar. Ef jafnhliða er hægt að tryggja hagsmuni smáhópa, er vissulega hin æskilegasta lausn fundin. Og ég held einmitt, að með frv. þessu sé stigið stórt spor í áttina að þessari æskilegu lausn.

Meginandstaðan gegn dragnótaveiðunum kemur frá tveimur hópum: Í fyrsta lagi frá þeim, sem ég minntist áðan á og hafa meðtekið bann á dragnótaveiðum sem arfgengt trúaratriði og engum rökum taka. Hinir eru hópar frá þeim stöðum allt í kringum land, sem trillubátaútgerð reka að miklu eða öllu leyti. Þeir telja t.d., að með dragnótinni leggist slík útgerð niður vegna óheillavænlegra áhrifa dragnótarinnar á aflabrögð. Glöggt dæmi um mótmæli af slíku taki eru einmitt mótmælin frá bátafélaginu Björg í Reykjavík, sem hv. 2. þm. Norðurl. v. las upp hér áðan og ég ætlaði að lesa, en tel óþarft eftir lestur hans. Ég held, að þm. hafi tekið það vel eftir því, hvað kom fram þar.

Það er svo með þetta síðasta atriði í sambandi við landhelgina, að ég tel því alveg fullsvarað með tilvitnun minni í ummæli Davíðs Ólafssonar og Hans G. Andersens. En því er slegið föstu í þessari grg. frá þessu bátafélagi, að öll sú aflatregða, sem vart varð við fyrir friðunina, hafi verið dragnótinni einni að kenna. Þetta tel ég alrangt. En að rányrkja hafi átt sér stað og dragnótin hafi átt sinn þátt í því vegna misnotkunar, það skal ég viðurkenna. Ég hef hér áðan lýst því að nokkru, hvað olli rányrkjunni. En það, sem gerði dragnótina þátttakanda í henni, var m.a. mikill fjöldi báta, sem veiðarnar stunduðu langt tímabil sumars, engin svæðatakmörkun á einn eða annan hátt, minni fisk mátti veiða, möskvastærðin mátti vera 1/5 minni en nú er fyrirhugað. Ekkert bann var við svokölluðu „lausu togi“ hjá dragnótabátunum, og reglugerðarákvæðin, sem nú eru fyrirhuguð, og viðurlög við þeim voru ekki til. Nú hefur ástandið breytzt aftur á móti í það horf, að miðin eru full af flatfiski, bolfiskur á greiðari aðgang að grunnmiðum en áður, 12 mílna friðun fyrir veiðum innlendra og erlendra togara er tryggð, ströng ákvæði um framkvæmd dragnótaveiða með miklum takmörkunum fyrirhuguð í frv. þessu, bátafjöldinn miklu minni og hefur t.d. fækkað um 200 frá 1937 af stærðinni 12–35 rúmlestir. Þeir voru á sjötta hundrað, en eru núna rúmlega 300, eða nákvæmlega 321.

En það væri gaman að spyrja þessa heimatilbúnu sérfræðinga um dragnót að því, hvað hafi valdið því, — og hv. 3. þm. Sunnl. (GuðlG) minntist nokkuð á þetta atriði hér áðan, — en mig langar til þess að spyrja þessa heimatilbúnu sérfræðinga, hvað hafi valdið því, að færafiskur hafi brugðizt í æ ríkari mæli á stórum svæðum seinni ár friðunarinnar, og er þá alveg burtséð frá göngufiski, sem fljótt fer yfir. Ekki hefur þetta verið dragnótinni að kenna eða botnvörpunni. Það er eitthvað annað, sem kemur þar til. Það liggur fyrir bréf, sem hefur komið hér til Alþ., og varpar nokkru ljósi á skoðanir sjómanna hér sunnanlands um þetta mál, sem ég tel marga ekkert ómerkari sjómenn en sjómennina úr Norðurlandskjördæmi vestra, en bréfi þessu fylgir áskorun til Alþingis um að samþykkja frv. á þskj. 5 um dragnótaveiði. Bréfið er frá sjómönnum í Vestmannaeyjum, og með leyfi forseta ætla ég að lesa úr þessu bréfi. Þeir eru með formála í byrjun, svo segja þeir:

„Í viðbót við þetta virðist fiskur ekki hafa gengið á grunnmið né fylgt loðnu, sem fyrir 15–20 árum var talið árvíst. Eða hver man ekki, að fiskur hafi gengið undir Sand og fyllt öll grunnmið frá því í febrúar til aprílloka? Við teljum okkur geta bent á ástæður, sem við óskum eftir að hið háa Alþingi kynni sér og afli sér vísindalegrar umsagnar um hjá fiskifræðingum, sem sé, að sú staðreynd blasi við, að öll grunnmið eru orðin yfirfull af flatfiski. Ber þess vott hið mikla magn af skarkola, sem fæst í þorskanet alla vertíðina. Möskvar þorskanetanna eru ekki gerðir fyrir flatfisk, þó má segja, að hann fylli sum netin frá steinateini upp fyrir miðju netsins. Þar sem þessi gengd er af flatfiski, má segja fyrir víst, að ekki fáist þorskur í net, þó svo góðar lóðningar í dýptarmælum sjáist deginum áður. Óyggjandi reynsla sýnir sjómönnum það, að þar sem flatfiskurinn er mestur, þá stöðvast ekki bolfiskur, þorskur eða ýsa. Ástæðan er sennilega sú, að tilgangslaust er fyrir bolfisk að ná botnæti, þar sem flatfiskurinn þekur allan botn. Allur flatfiskur, sem veiðist í net, er annaðhvort settur í mjölvinnslu eða fleygt í sjóinn. Yfir vetrarmánuðina er flatfiskurinn ekki talinn vinnsluhæfur. Er það vegna megurðar og hrygningar, enda telja fiskifræðingar, að megurð flatfisks um hrygningartímann stafi mikið af offjölgun. Yfir sumarmánuðina tekur hann þeim breytingum, að flatfiskurinn er talinn góð vara, bæði til vinnslu og beint á sölumarkað.“

Og þeir halda áfram, þessir Vestmannaeyjasjómenn, og segja í bréfi sínu:

„Vegna framanritaðs teljum við frá þjóðhagslegu sjónarmiði séð mikla og knýjandi nauðsyn á, að hið háa Alþingi skilji aðstöðu þessara mála og veiti viðunandi úrlausn til hagnýtingar þeim auðæfum, sem landið býður þegnum sínum í þessu sambandi. Leyfum við okkur að benda á takmarkaða veiðitíma og stærð fiskibáta allt að 35 brúttótonn. En fremur bendum við á alþjóðalög um möskvastærð, sem koma í veg fyrir, að of nærri ungviði og smælki sé gengið.

Að síðustu viljum við undirstrika þessi mál með því að benda á eftirfarandi atriði: Af 130 fiskibátum, er reru frá Vestmannaeyjum á þessari vertíð, reru 40–45 bátar með handfæri. Stærð bátanna er frá 10–35 brúttótonn. Nú, við dagsetningu þessa bréfs“ — það er dagsett síðast í apríl — „hefur allur þessi floti litinn sem engan afla af fyrrgreindum ástæðum. Sennilegt er, að einn eða tveir bátanna hafi yfir 100 smálestir upp úr sjó, fjöldinn er með 10–40 tonn. Fyrirsjáanlegt er, ef ekki koma skjótar aðgerðir til, að þá verði efnahagslegt hrun í þessari grein sjávarútvegs á Íslandi. Bátunum verður lagt og þeir grotna niður. Áhafnir þeirra og eigendur neyðast til þess að hverfa að öðrum störfum. Teljum við það illa farið, því að þegar afli fæst á þessa báta sem s.l. ár, þá er það viðurkennd staðreynd í öllum frystihúsum, að bezta hráefnið kemur frá litlu bátunum og handfæraveiðunum. Við förum ekki fram á ölmusur til lífsframdrags, heldur að löggjafarvald þjóðarinnar skapi okkur aðstöðu til að stunda atvinnu, er hentar bátum okkar og fyrirsjáanlega skilar arði í þjóðarbúið.“

Þetta var hluti af bréfi þeirra Vestmanneyinga.

Ég minntist aðeins á það hér áðan, að ég sleppti lítils háttar úr þessu bréfi, sem ekki skipti máli. Ég ætla ekki að fjölyrða um efni þess frekar að sinni. En til viðbótar vil ég taka það fram, að skoðanir manna á skaðsemi botnróts af völdum dragnótar eða annarra hluta eru mjög skiptar. Þannig segja trillusjómenn, að slíkt valdi hinum mesta skaða. En aðrir halda fram því gagnstæða og benda á, að dragnótablettir hafi verið fiskisælli en aðrir fyrir færaveiðar, og þeir mjög sótt á sömu mið. Það hljóta allir að sjá, að mikið botnrót hefur verið við Faxaflóa þaðan, sem sandi var dælt í sementsverksmiðjuna, en margir sunnlenzkir sjómenn segja mér, að á eftir hafi þetta verið með fiskisælustu blettum í Faxaflóa. Eins hefur verið með svæðin, sem skafin hafa verið með humartrolli í kringum Vestmannaeyjar. Bolfiskurinn hafi gengið á þessa bletti og verið þar, en ekki hlaupið yfir og farið burt.

Það er, eins og ég sagði áðan, mjög erfitt að ákveða nokkuð um og gera sér ljósar niðurstöður eftir þeim álitum, sem koma fram frá sjómönnum í kringum land. Og eftir að ég hef hlustað á alveg gagnstæðar fullyrðingar í þessu máli frá sjómönnum hér sunnanlands, vestanlands, norðanlands og austanlands, virðist mér allt bera að sama brunni, að það séu vísindamenn okkar, sem sé bezt trúandi til forsjár í þessu efni. Þó að hv. 2. þm. Norðurl. v. hafi litla trú á þeim, skulum við samt hafa það í huga, að við hefðum ekki fengið neitt fram af þessum friðunaraðgerðum okkar eða gengið miklu verr við útfærslu landhelginnar, ef við hefðum ekki haft þeirra starf á bak við okkur.

En fyrst ég minnist á humartrollið við Vestmannaeyjar, þá er rétt að geta þess, að afleiðingar þeirra veiða hafa kannske fært mönnum sönnur á, að kolann eigi að nytja með því veiðarfæri, sem bezt er fallið til slíks og skilar betra hráefni úr kolanum en nokkurt annað veiðarfæri, en það er einmitt dragnótin. Það er a.m.k. öruggt, að hægt er að fullyrða, að þessar humarveiðar við Vestmannaeyjar munu eiga þátt í þeirri ströngu reglugerð, sem verður að setja um meðferð aflans, ef þetta frv. verður að lögum, þar sem bæði verður takmarkaður útivistartími bátanna og þeim verður skylt að slægja aflann jafnóðum, eins og sjálfsagt er með allan afla, og þar sem jafnvel verður skylt að ísa hann í kassa um borð í bátunum, um leið og hann veiðist, þannig að eitthvað sé nefnt.

En það er eitt atriði, sem er rétt að minnast á, sem kom fram í bréfi Vestmanneyinganna, þar sem þeir tala um takmarkanir á veiðunum, að þeir minnast á, að alþjóðalögum um möskvastærð verði fylgt. Þarna álít ég, að takmarkanirnar eigi að ganga miklu lengra, og tel sjálfsagt að fara eftir því, sem vísindamenn okkar segja um það, og mig langar í þvísambandi að vitna í það, sem deildarstjóri fiskideildar atvinnudeildar háskólans segir um þetta. Hann segir svo, með leyfi forseta:

„Mér virðist 100 mm möskvi of smár fyrir dragnót, 120 mm er nær sanni. Aukin möskvastærð er ákaflega þýðingarmikil til friðunar ungviðisins, en hæfni hinna einstöku fisktegunda til þess að smjúga möskvann er mjög mismunandi. Skarkolinn er t.d. miklu breiðari en ýsan, og á hann því tiltölulega erfiðara með að smjúga möskvann en hún. Með 120 mm möskvastærð mundi allmikið af 5 ára ýsu og allt yngra sleppa. Má það teljast allgott frá fiskifræðilegu sjónarmiði. Skarkolinn hefur ekki sama gagn af möskvastærðinni og ýsan, eins og taflan sýnir ljóslega. Með 120 mm möskva sleppur meginhluti 3 ára fisks, en ekkert af honum er orðið kynþroska. Til þess að draga úr sókninni í smákolann þykir rétt að leggja til, að lágmarksstærð hans verði aukin úr 25 cm í 30 cm og verði gengið ríkt eftir, að því ákvæði verði hlýtt. Þyrfti reyndar að taka ákvæði um lágmarksstærð annarra tegunda til athugunar líka.“

Og af því að hv. 2. þm. Norðurl. v. spurði hér áðan, hvernig í ósköpunum ætti að fara að því að hafa slíkt og þvílíkt eftirlit með höndum, get ég fullvissað hann um, að það er draumur allra sjómanna að koma einhvern tíma að landi með aflann, og eftirlitið hvað þessu viðvíkur verður framkvæmt, þegar þeir koma að landi með hann.

Ég minntist hér áðan á fullyrðingar um, að ef dragnótaveiðar yrðu leyfðar, mundi trilluútgerð leggjast niður víðs vegar um land. Þetta eru hreinustu öfgar, ekkert nema öfgar. Ég tel það sams konar öfgar og þegar þeir, sem eru fylgjendur dragnótaveiða, slá því fram, að á þessum litlu bátum séu ekkert nema sportfiskimenn, sem stundi þetta sem hjáverk, og ef gefa ætti þeim einum leyfi til nytja á fiskveiðilandhelginni, væri það sama og gefa það í hendur stangveiðifélaganna, sem var nú ýmislegt fundið til foráttu hér áðan. En það er enginn vafi á því, að með útfærslu landhelginnar hefur færzt nýtt líf í þennan atvinnuveg, sem sáralítill tilkostnaður er við, en hefur skilað þjóðarbúinu miklum arði. Mín skoðun hefur alltaf verið sú, að þessi atvinnuvegur ætti kannske fyllri rétt á sér en margur annar, einmitt vegna þess, að í mörgum tilfellum eru verðmæti þau, sem skapast með honum, gripin í aukavinnu og í tíma, sem annars færi til ónýtis fyrir þjóðarbúið eða kannske í einhverja aðra óarðbæra starfsemi, og ég álít, að það hafi verið allt of lítið gert af því að ýta undir þennan atvinnuveg af bæjar- og sveitarfélögunum. Það eru svo mörg rök fyrir því að viðhalda og auka þessa útgerð opnu bátanna, að ég fer ekkert frekar út í það. Ef einhverjir kjánar kalla þennan atvinnuveg sport, þá vil ég kalla það þarfasta sport þjóðfélagsins. En einmitt vegna þessara skoðana, ekki aðeins að þetta væri mín skoðun, heldur sjútvn. allrar, þá er komið á móti þessum mönnum í 1. gr. frv., í síðustu mgr.

En þótt okkar skoðun á trillubátaútgerð hafi verið þessi og þá náttúrlega um leið margra annarra, haggar það ekki þeirri staðreynd, að það sé rétt að leyfa dragnótina, því að það er á fæstum stöðum kringum land, sem aðstaða er til þess að tryggja rekstur fiskvinnslustöðvanna og nauðsynlega atvinnu, sem þær skapa, með útgerð trillubáta einna. Þar verður miklu fleira að koma til. En eins og ég sagði, er leitazt við að koma á móti óskum fleiri aðila en eins og sameina sjónarmið margra aðila í þessu frv. Það er í frv. gert ráð fyrir, að fiskveiðilandhelginni verði skipt í nokkur stór veiðisvæði, sem Fiskifélagið og atvinnudeild háskólans ákvarða nánar, og innan þeirra má banna veiði á tilteknum svæðum hluta af veiðitímabili eða allt tímabilið, ef hætta er á ofveiði fiskistofnanna. En auk þess eru svæðin, sem ég gat um áðan og eru í 1. gr. frv., síðustu mgr., sem hv. 3. þm. Sunnl. minntist hér á áðan og ég las, og ég sé ekki ástæðu til þess að fara með hana aftur, en einmitt á þessari mgr. í 1. gr. sést, að innan allrar fiskveiðilandhelginnar eru línu- og færaveiðar heimilar áfram ótakmarkað, eins og þær hafa verið, en aftur á móti ef þessar dragnótaveiðar verða heimilaðar og þetta frv. samþ., þá eru takmarkanirnar ótalmargar fyrir þær veiðar. Það er í fyrsta lagi að opna svæðin, sem er nú almennt álitið að geti orðið erfitt víðast hvar. Og þá er að fá leyfi fyrir bátana, sem er aðeins veitt fyrir eitt tímabil í senn og það á ákveðnum svæðum. Það eru skorður við því, hve lengi megi veiða hvert sumar. Þá eru settar reglur um stærð bátanna. Þar að auki er bannað að veiða á svæðum, sem eru sérstaklega afmörkuð fyrir aðrar fiskveiðar, og þar er átt við trillurnar, og það er bannað að veiða innan löggiltra hafnarsvæða. Það er bannað að veiða á ákveðnum svæðum, ef hætta er á ofveiði, eins og ég minntist á. Og auk þess verða mörg fyrirmæli í reglugerðum um möskvastærð, lengd dragstrengja, lágmarksstærð fisks, sem má koma um borð, um stöðugar veiðiskýrslur, auk þess sem verður að stöðva veiðarnar, strax og vissu hámarksmagni af afla er náð, og ég hef skilið það þannig, að þessu hámarksmagni verði skipt hlutfallslega á þau veiðisvæði, sem verði sett, og þessu er auðvelt að fylgjast með í gegnum vinnslustöðvarnar, sem taka á móti aflanum, og aflaskýrslur bátanna. Ég held, að með öllum þeim kvöðum, sem hvíla á dragnótaveiðunum, ef þær væru leyfðar, þurfi skynsamir bændur í Norðurlandskjördæmi vestra þó ekkert að óttast, að dragnótabátar kom upp í fjósið til þeirra. Hann hefur, þessi ræðumaður, sem óttaðist þetta hér áðan, spurt mikið um það, hvernig ætti að framfylgja þessum lögum og væntanlegum reglum, og ég veit, að það eru fleiri, sem munu spyrja um það. Ég tel, að þessi ströngu ákvæði, sem eru í frv. um sviptingu leyfa, og svo hagsmunir mannanna sjálfra verði sterkasta eftirlitið. Svo höfum við landhelgisgæzlu, og ég held, að flestum, sem vit hafa á, sé kunnugt um það, að eftir að landhelgin var færð út í 12 mílur, séu minni bátar landhelgisgæzlunnar orðnir til lítilla nota við gæzlu þeirrar landhelgi. Eitthvað mætti nota þá til þess að gæta þessara svæða. En ef eitthvert hinna stóru v eiðisvæða verður lokað áfram í því tilfelli, að frv. verði samþ., þá verða þau auðvitað ásamt öðru ákvörðuð af landfræðilegri legu, þannig að landhelgisgæzlan á að geta gætt þeirra með sæmilegu móti. Með gæzlu á minni svæðunum, sem kannske yrðu lokuð áfram innan stærri svæða, trillusvæðunum, þá væri mjög auðvelt að afmarka þau t.d. með baujum, sem er mjög auðvelt á þessum tíma árs að setja niður til þess að afmarka svæðin. Þetta yrðu ekki mörg svæði, það yrði kannske eitt, í mesta lagi tvö á hverju hinna stóru veiðisvæða, og ég álit, að þar séu hagsmunir mannanna sjálfra, sem veiðarnar stunda, bæði rekstrarformin, sem koma til með að gæta þeirra bezt.

En það er eitt atriði, sem hefur ekki verið sinnt í þessu frv., og má vera, að það sé handvömm frá n., en það er staðreynd, að þetta eftirlit allt mun kosta fé, því að þetta vísindalega eftirlit kostar það, að fleira fólk þarf til starfa hjá atvinnudeildinni og Fiskifélaginu við eftirlitið. En með þeim uppgripaafla, sem þessar veiðar geta skapað þjóðarbúinu, tel ég ekki mikla hættu á því, að það megi ekki fá fé í þann kostnað. Ég er á móti því, auk allra þeirra ákvæða um takmarkanir, sem hin tilvonandi dragnótaveiði verður að búa við, að setja einhver sérstök leyfisgjöld á bátana. Ég tel miklu heppilegra að fara þá leiðina að taka fé af síðasta stiginu, í útflutningsskattinum. Þetta er atriði, sem væri æskilegt að heyra nánar álit manna um.

Ég hef nú rætt þetta mál vítt og breitt og skal ekki lengja umr. um það frekar, en mun að sjálfsögðu gera það í sambandi við einstakar greinar, ef tækifæri gefst til í síðari umræðum. Ég vil þakka samnefndarmönnum mínum í sjútvn. fyrir ánægjulegt samstarf. Það mótaðist af viljanum hjá þeim til þess að ráða fram úr þessu erfiða vandamáli, og þetta samkomulag okkar, sem birtist í frv., varð til eftir fjölmarga fundi, þar sem sjónarmið bæði einstakra byggðarlaga og einstakra hagsmunahópa voru rædd og reynt að sameina þau.

Ég var á mínum yngri árum í nokkur sumur við þessar veiðar, og eins og ég var sannfærður þá um réttmæti friðunaraðgerðanna á sínum tíma, sem m.a. útilokuðu þessa veiðiaðferð, þá er ég nú sannfærður um réttmæti þeirrar heimildar, sem í lagafrv. felst um að leyfa þessar veiðar á ný, mikið takmarkaðar og undir vísindalegu eftirliti. En það er eitt atriði í þessu frv., sem ég er alveg í grundvallaratriðum á móti og hv. fyrsti ræðumaður við þessa umr. kom einmitt inn á. Það eru takmarkanirnar við ákveðin veiðisvæði. Mín skoðun hefur verið og er sú, að fiskveiðilandhelgin sé sameign Íslendinga, sameign íslenzku þjóðarinnar, sem fiskimenn okkar eiga að nytja á hinn hagkvæmasta hátt, þjóðinni allri til hagsbóta og blessunar. Þannig tel ég, að þær takmarkanir, sem eru nauðsynlegar, til þess að ekki sé gengið á stofninn, hefði mátt fá fram í reglugerðarákvæði um meðferð aflans, þannig að útivist bátanna væri ekki leyfð nema takmarkaðan tíma, og yrði að landa honum í fiskvinnslustöð, sem nálægt miðunum væri, innan ákveðins tíma, þannig að atvinnutekjurnar af vinnslu aflans mundu verða eftir í byggðarlaginu, sem lægi að þessum miðum, en það yrði áfram leyft, eins og hefur verið hingað til, að íslenzkir fiskimenn hefðu frelsi til þess að leita aflans, þar sem hann er að fá og hagkvæmast er hverju sinni. Ég býst við, að það mundi heyrast í tálknum margra, ef Sunnlendingum yrði bannað að sækja til síldveiða fyrir norðan og austan land eða ef Norðlendingum og Austfirðingum yrði bannað að sækja til þorskveiða við Suður- og Vesturland. Ég hef samt sem áður fallizt á þetta, til þess að samkomulag næðist, og líka vegna þess, að ég er sannfærður um, að það sé ekki of varlega farið í byrjun, á meðan verið er að leita að kannske heppilegra formi en við leggjum til og þá kannske réttlátri aflaskiptingu á milli landshlutanna, ef menn vilja fara út í það.

Ég held, að það sé rangt, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. v. hér áðan í sambandi við vísindamenn og menntun þjóðarinnar. Ég held, að við Íslendingar ættum að vera stoltir af menntun og tæknilegum framförum, sem þjóðinni hefur auðnazt að afla sér síðustu áratugi, og það sé fátt, sem hafi betur aukið velmegun íslenzku þjóðarinnar en einmitt það. Ég er sannfærður um, að þegar við getum sameinað starf hinna ágætu vísindamanna okkar, sem starfa í sambandi við fiskveiðarnar, — en að gefnu tilefni, þá er mér ókunnugt um, hversu miklir þeir vísindamenn eru, sem starfa að mæðiveikivörnum eða laxveiði í vötnum og ám, eins og hv. 2. þm. Norðurl. v. kom inn á, — en þegar við getum sameinað starf hinna ágætu vísindamanna, sem starfa að fiskveiðum okkar, og hönd íslenzka sjómannsins til framdráttar íslenzkum þjóðarhagsmunum, þá er ég sannfærður um, að við erum á réttri leið, og ég er einnig sannfærður um, að sú leið finnist m.a. með því að samþykkja það frv., sem hefur verið lagt fram af sjútvn. neðri deildar.