12.05.1960
Neðri deild: 80. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3219 í B-deild Alþingistíðinda. (1563)

153. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Frsm. (Birgir Finnsson): Herra forseti. Þegar sjútvn. var að semja það frv., sem hér liggur fyrir til umr., var okkur það ljóst, að skoðanir væru mjög skiptar um þetta mál meðal þm., og í framsögu minni fyrir frv. gat ég þess, að á s.l. þingi hefði málinu verið vísað frá í þessari hv. d. með 18:7 atkv. á þeim forsendum, að málið væri ekki nægilega undirbúið. Ég gat þess líka, að ég byggist við, að nú mundi þeirri skoðun hafa vaxið fylgi, að þótt málinu yrði lengur skotið á frest, mundi ekkert nýtt koma í ljós. Ég hygg, að þessi skoðun sé rétt, því að við þessar umræður hefur ekki enn þá gefið sig fram nema einn andstæðingur dragnótamálsins. Er það reyndar kannske ekki sanngjarnt, að við, sem erum málinu fylgjandi, tölum miklu lengur, meðan fleiri andstæðingar þess hafa ekki gefið sig fram. Ég býst við, að það séu samt fleiri, þótt ekki hafi komið upp í ræðustólinn nema einn og mótmælt frv., sem eru ekki ánægðir með það. Og við, sem viljum ganga lengst í því að leyfa dragnótaveiðarnar, erum ekki heldur ánægðir með frv. En þetta frv., sem fyrir liggur, er árangur af samkomulagstilraunum milli þeirra andstæðu sjónarmiða, sem um þetta mál ríkja. Við höfum, eins og síðasti ræðumaður gat um áðan, reynt að taka fyllsta tillit til þeirra manna, sem varlegast vilja fara í þessu máli.

Það var svo hér áður, að landhelgin var öll opin til dragnótaveiða, en eftir á gátu sveitarfélögin gert samþykktir um svokölluð héraðabönn. Samkv. því frv., sem fyrir liggur, geta sveitarfélögin fyrirbyggt, að tiltekin svæði verði opnuð, þannig að þeir, er vilja loka ákveðnum svæðum fyrir dragnótaveiði, hafa nú samkv. þessu frv., ef að lögum verður, meiri rétt en þeir höfðu áður. En það eru ekki allir ánægðir með það, að við skyldum ganga inn á afgreiðslu málsins á þennan hátt. Í gær kom hingað fjölmenn sendinefnd útvegsmanna af Suðurnesjum, og þeir afhentu þinginu ályktunarskjal, undirskrifað af 46 útvegsmönnum á Suðurnesjum, þar sem þeir skora á Alþ. að heimila dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands með þeim takmörkunum einum, sem atvinnudeild háskólans og Fiskifélag Íslands telja nauðsynlegar. Þetta skjal hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við undirritaðir útvegsmenn á Suðurnesjum leyfum okkur hér með að skora á Alþingi það, sem nú situr, að samþykkja lög, sem heimila veiðar með dragnót í landhelgi, með þeim takmörkunum, sem atvinnudeild háskólans og Fiskifélag Íslands telja nauðsynlegar, og öðrum ekki. Við mótmælum því, að hið háa Alþingi láti það á vald sveitarstjórna eða annarra aðila, hvort veiða megi með dragnót eða ekki, enda fáum við ekki skilið, hvernig framkvæmd er hugsuð á slíku. Við bendum á sem dæmi, að stærsta verstöð á Suðurnesjum, Keflavík, mun ekki eiga land að sjó nema innan við 1000 m. Hreppar, þar sem sjór er lítið stundaður nema á trillubátum í aukavinnu mjög takmarkaðan tíma á árinu, eiga hins vegar land að sjó, svo að km skiptir. Minni bátar hér um slóðir hafa verið gerðir út á þorska- og ýsunet seinni hluta sumars og haust. Afli hefur verið lítill, mikil netaeyðsla, erfitt að fá fólk og það oft mjög dýrkeypt. Með því verðlagi, sem nú er orðið á veiðarfærum, er fyrirsjáanlegt, að þessar veiðar munu leggjast niður með öllu, og verður þá ekkert fyrir þessa báta að gera.

Að endingu viljum við benda á, að dragnótaaflinn mundi bæta að fullu úr atvinnuþörf unglinga alls staðar, þar sem fiskur yrði unninn, og þar með leysa eitt okkar mesta þjóðfélagsvandamál.“

Þannig hljóðar þetta skjal. Hins vegar mun líka vera hér til í fórum Alþ. mótmælasamþykkt frá fiskideild Gerðahrepps gegn því, að dragnótaveiði verði leyfð. En þar hefur útgerð minni þýðingu en í Keflavík, sem er ein stærsta verstöð hér við Faxaflóa, a.m.k. útgerð smærri báta. Og þeir sögðu, þessir menn af Suðurnesjum, um leið og þeir afhentu þetta skjal, sem ég las, að þeir byggjust við því, að 14 bátar frá Keflavík mundu í sumar stunda dragnótaveiðar, ef leyfðar yrðu.

Hv. 2. þm. Norðurl. v. (JPálm) vildi gera ákaflega lítið úr öllu eftirliti og þá einkanlega vísindalegu eftirliti með þessum veiðum. Það hefur nú í umr. verið nokkuð útskýrt, hvernig það eftirlit er hugsað. Það er hugsað þannig, að settar verði reglur um veiðarfæraútbúnaðinn, um möskvastærðina, og það er hugsað þannig, að ákveðin verði lágmarksstærð af fiski, sem koma megi með að landi til vinnslu, og það er hugsað þannig, að starfsmenn fiskideildarinnar fylgist með veiðunum og aflamagninu, sem á land berst, og þegar hámarksafla er náð, verði veiðileyfin tekin af þeim bátum, sem þau hafa fengið. En veiðarnar eiga núna samkv. frv. að vera háðar leyfum, sem verða veitt einstökum bátum.

Ég gat um það í framsöguræðu, að samsetning bátaflotans hefði mikið breytzt frá árinu 1937, þannig að nú væru í bátaflotanum tiltölulega færri litlir bátar en þá voru, og þess vegna mundu allar líkur vera til þess, að færri bátar mundu nú stunda þessar veiðar en áður gerðu það. En 1937 var tala báta undir 35 rúml. 473, en 1959 ekki nema 325. Við þetta bætist það, að þróunin í fiskveiðum með handfærum hefur orðið slík, að núna munu færri fara á dragnót en áður, og munu þeir halda áfram að stunda handfæraveiðar, sem hafa gert það undanfarin sumur með góðum árangri.

Ég er alveg ósammála hv. 2. þm. Norðurl. v. um þau viðbrögð, sem við eigi að hafa, ef eitthvað ber út af í atvinnurekstri okkar. Við, sem viljum leyfa dragnótaveiðarnar að nýju, viðurkennum, að það hafi komið fyrir, að það hafi verið of langt gengið í veiðunum, það hafi verið veitt meira magn en stofninn þoldi. En hins vegar viljum við ekki draga af þeirri reynslu þá ályktun, að það eigi að banna dragnótaveiðar um tíma og eilífð í kringum landið. Við teljum, að við getum haft fullt gagn af reynslunni og sett samkv. henni þær takmarkanir, sem nauðsynlegar eru, til þess að ekki fari aftur í sama horfið.

Hv. 2. þm. Norðurl. v. nefndi dæmið af minkaræktinni hér á landi og hvernig þar hefði til tekizt, og hann var harla ánægður með þá niðurstöðu, að minkarækt hafði algerlega verið bönnuð hér á landi eftir þau mistök, sem urðu. Þannig álít ég, að við eigum ekki að bregðast við. Við eigum ekki að leggja niður heila atvinnuvegi, sem geta skapað landsins börnum góða atvinnu og þjóðarbúinu miklar gjaldeyristekjur, þó að eitthvað beri út af. Eða hvernig álítur hv. þm., að farið hefði, ef við hefðum dregið sömu ályktun gagnvart sauðfjárræktinni vegna mæðiveikinnar? Ef hv. þm. vildi vera sjálfum sér samkvæmur, ætti hann auðvitað að leggja til, að vegna mistaka í sambandi við mæðiveikina ættum við algerlega að leggja niður sauðfjárrækt í landinu.

Nei, ég held, að svona viðbrögð séu ekki réttlætanleg og að þau séu ekki skynsamleg. Þarna er einhver meinloka í mönnum, sem þeir þurfa að átta sig betur á. Ég held, að þessi meinloka hafi opnazt hjá mörgum mönnum í þinginu. Ég vona, að það verði margir menn, sem áður voru algerlega á móti dragnótinni, sem verði nú fylgjandi því frv. um takmarkaðar veiðar, sem sjútvn. hefur lagt fram, og ég vona, að frv. nái fram að ganga. Eins og ég gat um í framsöguræðu, hafa öll fiskideildarsamböndin sent frá sér ummæli um dragnótaveiðarnar, sem eru á þann veg, að fiskideildirnar telja, að það eigi að leyfa takmarkaðar dragnótaveiðar undir vísindalegu eftirliti. Og sú skoðun er almennt útbreidd utan þingsins, að þetta sé framkvæmanlegt, þó að einn og einn maður hér í þingsölunum telji, að það sé ekki gerlegt.